04.12.1963
Sameinað þing: 24. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í D-deild Alþingistíðinda. (3306)

803. mál, flóabátaferðir og endurskoðun á rekstri Skipaútgerðar ríkisins

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það er enginn vafi á því, að menn víðs vegar um landið verða nú orðið fyrir stórtjóni, ekki sízt í atvinnurekstri, vegna þess að strandferðaþjónustan er orðin ófullnægjandi, getur ekki komið út um land t.d. þeim vörum, sem þarf. Veldur þetta stórfelldum vandræðum á marga vegu. Það er því full ástæða til að endurskoða þessi mál, eins og raddir hafa verið uppi um á síðustu þingum og ýtt hefur verið á hér á hv. Alþingi. Það hefur áreiðanlega ekki verið of mikið gert úr heim vanda, sem orðinn er í þessu efni. Hér hefur komið fram hjá hæstv. ráðh., að erlendir menn hafi verið fengnir til að skoða þessi mál, og það mun sönnu næst, að erlendir hagsýslufræðingar, ef svo mætti kalla þá, norskir, hafi verið hér að verki árum saman að líta á strandferðamálin og eftir því sem ég bezt veit gefið út mörg álit um þau efni, sem jafnharðan hafa svo farið til skoðunar hjá íslenzkum mönnum, sem hafa þá aftur verið á annarri skoðun en hinir norsku, eins og raunar hæstv. ráðh. kom inn á, m.a. um það, hvað hægt væri að gera í tæknilegum efnum í þessu sambandi. Enn fremur kom það fram hjá hæstv. ráðh., að hann hefði nýlega frétt, og mér þótti það dálítið einkennilegt orðalag, af því að hann fer nú með þýðingarmikinn þátt samgöngumálanna, að hann sagðist hafa nýlega frétt, að maður hefði verið hér á vegum Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu til að athuga samgöngumálin í heild, og þá sennilega, að ráðh. hafi ekki fengið aðstöðu til að fylgjast með starfi þessa manns, sem hann sagði, að því er mér skildist, að væri lokið og hann hefði einnig gefið bendingar um tæknileg efni og ýmislegt fleira í sambandi við strandferðirnar.

Allt þetta, sem hér hefur verið tekið fram, og það, sem hæstv. ráðh. upplýsti um þetta sýnir, að nú er orðið tímabært — og hefði átt að vera búið að gera það fyrr — að skipa nefnd til að endurskoða strandferðamálin, enda voru till. uppi um það hér á hv. Alþingi. Og því vil ég, og ég stóð upp til þess fyrst og fremst, leggja áherzlu á, að það verði mþn. kosin af Alþingi, sem fjallaði um þessi mál. Það er á allan hátt alveg eðlileg málsmeðferð. Það er mjög slæmt, að það hefur minna verið gert að því nú í nokkur ár að kjósa mþn. á Alþingi í svona löguð mál en áður var og farið að skipa þær nefndir öðruvísi. Það koma færri sjónarmið til greina með því að hafa nefndirnar þannig og er á allan hátt, t.d. varðandi mái eins og samgöngumál, að mínu viti ótilhlýðilegra. Eðlilegra er, að Alþingi kjósi slíkar nefndir og það séu mþn.

Ég vil skora á hæstv. ráðh., þar sem hann er á þeirri skoðun, að það þurfi einmitt að skipa sérstaka nefnd innlendra manna til að íhuga þessi efni, að beita sér einmitt fyrir því, að það verði mþn., sem verður kosin í þetta mál núna. Það er ekkert nema gott um það að segja að fá erlenda menn til að líta á þessi efni, sérstaklega frá tæknilegu sjónarmiði, því að þeir geta áreiðanlega margt bent á tæknilega, sem mönnum hér er ekki jafnvel kunnugt. En á hinn bóginn er augljóst, að erlendum mönnum, sem koma og dveljast hér stutta stund, verður algerlega um megn að gera heildartill. um samgöngumál þjóðarinnar. Það er auðvitað alveg sjálfsagt, að þeim verður það um megn, þá skortir öll skilyrði til að gera slíkt. En samt sem áður ætti að vera hægt að hafa gagn af þessum álitum tæknilega séð, og ég vil endurtaka áskorun mína til hæstv. ráðh. um að velja nú þann kostinn að hafa það mþn., sem fjallar um strandferðamálin.