20.12.1963
Sameinað þing: 32. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í B-deild Alþingistíðinda. (276)

1. mál, fjárlög 1964

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Á þskj. 182 hef ég leyft mér að flytja brtt. við till. fjvn. á þskj. 173 undir staflið 53, en fjvn. hefur undir þessum lið tekið upp nýtt fjárframlag til kennslu í vinnuhagræðingu. Ég hef leyft mér að bera fram brtt. um, að texti till. orðist þannig:

„Til framkvæmdar áætlunar um opinberan stuðning við samtök vinnumarkaðarins vegna hagræðingarstarfsemi.“

Ég vil fara nokkrum orðum um, af hverju lagt er til, að þessi fjárveiting sé tekin upp nú, þessu sinni. En undanfari þess er sá, að í bréfi, dags, snemma í júlí 1962, gerði hin svokallaða vinnutímanefnd, sem kjörin var á síðasta Alþingi, till. um það til ríkisstj., — til félmrh. fyrir hennar hönd, — herra Emils Jónssonar, að hið opinbera kostaði nám fulltrúa vinnuveitenda og verkalýðssamtaka í vinnurannsóknum og vinnuhagræðingu. Benti n. jafnframt á nauðsyn þess, að hið opinbera veitti hagsmunasamtökum þessum fjárhagslegan stuðning til starfsemi þeirrar, sem stofnað yrði til á vegum samtakanna í þessu efni fyrstu árin. Í rökstuðningi okkar í vinnutímanefnd fyrir þessari till. sögðum við m.a.:

„Eitt höfuðatriði þál. þeirrar, sem samþykkt var á Alþingi og var undanfari að kjöri vinnutímanefndar, var, að rannsakað yrði, á hvern hátt mætti koma á styttingu vinnutímans í 8 stundir á dag án skerðingar heildarlauna og þá m.a. á grundvelli aukinnar vinnuhagræðingar. Vinnutímanefnd er sammála um, að óhjákvæmilegur grundvöllur aukinnar hagræðingar í vinnubrögðum og rekstrarfyrirkomulagi fyrirtækja hljóti að vera stóraukin fræðsla í þeim efnum, bæði meðal launþega og vinnuveitenda, sem síðan geti leitt til samstarfs og samninga milli hagsmunasamtakanna í þeim efnum og þá jafnvel með ákveðnum markmiðum í þá átt, sem þáltill, gerir ráð fyrir. N. telur, enda þótt störfum hennar sé enn ekki langt komið, að nú þegar sé tímabært að hefjast handa að undirbúa fræðslu í vinnurannsóknum og vinnuhagræðingu í þeim tilgangi, að hagsmunasamtökin komi upp á sínum vegum starfandi deildum, er að þeim málum vinni.“

Framhald þessa varð svo, að félmrh. óskaði eftir umsögn Iðnaðarmálastofnunar Íslands um þetta erindi vinnutímanefndar, og í svari Iðnaðarmálastofnunarinnar 13. sept. s. á. segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Iðnaðarmálastofnunin er algerlega sammála megintill. n., þ.e. að ráðstafanir verði gerðar til þess að þjálfa menn í vinnurannsóknum og vinnuhagræðingu til starfa á vegum vinnuveitenda og verkalýðssamtaka. Er þessi afstaða byggð á þeirri skoðun, að þess sé ekki að vænta, að atvinnuvegir landsmanna fái notið vinnuhagræðingar til fulls, nema til komi fullur skilningur og áhugi heildarsamtaka vinnuveitenda og verkalýðs og samstaða þeirra um meginstefnuatriði og þau séu þess megnug sjálf að veita meðlimum sínum fræðslu og hvers konar aðstoð, t.d. í sambandi við grundvöllun ákvæðisvinnu með vinnurannsóknum, starfsmati og önnur atriði tengd hinni tæknilegu hlið kaupgjaldsmála. Þess er vart að vænta, að félagssamtök hafi fjárhagslegt bolmagn til þess að hrinda ofangreindu máli í framkvæmd. Þess eru víða fordæmi erlendis, að hið opinbera hafi í þessum málum lagt hönd á plóginn, ekki aðeins vegna kostnaðar við þjálfun vinnuhagræðingarmanna, heldur einnig að því er snertir sjálfa starfsemina á vegum samtakanna á byrjunarskeiði. Orkar það vart tvímælis, að með slíkri fyrirgreiðslu stuðli ríkisvaldið á mjög jákvæðan hátt að framförum í atvinnulífinu, heilsteyptri þróun í kaup- og kjaramálum og bættri samvinnu þeirra hagsmunasamtaka, sem hlut eiga að máli. Um framkvæmdaatriði er vart ástæða til þess að fjölyrða á þessu stigi. Gera þyrfti allýtarlega heildaráætlun um framkvæmdir allar og kostnað með hliðsjón af reynslu grannþjóðanna og samninga við þau hagsmunasamtök, sem þátt tækju í samstarfinu.“

Þetta var úr umsögn Iðnaðarmálastofnunarinnar um erindi vinnutímanefndar. Framhald þessa máls varð svo, að félmrh. óskaði eftir því við framkvæmdastjórann, að hann tæki að sér að semja þá heildaráætlun, er hann hafði getið um í sinni umsögn. Og hann vann að þessu að nokkru leyti í samráði við framangreinda nefnd, og hann og n. urðu sammála um, að í slíkri áætlun þyrfti að koma fram markmið þess starfs, sem að væri unnið, skipulagning undirbúnings og framkvæmd, hlutdeild samtakanna og skilyrði fyrir þeirri aðstoð, sem þau ættu að fá, og hvaða hæfniskröfur ætti að gera til þeirra, sem slíkan styrk hlytu, hvernig námsefni, tíma og tilhögun þjálfunarinnar væri framfylgt og einnig um skipulagsatriði og starfssvið þeirra og svo kostnaðaráætlun jafnframt. Framkvæmdastjóri Iðnaðarmálastofnunarinnar lagði fyrir félmrh. drög að slíkri framkvæmdaáætlun, og ég vænti þess, að ef, sem ég vona, hv. Alþingi samþykkir þessa till. fjvn., verði gengið í það endanlega að fullvinna þessa áætlun. En hún mun ná yfir 7 ára tímabil, og þetta er fyrsta fjárveitingin af sjö, sem er ætluð til þessarar starfsemi. Ef sú áætlun eða drög að þeirri áætlun, sem þessi embættismaður hefur unnið, verður samþykkt, mun fjárveiting til starfseminnar komast hæst í 3.6 millj. á fjórða ári, en á síðasta ári verða tæp hálf millj., en samtals á þessum 7 árum tæpar 15 millj.

Ég tel engan vafa leika á því, að með samþykkt þessarar till. hér á hv. Alþingi sé verið að brjóta í blað í sögu bæði kaup- og kjaramála hér á Íslandi, því að það er staðreynd, að lífskjör þjóða eru að verulegu leyti komin undir því, hversu tekst að nýta vinnuafl, hráefni, framleiðslutæki og aðra þætti framleiðslunnar, þ.e.a.s. hversu framleiðni er háttað. En það er einmitt tilgangur þessarar hagræðingartækni að auka þessa nýtingu með kerfisbundnum rannsóknum og aðgerðum, sem miða að bættu skipulagi, rekstrartækni og vinnubrögðum í hvers konar atvinnurekstri. Til viðbótar því, sem hæstv. fjmrh. ræddi hér við þessa umræðu um hagsýslu almennt, verður að segjast eins og er, ef ríkið og borgaryfirvöldin í Reykjavík eru undanskilin, að þessi hagræðingartækni hafi verið lítt notuð hér á landi til þessa, þótt nokkur breyting hafi orðið á þessu á síðasta ári og næstliðnu ári og þá aðallega vegna forgöngu Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna í þessu efni. Það hafa verið margvíslegar ástæður til þess, að meira hefur ekki verið að gert, t.d. að það hefur verið til skamms tíma skortur á skilningi á gildi framleiðninnar fyrir afkomu atvinnurekstrarins og einnig fyrir afkomu launþega, og það hefur verið mjög fátt um kunnáttumenn á þessu sviði. En ég held, að allir hugsandi menn viðurkenni, að á þessu þurfi að verða breyting á næstu árum. Bæði hafa skapazt og eru að skapast árlega ný viðhorf í markaðsmálum okkar, og minnkuð tollvernd í ýmsum atvinnugreinum okkar krefst þess, að samkeppnishæfni íslenzkra atvinnuvega verði efld eins og frekast er kostur, svo að lífskjör þjóðar okkar geti verið hliðstæð lífskjörum nágrannaþjóðanna. Það verður því samhliða öðrum ráðstöfunum að leggja kapp á að auka nýtingu framleiðsluþáttanna til muna með þeim ráðum, sem tiltæk eru. En til þess að svo megi verða, ríður á mjög miklu, að atvinnusamtök landsmanna og þá fyrst og fremst samtök þeirra, sem standa að vinnumarkaðinum, verði forgönguaðilar hvert á sínu sviði um að leggja grundvöll að og taka upp hagræðingartækni í þágu atvinnuveganna. Það eru til mörg dæmi mjög athyglisverð um þetta frá nágrannalöndum okkar, að atvinnusamtökin hafi með stuðningi ríkisvaldsins stofnað til sérstakra hagræðingardeilda innan sinna vébanda í þeim tilgangi að útbreiða þekkingu og hafa á hendi leiðbeiningarþjónustu meðal meðlimanna um allt, sem varðar endurbætur og nýjungar á sviði rekstrar og skipulagningar, ný launagreiðslukerfi o. s. frv., sem allt stuðlar að aukinni framleiðni og bættri afkomu.

Ég þykist ekki þurfa að hafa fleiri orð um þetta. Þetta er búið að vera hugðarmál mitt nú um rúman hálfan áratug. Ég hef orðið þess var hér innan veggja hæstv. Alþingis, að skilningur á þessum málum hefur mjög vaxið. A.m.k. má vitna til margra hv. þm., sem tæplega standa hér upp til þess að halda ræðu öðruvísi en hafa þetta töfraorð á vörum: framleiðni, þótt hins vegar verði oft að draga í efa, að þeir skilji, hvað við sé átt, a.m.k. sumir hverjir. En ég vil ljúka þessum orðum mínum með því að þakka ríkisstj. fyrir að hafa beitt sér fyrir því, að þetta yrði tekið upp á fjárl., og ég vil þakka form. fjvn. og öðrum nm. fyrir góðan stuðning í þessu máli.