06.02.1964
Sameinað þing: 39. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í D-deild Alþingistíðinda. (2972)

82. mál, efling útflutningsiðnaðar

Flm. (Lúðvik Jósefsson):

Herra forseti. Ég flyt hér ásamt hv. 4. þm. Norðurl. e. till. til þál. á þskj. 90 um eflingu útflutningsiðnaðar. Efni þessarar till. er það, að lagt er til, að kosin verði 7 manna mþn., sem, eins og segir í till., taki til athugunar, með hvaða hætti tiltækilegast sé að koma á fót nýjum framleiðslugreinum útflutningsiðnaðar og hvernig megi efla þann útflutningsiðnað, sem fyrir er.

Í grg. till. er að því vikið, að heildarútflutningsverðmæti þjóðarinnar séu nú orðin kringum 4000 millj. kr. á ári. Um 90% af þessum útflutningsvörum eru sjávarafurðir í einu eða öðru formi, en kringum 10% eru landbúnaðarafurðir. Þannig hefur þetta verið nú um allmörg ár, að útflutningurinn hefur verið samansettur í aðalatriðum þannig. Flestar eru þessar vörur, sem fluttar eru út til sölu á erlendum markaði, aðeins hálfunnar vörur eða jafnvel alveg óunnar hráefnisvörur, sem síðan ganga til frekari vinnslu í markaðslöndunum. Ef litið er t.d. á útfluttar sjávarafurðir, kemur þetta greinilega í ljós, að svona er þessu háttað. Þýðingarmesta greinin af útfluttum sjávarafurðum er frosinn fiskur og þá sérstaklega frosin fiskflök, en þau höfum við flutt út nú á ári fyrir í kringum 1000 millj. kr. og jafnvel nokkru hærri upphæð sum árin. Þessi framleiðsluvara er sú, sem er hvað mest unnin og á hvað fullkomnustu framleiðslu- eða vinnslustigi hér hjá okkur, því að því verður ekki neitað, að sérstaklega í sambandi við framleiðslu á frosnum fiski höfum við Íslendingar staðið nokkuð framarlega og talsvert miklu framar en ýmsir keppinautar okkar í fiskframleiðslu. En þó verður að játa það eins og það er, að hraðfrystu fiskflökin, sem við flytjum út og eru svona þýðingarmikil útflutningsvara hér hjá okkur Íslendingum, sú vara er í rauninni ekki nema hálfunnin sem markaðsvara. Megnið af þessari vöru er tekið í markaðslöndunum og unnið þar í miklu verðmætari vöru, áður en hún fer á hinn eiginlega sölumarkað. Það gerist meir og meir að því, að upp rísa sérstakar fiskvinnsluverksmiðjur, sem byggja að langmestu leyti vinnslu sína einmitt á því að vinna úr hraðfrystu fiskflökunum. Við Íslendingar rekum eina allstóra slíka verksmiðju í Bandaríkjunum, en enga hér á landi. Sú verksmiðja vinnur úr mjög miklum hluta af fiskflökunum, sem eru send út héðan til sölu á Bandaríkjamarkaði. Þessar fiskvinnsluverksmiðjur vinna í aðalatriðum þannig, að fiskflökin eru þar tilreidd, stelkt eða soðin og búnir til úr þeim sérstakir fiskréttir. Síðan er það mjög algengt eða algengast, að þessir fiskréttir séu aftur teknir og frystir til frekari dreifingar, pakkaðir inn í hagstæðar umbúðir, rétt aðeins fyrir daglega notkun, og þannig framleidd þykir þessi vara mjög aðgengileg á markaði, og er þá í rauninni litið annað að gera fyrir þá, sem eiga að framreiða matinn á heimilunum, en taka þessa svo að segja tilbúnu fiskrétti og rétt aðeins ylja þá upp, og þá er matargerðinni lokið. Slíkar verksmiðjur sem þessar ryðja sér nú mjög til rúms viða í heiminum. Keppinautar okkar t.d. í Noregi eru nú að vinna að því að koma upp svona verksmiðju í Englandi, og Íslendingar hafa haft fyllilega vitneskju um þessar verksmiðjur og þekkja til þeirra og hafa gert sér grein fyrir því fyrir löngu, að hér er um þýðingarmikla framhaldsvinnslu á þessari merkilegu útflutningsvöru að ræða.

Það er skoðun okkar flm., að það eigi að athugast m.a. í þeirri mþn., sem hér er stungið upp á að kosin verði og gert er ráð fyrir að starfi að sínum verkefnum í nánu samstarfi við sérfróða menn um þessi mál, og það er skoðun okkar, að það séu allar líkur, sem bendi til þess, að Íslendingar eigi að koma sér upp hér í landinu sjálfu a.m.k. einni slíkri verksmiðju sem þessari og stórauka útflutningsverðmæti, t.d. frosinna fiskflaka, á þann hátt og tryggja okkur reyndar einnig miklu sterkari og betri aðstöðu á hinum ýmsu mörkuðum með því að fylgjast á þennan hátt með fullvinnslu vörunnar. Þetta er aðeins eitt dæmi af fjölmörgu, sem mætti nefna um möguleika okkar til að vinna meir og betur eða á verðmætari hátt okkar útflutningsvörur en við gerum.

Nú er svo komið, að við erum farnir að flytja út allmikið af frosinni síld. Það hefur komið í ljós, að markaðir fyrir frosna síld eru í mörgum löndum og allmiklir markaðir. Við erum nú farnir að flytja út á hverju ári í kringum 30 þús. tonn af frosinni síld, en enginn vafi er á því, að við gætum framleitt og við gætum selt a.m.k. 70—80 þús. tonn af þeirri vöru, ef betur væri staðið hér að þeim framleiðslumálum en verið hefur. En þessi frosna síld, sem hefur reynzt okkur mjög þýðingarmikil útflutningsvara og miklir möguleikar eru að selja í ýmsum löndum, er þó í rauninni aðeins hráefni til frekari vinnslu erlendis. Megnið af þessari frosnu síld er tekið og notað sem hráefni í reykta síld, í niðursuðu á síld og aðra frekari fullvinnslu á síld. Reykt síld er víða mjög útbreidd neyzluvara, og er þar hvort tveggja um að ræða flakaða síld og allmikið tilreidda og eins líka heilreykta síld og það í miklu ófullkomnara ástandi, en eigi að síður sækjast markaðirnir eftir slíkri vöru. Það er því enginn vafi á því, að það eru einnig stórfelldir möguleikar hjá okkur til þess að gera miklu meiri peninga úr þessari grein okkar útflutningsvara, úr frosnu síldinni, heldur en við höfum gert til þessa. Þarna er um að ræða möguleika upp á stórfelldar fjárhæðir, ef vel væri á haldið.

Við vitum einnig um saltsíldina, sem við framleiðum hér árlega og flytjum á ýmsa markaði. í rauninni er það svo, að verulegur hluti af saltsíldinni, sem við flytjum út, er aðeins hálfunnin vara. T.d. næstum öll sú saltsíld, sem við seljum til Svíþjóðar nú á hverju ári, kringum 120—130 þús. tunnur á ári, þessi síld er tekin til miklu fullkomnari vinnslu þar í landi og jafnvel endurútflutnings í mörgum greinum. Þar er sem sagt verðmætið margfaldað frá því, sem það er á hráefninu, sem við fáum fyrir saltsíldina. Auðvitað ber okkur að stefna að því að reyna að vinna hér sem dýrmætasta vöru úr okkar saltsíld, en minnka það jöfnum höndum að flytja hana út í því hálfverkaða ástandi, sem við höfum gert í langan tíma. Auðvitað gildir það um alla þessa framleiðslu, að við mundum reka okkur á nokkra byrjunarörðugleika, ýmis vandamál, bæði tæknilegs og kunnáttulegs eðlis og eins líka í sambandi við söluna í hinum einstöku markaðslöndum, en yfir þá erfiðleika verðum við að komast og getum komizt að sjálfsögðu ekki síður en aðrir.

Nefna mætti að sjálfsögðu miklu fleiri greinar af útfluttum sjávarafurðum, sem alveg augljóslega er hægt að nýta miklum mun betur en við höfum gert á undanförnum árum, ef við snerum okkur að því verkefni að vinna þær vörur meira og betur en við höfum gert.

Svipað er í rauninni ástatt um okkar landbúnaðarafurðir í ýmsum greinum. Þær þeirra, sem við flytjum út, höfum við flutt út á undanförnum árum sem mjög litið unnar vörur eða í bezta lagi hálfunnar vörur. Við vitum, að við höfum flutt allmikið af íslenzku ullinni út gersamlega óunninni og hún hefur verið mjög eftirsótt hráefni í mörgum löndum, og það leikur enginn vafi á því, að íslenzka ullin er mjög gott hráefni og það væri auðvitað hægt fyrir okkur að byggja hér upp iðnað í okkar landi á grundvelli þessa hráefnis og margfalda þannig verðmæti íslenzku ullarinnar gjaldeyrislega séð. Svipað eða í rauninni það sama er að segja um þau skinn, sem við flytjum út. Þar er um mikið til óunna vöru að ræða, og við vitum, að það er sótt eftir þeirri vöru hjá okkur frá fjöldamörgum löndum, vegna þess að í þeim löndum er kappkostað að fá slíka vöru sem hráefni til frekari vinnslu í löndunum sjálfum, en þessa vinnslu gætum við og ættum við að sjáifsögðu að taka að okkur. Nokkuð svipað er að segja um kjöt það, sem við flytjum út. Það höfum við flutt út í eins lítið unnu ástandi og getur verið um að ræða. Ég er ekki í neinum vafa um, að það liggur fyrir okkur að koma hér upp í landinu líka nokkuð fullkominni kjötvinnslu og flytja þetta kjöt okkar út miklu meira unnið og þar með sem verðmætari útflutningsvöru en við höfum gert.

Ég skal nú ekki telja hér upp miklu fleira en þetta, en af miklu er í rauninni að taka um möguleika á því að auka við okkar útflutningsiðnað, efla þann útflutningsiðnað, sem fyrir er, og auka við í nýjum greinum. Möguleikarnir eru miklir og þá fyrst og fremst við það miðaðir að notfæra sér þau hráefni, sem til falla í landinu sjálfu. Við höfum veitt því athygli, að á undanförnum árum hefur það orðið algengara og algengara, að rætt sé um, að það sé nauðsynlegt íslenzku efnahagslífi að gera atvinnuvegi okkar fjölbreyttari en Þeir eru. í þeim efnum er allmikið rætt um það, að hér þurfi að koma upp stóriðnaði, og ýmsar greinar eru tilnefndar. Nú um þessar mundir er allmikið rætt um, að það þurfi að koma hér upp mikilli alúminíumvinnslu, og ýmsar fleiri greinar hafa verið nefndar. Ég er ekki í neinum vafa um það, að þau verkefni, sem í þessum efnum standa okkur miklu nær en að koma hér upp alúminíumvinnslu eða leyfa erlendum aðilum að byggja hér stóriðjufyrirtæki, þau verkefni, sem liggja okkur miklu nær til að styrkja okkar atvinnuvegi og til að gera þá í raun og veru fjölbreyttari og auka okkar gjaldeyristekjur, eru að snúa okkur að því að vinna meira úr okkar eigin framleiðsluvörum en við höfum gert. Þar eigum við miklu meiri möguleika fyrir okkur en þótt við snerum okkur að stóriðju á þeim grundvelli, sem hér hefur mest verið rætt um að undanförnu. Við skulum hafa það í huga í þessum efnum, að það er alviðurkennt, að öruggasta framleiðslugreinin, sem menn ræða um nú, er einmitt sú grein, sem er tengd við matvælaframleiðslu. Um það eru fulltrúar frá flestum þjóðum sammála, að eitt af stærstu og erfiðustu verkefnunum, sem liggja muni fyrir að ráða við í heiminum á næstu árum, er einmitt að geta framleitt nægilega mikið af matvælum handa íbúum á okkar jörð. Það er því allt, sem bendir til þess, að Þeir, sem eru fyrst og fremst bundnir við það að framleiða matvæli, eiga þar við að búa eina öruggustu framleiðslugreinina. Hins vegar er hitt líka viðurkennt, að í ýmsum öðrum greinum, t.d. eins og öllum efnaiðnaði, eru sveiflurnar svo miklum mun meiri nú á tímum, að þar er um allmikla áhættu að ræða, einkum fyrir litil þjóðfélög, fyrir lítil efnahagskerfi, að ætla sér að byggja í mjög stórum stíl á framleiðslu einstakra efna, sem vitanlega geta svo að segja horfið af markaðinum eða orðið að víkja fyrir öðrum nýrri, sem ryðja sér þar til rúms á tiltölulega mjög skömmum tíma. Það er því ekki nokkur vafi á því að mínum dómi, að það, sem við Íslendingar eigum að gera í okkar efnahagsmálum í þessum efnum, er einmitt að reyna að notfæra okkur í vaxandi mæli þá gífurlega miklu möguleika, sem við eigum á því að stórauka okkar útflutningsverðmæti með því að vinna meira úr sjávarvöruframleiðslu okkar og að vinna meiri og dýrari vöru einnig úr hráefnum okkar landbúnaðarframleiðslu. Það er á þessum sviðum, sem við eigum stórverkefni óleyst, og við erum einmitt svo heppnir í þessum efnum, að við liggjum réttu megin, við erum aðallega bundnir við matvælaframleiðslu, einmitt þá framleiðslugreinina, sem viðurkennd er langöruggust, langauðveldust og bezt að treysta á. En hitt er að verulegu leyti villuljós að mínum dómi, að ætla að hlaupa frá þessu verki hálfnuðu og reikna með því, að nýjar og okkur að ýmsu leyti mjög framandi starfsgreinar geti raunverulega leyst af hóimi að meira eða minna leyti þá gömlu atvinnuvegi okkar, sem við höfum þó treyst á til þessa.

Mér er það að vísu ljóst, að það er eðlilegt, að við Íslendingar tökum okkar eðlilega þátt í því að byggja upp verksmiðjur í ýmsum greinum, eftir því sem geta okkar og aðstaða leyfir, t.d. á svipaðan hátt og við gerðum, þegar við byggðum hér sementsverksmiðju og tókum þá framleiðslu í okkar hendur, eða þegar hér var komið upp áburðarverksmiðju. Slíkar framleiðslugreinar eru eðlilegar og geta fyllilega átt rétt á sér í íslenzku efnahagslífi. En ég lít allt öðrum augum á einhver risafyrirtæki eins og alúminíumframleiðslu. Ég álít, að slík framleiðsla geti ekki orðið að neinum verulegum stuðningi fyrir íslenzkt athafnalíf og það sé mjög hæpið að ætla að skerða þá möguleika, sem við annars eigum til þess að útvega okkur lán erlendis, t.d. til að koma hér upp fullkomnum og miklum fiskiðnaði eða iðnaði til að vinna úr landbúnaðarvörum, — að skerða okkar möguleika á þeim sviðum með því að taka stórfelld erlend lán, sem raunverulega eiga að bindast í því að gera það kleift, að erlendir aðilar geti rekið hér alúminíumverksmiðju í einhverja áratugi.

Þessi till., sem hér liggur fyrir, ætti, ef samþykkt yrði, að opna möguleikana fyrir því, að gaumgæfileg athugun færi fram á því, hvaða möguleika við eigum til þess að efla okkar útflutningsiðnað, og það tel ég orðið mjög aðkallandi mál, ekki sízt eins og Þessum málum hefur nú verið háttað hér að undanförnu, Þegar rætt er um nauðsyn þess að efla og auka okkar atvinnuvegi. Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð hér að sinni, en óska eftir því, að þessari till. að lokinni þessari umr. verði vísað til hv. fjvn.