11.02.1964
Neðri deild: 54. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í B-deild Alþingistíðinda. (535)

130. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að taka hér upp neinar almennar umr. um það frv. til breytinga á l. um stofnlánadeild landbúnaðarins o.fl., sem hér liggur fyrir, enda er þegar búið að ræða þetta mál á tveim fundum og hefur komið fram flest af því, sem ég mundi hafa viljað taka fram um málið almennt. Ég vil mega vænta þess, að þetta mál fái gaumgæfilega athugun í hv. landbn. og að henni takist að gera þær breytingar á frv., sem nauðsynlegar mega teljast með tilliti til þess, hvernig nú er ástatt fyrir íslenzkum landbúnaði.

En ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, er sú, að í umr. á fimmtudaginn var, að ég ætla, veittist hæstv. landbrh. að fjarstöddum manni, sem ekki hefur aðstöðu til að skýra mál sitt á þessum vettvangi. Þessi maður er Hermóður Guðmundsson bóndi í Árnesi í Aðaldal í Suður-Þingeyjarsýslu, formaður Búnaðarsambands Suður-Þingeyinga. En Hermóður Guðmundsson hefur, eins og kunnugt er, ritað töluvert í blöð um vandamál landbúnaðarins á seinni tíð og tekið þátt í fundarstörfum ýmsum varðandi þau mál.

Hæstv. landbrh. sagði, að Hermóður Guðmundsson hefði í viðtali við Tímann sagt, að afurðir landbúnaðarins hefðu í verðlagsgrundvelli hækkað um 34%, ca. 34%, ég man ekki, hvort orðalagið ráðh. notaði, og að þetta væri rangt. Sjálfur nefndi hann aðrar tölur, sem hann taldi réttar, og vildi þar með leiðrétta það, sem hefði verið ranghermt hjá Hermóði Guðmundssyni í nefndu viðtali. Það var ekki nóg með það, að þessi ummæli féllu hér á Alþingi af vörum ráðh., heldur sá útvarpið, ríkisútvarpið, ástæðu til þess í sínum fréttaflutningi af umr. hér á Alþingi að geta sérstaklega um það, að ráðh. hefði leiðrétt þessar röngu tölur Hermóðs Guðmundssonar, eftir því sem mér er tjáð, að þingfréttamaður ríkisútvarpsins hafi skýrt frá þessu, þannig að það virðist hafa átt að ná eyrum þjóðarinnar rækilega, að þessi maður hefði þarna farið með rangar tölur. Nú veit ég ekki, hvaða efnislega þýðingu það hefur að vera að gera á þennan hátt aths. við þessar tölur, nema ef það væri til þess að vekja ótrú á þeim rökum, sem forsvarsmenn bændastéttarinnar hafa haft í frammi í afurðasölumálum sínum, og það út af fyrir sig tel ég nokkuð alvarlegt mál. Ég mundi eftir því, þegar þessi umræða fór fram, að Hermóður Guðmundsson hefði átt viðtal við Tímann, en hins vegar var það mér úr minni liðið, hvað hann hafði sagt um þetta atriði í viðtalinu. Ég fór þess vegna, eftir að fundinum var lokið, að leita uppi þetta viðtal og kynna mér efni þess. Það viðtal, sem hæstv. ráðh. hlýtur að eiga við, er viðtal, sem birtist í Tímanum 10. des. s.l., 1963. Og ég vil nú leyfa mér að rifja það hér upp, sem fram hefur komið í þessu viðtali varðandi þetta efni.

Það er Tíminn 10. des. 1963, viðtal við Hermóð Guðmundsson. Blaðið spyr m.a.: „Hvað viltu segja um samband stofnkostnaðar og afurðaverðs?“ Og Hermóður Guðmundsson svarar, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er sannfæring okkar bænda, að það sé ekki sama fyrir framleiðslukostnaðinn hjá okkur, hvort stofnkostnaður vísitölubúsins sé t.d. ekki nema um 640 þús. kr., eins og hann var 1958 fyrir viðreisn, eða ca. 1100 þús. kr. á s.l. ári. Þessi ca. 70% hækkun stofnkostnaðarins hefur t.d. í för með sér um 24–25 þús. kr. útgjaldaaukningu fyrir bóndann á s.l. ári umfram það, sem áætlun verðgrundvallarins gerði ráð fyrir haustið 1962. Þessi eini liður jafngildir allt að 26%, beinni skerðingu hjá bóndanum verðlagsárið 1962–1963. Sé rekstrarkostnaðurinn athugaður á þessu tímabili, hefur hann einnig hækkað um svipaða hundraðstölu, þótt landbúnaðarvörur hafi ekki hækkað nema um ca. 34%.“

Nú segir hæstv. landbrh., að hér sé um ranga tölu að ræða, landbúnaðarvörurnar í verðlagsgrundvelli hafi hækkað um miklu meira en 34%. Og svo kemur hann með nýjar tölur, sem ég man nú ekki nákvæmlega, en þær voru allmiklu hærri: En ég fæ ekki betur séð en sá samanburður, sem Hermóður Guðmundsson hefur gert, sé réttur og sá samanburður, sem hæstv. ráðh. hefur gert, sé rangur. Og það liggur í því, að Hermóður Guðmundsson er ekki að bera saman tölur ársins 1958 og 1963, ekki haustverðið 1958 og 1963, heldur 1958 og 1962. Hann segir það beinlínis á tveim stöðum í því, sem ég las nú upp, að hann sé að tala um verðlagsárið 1962–1963, og það hlýtur hæstv. ráðh. að gera sér ljóst, að þær tölur, sem gilda fyrir verðlagsárið 1962–1963, eru tölurnar í þeim verðlagsgrundvelli, sem ákveðinn var haustið 1962, en ekki þær, sem ákveðnar voru s.l. haust. Þær gilda aftur á móti fyrir verðlagsárið 1963–1964. Hér sýnist mér því, að hæstv. ráðh. hafi orðið á í messunni. En til þess að menn geti gert sér grein fyrir því, hvort þær tölur, sem Hermóður Guðmundsson nefndi í viðtalinu, þ.e.a.s. hækkun um ca. 34% frá 1958–1962, því að það er það, sem hann á við og greinilega fram tekið, þá vil ég hér með leyfa mér að lesa upp tölurnar, sambærilegar tölur frá þessum tveimur árum um verðlagningu landbúnaðarafurða í verðlagsgrundvelli. Og svo getum við sjálfir reiknað út, hvort 34% sé þar fjarri lagi.

Í verðlagsgrundvelli, sem ákveðinn er 1958 um haustið, er mjólkurverðið 3.92 kr. á lítra, en í verðlagsgrundvelli, sem ákveðinn var haustið 1962, er mjólkurverðið 5.27½ kr. Ég ætla, að þessi hækkun sé milli 34 og 35%. Hæstv. ráðh. bar nú ekki saman kg af kjöti, enda er það vorkunnarmál, heldur bar hann saman dilkinn 1958 og 1962, og það dæmi er ekki alveg eins einfalt. Menn þurfa að gefa sér ákveðnar forsendur um það, hvers konar dilk um er að ræða, og væri e.t.v. eðlilegast að reikna fremur afurðir eftir einlembda á t.d. En ef borið er saman verð á þessum tveimur verðlagsgrundvallarárum, 1955 og 1962, á kjöti, gærum, slátri og mör, sem eru þrjár aðalafurðir af dilkum, þá verður samanburðurinn svona: 1958 er eitt kg af kjöti í verðgrundvellinum kr. 22.20, en 1962 28 kr. 1958 er eitt kg af gærum reiknað á 8.35 kr. og 1962 á 29.40 kr. Og 1958 er slátur og mör verðlagt á 30 kr. og 1962 á 33.60 kr. Það kemur fram, að þarna hefur að einu leyti orðið allmikil breyting á. Verðið á gærum var reiknað mun hærra 1962 en 1958. Þess vegna er það rétt í sjálfu sér, eins og hæstv. ráðh. gerði, að búa sér til dæmi um dilk, og ég ætla, að ef það er gert með þessum tölum, muni hækkunin frá 1958–1962 vera mjög nærri 34%. En menn geta reiknað út sjálfir eftir þessum tölum.

Nú vildi ég mega vænta þess, þar sem hér hefur verið um misgáning að ræða og sjálfsagt ekki með vilja, að hæstv. ráðh. leiðrétti á einhvern hátt þau ummæli, sem hann hefur haft um Hermóð Guðmundsson í þessu sambandi og þær upplýsingar, sem hann gaf Tímanum.