11.03.1964
Sameinað þing: 52. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í D-deild Alþingistíðinda. (3371)

183. mál, stöðvun á fólksflótta úr Vestfjarðakjördæmi

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Spurt er: „Er lokið áætlun þeirri og tillögugerð til stöðvunar fólksflótta úr Vestfjarðakjördæmi, sem Alþ. með þál. 19. apríl 1963 skoraði á ríkisstj. að fela Framkvæmdabanka Íslands í samráði við stjórn atvinnubótasjóðs og hlutaðeigandi sýslunefndir og bæjarstjórn að gera fyrir árslok 1963? Á hvern hátt hefur verið haft samráð við sýslunefndir og bæjarstjórn á Vestfjörðum um hina fyrirhuguðu áætlunar- og tillögugerð?“

Þál., sem hér er vitnað til, var samþ. á Alþ. 19. apríl, eins og í fsp. greinir, og fór í aðatatriðum í þá átt að skora á ríkisstj. að fela Framkvæmdabankanum að semja 5 ára framkvæmdaáætlun í samráði við stjórn atvinnubótasjóðs og hlutaðeigandi sýslunefndir og bæjarstjórn til stöðvunar fólksflóttanum úr Vestfjarðakjördæmi. Þessi þáltill. var send félmrn. snemma í maímánuði 1963, og hlutverk rn. var í rauninni ekki annað, a.m.k. ekki til að byrja með, heldur en koma henni áleiðis til Framkvæmdabankans með tilmælum um það, að hann innti af höndum þá athugun og þá tillögugerð, sem í þál. felst. Þetta bréf var sent Framkvæmdabankanum 27. maí 1963. Það hefur þess vegna verið spurzt fyrir um það hjá Framkvæmdabanka Íslands, hvað þessum störfum liði, og mér hefur borizt frá Framkvæmdabankanum svar við því með bréfi, dags. í gær. Ég held, að ég skýri málið bezt með því, að ég lesi það upp, með leyfi hæstv. forseta. Bréfið er svo hljóðandi:

„Sem svar við bréfi hins háa ráðuneytis, dags. hinn 6. marz s.1., um þál. um 5 ára framkvæmdaáætlun til stöðvunar fólksflótta úr Vestfjarðakjördæmi, sem samþ. var á Alþingi 19. apríl 1963, vill bankinn hér með taka fram eftirfarandi:

Félmrn. sendi þál. til Framkvæmdabankans með bréfi hinn 27. maí 1963. Þar sem hagdeild Framkvæmdabankans hafði verið flutt til Efnahagsstofnunarinnar hinn 1. júlí 1962, tók bankastjórinn, sem á sæti í stjórn Efnahagsstofnunarinnar, málið upp við forstjóra hennar, Jónas Haralz, og varð það að samkomulagi, að Efnahagsstofnunin skyldi taka að sér að vinna verkefnið í samráði við Framkvæmdabankann, enda er verkið nátengt ýmsum þeim verkefnum, sem Efnahagsstofnunin starfar að. Fyrsta skrefið var að ráða Valdimar Kristinsson viðskiptafræðing til þess að vinna að málinu með gagnasöfnun og rannsóknum. Seðlabankinn samþykkti, að Valdimar mætti taka að sér verkið, en hann er fastur starfsmaður Seðlabankans. Síðar var þess farið á leit við Efnahags- og framfarastofnunina í París, að hún greiddi kostnað við dvöl erlends sérfræðings hér á landi til þess að vinna með Valdimar. Samþykkti Efnahags- og framfarastofnunin þessa málaleitan, og var leitað eftir því að fá sérfræðing frá Distrikternes utbygningsfond í Noregi, en það er sú stofnun í nágrannalöndunum, sem einna mesta reynslu hefur á þessu sviði. Var þessari málaleitun vel tekið af Norðmönnum, en sökum anna þeirra sérfræðinga, sem til greina koma, hefur enn ekki verið hægt að fá fullnaðarákvörðun um það, hvaða sérfræðingur getur komið né hvenær, en hans er von í sumar.

Framkvæmdabankinn hefur skrifað sýslum Vestfjarða og Ísafjarðarkaupstað og óskað athugana og hugmynda varðandi málið, ef til séu. Ætlunin er að ljúka verkinu á þessu ári, en um þetta er erfitt að fullyrða meðan hinn erlendi sérfræðingur er enn ófenginn. Undanfarið hefur Valdimar Kristinsson rætt opinberlega vandamál strjálbýlis og fólksfækkunar, en þau mál eru að sjálfsögðu þáttur þess starfs, sem hann hefur tekið að sér.“

Þetta er svar Framkvæmdabankans, og ég ætla, að svarið skýri nokkurn veginn til fulls það, sem um er spurt. Það hefur verið leitað aðstoðar hinna færustu manna til þess að fá skynsamlega lausn á þessu máli. Að vísu dregst það lengur en þáltill. gerir ráð fyrir, en í það tel ég að ekki sé horfandi, ef um meiri háttar rannsókn og víðtæka verður að ræða á málinu, sem von er til með aðstoð hins íslenzka starfsmanns og tilkomu hins erlenda sérfræðings. Ég ætla, að þetta sé nokkurn veginn tæmandi svar við því, sem um hefur verið spurt.