07.11.1963
Sameinað þing: 13. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í D-deild Alþingistíðinda. (2733)

57. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Jón Þorsteinson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Gils Guðmundsson var hér að ásaka ríkisstj. fyrir það að hafa ausið of miklum peningum út í vor. Framsóknarmenn saka hins vegar ríkisstj. fyrir hið gagnstæða. Þeir segja, að hún sé allt of íhaldssöm á peninga. Hvernig ætti nú ríkisstj. að stjórna peningamálunum, ef hún þyrfti að hlíta ráðum hv. stjórnarandstæðinga?

Undarlegt er tilefnið, sem notað er til að bera fram vantraust á ríkisstj. Vandinn, sem við er að etja og engan veginn er auðleystur, er sá að stöðva verðbólguna og rétta hlut láglaunafólksins. Þetta er nauðsynlegt að gera, vegna þess að launahlutföllin í landinu hafa undanfarið raskazt mjög láglaunastéttunum í óhag og verðbólgan vaxið mikið á síðustu mánuðum. Þetta vandamál er í rauninni gamalt og lífseigt. Það hefur í einhverri mynd ásótt allar ríkisstj., sem hér hafa setið frá því á stríðsárunum. Það var í eðli sínu sami vandinn, sem varð banabiti vinstri stjórnarinnar. Þá fór vinstri stjórnin fram á frest við Alþýðusambandsþingið, en Hannibal Alþýðusambandsforseti neitaði Hannibal ráðh. um frestinn, og þarf ekki að rekja þá hetjusögu frekar. Til þess að leysa vandann, ætlar ríkisstj. nú að taka sér umhugsunarfrest í rúman mánuð, meðan hún er að kanna betur allar þær úrlausnir, sem til greina koma, í því skyni að geta valið beztu og árangursríkustu leiðina. Á meðan vill ríkisstj. tryggja óbreytt ástand, svo að ný vandamál skapist ekki, meðan umhugsunarfresturinn er að líða. Ef stjórnarandstöðunni mislíkar sú lausn vandamálanna, sem ríkisstj. væntanlega leggur fyrir Alþingi í næsta mánuði, þá gæti ég skilið, að stjórnarandstöðunni þætti rétt að bera fram till. um vantraust. En að bera fram vantraust, af því að ríkisstj. vill hugsa sig um, taka sér stuttan frest til að leita betri ráða en hún hefur á takteinum í dag, það er fráleitt. Þessi frestur er fyrst og fremst í hag þeim stéttum, sem nú bera skarðan hlut frá borði.

Skákmaður, sem er að tefla í vandasamri stöðu, þar sem nauðsynlegt er að gera alltaf bezta leikinn til þess að sigra, reynir vitanlega að koma skákinni í bið til að geta undirbúið framhaldið sem vandlegast. Það þætti skrýtinn náungi meðal skákmanna, sem héldi því fram, að í slíkri stöðu væri bezt að tefla hraðskák. Stjórnarandstaðan heldur því fram, að ríkisstj. hafi haft nægan tíma til að undirbúa ráðstafanir sínar í efnahagsmálum, því að þá þróun, sem nú er orðin, hafi verið unnt að sjá fyrir á s.l. sumri. Lausn vandamálanna ætti því að liggja fyrir nú þegar. Ég skal fúslega viðurkenna, að nokkuð er til í þessu. En athugum málið nánar.

Það var eðlilegt, að ríkisstj. biði eftir tvennu: annars vegar eftir ákvörðuninni um landbúnaðarvöruverðið í haust og hins vegar eftir því , að nefndin, sem átti að rannsaka greiðsluþol atvinnuveganna, léti frá sér heyra 15. okt. s.l. Í þessari nefnd sitja m.a. þrír þm. stjórnarandstöðunnar. Nú er í ljós leitt, að nefndin hefur litlu í verk komið og engu frá sér skilað. Verkefni hennar var að vísu umfangsmikið, en það verður að áteljast, að hún skuli ekki einu sinni hafa komið því í verk að rannsaka greiðslugetu frystihúsanna, en vitneskja um það er undirstöðuatriði í sambandi við lausn kaupgjaldsmálanna. Þýðingarmesta ástæðan fyrir því , að till. um lausn vandans geti ekki legið fyrir fyrr en í næsta mánuði, er sú, að það nægir ekki í slíku máli, að ráðh. og efnahagsráðunautar fjalli einir um þetta, heldur þurfa þm. stjórnarflokkanna einnig að fylgjast með málunum frá upphafi og móta þá lausn, sem álitlegust er. Þetta allt tekur nokkurn tíma. Þm. verða innan síns flokks og í viðræðum við þm. samstarfsflokksins að geta reifað allar hliðar málsins, skipzt á skoðunum og kannað sjónarmið hver annars. Þessi vinnubrögð eru viðhöfð, þau eru skynsamleg og líkleg til góðs árangurs. Hér sem endranær gildir það, að flas er ekki til fagnaðar.

Um miðjan okt. var haldin ráðstefna Alþýðusambandsins um kaup og kjaramál. Ráðstefnan setti fram kröfu um 40% hækkun á launum verkamanna. Þessi krafa var m.a. rökstudd með því, að frá því í marz 1959 hafi kaup verkamanna aðeins hækkað um 36%, á sama tíma og verðlagsvísitalan hafi hækkað um 63%. Fyrri talan er að vísu ekki alveg rétt, því að kaup

Dagsbrúnarmanna hefur hækkað um 43% á þessum tíma. Samt sem áður er kaup verkamannsins 20% á eftir hækkun verðlagsins. Á móti þessum 20% koma hins vegar miklar yfirborganir í sumum atvinnugreinum, stórauknar fjölskyldubætur og veruleg lækkun á tekjuskatti og útsvari. Í flestum tilfeilum munu þessi atriði gera meira en vega upp á móti 20%, en um það eru Þó skiptar skoðanir. Samt sem áður er eðlilegt, að verkamenn heimti nú bætt kjör, enda eiga þeir vegna aukningar á þjóðarframleiðslunni rétt á því að búa við betri kjör nú en fyrir 5 árum.

Lítum nú á það, hvað mundi ske að óbreyttum lögum, ef kaup verkamanna hækkaði í dag um 40%. Landbúnaðarvörurnar mundu hækka í verði um 20%. Frystihúsin mundu ekki geta borið sig nema með stórlækkuðu fiskverði til sjómanna og útgerðarmanna. Iðnverkafólk, verzlunar- og skrifstofufólk og iðnaðarmenn mundu telja sig eiga rétt á 40% hækkun líka og knýja hana fram. Þá væru kauphækkanirnar orðnar svo almennar og verulegar, að opinberir starfsmenn ættu væntanlega samkv. 7. gr. l. um kjarasamninga opinberra starfsmanna rétt á 40% kauphækkun til viðbótar því, sem þeir fengu með kjaradómi í sumar. Kaupmenn og kaupfélög mundu krefjast aukinnar álagningar til að mæta auknum launaútgjöldum, og verðiag hlyti því enn á ný að hækka. Af öllu þessu leiddi, að útgjöld ríkisins mundu vaxa um 400—500 millj. á ári, og þyrfti þá að leggja á nýja skatta sem því næmi. Stórfelld kauphækkun til verkamanna að óbreyttu því kerfi, sem við búum við í dag og höfum að mestu búið við s.l. 20 ár, yrði því eftir skamman tíma orðin að engu. Í þessu er vandinn einmitt fólginn: að bæta kjör láglaunamanna, án þess að ný skriða fari af stað. Þetta er sá vandi, sem ríkisstj. ætlar að reyna að leysa innan þess frests, sem hér er verið að taka.

Þetta vandamál virðist ráðstefnu Alþýðusambandsins einnig hafa verið ljóst, því að í ályktun hennar segir m.a. svo orðrétt: „Lögð verði áherzla á fullnægjandi ráðstafanir til verðtryggingar og varðveizlu kaupmáttar þess kaups, sem um semst “ Þetta er út af fyrir sig gott og blessað, en það, sem vantar alveg í samþykktina, er, hvaða ráðstafanir það eru, sem duga til verðtryggingar og varðveizlu kaupmáttarins. Ráðstefna Alþýðusambandsins sér réttilega, hver vandinn er, en getur ekki bent á, hvernig á að leysa hann. Hvernig eigum við t.d. að komast hjá því, ef prentarar fá hækkað kaup, að blöð og bækur hækki í verði? Hvernig eigum við að forða því, að daggjöld á sjúkrahúsum hækki, þar sem hjúkrunarkonur og læknar fengu stórhækkuð laun með kjaradómi í sumar? Hvernig á að komast hjá því, að byggingarkostnaður hækki með hækkuðu kaupi iðnaðarmanna? Póst- og símagjöld hafa hækkað í haust vegna hækkunar á launum póst- og símamanna. Þannig mætti lengi telja. Hér á Alþingi sitja margir þm. Framsfl., sem eiga sæti í stjórnum kaupfélaganna og Sambandsins. Fróðlegt væri t.d. að fá vitneskju um það hjá þeim, hvað SÍS og kaupfélögin telja sig geta hækkað laun skrifstofu- og verzlunarfólks mikið án þess að krefjast hærri álagningar.

Á undanförnum árum hafa verkamenn oft fengið kauphækkanir, en eftir skamman tíma hafa þær misst gildi sitt vegna hækkandi verðlags. Kommúnistar skýra þetta svo, að verðlagshækkanir stafi af hefndarráðstöfunum stjórnvaldanna, sem vilji ná sér niðri á verkamönnum. Þessi skýring getur þó naumast verið einhlít. Í lok septembermánaðar 1958, þegar vinstri stjórnin sat að völdum, samdi Dagsbrún um 9% kauphækkun. Þennan samning taldi Þjóðviljinn mikinn sigur fyrir verkamenn. Áður en samningurinn var gerður, var vísitala kaupmáttarins 97 stig, en í október, næsta mánuði ettir að samningurinn gekk í gildi, stóð vísitala kaupmáttarins í stað, eða m.ö.o. vegna verðhækkana í kjölfar kauphækkunarinnar stóð kaupmáttur tímakaupsins í stað þrátt fyrir 9% launabót. Nú hlýtur maður að spyrja: Hverju reiddist verðlagsmálaráðherrann Hannibal í okt. 1958, að hann skyldi þá gera nýfengna kauphækkun verkamanna í sept. að engu?

Stjórnarandstæðingar halda því mjög á lofti, að frv. um launamál o.fl. sé fyrirboði þess, að eftir áramótin eigi einnig að binda kaupgjaldið með lögum. Um það er ekkert hægt að fullyrða af eða á, á meðan ekki hefur verið tekin ákvörðun um þær ráðstafanir, sem ríkisstj. ætiar að beita sér fyrir í næsta mánuði. Um þetta atriði tel ég þó rétt að fara nokkrum orðum.

Ég er þeirra r skoðunar, að það megi hvorki né eigi að vera framtíðarlausn í launamálum að ákveða kaupgjald í landinu með lögum. Hitt er ég sannfærður um, að meðan verkalýðshreyfingin endurbætir ekki skipulag sitt, sé óhjákvæmilegt að skerða samningsréttinn að einhverju leyti við og við með lagafyrirmælum, til þess að hægt sé að stjórna landinu og halda verðbólgunni í skefjum, enda hafa allar ríkisstj. að meira og minna leyti gripið til bessa ráðs. Vanræksla kommúnista í því efni að endurskipuleggja Alþýðusambandið í samræmi við ýtarlegar samþykktir Alþýðusambandsþings 1960, þar sem gert var ráð fyrir að koma samningsréttinum á hendur miklu færri aðila, er því sífellt að bjóða heim auknum ríkisafskiptum af launamálum.

Ég fyrir mitt leyti tel útilokað að binda verðlag og kaupgjald í landinu eftir áramótin, nema launahlutföllin milli stétta séu áður leiðrétt verkamönnum og láglaunafólki til hagsbóta og að sú binding sé ekki til mjög langs tíma. Í þessu sambandi má varpa fram þessari spurningu: Hvaða gagn hefur verkamaðurinn af samningsfrelsinu, meðan aðrir hafa frelsi til þess að gera kauphækkanir hans jafnharðan að engu? Verðbólgan er versti óvinur verkamannsins, og það er til nokkurs vinnandi fyrir hann, ef unnt væri að halda henni niðri. Stjórnarandstæðingar virðast telja allar hugleiðingar um tímabundna lögbindingu kaupgjalds og verðlags nánast glæpsamlegar. Allir vita þó, að í ríkjum kommúnista hefur verkalýðshreyfingin engan samningsrétt og því siður verkfallsrétt. Framsfl. hefur ekki heldur ætíð verið sama sinnis og nú. Sumarið 1957, eða fyrir aðeins 5 árum, lét flokkurinn semja frv. til I. um breyt. á vinnulöggjöfinni. Í því var ákvæði um 2 ára bindingu kaupgjalds og verkfallsbann. Þetta er þó naumast í frásögur færandi. Það er nú einu sinni svo með þennan blessaða Framsfl., að hann hefur nokkuð skiptar skoðanir á hlutunum eftir því, hvort hann er í stjórn eða utan stjórnar.

Ýmsir segja, að það sé miklu skynsamlegra að reyna að semja við verkalýðssamtökin heldur en vera að hugsa um lögbindingu. Þetta er alveg rétt, svo langt sem það nær. Gallinn er bara sá, að grundvöllinn skortir. Við hvern á ríkisstj. að semja? Hvorki Alþýðusambandið né neitt annað verkalýðssamband í landinu hefur samningsrétt fyrir sína meðlimi. Það eru hin einstöku verkalýðsfélög, sem eru 200 talsins, sem hafa samningsrétt hvert fyrir sína menn. Miðstjórn Alþýðusambandsins getur ekki á sitt eindæmi tekið kjaraákvörðun fyrir eitt einasta verkalýðsfélag í landinu. Ef miðstjórnin fengi samningsumboð frá öllum félögum innan Alþýðusambandsins, horfði málið allt öðruvísi við. En það liggur ekki fyrir. Ég teldi mjög athugandi, að einhvern tíma á næsta ári yrði kölluð saman stéttaráðstefna, þar sem mættir væru fulltrúar frá verkalýðssamtökunum, vinnuveitendasamtökunum og bændum. Meginverkefni ráðstefnunnar væru tvö, annars vegar að reyna að koma sér niður á eðlileg launahlutföll milli stétta, hins vegar að reyna að finna nýtt kerfi, sem kæmi í veg fyrir víxlhækkanir á launum verkamanna og verðlagi landbúnaðarafurða, t.d. með því, að báðar þessar stéttir semdu samtímis um kjör sín. Ef þessi ráðstefna tækist vel, væri mikill vandi leystur.

Í þessum umr. hefur kjaradóm um laun opinberra starfsmanna mikið borið á góma. Forseti Alþýðusambandsins ræddi um það í gær, að bankastjórar og ráðherrar hefðu knúið fram kjaradómslaun sér til handa. En hann gleymdi einum manni, sem sízt skyldi. Hann gleymdi sjálfum sér, því að nú í haust fékk hann um 60% launahækkun hjá Alþýðusambandinu á grundvelli einhvers hálaunaflokks samkv. kjaradómi. Hitt skal ég undirstrika með honum, að það er hneyksli, ef bankastjórar hafa fengið mikla launahækkun, eftir að vitað var, að frv. um launastöðvun yrði lagt fram.

Stjórnarandstæðingar hafa viljað kenna ríkisstj. um hinar miklu launahækkanir, sem hátekjumenn fengu með kjaradómi. Ekkert er fjær sanni. Dómsniðurstaðan hlýtur að nokkru að markast af þeim kröfum, sem gerðar voru. Þar var í fyrirsvari Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, sem stjórnað er af framsóknarmönnum og kommúnistum. Þeir gerðu í upphafi kröfu um að launin í hæstu flokkunum hækkuðu átta sinnum meira en laun verkamanna hjá ríkinu. Þeir vildu hafa verkamanninn í 4. launaflokki og voru mjög tregir til að samþykkja Þá kröfu samninganefndar ríkisstj. að færa verkamanninn upp í 5. launaflokk, sem tókst þó um síðir. Þetta var áhuginn fyrir verkamönnum. Svo féll kjaradómurinn, og hálaunafólkið fékk mikla kauphækkun, Þótt eigi væri hún nærri Því eins mikil og bandalagsforustan hafði krafizt: Þjóðviljinn fagnaði úrslitunum og sérstaklega hinni nýju stefnu að auka svo mjög launagreiðslur til þeirra , er gegndu störfum, þar sem miklar kröfur væru gerðar til menntunar og ábyrgðar, þ.e. mannanna í efstu launaflokkunum. Þó sagði blaðið, að þetta væri aðeins áfangi, meira þyrfti að gera af slíku síðar. Björn Jónsson, Þm. Alþb. í Norðurl. e., sagði réttilega í umr. í Ed. í gær, að laun ráðherra væru greidd af verkafólki í landinu. Þetta þýðir m.ö.o., að hinar miklu kauphækkanir til hálaunamanna, sem flokksbræður Björns hafa barizt fyrir innan Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og fengið fram að nokkru leyti, eru teknar af láglaunafólkinu í landinu. Ég er ekkert hissa á því, þótt verkamenn og annað láglaunafólk sé óánægt með laun sín eftir uppkvaðningu kjaradóms, þegar svo þar á ofan bætast miklar verðhækkanir síðustu mánuðina. Það er einmitt með hagsmuni þessa fólks fyrir augum, sem ríkisstj. Þarf nú stuttan frest til að leysa þeirra hagsmunamál á árangursríkari hátt en áður og leiða það út úr svikamyllukerfi víxlhækkandi kaups og verðlags.

Eitt má ekki gleymast, þegar rætt er um kaup verkamanna. Kommúnistar, sem ráða stærstu verkamannafélögum landsins, hafa haldið þannig á málum þeirra undanfarin ár, að verkamaðurinn hefur jafnan fengið minni kauphækkun en aðrar stéttir og fórnað meiru til. í fyrra samdi Dagsbrún um 5% minni kauphækkun en flest önnur félög hér í Reykjavík. Í febr. s.l. náðu þeir þó upp þessari hækkun til að standa jafnfætis öðrum. En sú dýrð stóð ekki lengi. Í júní og júlí voru gerðir nýir samningar og þá drógust verkamennirnir á ný aftur úr um 5%. Í þetta skipti var það verkamannafélag á Akureyri, sem hafði forustuna. það er eftirtektarvert, að í kaupgjaldsbaráttu verkamanna hafa félögin, sem kommúnistar sjálfir stjórna, ekki einu sinni getað staðið saman og árangurinn orðið eftir því.

Kommúnistar og framsóknarmenn reyna nú að magna andúðaröldu gegn frestunarfrv. og hafa í hótunum um að beita ólöglegum verkföllum og skæruhernaði. Kommúnistar eiga nú hægara um vik en ella, vegna þess að engin blöð koma út og því er erfiðara að skýra málin fyrir fólkinu. Menn skulu hér minnast hinna mörgu mótmæla, sem bárust, þegar lausn landhelgismálsins átti sér stað. Margir, sem þá skrifuðu undir mótmæli, mundu ekki vilja standa við þau í dag. Margir verkalýðssinnar telja rétt að mótmæla formsins vegna, þótt þeir í hjarta sínu séu sammála því, sem gert er. Mótmæli stéttarfélaganna gegn frestunarfrv. eru fyrst og fremst gerð til áréttingar kjarakröfum þeirra. Framsóknarmenn og kommúnistar vilja ekki gefa ríkisstj. vinnufrið. Ef stjórnin fengi hann, óttast þeir, að henni takist að leysa vandamálin í des. á farsælan hátt. Það þætti stjórnarandstæðingum verst af öllu, og því er nú öllum gauraganginum hleypt af stað. Þeir munu að sjálfsögðu ráða tiltektum sínum, en meiri hl. Alþingis mun ráða því, hvernig málin lúkast. — Góða nótt.