20.12.1963
Sameinað þing: 32. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í B-deild Alþingistíðinda. (282)

1. mál, fjárlög 1964

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs til þess að mæla fyrir þrem brtt., sem ég flyt ásamt hv. 1. og hv. 5. þm. Norðurl. e. á þskj. 178. Við stöndum að vísu saman að nokkrum öðrum brtt., en fyrir þeim mæla hv. meðflm. mínir, og hefur þegar verið mælt fyrir nokkrum þeirra.

Fyrsta brtt., sem ég mæli fyrir á þskj. 178, er um nokkra hækkun á framlagi til Raufarhafnar. Raufarhöfn er sem kunnugt er ein af mestu útflutningshöfnum landsins. Þar er mikill síldariðnaður á sumrin, bæði síldarsöltun og síldarbræðsla, sem kunnugt er. Þar eru margar bryggjur, sem ætlaðar eru til löndunar fyrir síldveiðiskip, bæði þegar lagt er upp í söltun og bræðslu. En til skamms tíma hefur hafnarsjóður Raufarhafnar enga hafnarbryggju átt til út- og uppskipunar á vörum. Út- og uppskipun á vörum hefur farið fram á gamalli bryggju, sem var eign síldarverksmiðja ríkisins og áður Norðmanna, sem fyrstir byggðu verksmiðju á þessum stað. En nú nýlega varð samkomulag um það, að síldarverkmiðjur ríkisins afhentu Raufarhafnarhreppi eða hafnarsjóði Raufarhafnar gömlu hafnarbryggjuna og þá aðstöðu við land, sem henni fylgir og hafnarsjóður tæki að sér að byggja þarna upp nýtt mannvirki. Þannig var þá ástatt, að gamla bryggjan, sem var timburbryggja, var að hruni komin og naumast nothæf orðin. Hér þurfti að bregða skjótt við, því að mikið var í húfi að koma upp þessu þýðingarmikla mannvirki, sem allar síldarafurðir fara um til útflutnings, þ.e. síldarafurðir Raufarhafnar, auk alls annars, og í fyrra var gerð áætlun um nýja hafnarbryggju, sem mun hafa átt að kosta eftir áætlun þá um 10 millj. kr. Þegar á öndverðu ári 1963, þ.e.a.s. þessu ári, var ráðizt í þessa bryggjugerð, og var hún vel á veg komin s.l. sumar, þannig að skip getur nú lagzt að henni, en aðeins eitt skip. Hins vegar er mikil nauðsyn á að ljúka mannvirkinu, þannig að tvö skip geti legið samtímis við hafnarbryggjuna, en það kemur mjög oft fyrir, að tvö skip eru á Raufarhöfn samtímis og þarf að vinna við afgreiðslu þeirra. Hreppsfélagið á að sjálfsögðu nokkuð örðugt með að koma áfram þessu mannvirki samhliða ýmsum öðrum framkvæmdum, sem þar eru á döfinni, en á Raufarhöfn er nú einnig verið að byggja barnaskóla og félagsheimili. Það hefur verið greitt fyrir hafnargerðinni með lánum, og það ber að viðurkenna, að hv. fjvn. hefur skipað Raufarhöfn meðal þeirra hafna, sem hæst framlag er nú ætlað á fjárlfrv. Eigi að síður vildum við leggja áherzlu á það, að þarna er enn mikil fjárþörf og að þessi upphæð þyrfti að vera mun hærri, af því að hér er um svo stórt og dýrt hafnarmannvirki að ræða og því þarf að ljúka á svo skömmum tíma, það þolir ekki bið.

Önnur till., sem ég vil mæla hér fyrir, er merkt með VIII-á þskj. 178. Þar er um að ræða hækkað framlag til hafnargerðarinnar á Þórshöfn úr 250 þús. kr. upp í 700 þús. kr. Ég skal taka fram, að þetta er sama upphæðin og við lögðum til, þessir þrír þm., á síðasta þingi, að veitt yrði til þessarar hafnar.

Á Þórshöfn eru nú heimilisfastir hátt á fimmta hundrað manns, eða nánar tiltekið um 460 í árslok 1962. Og þetta kauptún hefur verið í vexti undanfarin ár eða áratugi. Þar er verzlunarstaður nokkurra hreppa í Norður-Þingeyjarsýslu og í Norður-Múlasýslu, og útgerð hefur farið þar vaxandi. Framvegis hlýtur vöxtur staðarins fyrst og fremst að byggjast á vexti útgerðar. Í Þistilfirði og við Langanes eru miklar fiskislóðir, sem hafa verið sóttar um aldir af útlendum og innlendum til skamms tíma, þá einkum af útlendum, og talið er, að Þistilfjörður sé mikilsverð klakstöð fyrir fisk. Þegar síldin leggst nærri landinu, er það ekki óalgengt eða var, að fjöldi síldarbáta væri að veiðum við mynni Þistilfjarðar báðum megin við Langanes. Sveitabyggðin á Langanesi hefur gengið mjög saman í seinni tíð og stendur á völtum fæti, eins og sakir standa, og á sér raunar víðar stað í sveitum, sem líkt eru settar. Og framtíð þessa byggðarlags í heild, ekki aðeins þorpsins, heldur einnig sveitanna í kring, er eflaust mjög undir því komin, að það takist að koma atvinnulífi á Þórshöfn á fastan grundvöll. Þar eru nú um þessar mundir gerðir út um 20 vélbátar til fiskveiða, litlir þilfarsbátar og opnir vélbátar. Þarna við Þistilfjörð, eða réttara sagt við minni fjörð inn af Þistilfirði, sem heitir Lónafjörður og Þórshöfn stendur við, er í sjálfu sér góð aðstaða fyrir skip og skip liggja þar oft í vari, en höfnin sjálf er þó frá náttúrunnar hendi þannig, að það er til hindrunar vexti útgerðar. Á meðan hafnarmannvirkjum verður ekki komið í betra horf en þau enn þá eru, er þess ekki að vænta, að útgerð stærri báta geti hafizt þar, því að öryggi í höfninni er of lítið, til þess að á það sé hætt að hafa þar stærri skip en þau, sem þar eru nú. En þetta, að hafnarskilyrði banna að auka fiskiflotann og stækka fiskiskipin, er hins vegar því til hindrunar, að fiskiðju á þessum stað yrði komið í það horf, sem hún þyrfti að vera. Menn hafa lengi haft hug á því að byggja þar nýtt fiskiðjuver, en telja varla fært, meðan útgerðin er ekki meiri en hún nú er.

Gerð hafnarmannvirkja á Þórshöfn hófst fyrir nálega aldarfjórðungi, að ég ætla, og hafa þar verið byggðar bryggjur nokkrar, ekki stórar, og gerð dýpkun í höfninni. En fyrir nokkrum árum var hafizt handa um að byggja hafnargarð eða öldubrjót utan við aðalbryggjusvæðið, sem nú er orðinn 230–240 m langur, og þessi öldubrjótur eða hafnargarður ásamt þeim hafnarmannvirkjum, sem fyrir eru, myndar, þegar mannvirkjum er lokið, fiskiskipakví, en við enda hafnargarðsins er byrjað að koma niður kerum, steinsteypukerum, sem eiga að mynda hafskipabryggju og jafnframt vera síðasti áfanginn til þess að mynda bátakvína. S.l. sumar voru sett niður tvö ker, og er þá þarna komin bryggja eða bryggjustúfur, einir 20 m, 20 m viðlegukantur, en ætlunin er að bæta þarna við fjórum kerum, þannig að viðlegukanturinn fyrir hafskip verði 60 metrar. Það er talið hæfilegt eða a.m.k. viðhlítandi. Strandferðaskipin Esja og Hekla eru einmitt um 60 m löng, og millilandaskip, sem flytja vörur, nokkru lengri, en þetta er þó talið viðhlítandi.

Það var áform hreppsnefndar og hafnarstjórnar á Þórshöfn að ljúka áfanganum næsta sumar, að koma niður þessum fjórum kerum, og má lauslega áætla, að það kosti rúmar 3 millj. kr. eða líklega heldur meira. Við flm. teljum mikla nauðsyn á því, að úr þessu gæti orðið og sé þarna um að ræða framkvæmd, sem ótvírætt eigi að skipa í röð framkvæmda, sem ekki á að láta bíða, af því að þessi áfangi er eins mikilsverður og ég gerði grein fyrir. Þó að þessi áfangi væri framkvæmdur, þá er að vísu hafnargerðinni ekki lokið. Það eru eftir nokkur mannvirki inni í höfninni, staurabryggjur innan úr garðinum. En þessi áfangi er mjög mikilsverður, og mætti þá fremur doka eitthvað við, þegar honum er lokið, eða a.m.k. er hann mjög mikilsverður bæði til þess að ljúka sjálfri kvínni og skapa það skjól, sem hún má veita, og til þess að gera þarna legurum eða legukant, sem telst nothæft. Ég skal taka það fram, að strandferðaskipið Esja hefur í vetur lagzt við þessa 20 m. sem búið er að gera, en það er mjög ófullnægjandi og aðeins hægt í blíðskaparveðri.

Síðasta till., sem ég mæli fyrir, er merkt með XXIII á þskj. 178. Hún er við 22. gr. fjárl., heimildargreinina, að þar komi til viðbótar nýr liður: „Að taka lán allt að 2 millj. kr. vegna Hálsavegar austan Raufarhafnar Eða jafnvirði þeirrar upphæðar í erlendri mynt.“ Undanfarið hefur verið farið inn á þá leið að taka sérstök lán til þess að koma áleiðis dýrum mannvirkjum í vegagerð, og er þá fyrst og fremst að minnast stórláns, sem er tekið til Keflavíkurvegar, en einnig hafa verið tekin eða er á döfinni að taka slík lán til fleiri vega, til Ennisvegar á Snæfellsnesi, til Siglufjarðarvegar, Strákavegar og til Múlavegar, sem hv. 1. þm.

Norðurl. e., samþm. minn, gat um hér áðan. Við teljum það fyllilega réttmætt og í rauninni óhjákvæmilegt að heimila slíka lántöku vegna þessa vegar, sem hér er um að ræða. En Hálsavegur er einn af hinum svokölluðu millibyggðavegum. Hann er á milli Raufarhafnar, sem ég ræddi um áðan, Raufarhafnar á Sléttu og byggðar í Þistilfirði, sem kallað er, þ.e.a.s. vestan Þistilfjarðar. Er hér um veg í óbyggð að ræða, en þó ekki háan, og var fyrir nokkrum árum ákveðið, að lögð yrði áherzla á að byggja upp þann veg í stað vegarins, sem farinn hefur verið nú um 20 ára skeið um Öxarfjarðarheiði, en sá vegur liggur mun hærra. Fyrir 2 árum eða svo var verkið það komið á veg, á Hálsavegi, að vegurinn varð akfær, eins og kallað er, þ.e.a.s. að hægt er að komast þessa leið að sumarlagi, þegar vel viðrar. En mikill hluti af veginum er aðeins ruddur vegur, að sumu leyti eftir mólendi og að sumu leyti eftir melum. Nú fór það svo, og sýnir það nauðsyn þessa vegar, að undireins og vegurinn var opnaður, þótt í þessu ástandi væri, hófst á honum mikil umferð, og það var ekki langt liðið, þegar að því kom, að stórar fólksflutningabifreiðar og stórar vöruflutningabifreiðar alla leið héðan úr Reykjavík tóku upp fastar áætlunarferðir, sem miðaðar voru við það að fara þennan veg. Menn höfðu í rauninni ekki gert ráð fyrir, að svo þung umferð mundi hefjast á veginum þegar í stað, en það hefur komið í ljós, sem við mátti búast, að stórir kaflar á veginum þola alls ekki þessa umferð, og þess vegna verður vegurinn í votviðratíð á sumrin mjög fljótlega að kalla má ófær, og þó að gert sé ráð fyrir, að þegar búið er að byggja upp þennan veg, verði hann fær yfirleitt yfir veturinn, þá er langt frá því, að svo sé nú, á meðan mikill hluti af honum er enn aðeins ruddur vegur. Ég ræddi núna nýlega, — ég held, að það hafi verið í gær eða fyrradag, við bifreiðarstjóra héðan úr Reykjavík, sem hafði farið með nokkra bíla frá Reykjavík norður til Þórshafnar til þess að flytja vörur, og hann sagði mér, að yfirleitt hefði þessi ferð gengið vel norður með bílana allt þangað til kom að Hálsavegi. Þá var þar þröskuldur á veginum, sem að vísu tókst að stíga yfir með ærinni fyrirhöfn. Þar voru torfærur af snjó. Nú er byrjað að leggja veg úr Vopnafirði yfir Hellisheiði ytra austur í Jökulsárhlíð, og verður því verki væntanlega lokið, áður en langt um líður, og þá kemur sá vegur, a.m.k. fyrir þá, sem halda áfram til Austurlands eða fara til Austurlands frá Vopnafirði eða norður, í stað hinnar löngu leiðir yfir Möðrudalsöræfin og svo aftur niður.

Þegar vegurinn er kominn yfir Hellisheiði, er þarna opnuð leið eiginlega milli helztu síldarstöðvanna á Norðaustur- og Austurlandi. Það verður opnuð leið meðfram allri þessari stóru keðju af síldarstöðvum, sem þarna er risin upp á seinni tíð. Þarna er Raufarhöfn, Þórshöfn og Bakkafjörður, sem er nú að verða síldarstöð líka, þótt hann sé það enn í smáum stíl, Vopnafjörður, Seyðisfjörður og svo allir firðirnir þar fyrir austan. Það mun reynast, þegar vegurinn er þangað kominn, og raunar er það svo nú þegar, þó að hann sé ekki kominn nema til Vopnafjarðar með sjó fram, það mun reynast svo, að þessi leið verður ákaflega fjölfarin, og þessi vegur er mikill nauðsynjavegur til þess að halda uppi sambandi milli þessara vinnslustöðva á Austur- og Norðausturlandi og enda stöðvanna vestar á Norðurlandi líka, því að það er mikilsvert fyrir alla þessa keðju af síldarstöðvum, að þar sé greið ferð milli á landi til þess að flytja fólk, þegar síldin færir sig, til þess að flytja síldartunnur, vélar og bíla og margt annað, sem menn þurfa snögglega á að halda eða mikilsvert er að geta flutt á milli stöðvanna í skyndi. Og þá mun þessi vegur verða að sumarlagi um síldveiðitímann einhver þýðingarmesti vegur á þessu landi í þágu framleiðslunnar. En slík umferð getur náttúrlega ekki orðið á þessum vegi, nema Hálsavegur verði mjög bættur frá því, sem er. Menn hafa séð þessa nauðsyn, og þess vegna hefur undanfarin ár verið reynt að halda til Hálsavegar af því vegafé, sem hefur átt að fara í Norður-Þingeyjarsýslu. En slíkt getur ekki lengi haldizt, því að nú er einmitt mikil nauðsyn á því að bæta vegina um byggðirnar báðum megin heiðar og ekki sízt vegna þess, að bændur eru þar nú að taka upp mjólkurframleiðslu og munu þurfa á því að halda, að byggðavegirnir séu færir jafnt vetur sem sumar. Þess vegna er nauðsyn að leysa umbótaþörfina á þessum vegi á sérstakan hátt án þess að skerða tilfinnanlega fé byggðanna, enda þótt það verði væntanlega aukið og þarf nú að aukast og væntanlega eykst vegna nýju vegalaganna eins og annars staðar. Ég hygg, að ef þarna væri hægt að leggja fram í einu lagi sem svaraði 2 millj. í þennan veg, mundi vera hægt að byggja upp þá kafla alla, sem mest hætta er á að verði ófærir, en það eru móarnir, sem ég nefndi áðan, sem grafast niður og verða ófærir í rigningum og seinfærir.

Ég skal taka það fram, að ég hef beðið vegamálaskrifstofuna að gera lauslega áætlun um, hvað það mundi kosta að fullgera þennan veg, Hálsaveg, milli Raufarhafnar og Þistilfjarðar, þannig að hann komist í það ástand, sem ætlazt er til að vegir komist samkv. vegalögunum, og sá kostnaður er lauslega áætlaður 5½ millj. kr. Hér er því ekki um að ræða nema hluta af því fé, en þrátt fyrir það hygg ég, að af slíku fjárframlagi, ef það mætti takast að fá það lán, sem hér er gert ráð fyrir, mundi verða mikið gagn.

Þá hef ég mælt fyrir þeim þrem brtt. á þskj. 1.78, sem ég nefndi áðan, og skal láta máli mínu lokið.