06.05.1964
Sameinað þing: 73. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 961 í D-deild Alþingistíðinda. (3460)

218. mál, stóreignaskattur

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það er nú örstutt mál, eins og vera ber eftir þingsköpunum.

Stóreignaskatturinn var lögleiddur árið 1957, eins og hér var sagt áðan, og í stóreignaskattsl. frá 1957 var í öllum aðaldráttum farið eftir sömu reglu og í stóreignaskattsl. frá 1950, sem Sjálfstfl. stóð að ásamt Framsfl. Það var búið eins að félögunum í báðum þessum skattalagabálkum, og ákvæðin um mat á eignum til skatts voru yfir höfuð byggð í aðalatriðum á sömu reglu. Hvor tveggja þessi lög voru byggð á því að meta eignir undir þáv. gangverði til þess að vera alveg vissir um, að ekki væri gengið of langt í skattlagningunni, og eignir í hlutafélögum átti að meta eftir verðmæti þeirra á sama hátt og aðrar eignir, en skattleggja hvern einstakling aðeins, en ekki félögin, og þá einstaklinga í landinu af þeirri eign, sem þeir ættu samtals í öllum félögum, hvort sem það voru samvinnufélög eða hlutafélög. Þetta voru fullkomlega réttmæt og réttlát skattalög, bæði þau, sem gerð voru 1950, og þau, sem gerð voru 1957.

En svo bregður þannig við, að þegar síðari lögin eru sett, er stofnað sérstakt félag til þess að reyna að komast hjá því með öllu hugsanlegu móti að greiða skattgjöldin samkv. lagaákvæðunum og farið í margvísleg mál til þess að reyna að véfengja einstök atriði í skattabálkinum. Og þar kom, að dómstólarnir dæmdu, að ólöglegt væri eða bryti í bága við stjórnarskrána að meta eignirnar í félögunum eftir innra verðmæti hlutabréfanna, en það var það, sem l. fjölluðu um, heldur ætti að meta hlutabréfin sjálf eftir líklegu söluverði eða gangverði þeirra. En þessi meginregla í seinni l. var sú sama og í þeim fyrri, en nú var reglan metin ólögleg. Þá varð að taka skattinn upp allan, eins og hæstv. fjmrh. gat um. Hér var um svo stórkostlegt atriði að ræða, að skatturinn lækkaði út af því mjög verulega, eins og hann gerði grein fyrir.

Þetta vildi ég nú segja út af þeim viðbótaraths., sem hæstv. ráðh. var að flytja hér áðan, að það hefði verið illa frá skattalögunum gengið.

Nú er það augljóst, að hæstv. ráðh. hefur ekki gengið fram í því að innheimta skattinn, eins og hefði átt að vera, og hann segir það vera vegna þess, að enn sé ólokið einhverjum málum út af skattinum. En hæstv. ráðh. veit það auðvitað jafnvel og við öll, sem hér erum inni, að það eru ævinlega í gangi margir tugir mála út af álagningu tekju- og eignarskatts, og ekki dettur nokkrum fjmrh. í hug, að það eigi að hætta við innheimtu á tekju- og eignarskattinum og bíða eftir því, að öllum málum ljúki. Það yrði þokkaleg innheimta á tekju- og eignarskatti, ef þannig ætti að haga sér. Slíkt er ekki hugsanlegt. Það eru ævinlega í gangi tugir mála fyrir dómstólum út af tekju- og eignarskattslöggjöfinni, hvort rétt sé farið að í framkvæmd hennar í einu og öðru tilliti. Slíkan hátt er því auðvitað ekki hægt að hafa á.

Ég ámæli hæstv. ráðh. ekki fyrir það, þó að hinkrað væri við, meðan stærsta málið var til meðferðar, því að það greip svo víða um sig. En nú síðustu árin hefði vitanlega átt að innheimta hiklaust stóreignaskattinn þrátt fyrir þessi smærri málaferli, sem hafa verið í gangi, að ég nú ekki tali um þessi smæstu mál, sem enn er ólokið.

Sjá allir, að hér liggur fiskur undir steini og skattborgararnir eru ekki látnir allir sitja við sama borð, því að þessi hæstv. fjmrh, er duglegur skattheimtumaður, — það held ég, að verði aldrei af honum skafið, — og leggur ekki fingurna á milli í því tilliti, því að hann er t.d. eini fjmrh. í sögu Íslands, sem hefur gengið svo langt að leggja skatt á fisksoðningu manna. En fram að þessu hefur hún verið óskattlögð.

Þá veit ég ekki til annars en þessi hæstv. ráðh. hafi látið ganga hraustlega fram í því að innheimta tekjuskattinn af tekjum manna og það af þeim, sem hafa haft minna undir höndum en þeir, sem eiga að greiða stóreignaskattinn. Þar hafa ekki verið lagðir fingurnir á milli. En það er eins og þar stendur, það er ekki sama Jón og séra Jón.