06.05.1964
Sameinað þing: 73. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 962 í D-deild Alþingistíðinda. (3461)

218. mál, stóreignaskattur

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það er auðvitað fróðlegt að heyra þá yfirlýsingu frá einum aðalhöfundi þessara laga enn í dag, að þetta séu réttmæt og réttlát skattalög. Hv. 1. þm. Austf. (EystJ) virðist ekki skipta það nokkru minnsta máli, hvað æðsti dómstóil landsins segir um l. Þó að hann sé búinn að ógilda viss ákvæði l. og fara þeim ummælum um mörg ákvæði þeirra og l. í heild, að jaðri við að verði að fella þau úr gildi, þá kemur það auðvitað ekki við hv. 1. þm. Austf. Hann stendur á því enn þá, að þessi lög séu í einu og öllu réttmæt og réttlát.

Hv. 1. þm. Austf. segir, að það sé engin ástæða til þess að fresta framkvæmd l., þótt í gangi séu einhver málaferli út af þeim, þannig sé það um tekjuskatt og eignarskatt, að málín gangi jafnan út af þeim l. Skil ég ekki, hvernig hv. þm. dettur í hug að jafna slíku saman. Vitanlega fara menn í mál út af útsvari sínu og tekjuskatti og mörg slík mál í gangi á hverju ári. En er hægt að jafna því saman við löggjöf, þar sem þegar er búið að ógilda af æðsta dómstóli þjóðarinnar veruleg atriði löggjafarinnar og gagnrýna hana harðlega í öllum meginatriðum? Þetta er auðvitað ekki sambærilegur hlutur, enda eru þessi stóreignaskattslög frá 1957, sem betur fer, algert einsdæmi í sögu landsins.

Hv. sami þm. segir, að l. frá 1957 séu í öllum aðalatriðum byggð á stóreignaskattsl. frá 1950. Nú vil ég taka það fram, að ég fyrir mitt leyti var ekki ánægður með l. frá 1950 í öllum greinum. En ég vil taka það skýrt fram, að hér er farið með alveg staðlausa stafi, því að í mörgum meginatriðum eru l. frá 1957 á allt annan veg en l. frá 1950. Það þarf ekki frekar vitnanna við heldur en benda á þá dóma, sem gengið hafa í málunum.

Varðandi innheimtuna verð ég að segja það, að mér virðist nú skörin vera farin að færast upp í bekkinn, þegar tveir af þeim ráðh. úr vinstri stjórninni, sem stóðu að setningu þessarar endemislöggjafar, leyfa sér að koma hingað og deila á núv. ríkisstj. fyrir, að hún hafi brotið af sér í þessum efnum. Hv. þm. segja: Það átti að innheimta skattinn með harðri hendi. Við skulum líta á, hvernig það hefði litið út. Upphaflega er skatturinn um 137 millj. Við skulum segja, að það hefði verið gengið eftir honum með harðri hendi og skilað þeim skatti og því, sem inn kom af skuldabréfum, til þeirra aðila, sem áttu að fá hann, undireins, þ.e.a.s. húsnæðismálastjórn 2/3 og veðdeild Búnaðarbankans 1/3. Síðan, þegar upp er staðið, er kannske búið að lækka skattinn niður í 60 millj. Hvað átti þá að gera? Átti þá ríkissjóður við endurgreiðslurnar, sem varð að inna af hendi, að snara út þeim tugum millj., sem þannig hefði verið búið að innheimta með hörkuaðgerðum, lögtökum og uppboðum að ólögum, eða átti að endurheimta það frá þeim húsbyggjendum, sem búnir voru að fá þetta að láni gegnum húsnæðismálastjórn og veðdeild? Hvernig dettur hv. þm. í hug að færa fram slíkar fjarstæður? Það liggur fyrir, að vegna þess, hve l. voru meingölluð og brutu í bág við stjórnarskrána, er skatturinn nú í dag tæpur helmingur af því, sem hann var í upphafi á lagður, og ef þetta hefði allt verið innheimt og afhent til lánveitinga handa húsnæðismálastjórn og Búnaðarbankanum, þá getur hver maður skilið sjálfur, hvar við stöndum.

Það er í rauninni ekki ástæða til þess að fara fleiri orðum um þetta mál. Ég held, að ég hafi gert næga grein fyrir því í minni fyrri ræðu. En hv. 5. þm. Austf. (LJós) lét orð falla á þá leið, að framkvæmd laga gæti ekki oltið á því, hvort einhver ráðh. eða einhver ríkisstj. væri óánægð með 1. og hefði verið andvíg þeim. Það er ekki þetta, sem um er að ræða. Það, sem um er að ræða, er það, hvort þessi lög standast eða að hve miklu leyti þau standast fyrir dómstólum landsins, og ríkisstj. á Íslandi og einstakir ráðh. hafa engin áhrif á þá dóma, sem hæstiréttur kveður upp. Ég held, að hver maður, sem vill líta á þessi mál af sanngirni, hljóti að sannfærast um, að það hefði verið fásinna, meðan þessir dómar dundu yfir og hrikti í 1. og vafasamt um tíma, hvort þau mundu standast í heild, — ég held, að hver sanngjarn maður hljóti að sjá, að það hefði verið fásinna ein og dregið mjög alvarlegan dilk á eftir sér, ef l. hefðu verið framkvæmd með harðri hendi og gengið í innheimtuaðgerðir, eins og ég lýsti áðan, með þeim afleiðingum, sem það hefði haft. Þetta held ég að flestir skilji nema þessir tveir hæstv. fyrrv. ráðh., sem náttúrlega eiga í vök að verjast, þar sem þeir voru aðalhöfundar laganna.