06.02.1964
Neðri deild: 52. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 842 í B-deild Alþingistíðinda. (528)

130. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður taldi, að þetta frv. væri gott, a.m.k. að því leyti sem það væri líkt frv. hv. framsóknarmanna, sem þeir hafa flutt á þessu þingi. Það, sem hv. þm. finnur helzt að því, er, að styrkurinn skuli ekki vera hærri, 65% í staðinn fyrir 50. Það var svo að skilja sem hv. þm. teldi, að þetta frv. væri nú fram komið jafnvel vegna þess, að framsóknarmenn hafi markað sporin og stefnuna í þessum málum. Ég vil aldrei gera lítið úr því, sem er vel gert og rétt gert. Ég hef verið að fletta upp í umr. frá 1957, sem fóru fram, þegar ákveðið var að hækka markið úr 5 ha. upp í 10 ha. Og það má sjá það í Alþingistíðindunum, að hv. framsóknarmönnum fannst það ákaflega stórt og merkilegt spor, sem þá var stigið til framfara í ræktunarmálum landsins. Síðan eru nokkur ár. Það eru 6 ár, síðan sú breyting var gerð, og það gerist vitanlega margt á 6 árum, m.a. það, að 1957 voru hv. framsóknarmenn í ríkisstj. og hv. 1. þm. Austf. gætti þá að ríkiskassanum, að það væri ekki of mikið úr honum tekið, og við þær aðstæður þótti ekki fært að stíga sporið hærra en 10 ha.

Þegar þessi mál voru til umr. þá, hafði þáv. forsrh. og landbrh., Hermann Jónasson, framsögu í málinu og talaði oftar í því, og það voru umr. um málið af eðlilegum ástæðum. Hv. fyrrv. þm. A.-Húnv., Jón Pálmason, vildi ganga lengra í þessum málum en þá þótti fært, en frsm. taldi, að það væri ekki raunhæft að vera með óskalista og byggja sínar ræður út frá því. Það yrði að gera sér grein fyrir, hvað væri fært að gera hverju sinni og hve miklum útgjöldum ríkissjóður gæti staðið undir. Ég geri ráð fyrir því, að ýmsir hv. framsóknarmenn hafi viljað ganga lengra 1957 heldur en í 10 ha. markið, en það þótti ekki fært að láta meira úr ríkissjóði þá heldur en þetta, og sumir hv. framsóknarmenn töldu, að þetta væri svo mikilvægt og stórt spor og merkilegt, að það birtust margar greinar um það í Tímanum, og ýmsir framsóknarmenn vildu láta stimpla sig sem sérstaka framfara- og velgjörðarmenn sveitanna, að koma nú svona langt til móts við þarfir bænda.

En hér erum við að ræða um það í alvöru að lögfesta aukinn stuðning upp að 25 ha. stórum túnum, og ég segi: það er gott, að svo er komið. Það er raunhæfur stuðningur við ræktun í landinu og raunhæfur stuðningur við smábýlin og þá, sem erfiðast eiga. Og í sjálfu sér er ekkert undarlegt, þótt hv. 1. þm. Austf. sé nokkuð svartsýnn á landbúnaðarmálin, þar sem hann er nýkominn úr sínu eigin kjördæmi, sem hefur orðið illu heilli aftur úr hvað framfarir snertir í ræktun og búnaði. Þó er Fljótsdalshérað, að manni sýnist, þegar maður kemur þangað, eitt bezta landbúnaðarhérað. En ég skal viðurkenna, að ég hef ekki nægilega þekkingu á staðháttum þar eystra til að gera mér grein fyrir, hvers vegna þeir hafa orðið svo aftur úr í ræktun og búnaði miðað við aðra landsfjórðunga og önnur héruð, og sem betur fer er ástandið ekki eins slæmt víða annars staðar um landið, eins og sagt er, að það sé í þessum landshluta.

Hv. 1. þm. Austf. sagði, að ástæður landbúnaðarins væru geigvænlega slæmar nú og verri en nokkru sinni fyrr vegna stjórnarstefnunnar, vegna dýrtíðarstefnunnar, sem núv. ríkisstj. hafi markað, enda kæmi dýrtíðin e.t.v. harðast niður á landbúnaðinum. Ég er samþykkur því, að dýrtíðin er ekki til blessunar fyrir landbúnaðinn, og bændurnir hafa ekki kynt undir henni. En hafa bændur átt stuðningi að fagna hjá hv. 1. þm. Austf. í baráttu gegn dýrtíðinni síðustu árin? Má það vera, að hv. 1. þm. Austf. hafi verið baráttumaður gegn dýrtíð síðustu árin? Ég hygg, að það sé flestum ljóst, að hann ásamt öðrum í stjórnarandstöðunni hafi miklu fremur beitt sér fyrir dýrtíðarvagninn og hvar og hvenær sem hann hefur haft tækifæri til hjálpað til að kynda undir dýrtíðinni. Og bændur hafa tekið eftir þessu og vita um þetta. Og það er hægt að finna þessum orðum stað, ef þess verður óskað síðar.

Hv. þm. fullyrti hér áðan, að bændur hafi á engan hátt fengið verðlagningu sinna afurða í samræmi við dýrtíðina. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar, að bændur hafi í rauninni aldrei fengið nægilega hátt verð. Hins vegar er ég sannfærður um það, að bændur hafa fengið ýmiss konar leiðréttingar á verðgrundvellinum frá því, sem áður hefur verið, og að nú síðari árin hafa þeir fengið grundvallarverðið, sem þeir fengu ekki áður. Það dugir ekki fyrir hv. 1. þm. Austf. að tala hér í hv. Alþingi í þeim dúr, að bændur hafi, áður en núv. ríkisstj. kom til valda, búið við einhver sældarkjör og betri kjör en aðrar stéttir þessa þjóðfélags. Það er þýðingarlaust að halda því fram, að bændur hafi lifað einhverju sældarlífi, á meðan hv. 1. þm. Austf. var í stjórn, og allt hafi gengið verr síðan hann komst í stjórnarandstöðu. Ég hygg, að bændur hafi gert sér grein fyrir því, hvað að þeim snýr, og þeir eru fullkomlega færir um að gera samanburð á kjörum sínum nú og kjörum sínum áður. Og bændur eru þess vegna ekki sammála hv. 1. þm. Austf., þegar hann heldur því fram, að bændastéttin sé nú að falli komin vegna þess, hve að henni hefur verið kreppt, og hún hafi aldrei fundið eins tilfinnanlega til þess og nú, að ýmislegt skortir á það, sem æskilegt er að hafa.

Það mátti jafnvel skilja ræðu hv. 1. þm. Austf. þannig, að ríkisstj. hafi verið einhver hemill á verðlagningu landbúnaðarvara. Ef einhver vildi halda því fram, væri það mikil ósanngirni í garð ríkisstj., því að ríkisstj. hefur ekki haft afskipti af verðlagningunni, enda hefur verðlagningin farið fram samkv. lögum um það efni. Og ég vil minna hv. þm. á, að það er ekki lengra síðan en haustið 1962, sem samkomulag varð í 6 manna nefnd um verðlagninguna. Það varð samkomulag í 6 manna nefnd haustíð 1962 um verðlagninguna, og var þá talið, að bændur fengju leiðréttingu á grundvellinum, sem svaraði 6%.

Mér þykir hv. 1. þm. Austf. deila nokkuð hart á flokksbræður sína í 6 manna nefnd, ef hann vill halda því fram, að ríkisstj. hafi neytt þá til samkomulags um verðlagninguna haustið 1962. Það varð samkomulag haustið 1962, vegna þess að bændur fengu þá nokkra leiðréttingu frá því, sem áður var, og þeir, sem fóru með málstað bændanna við verðlagninguna, töldu óforsvaranlegt annað en að semja, þegar það stóð til boða. Haustið 1963 varð ekki samkomulag, og fór málið í yfirdóm. Hins vegar liggur það skjalfest fyrir, að þá var eigi að síður gerð leiðrétting á grundvellinum, sem svarar 6–7%. Hvernig má það vera, að bændur séu nú verr settir í verðlagningunni en áður var, úr því að það er sannað, að þeir hafa fengið 6% leiðréttingu haustið 1962 og 6–7% leiðréttingu 1963, og er þá vitanlega reiknað með tekjum annarra stétta og kostnaði við búreksturinn, því að annars væri ekki hægt að segja, að það væri leiðrétting? Ég hygg, að þeir, sem vinna í 6 manna nefnd, séu dómbærari á þetta en hv. 1. þm. Austf., þótt ég vilji á engan hátt vefengja hans reikningskunnáttu.

Hv. 1. þm. Austf. og fleiri hv. framsóknarmenn hafa nú um nokkurra mánaða skeið borið fyrir sig fullyrðingar, sem einn bóndi viðhafði í viðtali við Tímann, þegar hann sagði, að landbúnaðarvörurnar hafi ekki hækkað nema um 34%, frá því 1958. Þessi bóndi var Hermóður Guðmundsson í Árnesi. Síðan hefur Tíminn oft vitnað í þessi ummæli, og allar ræður og greinar framsóknarmanna hafa verið byggðar á þessum forsendum, þegar um landbúnað hefur verið að ræða. Og það er ekkert undarlegt, þótt útkoman verði dálítið skrýtin, þegar byggt er á þeirri forsendu, að landbúnaðarvörurnar hafi ekki hækkað nema um 34% síðan 1958. Ef þetta væri rétt, var vitanlega hægt að sýna fram á og sanna, að það hefði verið búið verr að bændunum nú en var. Við getum ýmsir verið sammála um það, í hvaða flokki sem við erum, að það sé nauðsynlegt að búa betur að bændunum en nú er gert. En þegar við erum að ræða um þessi mál, þurfum við að reyna að gera okkur grein fyrir því, hvernig ástandið var áður, og reyna að ræða um þessi mál af rökvísi og byggja á réttum tölum, en ekki röngum.

Ég gæti nú bezt trúað því, af því að ég held, að hv. 1. þm. Austf. sé reikningsglöggur, að hann hafi alla tíð vitað, að tölur bóndans í Árnesi eru rangar. Þess vegna hefur hann ekki sjálfur viljað viðhafa þessa fullyrðingu, heldur hefur hann borið þennan mann fyrir sig. Hann hefur haft hann eins og skjöld fyrir framan sig, þegar hann hefur verið með fullyrðingarnar um það, hversu kreppt hefur verið að bændum nú seinni árin og sérstaklega í verðlagningunni. Og það er náttúrlega ákaflega þægilegt, það er Hermóður í Árnesi, sem hefur fullyrt þetta, og við skulum þá bara taka það gott og gilt, byggja okkar ræður og greinar, sem um þetta fjalla, á þeim forsendum, að þetta sé rétt. Það væri hugsanlega hægt að fá flesta, sem lesa Tímann, til þess að trúa því, að þessar tölur séu réttar. Þá er tilganginum með áróðrinum náð, ef það væri hægt að fá bændur til þess að trúa því, að það hafi verið betur búið að þeim, þegar framsóknarmenn voru í stjórn, heldur en nú.

En tæplega verður það skynsamari hluti bændastéttarinnar, sem tekur þessi rök góð og gild, því að það vill til, að margir bændur fá Árbók landbúnaðarins og bera tölurnar saman og gera sér að fullu grein fyrir því, hver hækkun hefur orðið á landbúnaðarverðinu á þessum tíma. Hvernig á því stendur, að Hermóður í Árnesi, sem ég hygg að sé mjög glöggur maður, hefur ekki reiknað rétt, það er mér út af fyrir sig ráðgáta. En ef við viljum hafa það, sem satt er í þessu efnf, þá vil ég segja það hér, hvað afurðirnar hafa hækkað á þessum tíma.

1958 um haustið er grundvallarverð á einum dilk 380.47 kr. Haustið 1963 er grundvallarverðið 664.15 kr. Hækkunin er 74.56%. Og auk þess hefur ullin á þessu tímabili hækkað um 85.16%, þannig að ef við tækjum sauðfjárafurðir alveg sér, nálgast það að vera 77% hækkun. Ég er ekki að segja þetta vegna þess, að ég telji þetta út af fyrir sig nægilega hækkun. Ég tel, að þrátt fyrir þetta eigi bændur ýmislegt inni, vegna þess að ýmsir kostnaðarliðir í verðlagsgrundvellinum hafi ekki enn verið teknir að fullu til greina þrátt fyrir leiðréttingarnar, sem ég áður nefndi. En ég segi þetta vegna þess, að ég tel sjálfsagt að byggja á þeim tölum, sem eru réttar, en ekki rangar. Og það getur ekki verið bændum eða landbúnaðinum til neins gagns, að það sé verið að fara með blekkingar, þegar um þeirra hagsmunamál er að ræða.

Ef við tökum mjólkurafurðirnar, er því til að svara, að grundvallarverð mjólkur var 1958 3.92 kr. S.l. haust var grundvallarverðið 6.19 kr. pr. lítra, hækkun 2.27 kr. eða 57.91%. En til viðbótar þessu má geta þess, að 1958 vantaði bændur víða um land 8–10% á grundvallarverðið, sem eykur vitanlega þennan mismun, vegna þess að nú fá bændur grundvallarverðið.

Þetta eru tölur, sem eru teknar upp úr Árbók landbúnaðarins og verða á engan hátt vefengdar, og er sjálfsagt og nauðsynlegt fyrir alla alþm. að vita, hvað er rétt í þessu. Og ég veit, að hv. alþm. eru þannig gerðir, að þeir vilja byggja á því, sem er rétt, en ekki því, sem er rangt. Til viðbótar þessu vitanlega kemur af sjálfu sér einhver hækkun á mjólkina 1. marz n. k., hvað mikil, það skal ég ekki segja um, það hlýtur að vera það, sem nemur kauphækkun bóndans í verðlagsgrundvellinum. Þetta tel ég sjálfsagt að komi fram, þegar hv. 1, þm. Austf. og reyndar ýmsir áður hafa byggt sína málfærslu á algerlega skökkum forsendum, vonandi óviljandi, e.t.v. af pólitískum ástæðum viljandi að einhverju leyti, vegna þess að tækifærið kom upp í greiparnar og mjög freistandi að nota það. Og það gerist nú svo margt í pólitíkinni, að ég skal ekki fara hörðum orðum um hv. 1. þm. Austf., þótt hann hafi að þessu leyti fallið í freistni, en ég veit, að hann er það glöggur, að hann hættir að nota þetta dæmi oftar, jafnvel þótt Hermóður í Árnesi eigi viðtal við hann eða hans blað.

Hv. 1. þm. Austf. talaði hér í spurnartón áðan um það, hvort væri meiningin, að þróun í landbúnaði ætti að stöðvast. Það er vitanlega alls ekki meiningin. Þess vegna er verið að flytja frv. eins og það, sem hér er á dagskrá. Það er verið að koma í veg fyrir, að þróunin stöðvist, þ.e. vinna að því, að þróunin verði eðlileg og æskileg í landbúnaðinum, og ég hygg, eftir að hafa hlustað á ræðu hv. 1. þm. Austf. hér áðan, að við höfum svipaðan áhuga fyrir því, að þetta megi takast, þótt hv. þm. hafi fallið í þá freistni að reyna hér í nokkuð löngu máli að telja hv. alþm. trú um, að það sé eitthvað skakkt stefnt nú og verr búið að landbúnaðinum nú en á meðan hann hafði meiri áhrif en hann nú hefur haft um sinn. Og hv. þm. spyr að því, hvað ríkisstj. ætli sér að gera í verðlagsmálunum. Hvenær sem ég er spurður að þeim málum, og þótt ég sé ekki spurður, er ég ekkert myrkur í máli um það, hvað ber að gera í verðlagsmálunum, þ.e. að bændur fái framleiðsluverðið og þeir fái kostnaðarliðina viðurkennda. Það getur ekki orðið öðruvísi. Og ég segi það, að úr því að það hefur tekizt að fá verðgrundvöllinn leiðréttan um 6% 1962 og 6–7% 1963, er vissulega stefnt í rétta átt í þessu efni. Og ég vil spyrja hv. 1. þm. Austf.: Hvernig stendur á því, að það þarf að vera að tala um leiðréttingu á verðgrundvelli landbúnaðarvara? Hvernig stendur á því? Það þyrfti ekki að vera að leiðrétta verðgrundvöllinn, ef hann hefði ekki einhvern tíma skekkzt. Og hvenær var það, sem verðgrundvöllurinn skekktist? Það var haustið 1957, og þá var hv. 1. þm. Austf. fjmrh. Það gerðist haustið 1957, að landbúnaðarvörurnar voru hækkaðar þá um haustið um aðeins 1.88%, eftir að kaupgjald hafði hækkað um 12% og margs konar kostnaður við búreksturinn allt að 20%. Það var þá, sem verðgrundvöllurinn var skekktur, og það er vegna þessarar skekkju, sem hefur þurft að vinna að því að fá leiðréttingar. Og ég kemst ekki hjá að minna hv. 1. þm. Austf. á þetta, vegna þess að hann gaf tilefni til þess hér í þeirri ræðu, sem hann flutti áðan.

Þá talaði hv. þm. um lánakjör landbúnaðarins, að þau þyrfti að bæta. Ég er alveg sammála um það, að lánakjör landbúnaðarins hafa ekki komizt í það horf, sem þau þurfa að komast. En einnig það hefur verið lagfært til muna frá því, sem áður var, og með l. um stofnlánadeild landbúnaðarins kemur það tiltölulega fljótt, að bændur eiga greiðari aðgang að lánum en nokkru sinni fyrr. Það er alveg tilgangslaust fyrir hv. þm. að halda því fram, að það hafi allt verið í lagi með lánamálin 1957 og 1958 og áður. Það var alls ekki í lagi. Þau lán, sem bændur fengu, fengu þeir að vísu með vægum vaxtakjörum. Þau voru með vægum vaxtakjörum, 3½% og 4%. En það var allt of lítið, sem þeir fengu af þessum lánum. Og veit ekki hv. þm., að lausaskuldalánin, sem voru hér til umr. á Alþ. 1961, stöfuðu af lausaskuldum, sem söfnuðust á árunum 1957 og 1958, af því að bændur fengu svo lítið af hagstæðum lánum í Búnaðarbankanum? Bændur voru að byggja og bændur voru að rækta. Bændur fengu 75 þús. kr. lán út á íbúðarhús 1957 og 1958, en engan byggingarstyrk, og bændur sátu þá eftir með víxla, því að það bættist við þetta, að það voru hlutfallslega lægri lán þá út á ræktun og útihúsabyggingar heldur en nú, og engin lán til vélakaupa eins og nú hefur verið tekið upp að framkvæma. Nú hafa vextirnir að vísu verið hækkaðir á lánunum, eins og hv. þm. nefndi, en það er rangt hjá honum, að vextirnir hafi ekki verið teknir inn í grundvöllinn. Það eru fulltrúar bænda í 6 manna nefnd sammála um, að sá liður hafi fengizt inn í verðlagsgrundvöllinn. Það er ekki það, sem vantar að leiðrétta, það er ýmislegt annað, og þess vegna kemur vaxtabyrðin ekki eins þungt niður á bændum og ætla mætti, vegna þess að það er tillit tekið til þeirra í kostnaðinum við búreksturinn, þegar landbúnaðarvaran er verðlögð.

Og ég vil spyrja hv. 1. þm. Austf.: Hvernig stendur á því, að hann reyndi ekki að hafa áhrif á það, þegar hann var í ríkisstj., að vextir af eigin fé bænda væru teknir inn í grundvöllinn, en það var ekki gert fyrr en 1960? Bændur höfðu sitt kapítal vaxtalaust þangað til 1960. En síðan hefur þetta þó verið hækkað. Það var byrjað að reikna 3½% 1960, og nú er þessi liður þó kominn upp í 5%, sem er vitanlega of lítið. Það þarf að hækka þá upphæð, sem reiknað er af, og einnig vaxtafótinn, til þess að bændur beri ekki skarðan hlut að þessu leyti. En mér finnst, að hv. 1. þm. Austf. hafi veika aðstöðu til þess að tala um vaxtamálin, þegar það heyrðist aldrei í honum, meðan hann hafði völd, að það væri vont fyrir bændur að vera með vaxtalaust kapítal í búrekstrinum. Það eru þeir ekki lengur.

Þá talar hv. þm. um búvörugjaldið, þetta 1%, og segir, að það séu 2500 kr. á bónda. Til þess að það séu 2500 kr. á bónda, þyrfti hver bóndi að framleiða fyrir 250 þús. að meðaltali. En það er því miður ekki svo, enda ef talað er um, að bændurnir séu 6000, en búvörugjaldið 9 millj., þá mun þetta láta nærri að vera 1600 kr. á bónda. En þess ber að geta, og hv. þm. reyndar sleppti nú að reikna með því, að búvörugjaldið, sem fer til bændahallarinnar, er náttúrlega ekkert lægra. En látum það vera. Ég get vel sætt mig við það, að hv. 1. þm. Austf. haldi áfram að tala um búvörugjaldið sem eitthvert böl fyrir bændur, þegar þeir eru að byggja upp stofnlánadeildina. Ég er miklu ánægðari með það, að bændurnir sjálfir eru hættir að tala um þetta: Þetta fær ekki lengur hljómgrunn. Bændur skilja, að þetta er eitt af þeirra nauðsynjamálum og stofnlánadeildin er sú lyftistöng, sem þeir mega ekki án vera og verður í ríkari mæli, eftir því sem árin líða.

Þess ber að geta, að neytendur, sem borga 0.75% í stofnlánadeildina og stuðla þannig að uppbyggingu landbúnaðarins, telja þetta aldrei eftir, og er sannarlega virðingarvert, því að vissulega eru neytendurnir minntir á þetta, þegar framsóknarmenn eru að telja þetta eftir. Bændur greiða í sína eigin sjóði. Og skyldu nú bændur hafa fengið að láni úr stofnlánadeildinni 103 millj. kr. á árinu 1963, ef ekki hefði verið unnið að endurreisn lánasjóðanna, eins og gert var?

Hv. þm. sagði hér áðan, að þetta gjald hefði runnið til þess að borga gengistap búnaðarsjóðanna, en það opinbera hafi greitt gengistap allra annarra sjóða og banka. Þetta er algerlega rangt. Hið opinbera greiddi ekki töpin fyrir aðra sjóði, en ríkissjóður lagði fram 60.5 millj. kr., þegar lög um stofnlánadeild voru samþykkt, og væri þá ekki miklu nær að segja, að hluti af þeirri upphæð hefði farið í gengistapið, heldur en það, sem bændur nú leggja sjálfir til? Þetta veit hv. þm., og er því ekki ástæða til að fjölyrða meira um það.

Jarðræktarframlagið hefur verið óbreytt í mörg ár, það er rétt, og það er vissulega mál til komið, að það hækki, og það eru gerðar ráðstafanir til þess, ekki aðeins með þessu frv., heldur einnig hinu frv., sem á dagskrá er. Og ég held, að það sé ekki sanngjarnt að vera að átelja núv. ríkisstj. fyrir það, að hún hafi tafið þetta mál, a.m.k. ekki lengi. Búnaðarþing kaus mþn. til þess að semja frv. til l. um ræktunarmál, og hún skilaði því frv. á árinu 1962, það er rétt. Það frv. var endurskoðað af stjórnskipaðri nefnd, sem skilaði því til ríkisstj. 1963, en það frv. hefur ekki enn verið lagt fram, en í stað þess þau tvö frv., sem nú eru á dagskrá. Og vissulega er það betra fyrir landbúnaðinn að fá þessi tvö frv. heldur en hitt frv., og er kannske ástæða til þess að fara út í það nánar, þegar frv. til breytinga á jarðræktarlögunum verður rætt, enda gert ráð fyrir meiri hækkun á jarðræktarstyrknum samkv. þessum frv. heldur en var í frv, mþn. Og jarðræktarlögin eru búin að vera óbreytt í mörg ár og undrunarefni, hve lengi það hefur dregizt að laga þau og breyta þeim.

Afurðalánin höfum við svo oft rætt um, að það er ekkert nýtt um þau að segja, aðeins endurtaka það, að landbúnaður og sjávarútvegur búa við sömu kjör í þessum efnum: 55% afurðalán og viðbótarlán í viðskiptabönkunum til þess að geta borgað út a.m.k. 2/3 hluta, eins og áður var. Hitt er svo alveg rétt, að það er æskilegt, að þessi lán verði hækkuð, og ég vil segja nauðsynlegt að stefna að því og vinna að því. En það gerist ekki allt í einu, og það er vitanlega ekki hægt að lána hverju sinni meira fé en er fyrir hendi. En við skulum vona, að það megi takast. Um fyrirframlánin er rétt, sem hv. þm. sagði, þau hafa staðið í stað, ekki verið hækkuð. En landbúnaðurinn hefur þó þetta fram yfir sjávarútveginn að fá fyrirframlánin, og vissulega hlýtur að vera til athugunar, hvort fært þykir að hækka þau frá því, sem verið hefur. Þannig er rétt að taka undir það, sem hv. þm. hefur sagt rétt frá. Og við getum verið sammála um, að það er ákaflega margt, sem stendur til bóta í verðlagningunni, í ræktunarmálunum og ýmsu því, sem til framfara og heilla má horfa í landbúnaðinum. En það dugir ekki fyrir hv. 1. þm. Austf., sem hefur verið í ríkisstj. árum saman, að hugsa sér það, að nú, vegna þess að hann er ekki í ríkisstj., sé hægt að gera allt á örstuttum tíma, það sé fé til alls, það sé hægt að framkvæma óskalistann, sem Hermann Jónasson talaði um 1957, vegna þess að nú séu nógir peningar fyrir hendi. Þetta er ekki svo. Það eru hverju sinni takmörk fyrir því, hvað unnt er að framkvæma, og ég staðhæfi, að núv. ríkisstj. hefur gert sér fulla grein fyrir því, hvað til framfara og heilla má horfa fyrir landbúnaðinn og aðra atvinnuvegi þessa lands og stefnir að uppbyggingu og eflingu þeirra. Og þetta frv. og annað, sem á dagskrá er í dag, er ljósasti votturinn um það, að ríkisstj. vill öflugan landbúnað í landinu, og það hefur aldrei verið stigið eins stórt skref til viðreisnar landbúnaði og aukinni ræktun og með þessu frv.