04.12.1963
Sameinað þing: 24. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í D-deild Alþingistíðinda. (2805)

22. mál, framkvæmdir Atlantshafsbandalagsins í Hvalfirði

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Hv. 1. flm. till. á þskj. 22 tók það alveg réttilega fram í upphafi ræðu sinnar, að við þær tvær umr., sem farið hafa fram um málið á þessu hausti, hafa öll meginatriði þess komið fram og verið rædd hér á hv. Alþ. Það var því naumast við því að búast, að í ræðu hans kæmi nokkuð nýtt fram. Enda fór það svo, að allt það, sem hann sagði um málið, hefur hann og flokksmenn hans margsagt áður hér á hv. Alþ., og jafnoft og það hefur verið sagt, hefur það einnig verið hrakið.

Ég ætla ekki að fara ýtarlega út í einstök atriði málsins, en vil þó víkja nokkrum orðum að þeim tveimur atriðum, sem hv. 1. flm. till. gerði að uppistöðu í ræðu sinni. Hann hélt því i fyrsta lagi fram, að ríkisstj. væri óheimilt að gera samning um byggingu eldsneytisgeymslna í Hvalfirði, án þess að fá samþykki Alþ. til þess áður, og hann hélt því einnig fram, að verið væri að undirbúa í Hvalfirði flota- og kafbátastöðvar á vegum Atlantshafsbandalagsins. Þessi voru tvö meginatriði máls hans, og skal ég víkja nokkuð að þeim málum.

Vil ég þá fyrst koma að fyrra málinu, fullyrðingu um það, að ríkisstj. sé óheimilt að semja við Bandaríkin á vegum Atlantshafsbandalagsins um byggingu geymanna i Hvalfirði án samþykkis Alþ. Hv. þm. vildi halda því fram, að hér væri um algerlega nýjan samning að ræða og að ríkisstj. væri með öllu óheimilt að afhenda varnarliðinu eða Atlantshafsbandalaginu nokkurt landssvæði á Íslandi til afnota, án þess að hafa áður hverju sinni fengið til þess samþykki Alþ. Sérstaklega gat ræðumaður þess, að í varnarsamningnum fælist engin heimild fyrir ríkisstj. til þess að leyfa nein afnot sérstakra landssvæða á Íslandi án sérstaks samþykkis Alþ. hverju sinni. Hér kennir mikils misskilnings hjá þessum hv. þm., og skal ég ekkert um það fullyrða, hvort sá misskilningur stafar af því, að hann veit ekki betur, eða hann vill ekki vita betur, annaðhvort hlýtur það að vera. Ég vil vekja athygli á því, að varnarsamningurinn var gerður af ríkisstjórn Íslands annars vegar og hins vegar af ríkisstjórn Bandaríkjanna í umboði Norður-Atlantshafsbandalagsins. Samkvæmt þessum samningi taka Bandaríkin að sér fyrir hönd Norður-Atlantshafsbandalagsins að annast varnir Íslands. Ríkisstjórn Íslands skuldbindur sig hins vegar til þess að afhenda Bandaríkjunum á vegum Norður-Atlantshafsbandalagsins þá aðstöðu á Íslandi, sem nauðsynleg er til þess að framkvæma þessar varnir og báðir aðilar verða ásáttir um. Í samningnum er ekkert sagt um það, hver þessi aðstaða skuli vera, hvaða landssvæði þeir skuli fá hér eða annað, það er lagt á vald ríkisstjórnanna að meta þetta. Samningurinn var lagður fyrir Alþ., og þar var hann lögfestur, og þar með fékk Alþ. ríkisstj. það vald, sem nauðsynlegt var að mati ríkisstj. til þess að framkvæma samninginn, þ. á m. vald til að veita varnarliðinu þá aðstöðu á Íslandi, sem nauðsynleg var.

Eitt af því fyrsta, sem þurfti að gera í þann mund, sem varnarliðið var að koma til Íslands, var að fá því einhvern aðsetursstað í landinu. Varnarsamningurinn sagði ekkert um það, hvar varnarliðið skyldi vera eða hvar það skyldi fá landssvæði til dvalar. Það var sérstakt samningsatriði á milli ríkisstjórnanna. Um þetta var samið, án þess að það væri með nokkrum hætti borið undir Alþ. eða Alþ. um það spurt, hvaða landssvæði varnarliðið skyldi fá til afnota. Það kom engum til hugar þá, að um þetta atriði þyrfti að spyrja Alþ., enda þótt ekkert væri fram tekið um það í samningnum, um hvaða landssvæði skyldi vera að ræða. Allir voru þá á einu máli um það, að ríkisstj. hefði ein fullkomið vald til að semja um þetta. I upphafi var samið um Keflavíkurflugvöll, en seinna voru einnig önnur landssvæði afhent varnarliðinu til afnota, varnarsvæði í Hornafirði, á Langanesi og á Vestfjörðum og enn síðar á Snæfellsnesi. Það hefur aldrei heyrzt fyrr en nú, að hv. 1. flm. þessarar till, fer að halda því fram, að það hefði þurft að bera það undir Alþ. hverju sinni, hvort þessi landssvæði mætti afhenda eða ekki. Slík fjarstæða hefur auðvitað engum til hugar komið, og nákvæmlega sama gildir einnig nú, þegar verið er að ræða um landssvæði í Hvalfirði til að byggja þar geymslur undir eldsneyti. Ríkisstj. hefur í varnarsamningnum fullkomna heimild til að afhenda þessa aðstöðu og þarf ekki að bera slíkt undir Alþ.

Ég hygg, að ég þurfi ekki að fara fleiri orðum um þessa fráleitu kenningu þessa hv. þm. Hún er bersýnilega svo fráleit, að hún hrekur sig sjálf, enda hefur engum, eins og ég sagði áðan, komið til hugar að halda slíkri fjarstæðu sem þessari fram í meira en 10 ár, sem varnarliðið hefur verið hér og hefur alltaf verið að fá smálandssvæði til afnota, eftir því sem nauðsynlegt hefur verið talið og um hefur samizt hverju sinni.

Hv. þm. vildi láta í það skína, að hér væri um ráðstöfun að ræða, sem væri nokkurs annars eðlis en önnur landaafhending til varnarliðsins, vegna þess að hér kæmi Atlantshafsbandalagið sjálft til sögunnar. Þetta er alrangt, m.a. vegna þess, að allar aðgerðir Bandaríkjamanna á Íslandi og öll vera þeirra hér fer fram á vegum og í umboði Atlantshafsbandalagsins, og þegar Íslendingar eru að fá Bandaríkjamönnum einhverja aðstöðu á Íslandi, hvort sem það er landssvæði eða eitthvað annað, afhenda þeir Bandaríkjamönnum þetta landssvæði sem umboðsmanni Atlantshafsbandalagsins, jafnt i það skiptið, sem hér um ræðir, eins og í önnur skipti.

Þá vildi hv. þm. halda því fram, að með samningunum um geymana í Hvalfirði væri verið að stofna flota- og kafbátastöðvar á Íslandi til afnota fyrir Bandaríkjamenn og Atlantshafsbandalagið. Þessi fullyrðing er alröng og hefur ekki við nein rök að styðjast. Hér er í rauninni ekki verið að gera nokkurn skapaðan hlut, sem ekki hefur verið gert þegar fyrir löngu, og hér er ekki efnislega verið að breyta neinu því ástandi, sem hér hefur áður ríkt, að því er aðstöðu í landinu varðar. Eina breytingin, sem verður, er sú, að geymarnir, sem verið er að byggja, eru eign annars aðila en áður var.

Ég hef áður skýrt frá því, að fyrir um það bil 20 árum voru byggðir nokkrir tugir geyma í Hvalfirði, þar sem geymt var benzín og olía. Þessir geymar voru byggðir á styrjaldarárunum af herliðinu, sem hér var þá. Eins og títt var um framkvæmdir, sem gerðar voru á þeim tíma, var illa til þessara mannvirkja vandað í upphafi og alls ekki til þess ætlazt, að þau entust lengur en í örfá ár. Sá tími, sem ætlazt var til og búizt var við að geymarnir mundu endast, er nú fyrir löngu liðinn, enda geymarnir orðnir mjög úr sér gengnir, og við liggur, að þeir geti meira og minna bilað hvenær sem er. Það var á árinu 1942, að byggðir voru þarna upp frá 29 geymar. Þessir 29 geymar eru orðnir nú svo mjög úr sér gengnir, að talið er, að nauðsynlegt sé að endurnýja þá að verulegu leyti og að öllu leyti áður en mjög langt um líður. Það hafa að vísu verið gerðar ráðstafanir til þess að halda þeim við, en slíkar ráðstafanir eru með öllu taldar ófullnægjandi. Á árinu 1943 eru enn byggðir 8 mjög stórir geymar uppi í Hvalfirði. Þeir geymar eru sumir hverjir orðnir ónýtir og búið að endurnýja þá að einhverju leyti og talið óhjákvæmilegt að endurnýja aðra mjög fljótlega, enda hafa þeir, sem nú eiga þessa geyma, sýnt á því nokkurn lit og mikla viðurkenningu, að sú endurnýjun væri óhjákvæmileg. Þegar stríðinu lauk, voru þessir geymar afhentir íslenzku olíufélagi. Í upphafi voru þeir notaðir til að geyma eldsneyti fyrir íslenzk skip, en áður en langt um leið, tók olíufélagið, sem átti geymana, að sér að geyma á þeim olíu fyrir varnarliðið, og hefur svo verið nú um mörg ár. Geymarnir hafa eingöngu verið notaðir til þess að geyma varabirgðir, en ekki til þess að fylla á skip til venjulegra afnota. Þeir eru fylltir á margra ára fresti, og þegar talið er, að eldsneytið sé búið að vera á þeim of lengi, er skipt um og komið með annað nýtt í staðinn. T.d. er mjög verulegur hluti af því, sem geymt er í tönkunum núna í Hvalfirði, búið að vera þar síðan 1957, en aðrar birgðir hafa verið þar síðan 1961. Í sambandi við þessa geyma eru engar skipaferðir aðrar en þær, að hér koma olíuskip til að fylla geymana, og síðan, þegar skipt er á þeim, koma önnur til þess að taka eldsneytið í burtu. Um herskipaferðir er þarna ekki að ræða.

Það eina, sem áformað er að gera núna, er að endurnýja þessa gömlu og úr sér gengnu geyma og byggja aðra nýja og geyma þar eldsneyti með nákvæmlega sama hætti og verið hefur um fjöldamörg ár. Þangað munu koma flutningaskip og fylla á geymana, og þar verður eldsneytið geymt. Þegar talið er, að það sé orðið svo gamalt, að það megi ekki vera þar lengur, verður skipt um og annað sett á, en engin áform eru um að nota geymana til þess að fylla á herskip eða önnur skip, sem sjálf eiga að brenna því eldsneyti, sem þarna er. Hér er því ekki um neina breytingu að ræða frá því ástandi, sem verið hefur, aðra en þá, að í stað þess, að olíufélagið, sem á þessa geyma og rekur þá, endurnýi geymana sjálft, eru þeir endurnýjaðir af Bandaríkjamönnum, að nokkru leyti á kostnað Atlantshafsbandalagsins.

Í sambandi við þessa geymabyggingu verður komið þarna fyrir bryggju á nákvæmlega sama hátt og er við geymana, sem fyrir eru, og þarna verður komið fyrir sennilega tveimur legufærum, sem þó verður ekki sökkt í hafið, nema þegar nota Þarf.

Ég hygg, að allir, sem vilja hugsa með sanngirni um þetta mál, geti séð, að i þessum aðgerðum feist engin byrjun á neinni flota- eða kafbátastöð. Ef túlka ætti þær aðgerðir, sem þarna eru undirbúnar, sem stofnun á flota- eða kafbátastöð, mætti nákvæmlega með sama hætti segja, að um fjöldamörg ár hafi verið flota- og kafbátastöð í Hvalfirði, vegna þess eins, að þarna hefur verið geymt eldsneyti á geymum, sem eingöngu hefur átt að nota sem varabirgðir. Ég hef orðið þess mjög var, að af hálfu Sameiningarflokks alþýðu hefur því verið haldið á loft, að ríkisstj. væri að stofna þarna til flota og kafbátastöðvar og jafnvel atómstöðvar. Þetta kemur ekki aðeins fram í grg. þeirrar till., sem hér liggur fyrir. Þetta kom fram í ræðu hv. 1. flm. till., þetta hefur iðulega komið fram i blöðum Sósfl., og nú nýlega var einn af þm. þess flokks að rita ýtarlega afmælisgrein um Sameiningarflokkinn, sem birt var í Pravda austur í Moskvu, og þar voru Rússar fræddir á því, að íslenzka ríkisstj. væri nú að koma upp í Hvalfirði flota- og kafbáta- og jafnvel atómstöð, sem þeir sósíalistar heima á Íslandi væru að berjast gegn. Ég þykist vita, að þó að þeir sósíalistar tali á þennan veg, sé þeim engu að síður ákaflega vel ljóst, að hér eru engar þær ráðstafanir á ferðinni, sem hægt sé að nefna þeim nöfnum, sem þeir vilja nefna þær. Þeir hljóta að sjá það sjálfir, ef þeir vilja kynna sér málið og hugleiða það, að hér er ríkisstj. ekki að leyfa neinar þær aðgerðir eða framkvæmdir í landinu, sem í raun og veru hafa ekki verið til þar í mör g ár.

Hér er ekki verið að stofna til neins nýs að því er varnir landsins varðar. Þetta hljóta þeir sósíalistar að vita ákaflega vel, en þeim ætti líka að vera ljóst, að þó að það sé kannske meinlaust fyrir þá að vera að hafa uppi fullyrðingar eins og þeir gera hér innanlands, er það meira en lítið vafasamur málflutningur af þeirra hálfu að snúa sér til erlends stórveldis og skýra því frá því, að ríkisstjórnin á Íslandi sé með mjög alvarlegan hernaðarundirbúning, og hika ekki við að gefa í skyn, að sá undirbúningur beinist gegn því stórveldi, sem frásögnin er birt hjá. Ég verð mjög að átelja þennan ósæmilega málflutning af hálfu þess stjórnmálaflokks, sem að honum stendur, og ég veit, að allir íslendingar, sem um þetta mál vilja hugsa af fullkominni alvöru, telja, að þó að menn geti leyft sér ýmislegt í stjórnmálum innanlands, eins og þeir sósíalistar gjarnan gera, getur það ekki talizt sæmilegur málflutningur að snúa sér til erlends herveldis til þess að túlka Þar fyrir mönnum, fyrir alþjóð, að ríkisstj. Íslands sé með hernaðarundirbúning gegn viðkomandi stórveldi, sem allir i landinu, sósialistar jafnt sem aðrir, ættu nú að vita, að eru rakatausar fullyrðingar með öllu.

Þá minntist hv. 1. flm. till. á, að nú horfði svo friðvænlega í heiminum, að með öllu væri ástæðulaust og ósæmilegt að vera að leyfa nokkrar aðgerðir í landinu, sem efldu eða styrktu varnir þess. Mér varð nú á að hugsa,

Þegar ég hlýddi á þessi orð þessa hv. þm. Skyldi hann gera sér nokkra grein fyrir því, hvers vegna friðvænlegar horfir nú í heiminum en áður gerði, ef það er tilfeilið, að friðvænlegar horfi en áður var? Hver skyldi vera ástæðan fyrir því, að vonir manna eru bjartari nú en kannske áður, að því er friðarhorfur varðar? Við minnumst þess, að mörg ár fyrir heimsstyrjöldina horfði ekki friðvænlega í heiminum. Nazisminn þýzki og fasisminn ítalski óð yfir hvert varnarlaust landið á fætur öðru og kúgaði það undir sinn járnhæl. En hvers vegna var þetta? Hver var ástæðan fyrir þessu? Hún var sú fyrst og fremst, að lýðræðisþjóðirnar báru ekki gæfu til að hafa með sér nein varnarsamtök eða standa saman gegn einræðis- og ofbeldisöflunum. Það var þetta sundurlyndi og þessi skortur á varnarsamtökum lýðræðisþjóða, sem leiddi til heimsstyrjaldarinnar 1939 m.a. Við minnumst þess líka, að á fyrstu árum eftir stríðið, á meðan engin varnarsamtök voru til hjá frjálsum lýðræðisþjóðum, lagði hinn alþjóðlegi kommúnismi með ofbeldi og hernaðaraðgerðum hvert frjálsa landið undir járnhæl sinn á fætur öðru. Þegar svo loks vestrænar lýðræðisþjóðir sáu, að þetta gat ekki lengur gengið, og mynduðu með sér sín varnarsamtök, leiddi það til þess, að hinn alþjóðlegi kommúnismi hætti yfirtroðslu sinni í Vestur-Evrópu. Það voru varnarsamtök hinna vestrænu Þjóða, sem stöðvuðu þær ofbeldisaðgerðir. Og ég er ekki í nokkrum vafa um, að það voru ekki aðeins þessi varnarsamtök, sem stöðvuðu þessa uppivöðslu á sínum tíma. Það er einnig sú staðreynd, að þessi varnarsamtök eru til í dag og að hinn alþjóðlegi kommúnismi veit, að þessi varnarsamtök munu verja frelsi sitt og sjálfstæði, ef á þau verður ráðizt, — það er einnig þessi staðreynd, sem hefur ýtt undir það og gerir hinum alþjóðlega kommúnisma það ljóst, að það þýðir ekki að beita ofbeldi og hann verður að setjast við samningaborðið. Ég hygg, að m.a. það samkomulag, sem tókst í haust, sé árangurinn af þessum varnarsamtökum, og ég ætla svo vissulega að vona, að fleiri og þýðingarmeiri slík samkomulög eigi eftir að koma í kjölfarið.

Vestrænar þjóðir eiga að sjálfsögðu að stilla undirbúningi sínum og aðgerðum í hóf. En þær mega þó aldrei missa vöku sína, og þær verða að jafnaði að vera viðbúnar að mæta þeirri hættu, sem á vegi þeirra kann að verða. Það þarf ekki að koma neinum á óvart, þó að sósialistar beiti sér gegn varnarsamtökum vestrænna þjóða. Og það þarf engum að koma á óvart, þó að sósíalistar vilji hafa varnir Íslands sem veikastar og sporni við þeim á allan hátt, þ. á m. þeim aðgerðum, sem á ferðinni eru í Hvalfirði. Sósíalistar vilja ryðja hinum alþjóðlega kommúnisma braut vestur á bóginn og inn í löndin, eins og þeir geta. Þeir vita, að það verður bezt gert með þeim hætti, að sem minnstar varnir og viðbúnaður sé af hálfu vestrænna frjálsra þjóða. En við hinir, sem á hinn veg hugsum, viljum hafa varnir okkar það traustar og öflugar sem ástandið á hverjum tíma kallar á, og við viljum freista að leggja okkar af mörkum, eftir því sem til þarf, í því skyni, og einmitt þær aðgerðir, sem áformaðar eru nú í Hvalfirði, eru byggðar á því einu að veikja ekki varnir landsins og Norður-Atlantshafsins frá því, sem verið hefur. Þær eru byggðar á því, að varnirnar haldist jafnsterkar og þær hafa verið, en þær eru ekki aðgerðir til þess að undirbúa neitt nýtt og sízt af öllu nokkuð, sem getur kallazt árás eða ógnun við aðrar þjóðir.