11.02.1964
Efri deild: 46. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 952 í B-deild Alþingistíðinda. (670)

14. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Lögin frá 1949 um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra reyndust hafa slæma ágalla, sem síðan hafa verið drykkjumannahjálpinni í landinu fjötur um fót. Megingallinn í gildandi lögum um þetta efni er sá, að yfirstjórn allra drykkjumannalækninga í landinu hafði Kleppsspítalinn. Þetta hefur reynzt mjög óheppilegt um hjálpina við drykkjumenn. Á þetta var bent, þegar áður en þau lög voru sett af sérfróðum mönnum hér á landi, og vitnað í reynslu erlendra sérfræðinga, en allt kom fyrir ekki, lögin voru höfð á þennan veg, að yfirumsjónin skyldi öll í höndum Kleppsspítalans, þ.e.a.s. geðveikrahælis ríkisins.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er að vissu leyti bót í þessu efni. Nú er með þessu frv. ekki tiltekið, að yfirumsjón með drykkjumannahjálpinni skuli vera í höndum Kleppsspítalans, enda þótt Kleppsspítalinn eftir sem áður fari með meðferð drykkjusjúklinga. Ég vil hafa orð á þessu, því að hér tel ég vera um bót að ræða. Nú er læknum og sjúkrahúsum, heilsuverndarstöðvum og öðrum stofnunum, sem til þess hafa hlotið sérstakt leyfi heilbrigðisstjórnarinnar, leyft að hafa meðferð drykkjusjúkra með höndum. Raunar varð þetta ákvæði í l. aldrei annað en pappírsgagn, vegna þess að ýmsir aðilar, einkaaðilar svo ég bæjarfélög, hafa tekið upp drykkjumannahjálp, sem ekki er í neinum tengslum við Kleppsspítalann. Má þar sérstaklega geta, að Heilsuverndarstöð Reykjavíkur hefur haft þessa meðferð með höndum um 10 ára skeið, enda er það í samræmi við önnur lög, lög um heilsuverndarstöðvar. Ég skal ekki orðlengja þetta, en aðeins hafa orð á því, að hér er um bót að ræða.

Annar megingallinn á þessum lögum, sem nú eru í gildi um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra, er I. kafli laganna, þar sem gert er ráð fyrir því, að allir menn, sem lögreglan tekur höndum, skuli fluttir í sjúkrahús eða sjúkradeild. Ég tel þennan kafla gallaðan, vegna þess að þess var aldrei að vænta, enda aldrei orðið, að þetta kæmi til framkvæmda. Allur I. kafli laganna er pappírsplagg eitt, sem engum hefur dottið í hug að framkvæma. Á meðan sjúkrahússkortur er eins mikill og hann er nú hjá okkur, væri það óðs manns æði að ætla að fara að framfylgja því að flytja ölvaða menn, einungis af því að lögreglan tekur þá höndum, í sjúkrahús án tillits til, á hvaða stigi þeirra drykkjuskapur er. Ég sakna þess, að þessum kafla skyldi ekki breytt meira en raun hefur á orðið í þessu frv., og sannarlega hefði þessi kafli alveg mátt niður falla, því að hann verður eftir sem áður pappírsgagn eitt.

Um þetta frv., sem hér liggur fyrir, vildi ég annars aðeins fara fáeinum orðum. Ég skal ekki fjölyrða um, að mér finnst ýmsir ágallar í því, m.a. formgallar, að svo miklu leyti sem þetta er ekki upptaka úr gildandi lögum, en þau eru samin á mjög góðu máli, bersýnilega af fyrrv. landlækni, Vilmundi Jónssyni. Að svo miklu leyti sem þetta frv. er ekki samið upp úr þeim orðrétt, er um mjög lélegt málfar á þessu frv. að ræða, og það er leitt, því að lagamál tel ég að ætti að vanda. Ég skal ekki heldur fara mörgum orðum um það, að hér er í einni grein prentað á fínu máli, latínu, sem sennilega enginn þm. skilur öðruvísi en með því að fletta upp í orðabók, en látum það vera. Hitt er verra, að það skuli ekki einu sinni vera hægt að fara málfræðilega rétt með þessa latínu, sem hér er skartað með. Ég vil mælast til þess við hv. n., sem þetta mál fær, að hún kynni sér latínuna og færi þar til betri vegar.

Þarna eru ýmsir formgallar á, en ég skal láta því lokið að ræða um þá, að þessu sinni a.m.k. En það er annað, sem ég vildi hafa orð á, af því að ég tel, að þar sé um meira en formgalla að ræða, þar eru einnig efnisgallar. Í 9. gr. og 10. gr. ræðir um hæli. Í 9. gr. er rætt um hæli, sem ríkið kemur upp og rekur. Í 10. gr. er rætt um hæli, sem sveitarfélög eða félagasamtök koma upp og reka með leyfi heilbrigðisstjórnarinnar. Hér er um tvennt að ræða, sitt í hvorri grein, ríkishæli og hæli sveitarfélaga og einstaklinga. Þegar kemur til 11. gr., er rætt um, hverja taka megi á þessi hæli, en þá er eingöngu rætt um ríkishæli. 11, gr. hefst á þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta:

„Til hælisvistar samkv. 9. gr. verða teknir“ svo eru þeir taldir upp. Það eru dæmdir menn, það eru menn, sem hafa misst lögræði, og það eru menn, sem óska af frjálsum vilja að fara í ríkishæli. En það er ekkert ákvæði í frv. um, hvaða reglur skuli gilda fyrir upptöku sjúklinga í sveitarfélagahæli né hæli félaga og félagasamtaka. Hér hefur verið boðið upp nýtt og gamalt, en frv.-höfundum því miður láðst að melta þetta og samræma það. Það vantar sem sagt alveg ákvæði um, hverja megi taka í sveitarfélagahæli, í mótsetningu við ríkishæli. Má t.d. taka á hæli AA-samtakanna eða hæli Reykjavíkurborgar, ef það kæmi einhvern tíma, menn, sem eru dæmdir til hælisvistar vegna drykkjuskapar, eða menn, sem sviptir hafa verið lögræði? Um þetta er ekkert ákvæði. En sennilega er ætlunin, að það gildi sömu reglur fyrir öll þessi hæli, aðeins láðst að láta þess getið í frv.

Það er eitt atriði enn, sem ég vildi gera að umtalsefni, sérstaklega af því að hæstv. ráðh. er viðstaddur og einnig vegna þess, að hér í hv. d. eru góðir lögfræðingar. Það er ákvæðið í 11. gr. um skuldbindingu umsækjenda um hælisvist, um að dveljast eins lengi í hæli og þeir hafa sótt um í upphafi. Ef drykkjumaður sækir um hælisvist og sendir umsókn og í umsókninni tekur hann fram, að hann skuldbindi sig til að dveljast í hælinu í 6 mánuði, er hann lögbundinn af því, og ef hann fer í óleyfi burt af hælinu, má þá setja lögregluna á hann, láta sækja hann, taka hann með valdi og setja í hælið aftur? Nú getur það auðveldlega hugsazt, að maður, sem er andlega miður sín eftir langvarandi drykkjuskap, lætur telja sig á þessa skuldbindingu, að dveljast svo og svo lengi í hælinu. Þegar hann kemur til sjálfs sín betur og jafnar sig, óskar hann ekki að vera allan þann tíma og heimtar sig útskrifaðan, heimtar sig brautskráðan. Þá á hann engan rétt á því. Hann hefur með einfaldri undirskrift svipt sjálfan sig persónufrelsi og lagt í hendur annarra aðila ákvörðunarvald yfir sínu persónufrelsi um 6 mánaða tíma. Ég er ekki að gagnrýna þetta í þessu frv., vegna þess m.a., að það er í gildandi lögum um meðferð drykkjumanna. En nú langar mig til að beina þeirri fsp. til þeirra, sem henni vilja svara: Er það mögulegt að setja lög um slíkt? Er það yfirleitt í samræmi við stjórnarskrána, að maður geti þannig afsalað sér persónufrelsi um einhvern tiltekinn tíma? Er ekki undirskrift hans ónýt, ef honum snýst hugur? Á hann þá ekki sjálfur rétt á að ákvarða á annan veg? Ef nokkur grunur skyldi vera á um, að þetta væri ekki í samræmi við bókstaf eða anda stjórnarskrárinnar, þá finnst mér, að nú ætti að nota tækifærið og fella þetta úr lögum. Mér finnst ákvæðið ljótt, þó að ég viðurkenni, að það geti í ýmsum tilvikum verið þægilegt, t.d. fyrir lækninn, sem hefur sjúklinginn til meðferðar, að geta þannig ráðið yfir persónu hans. Mér finnst það samt sem áður óhæft og hljóti að koma í bága við a.m.k. anda stjórnarskrárinnar um persónufrelsi.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta frv. Ég vil aðeins minna á, að þetta er búið að vera mjög lengi á döfinni. Það var þegar á árinu 1959, sem þáv. heilbrmrh. skipaði nefnd ágætra manna til að semja frv. til nýrra laga um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra. Formaður þessarar n. var núverandi landlæknir, dr. Sigurður Sigurðsson. Þessi nefnd vann sitt verk og skilaði áliti í jan. 1960. Síðan var það látið liggja ár eftir ár óhreyft í skúffum rn. Ég hef átt kost á að kynna mér þetta frv., og ég tel það að mörgu leyti standa miklu framar því frv., sem hér liggur fyrir, bæði um form og efni. Í frv. þessarar nefndar var m.a. gert ráð fyrir því, að öll drykkjumannahjálp yrði undir einum hatti, undir einni yfirstjórn, og sérstakur áfengisyfirlæknir yrði framkvæmdastjóri þeirrar yfirstjórnar. Þetta var mjög heppileg uppástunga og heppileg ráðstöfun, að fara þannig að, því að þótt ég mæli á móti sameiginlegri yfirstjórn undir Kleppsspítala, geðveikrahæli, þá mæli ég ekki gegn því, að drykkjumannahjálpin öll yrði sett undir eina yfirstjórn og eina yfirumsjón. Ég hef talað í því máli hér áður í þessari hv. d. fyrir nokkrum árum og lýst kostum þess, hvernig m.a. það fé, sem hið opinbera ver til drykkjumannahjálpar, mundi nýtast miklum mun betur, ef þessi hjálp yrði samræmd og höfð undir einni yfirstjórn. En yfirstjórnin mátti ekki vera geðveikrahæli, því að það var af ýmsum og viðkvæmum ástæðum óheppilegt frá upphafi, þó að menn sannfærðust ekki um það fyrr en seint og síðar meir, að fenginni dýrkeyptri reynslu. Ég harma, að þetta skuli hafa gengið þannig fyrir sig, og einkum, að niðurstaðan, þetta frv., sem hér liggur fyrir, skuli vera, þrátt fyrir nokkra kosti, öllu lakara en það frv., sem búið var að liggja í salti hjá rn. um árabil.