27.11.1963
Sameinað þing: 22. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í D-deild Alþingistíðinda. (3281)

74. mál, Listasafn Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. í þeim viðræðum, sem á undanförnum árum og þó einkum nú á þessu ári hafa farið fram á milli stjórnar Listasafns Íslands og mín, hefur það eitt verið rætt, hvaða leiðir væru tiltækilegar til þess að hraða byggingu yfir Listasafn Íslands hér í Reykjavík. Þá hugmynd hefur ekki borið á góma í þeim viðræðum að reisa hús yfir Listasafnið á fleiri stöðum en hér í höfuðborginni. En ýmsar hugmyndir í því efni hafa verið ræddar, þ.e. hvort um eina aðalbyggingu skuli vera að ræða eða fleiri minni og hvort aðalbygging skuli reist í áföngum, hvernig hún skuli skipulögð og þar fram eftir götunum, atriði, sem ég tel ekki ástæðu til að ræða nánar hér. Hitt hefur sem sagt ekki borið á góma, að Listasafnið hefði útibú, ef svo mætti segja, á stöðum utan Reykjavíkur. En sú hugmynd hefur verið rædd mjög ýtarlega og er nú í athugun, að Listasafn Íslands efni til farandsýninga á þeim listaverkum, sem Listasafn Íslands á og hefur til sýningar. Þar er um að ræða, að ég tel, mjög góða hugmynd, sem að vísu mundi verða nokkuð kostnaðarsöm í framkvæmd, en er þá allrar athygli verð, því að það er vissulega rétt, að höfuðstaðarbúar einir eiga ekki að eiga þess kost að skoða og njóta þeirra listaverka, sem Listasafn Íslands á. Listasafnið er að sjálfsögðu eign landsmanna allra, og þess vegna hefur sú hugmynd verið í athugun og ég vona, að ekki líði allt of langt þangað til hún kemst í framkvæmd, að Listasafnið efni skipulega til farandsýninga á verkum sínum um landið, fyrst og fremst í hinum stærstu kaupstöðum utan Reykjavíkur, en einnig í dreifbýli, þótt slíkar sýningar hlytu væntanlega að verða nokkru minni en sýniagar, sem hægt er að efna til í hinum stærri kaupstöðum. Þó veita hin glæsilegu félagsheimili, sem víða eru nú til í dreifbýli, skilyrði til þess, að unnt yrði að efna til myndarlegra íslenzkra málverkasýninga á fleiri stöðum en í kaupstöðunum sjálfum.

Með þessu móti vona ég, að efni fsp. hv. síðasta ræðumanns sé svarað.