20.12.1963
Sameinað þing: 32. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í B-deild Alþingistíðinda. (280)

1. mál, fjárlög 1964

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tala mjög lengi, því að ég sé ekki ástæðu til þess að blanda mér í þá glímu, sem hér hefur átt sér stað milli hæstv, fjmrh. og fulltrúa Framsfl., ég sé ekki að þannig standi glíman, að þörf sé á því.

Við þrír Framsfl.-þm. úr Norðurl. e. höfum leyft okkur að leggja fram nokkrar brtt. við fjárlfrv., og ég vil með örfáum orðum gera grein fyrir þeim till., sem ég er fyrsti flm. að.

Fyrst vil ég þá nefna till. á þskj 178 undir IV. tölul. Þar er farið fram á, að hækkað verði framlag til tveggja hafna, Grenivíkur og Húsavíkur. Í Grenivík er allmikil útgerð miðað við mannfjölda. Oft hefur veiðisælla báta heyrzt getið þaðan á síldveiðivertíðinni og einnig að því er snertir þorskveiðar sunnanlands. Hv. þm. mun því þetta kunnugt. En þær fréttir hafa verið um hina stærri báta úr Grenivík. Heima fyrir er einnig sóttur kappsamlega sjór frá Grenivík á smærri bátum. En höfnin er opin og örðugt að láta báta liggja þar, ef veður versnar. Stærri bátarnir flýja þá til Akureyrar, þegar viðsjárvert er veður, og smærri bátar eru í sífelldri hættu. Bryggjustúfur, sem þarna er, veitir ekkert skjól, og þar er ekki hægt að afgreiða bátana, nema þegar stillur eru á sjó og í lofti. Nú hefur verið mælt þar fyrir hafnargerð og gerð áætlun um mikla hafnarbót. Í sumar sem leið voru gerðar fyllingar á landi og vegur að grjótnámu. Þannig hagar til, að með þessum undirbúningi var eyðilagður helzti lendingarstaður smábátanna, og eru þeir nú í enn meiri hættu en áður, þegar út af ber með veður. Gengið var út frá því, að byggður yrði á þessu ári hafnargarður, svo að ástand hinnar auknu hættu varaði ekki lengur og gott skjól fengist innan hafnargarðs. Áætlað er, að hafnargarðurinn muni kosta a.m.k. 3 millj. kr. Auk þess er svo bryggja innan á garðinum, en bygging hennar mundi frekar geta beðið. Allir sjá, að 250 þús. kr. fjárveiting, eins og er á fjárl. til þessarar framkvæmdar, er allt of lítil. Við leggjum til, að fjárveitingin verði hækkuð um 350 þús. eða upp í 600 þús. kr. Þess má geta, að ef sú hækkun fengist, má telja tryggt, að heimamenn gætu útvegað að láni það, sem á vantar, til þess að hægt sé að byggja hafnargarðinn næsta sumar. Hér er því ekki um óraunhæfar áætlanir um framkvæmdir að ræða.

Þá er það Húsavík. Þar er verið að reisa verbúðir og áformað að dýpka á sumrin höfnina með uppmokstri. Enn fremur er þar í smíðum uppfylling til aðstöðubóta við höfnina og til heftingar á sandburði inn í höfnina. Þarna er um mikinn athafnastað og vaxandi bæ og vaxandi útgerð að ræða. Við teljum réttlátt og nauðsynlegt að hækka fjárveitinguna úr 450 þús., eins og hún er á frv., í 700 þús. kr., þ.e.a.s. setja fjárveitinguna til Húsavíkur í hæsta flokk.

Þá vil ég minnast á brtt. við 16. gr., tölulið XVI, á þskj. 178. Það er starfsfræðsla utan Reykjavíkur. Starfsfræðsla ryður sér mjög til rúms í öllum menningarlöndum. Nýir tímar aukinnar verkaskiptingar og fjölbreytni atvinnuvega kalla eftir starfsfræðslu. Stöðuval getur skipt sköpum í lífi fólks. Nauðsyn þess, að hver maður velji sér þau viðfangsefni, sem henta hæfileikum hans bezt, er ekki aðeins nauðsyn einstaklinga, heldur líka þjóðarnauðsyn. Hér á landi er hafin starfsfræðsla fyrir atbeina áhugamanna. Reykjavík hefur a.m.k. einn mann í þjónustu sinni, sem sinnir þeim fræðslustörfum. Á ég þar við Ólaf Gunnarsson sálfræðing. Hann er mikill áhugamaður og hefur ásamt fleiri góðum mönnum með starfsfræðsludögum komið af stað í höfuðstaðnum sterkri hreyfingu, sem nú er að breiðast út um landið. Á þessu ári hefur hann mætt á nokkrum stöðum, t.d. á Norðurlandi á Sauðárkróki, Akureyri og Húsavík. Þar hefur hann flutt fyrirlestra og aðstoðað við að koma á starfsfræðsludögum, sem þótt hafa takast ágætlega vel. Mér er kunnugt um, að Austfirðingar og Vestfirðingar hafa beðið um aðstoð til að koma á starfsfræðslu hjá sér, og Norðlendingar vilja halda áfram að auka við starfsfræðslu hjá sér, enda aðeins um byrjun að ræða hjá þeim. Þetta er hreyfing, sem Alþingi á að styðja og styðja fúslega og styðja vel. Till. okkar er, að framlag til þessa sé hækkað úr 80 þús. upp í 200 þús. kr. Með því framlagi, sem að vísu er ekki hátt miðað við þá dýrtíð, sem nú er, er þó miklu betur tekið undir við þá hugsjóna- og áhugamenn, sem vinna að þessum málum í landinu.

Á 22. gr., XX. lið, fjárlfrv. er heimild til, að ríkisstj. taki allt að 12 millj. kr. lán til Ennisvegar á Snæfellsnesi, 6 millj. kr. lán til Siglufjarðarvegar ytri og allt að 1 millj. kr. lán til Múlavegar. Ekki er út á þetta að setja, það sem það nær. Þetta eru nauðsynlegar framkvæmdir. Þarna eru þýðingarmiklir tengivegir milli héraða. Raunar finnst mér Múlavegi gert lágt undir höfði að heimila lántöku til hans aðeins eina millj. og stend því að brtt. um hann, sem annar þm. mun gera grein fyrir. En fleiri vegagerðir á millibyggðaleiðum eru þannig, að þeim þarf að flýta á sama hátt með lántökum. Tjörnesvegur tengir héruð. Til þess að koma honum í viðunandi lag hefur verið lauslega áætlað að þurfi rúmar 6 millj. kr. Þetta er orðin fjölfarin leið. Hún er aðalleið milli Norður- og Suður-Þingeyjarsýslu. Þar að auki fara hana margir, sem leggja leið sína milli Austurlands og Norðurlands. Og nú hefur hliðarleið, sem hefur verið í þjóðvegatölu, samkv. nýjum vegalögum verið sama sem lögð alveg niður. Hún verður tekin út úr þjóðvegatölu. Tjörnesvegur er nú orðinn mjólkurflutningaleið bænda úr Kelduhverfi til Húsavíkur. Þessi leið er venjulega fremur snjólétt. Þó eru á henni þrjú gil, sem ekki eru uppfyllingar í, og snjór safnast þar á veginn, og þess vegna þarf að gera þar uppfyllingar, til þess að þar verði ekki umferðarfyrirstöður á vetrum. Með 2 millj. kr. framlagi af lántöku mundi vera hægt að eyða þessum sérstöku torfærum. Bráðnauðsynlegt er að laga gilin sem fyrst, til þess að Tjörnesvegur geti orðið vetrarvegur, sem hægt sé að treysta á, ekki síður en aðrar þjóðbrautir, til þess að koma búvörum bænda á markað. Við leggjum þess vegna til á þskj. 178, tölulið XXII, að heimiluð verði lántaka til Tjörnesvegar, allt að 2 millj. kr. Sú till. er mjög hófleg, því að kostnaður er áætlaður, eins og ég sagði áðan, við að koma Tjörnesvegi í sæmilegt ástand rúml. 6 millj. og vegurinn er tengivegur hliðstæður þeim vegum, sem eru fyrir í þessum frumvarpslið.

Ég leyfi mér að vænta þess, að hv. þm. geti fallizt á þessar till. allar, sem ég nú hef stuttlega lýst.