27.02.1964
Neðri deild: 62. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (474)

149. mál, aukatekjur ríkissjóðs

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. í lögum frá 1954 um aukatekjur ríkissjóðs er ákvæði um gjald af veitinga- eða skipunarbréfum fyrir embættum og sýslunum. Þetta gjald er mismunandi hátt og miðað við launaflokka samkv. launalögum. En vegna þeirrar breytingar, sem á er orðin um launamál opinberra starfsmanna, þarf að gera breytingu á þessum lögum, og er þetta frv. í því skyni flutt. Þar sem nú er ekki lengur um launalög að ræða, verður að miða þetta gjald að sjálfsögðu við þá launaflokka, sem ákveðnir eru með kjarasamningi eða kjaradómi. Við till. um gjaldflokka hefur í þessu frv. verið reynt að komast sem næst þeirri skiptingu, sem gilt hefur til þessa.

Þetta frv. hefur legið fyrir hv. Ed. og verið samþykkt þar einróma. Ég vænti þess, að sama verði niðurstaðan hér, og legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.