17.02.1964
Neðri deild: 57. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í B-deild Alþingistíðinda. (493)

131. mál, jarðræktarlög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði. Ég vil taka það fram, að neitun mín við að flytja frv. það, sem stjórn Stéttarsambandsins hefur beðið mig fyrir, byggist á því, að ég tel, að það sé ekki til bóta að fá það lögfest í heild, eins og það er. Það eru bæði plúsar og mínusar í þessu frv., og ég hef talað alveg hreinskilnislega við stjórn Stéttarsambandsins um þetta. Ég tel það ekki til bóta, ef það á að vera eins og það er úr garði gert. Og það er þess vegna, sem málið hefur ekki verið flutt.

Um vaxtaútreikning hv. 1. þm. Austf. held ég að sé alveg óþarfi að vera að deila. Hann segir, að það sé hallað á bændur núna, þegar reiknað er til útgjalda fyrir bændur 31 þús. í vexti sem kostnaður við búið, en aðeins 8 þús. 1958. Það er aðeins rúml. fjórði partur 1958, sem bændur fengu tekið til greina sem kostnað vegna vaxta, miðað við það, sem núna er. Og ég er dálítið undrandi yfir því, þegar hv. 1. þm. Austf. er að reyna að halda því fram, að þarna hafi komið skekkja í verðgrundvöllinn. Ég held, að allir bændur séu sammála um, að þarna hafi komið stórkostleg leiðrétting, eins og ég benti á áðan, út af hverju sem vextirnir eru komnir, það kemur bóndanum að sama gagni. Og ég vil segja, að það er dálítið hart, að hv. 1. þm. Austf. skuli halda því fram, að verðgrundvöllurinn hafi verið skekktur eða raunverulega versnað fyrir bændur nú síðustu árin, þar sem bændur voru sammála í 6 manna nefnd, sömdu við neytendur í sept. 1962. Ég er alveg viss um það, að fulltrúar bænda í 6 manna nefnd 1962 gerðu samkomulagið af því, að þeir sannfærðust um, að það væri sæmilegt, enda viðurkennt, að þá fékkst nokkur leiðrétting, 6–7% leiðrétting, og það er einnig viðurkennt, að það fékkst 6–7% viðurkenning s.l. haust, þótt ekki væri samið. Þetta viðurkenna bændur, þótt hv. 1. þm. Austf. vilji ekki við það kannast, og ég undrast það, að hann skuli reyna að gera tilraun til að mótmæla þessu hér, sem bændur út af fyrir sig eru sammála um, þótt þeir viðurkenni það og haldi því fram, að þetta sé ekki nægileg leiðrétting. (Gripið fram í: Meinar ráðh. þetta?)

Hv. áheyrandi, Hermóður á Sandi, það gleður mig, að hann skuli vera kominn hér til að hlusta á okkur og til að lesa mína ræðu, sem vitanlega var sjálfsagt að hann fengi að gera til þess að sjá, hvaða ummæli ég hafði um hann, alveg sjálfsagt, og það gleður mig, að hann er kominn hér á áheyrendabekk. En hv. þm. þarf ekki að spyrja að því, hvort ég meini það, að verðgrundvöllur landbúnaðarvara hafi verið leiðréttur s.l. haust og 1962, því að allir útreikningar sanna það. En við Hermóður á Sandi gætum verið sammála um það, að þetta hafi ekki verið nægileg leiðrétting. Við skulum vera sammála um það. En við skulum ekki neita staðreyndunum.

Hv. þm. var að tala um fyrningarafskriftir, að þær hefðu eitthvað versnað. Þetta er ekki rétt, en fyrningarafskriftir eru teknar af of lágri upphæð, 80 þús., það er ég sammála honum um. En hvað var þetta 1958? Voru þetta ekki 30 þús.? Við skulum ekki setja alveg kíkinn fyrir blinda augað, þegar við erum að ræða um þessi mál og gera samanburð. Við getum verið sammála um, að það séu skekkjum í verðlagsgrundvellinum, sem þurfi að leiðrétta. En við getum þá líka verið sammála um, að það hafi verið enn þá meiri skekkjur 1958, þegar bændur fengu enga vexti reiknaða af eigin fé og fyrningarafskriftirnar voru enn þá minni en þær eru nú. Af hverju ekki að viðurkenna það í leiðinni?

Og það er nú alveg vonlaust fyrir hv. 1. þm. Austf. að halda því fram, að það hafi alla tíð verið baráttumál Framsfl. að koma ræktunarmarkinu upp í 25 ha., þegar hv. þm., meðan hann hafði völd, neitaði að setja markið yfir 10 ha. fyrir 6 árum? Það eru ekki nema 6 ár síðan þessi hv. þm. neitaði að setja markið hærra en 10 ha., og það er ekki fyrr en hv. þm. er kominn í stjórnarandstöðu, að hann telur fært að hækka markið. Við skulum vera sammála um það, hv. 1. þm. Austf. og ég, að það er ánægjulegt, að við höfum þó sett þetta mark nú og að því verður keppt að koma túnstærðinni a.m.k. upp í þetta. Og við skulum ekki vera að gera lítið úr því, við skulum vera sammála um það, að þetta sé gott og mikilvægt spor, og ég er sannfærður um það, að við eigum eftir að sjá góðan árangur af því.

Það er ekki ástæða til að fara mörgum fleiri orðum um það, sem hv. þm. sagði. Hann talar um, að það gangi of hægt, það gangi allt of hægt að fá leiðréttingar og framfarir. Ég get verið sammála hv. þm. um það. Það væri æskilegt, að þetta gæti allt gengið betur og hraðar. Það væri vissulega æskilegt, að ræktunin gæti gengið örar og uppbyggingin og efnahagur bænda og annarra landsmanna mætti breytast til batnaðar á örari máta en orðið hefur. En það er ekki við öðru að búast en þetta gangi nokkuð hægt. Aðalatriðið er, að það miði í rétta átt og að við förum heldur hraðar í ár en árið áður. Þá stefnum við rétt.

Um afurðalánin talaði hv. þm. hér áðan og sagði, að það hefði verið lánað 67%, þegar hann var við völd, og það hafi vel verið hægt að gera það og það væri ekkert nema blekking að halda því fram, að nú væri ekki nægilegt fjármagn í Seðlabankanum til þess að halda sama hlutfallinu. En ég vil minna hv. 1. þm. Austf. á það, að þegar hann var í ríkisstjórn, þá var enginn gjaldeyrisvarasjóður til, sem þurfti að tryggja. Nú eru 1350 millj. kr. í gjaldeyrisvarasjóði, og Seðlabankinn þarf að hafa fé, sem er jafnvirði þess, til að tryggja það, að gjaldeyrisvarasjóðurinn eyðist ekki upp. Og erum við nú ekki sammála um, að við eigum að reyna að halda þessum gjaldeyrisvarasjóði við og vera sammála um, að í rauninni hafi Seðlabankinn ekki getað lánað 67%, þegar hann gerði það í tíð fyrrv. stjórnar, vegna þess að þá var enginn gjaldeyrisvarasjóður til, og það sem verra var, það söfnuðust gjaldeyrisskuldir, sem voru svo geigvænlegar, að lengra mátti ekki fara í því efni? Þegar við athugum það, þá ættum við að vera sammála um, að það er ekki hægt að lána 67% úr Seðlabankanum, eins og gert var áður, þótt það hafi verið brýn nauðsyn, en nú er að því unnið að auka afurðalánin til aðalatvinnuveganna, landbúnaðar og sjávarútvegs, og meira að segja um það rætt að taka iðnaðinn þar inn líka. Og við skulum vona, að það megi takast, og við stefnum að því, að afurðalánin geti orðið allt að 90%, svo að bændur geti fengið út á afurðirnar sem fyrst eftir að þær eru lagðar inn.