27.02.1964
Efri deild: 53. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í D-deild Alþingistíðinda. (2768)

40. mál, rannsóknarnefnd til rannsóknar á verðbréfa- og víxlakaupum

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Allshn. hefur haft til meðferðar þáltill. þá, sem hér liggur fyrir til umr., en eins og nál. þau, sem útbýtt hefur verið, bera með sér, hefur hún ekki getað orðið á eitt sátt um afgreiðslu málsins. Tveir nefndarmanna, þeir hv. 1. þm. Vestf. og hv. 3. þm. Norðurl. v., leggja til, að þáltill. verði samþ., en við þrír, sem stöndum að nál. á þskj. 262, leggjum til, að till. verði afgr. með svo hljóðandi rökstuddri dagskrá, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar eð bankaráðsmenn og endurskoðendur ríkisbankanna eru kjörnir af Alþingi og Seðlabankanum einnig sérstaklega falið það hlutverk að hafa eftirlit með störfum banka og sparisjóða og deildin sér ekki ástæðu til að æta, að þessir þingkjörnu aðilar vanræki eftirlitsskyldu sína eða að sérstök þingnefnd sé líklegri til þess að dæma um eðlileg lánsviðskipti, telur deildin till. ekki raunhæfa og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá:

Það er auðvitað, hvað sem öðru líður, enginn ágreiningur um það, að nauðsyn beri til þess, að eftirlit sé af hálfu Alþ. með ríkisbönkunum og stjórn þeirra. Ef ekkert slíkt eftirlit væri til, býst ég ekki við, að neinn ágreiningur yrði um það, að samþykkja bæri þessa till. eða gera aðrar ráðstafanir til þess að koma slíku eftirliti á fót. En eins og öllum hv. þdm. og einnig flm. þessarar till. hlýtur að vera kunnugt, er þetta eftirlit þegar fyrir hendi. Vil ég í því sambandi leyfa mér að vísa til umsagnar bankastjórnar Seðlabanka Íslands um þessa till., en þar segir svo m.a. orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Út af till. um skipun rannsóknarnefndar skal minnt á það, að yfirstjórn ríkisviðskiptabankanna, bankaráðin eru sett af Alþ. Sama er að segja um endurskoðendur þessara stofnana. Á Alþ. þar með greiðan aðgang að þeim upplýsingum, sem sótzt kann að vera eftir úr stofnununum.“

Ég vil í framhaldi af þessu leyfa mér að vitna í ákvæði gildandi laga um ríkisbankana að því er snertir bankaráðin, valdsvið þeirra og hlutverk. Skulu þessi ákvæði nú einnig, með leyfi hæstv. forseta, tilfærð hvað snertir ríkisbankana alla nema Framkvæmdabankann, en lög um hann hef ég ekki við höndina, en býst við því, að þau séu svipuð ákvæðum laga um aðra banka.

Í gildandi lögum um Landsbanka Íslands segir svo í 8. gr. laganna: „Yfirstjórn bankans er i höndum ráðh. þess, sem fer með bankamál, og bankaráðs, svo sem fyrir er mælt í lögum þessum.“ Enn fremur segir í 10. gr. sömu laga: „Bankastjórn Landsbanka Íslands er skipuð 3 bankastjórum, sem bankaráð ræður.“ Og í 12. gr. sömu laga um Landsbankann segir svo: „Bankaráð hefur yfirumsjón með starfsemi Landsbankans. Það gerir till. um reglugerð bankans, sem ráðh. setur, ákveður verkaskiptingu bankastjóra og setur þeim erindisbréf.“

Í gildandi lögum um Útvegsbanka Íslands segir svo í 8. gr. laganna: „Yfirstjórn bankans er í höndum ráðh. þess, sem fer með bankamál, og bankaráðs, svo sem fyrir er mælt í lögum þessum.“ Og í 10. gr. sömu laga segir enn fremur: „Bankastjórn Útvegsbanka Íslands er skipuð 3 bankastjórum, sem bankaráð ræður.“ Og í 12. gr. laganna: „Bankaráð hefur yfirumsjón með starfsemi Útvegsbankans. Það gerir till. um reglugerð bankans, sem ráðh. setur, ákveður verkaskiptingu bankastjóra og setur þeim erindisbréf.“

Í gildandi lögum um Búnaðarbanka Íslands segir svo í 53. gr. laganna frá 1941, sem breytt hefur verið með l. frá 1960, en þar segir svo: „Fimm manna bankaráð fer með stjórn bankans.“ Og í sömu gr. segir: „Bankaráð skipar einn bankastjóra, aðalbókara og aðalféhirði.“

Í lögum um Seðlabanka Íslands segir svo í 24. gr. laganna: „Yfirstjórn Seðlabankans er í höndum ráðh. þess, sem fer með bankamál, og bankaráðs, svo sem fyrir er mælt í lögum þessum. Stjórn bankans að öðru leyti er í höndum 3 manna bankastjórnar.“ Og í 29. gr. l. segir: „Bankaráð hefur yfirumsjón með starfsemi Seðlabankans, og skal bankastjórnin hafa náið samráð við bankaráð um stefnu bankans almennt svo og um ákvarðanir í mikilvægum málum, er stefnu bankans varða, svo sem um vexti og innlánsbindingu.“

Þetta eru ákvæði gildandi laga um skipun bankaráðanna. En enn fremur vil ég leyfa mér að vekja athygli á því, sem stendur í 3. gr. laga um Seðlabanka Íslands, en þar segir svo, men leyfi hæstv. forseta, þegar rætt er um, hver séu hlutverk bankans, sem talin eru upp í 7 liðum, en í 5. lið segir svo: „Að vera banki annarra banka og peningastofnana, hafa eftirlit með bankastarfsemi og stuðla að heilbrigðum verðbréfa- og peningaviðskiptum.“

Af þessu ætti að vera ljóst, að bankaráðin hafa með hendi yfirstjórn bankanna. Þau ráða bankastjóra, og aðalhlutverk þeirra hlýtur einmitt að vera það að hafa eftirlit með störfum bankastjóranna, m.a. því, hvort, eins og það er orðað í till., um sé að ræða viðskipti við víxla- og verðbréfasala, er ekki geti talizt eðlileg. Bankaráðin hljóta því að mínu áliti að vera ábyrg fyrir því, að bankarnir séu reknir í samræmi við lög og reglur um hlutverk þeirra. Ef slíkt misferli á sér stað eða hefur átt sér stað, sem um ræðir í þátill., þá hlyti það að þýða, að bankaráðin hefðu látið undir höfuð leggjast að gegna þeim skyldum, sem þeim ber lögum samkvæmt, annaðhvort þannig, að þau hefðu ekki haft það eftirlit með störfum bankastjóranna, sem þau eiga að hafa, eða það sem verra væri auðvitað, að þau hefðu beinlínis verið í vitorði um misferlið. Mér finnst því augljóst, hvað sem öðru líður, að með samþykkt þessarar till. væri lýst vantrausti á bankaráðin og raunar einnig Seðlabanka Íslands, en eitt af hlutverkum hans, eins og ég greindi áðan frá, er einmitt það að hafa eftirlit með starfsemi viðskiptabanka þeirra, sem ríkið rekur. En hverjir skipa bankaráðin og bera þannig ábyrgð á þeim? Það er, eins og kunnugt er, hv. Alþingi, og væru víssulega teknir upp með því óvenjulegir starfshættir, ef Alþingi lýsti þannig vantrausti sínu á nefndir, sem kjörnar eru af því sjálfu.

Nú skal ég auðvitað ekki fullyrða, að starfsemi bankaráðanna kunni ekki að vera ábótavant, þannig að í því efni geti ekki verið úrbóta þörf. Hitt tel ég hins vegar, að væru vinnubrögð og meðferð á opinberum fjármunum, sem væru ekki Alþingi sæmandi, að láta bankaráðin starfa áfram óáreitt og bankaráðsmenn halda áfram að hirða laun sin, eftir að Alþingi væri búið að lýsa vantrausti á þeim og skipa nýjar þingnefndir til þess að gegna þeim hlutverkum, sem bankaráðin m.a. eiga að hafa með höndum. Það væri sjónarmið út af fyrir sig, að leggja beri niður það eftirlitskerfi með stjórn ríkisbankanna, sem nú starfar, bankaráðin og Seðlabankann, og skipa í þess stað, ef sérstök ástæða þætti til, rannsóknarnefndir í líkingu við þá, er till. gerir ráð fyrir. En hitt væri að mínu áliti fráleitt, að bankaráðin starfi áfram, jafnframt því að nýjar þingnefndir væru kosnar til þess að gegna hlutverki þeirra.

Ef rannsóknarnefndunum er hins vegar ætlað það m.a. að rannsaka starfsemi bankaráðanna, er það, eins og öllum hv. þdm. mun kunnugt, venja, þegar opinberir starfsmenn og störf þeirra eru undir rannsókn, að þeir séu látnir víkja úr starfi, meðan á rannsóknunum stendur, en hvergi er að því vikið í þáltill. eða grg. fyrir henni, og yfirleitt er þar ekki vikið að bankaráðunum né eftirliti Seðlabankans með starfsemi bankanna frekar en slíkt eftirlit sé ekki til.

Eins og ég sagði áðan, er það fjarri mér að halda því fram, að ekki megi bæta um starfsemi bankaráðanna, og ég fullyrði ekki heldur, að þau séu yfirleitt skipuð þeim hæfustu mönnum, sem völ sé á, enda á ég sjálfur sæti sem varamaður í einu bankaráðanna og raunar sem aðalmaður sem sakir standa, þannig að ég mundi með slíkri staðhæfingu gerast dómari í eigin sök. En hitt dreg ég þó í efa, að af rannsóknarnefndum sem þeirri, sem till. gerir ráð fyrir, sé meira að vænta i þessum efnum en af bankaráðunum. Það mun vera allt að því þriðjungur hv. þm., sem í bankaráðunum eiga sæti, annaðhvort sem aðalmenn eða varamenn. Ég skal síður en svo halda því fram, að fjármálavit okkar, sem þar eigum sæti, sé upp og ofan meira en þeirra hv. þm., sem eiga ekki sæti í bankaráðunum. En hins vegar hafa, eins og kunnugt er, margir hinna eidri þm. átt sæti i bankaráðum um áratuga skeið og ættu því að hafa meiri reynslu og betri skilyrði til að átta sig á bankamálefnum en þeir, sem hafa ekki áður verið við slík störf riðnir, og þá m.a. til að átta sig á því, hvort víxla- og verðbréfaskipti bankanna og önnur viðskipti þeirra eru með eðlilegum hætti, svo að ég noti orðalag þáltill.

Það má vel vera, að þörf væri einhverra mannaskipta í bankaráðunum, en að mínu áliti hlýtur slíkt þó fyrst og fremst að vera mál milli flokkanna og fulltrúa þeirra í bankaráðunum. En það, sem er þó aðalatriðið, er það, að ekki verður séð, að þingkjörnar rannsóknarnefndir eins og sú, sem þáltill. gerir ráð fyrir, hafi í neinu betri aðstöðu til þess að sannreyna, hvort verðbréfakaup eða önnur bankastarfsemi sé með eðlilegum hætti, en bankaráðin. Bankaráðin hljóta eðli málsins samkv. að hafa aðgang að öllum þeim upplýsingum, sem slíkar nefndir ættu aðgang að. Og auðvitað fer því fjarri, að mögulegt sé fyrir bankastjórana að halda leyndum upplýsingum fyrir bankaráðunum, því að bankastjórarnir eru undirmenn bankaráðanna, og það eru bankaráðin, sem ákveða, hvaða gögnum bankastjórarnir skuli hafa aðgang að, en ekki öfugt. Og eins og kunnugt er, þá er það þannig nú, þó að á því kunni auðvitað að verða breyting siðar, að allir þingflokkar eiga fulltrúa i bankaráðunum og eiga því, eins og segir i áliti Seðlabankans, sem ég áðan vitnaði í, greiðan aðgang að þeim upplýsingum, sem sótzt kann að vera eftir úr stofnununum.

Varðandi 3. lið þáltill., sem er þannig orðaður, með leyfi hæstv. forseta, að rannsóknarnefndin eigi m.a. að rannsaka, „hvort á kunni að skorta fullnægjandi löggjöf um verðbréfasölu og eftirlit með henni,“ vil ég einnig leyfa mér að vísa til umsagnar Seðlabankans, sem ég áðan minntist á, en í henni segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Um athugun þess, hvort á kunni að skorta fullnægjandi löggjöf um verðbréfasölu og eftirlit með henni, vill Seðlabankinn svara því jákvætt. Með lögum sínum er Seðlabankanum heimilt að stofna og reka kaupþing, þar sem verzlað yrði með vaxtabréf og hlutabréf. Því miður er enn ekki tímabært að setja það á stofn. Þegar það verður, er æskilegt, að sett verði almenn lög um slík viðskipti. Þegar þau eru komin á góðan rekspöl, ætti að vera talsvert unnið í þá átt að koma á eðlilegum verðbréfaviðskiptum.“

Hér er viðurkennt, að réttmætt sé í rauninni það, sem í þessum lið till. felst. En ég lít svo á með tilliti til þessarar grg. Seðlabankans, að ekki sé á þessu stigi málsins tímabær, að nefnd sé skipuð sérstaklega með það fyrir augum að undirbúa slíka löggjöf. Ég álít, að þessi grg. Seðlabankans, sem ég las upp, sé fullnægjandi skýring á því, að svo sé ekki.

Að lokum vil ég aðeins segja þetta: Það er auðvitað enginn ágreiningur um það, að upplýsa þurfi, hvort misferli af því tagi, sem um er rætt í þáltill., hafi átt sér stað í bönkunum. En það, sem hins vegar ræður afstöðu okkar þremenninganna til þáltill., er það, að við fáum ekki séð, að rannsóknarnefnd sú, er till. gerir ráð fyrir, hafi í neinu betri aðstöðu til þess að fá þessi mál upplýst en þeir þingkjörnu aðilar, sem nú fara með eftirlit með starfsemi bankanna, en með því á ég við bankaráðin og hina þingkjörnu endurskoðendur reikninga bankanna. Niðurstaða okkar er því sú, að þáltill. verði að teljast óraunhæf, og leggjum við því til, að hún verði afgreidd svo sem ég þegar hef gert grein fyrir.