08.05.1964
Neðri deild: 94. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1079 í B-deild Alþingistíðinda. (744)

210. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Tilefnið til þess, að ég kveð mér nú hljóðs, eru ummæli, sem féllu hjá hv. 5. þm. Austf. Það er út af brtt., sem hann flytur, mér skilst hún sé samhljóða. till., sem tveir flokksbræður hans fluttu í Ed. Það er um það, hvernig haga skuli rannsólm og eftirliti með skattaframtölum. Og vegna þess að hann lét orð falla, sem eru mjög villandi, í þessu sambandi, þá tel ég rétt að svara því. Hann segir: Það er búið að tala fagurlega um það að herða eftirlit með framtölum, en afstaðan til þess, hvort það er á heilindum byggt eða ekki, hún kemur fram í því, hvort menn styðja þessa till. eða ekki.

Um hvað er nú þessi till.? Eins og kunnugt er, þá er í frv. ákveðið að stofna sérstaka rannsóknardeild við embætti ríkisskattstjóra með þjálfuðum starfsmönnum til þess að herða á skattaeftirlitinu. Till. hv: þm. fer fram á það, að ríkisskattstjóra sé skylt að láta árlega fara fram ýtarlega rannsókn á 5% af framtölum þeirra aðila, sem hafa einhvern rekstur með höndum og bókhaldsskyldir eru, og 2% af öðrum framtölum: Enn fremur á að velja þessa aðila með hlutkesti eða eftir útdrætti skv. reglum, sem hagstofan setur. Hvað þýðir nú þessi till.? Hún þýðir það, að samkv. lögum er skylt að rannsaka bókhald allra þeirra, sem bókhaldsskyldir eru, allra, sem rekstur hafa með höndum, þannig að því sé lokið á 20 árum. Og varðandi alla aðra, þá á að ljúka þessari yfirferð og rannsókn á hálfri öld, þ.e. 2% á ári, sem á að taka fyrir. Ég vil segja, að mér finnst markið sett ákaflega lágt þarna, því að æskilegt er, að þetta gangi miklu hraðar en þetta.

Hv. þm. mun vafalaust segja: Það er ekki bannað að rannsaka meira. — En hvaða tilgang hefur það þá að vera að flytja till. og ætla að lögfesta, að það skuli miða við 5% varðandi rekstraraðila og 2% varðandi alla aðra? M.ö.o.: markið er svo hátt sett hjá þessum hv, þm. og þeim flokki, sem að þessum till. stendur, að atvinnureksturinn allan eða skattaframtöl hans á að kanna á 20 árum og alla aðra landsmenn á hálfri öld.

En það er annað, sem er alvarlegra við þetta: Það er ekki ríkisskattatjóri eða rannsóknardeild hans, sem á að ákveða það, hverja aðila á að taka til rannsóknar. Það á bara að velja það „holt og bolt“ eftir útdrætti eða hlutkesti. Og þessi 5% og þessi 2% eiga auðvitað að ganga fyrir. Það starfslið, sem ríkisskattstjóri hefur á að skipa, á samkv. þessu, ef samþ. verður, fyrst og fremst að beinast að þessu: Ef ekki lenda í þessum útdrætti ýmsir aðilar, sem ríkisskattstjóri og starfsmenn hans telja mjög grunsamlega og þurfi rannsóknar þegar í stað, þá á það að mæta afgangi.

Mér virðist þessi till. svo vanhugsuð, að mig furðar, að hún skuli vera borin fram, kannske skiljanlegt í eitt skipti, en að hún skuli vera borin fram aftur, það er enn þá undarlegra. Vitanlega verður að því unnið að láta þessar rannsóknir ganga sem allra skjótast og fara sem fljótast yfir. Vitanlega verða allir skattgreiðendur að eiga það á hættu eða eiga von á því, hvenær sem er, að nákvæm rannsókn sé gerð á fjárreiðum þeirra. En hitt, að það skuli fyrst og fremst farið eftir hlutkesti, en ekki eftir því, hvar raunverulegar grunsemdir liggja fyrir, eða því, sem sérfræðingar telja sérstaka nauðsyn að rannsaka, þetta tel ég alveg öfugt að farið. Ég tel, að það eigi að ganga fyrir, þar sem grunur er um skattsvik eða röng framtöl. Ef menn vilja svo taka einhverja ákveðna prósentu, þá ætti það að koma á eftir.

Af þessum ástæðum, sem ég hér hef rakið, tel ég þessa till. mjög til hins verra og mundi spilla þeim árangri, sem verið er að reyna að ná með þessum nýmælum frv. Það má benda enn fremur á það, að hér er gert ráð fyrir í niðurlagi till., að rannsókn á framtölum skuli aðeins ná til 5 ára, í lögum eru nú ákveðin 6 ár. Ég veit ekki, hvort það er ætlun flm. að lina þannig á þessu, að ekki megi ganga jafnlangt aftur í tímann og er samkv. gildandi l. og á að verða eftir þessu frv.

Það var vegna ummæla hv. þm. og tillöguflutnings hans, sem ég taldi ástæðu til að segja þessi orð. En ég vil bæta því við, að næsta er það einkennilegt, að hv. stjórnarandstæðingar, þegar þeir eru að gagnrýna þetta frv., þá miða þeir alltaf sinn samanburð við árið 1960, þeir líta alltaf á skattalögin frá 1960 sem þann eina sanna og rétta grundvöll. Það er hið „ídeala“ skattaástand, ef ég má svo að orði komast, og þeir reyna að færa rök að því, að menn séu ekki alveg eins vel settir samkv. frv. í ár og þeir voru 1960. En hvers vegna vitna þessir hv. stjórnarandstæðingar, sem margir hverjir eða flestir reyndar greiddu atkv. á móti frv. 1960, móti l. þá og gagnrýndu ákaflega margt í þeim lögum, hvers vegna telja þeir nú alltaf, að þetta sé fyrirmyndin, sem eigi að halda hæst á lofti, og hvers vegna minnast þeir aldrei á skattalögin, sem giltu, þegar þeir sjálfir fóru með völd?

Hv. þm. reyna að villa mjög um fyrir mönnum, að þegar gerður er samanburður, eins og ég hef gert á því, hverjar skattgreiðslur manna yrðu samkv. núgildandi l. í fyrsta lagi, samkv. frv. í öðru lagi og samkv. skattal. frá 1958, þá segja þeir: Þetta er ekki sambærilegt, vegna þess að verðgildi peninganna er allt annað. Þetta bara kemur málinu ekkert við. Það, sem ég hef verið að tala um, er þetta, hvaða skatt mundu menn borga á þessu ári, 1964, af tekjum 1963 eftir því, hvort reiknað er eftir núgildandi l. eða frv. eða skattal. frá 1958, ef þau væru enn í gildi óbreytt, — óbreytt, segi ég, og þar með að sjálfsögðu ákvæðin um umreikning samkv. kaupgjaldsvísitölu, og allur samanburður, sem gerður hefur verið í þessu efni um það, hvernig skattarnir yrðu í ár af tekjum s.l. árs samkv. skattal, frá 1958, er auðvitað byggður á því, að þá er búið að umreikna þetta allt saman samkv. kaupgjaldsvísitölu eða þeim breytingum, sem síðan hafa orðið. Þess vegna er sá samanburður, sem hér hefur verið gerður, fullkomlega réttur.

Eitt er það svo loks enn. Hv. 5. þm. Austf. lét orð falla eitthvað á þá leið, — og mér skilst hann eiga við ummæli mín, ég talaði um að bæta skattasiðferðið, — og sagði, að það væri ekki nægilegt að lækka bara skattana og halda, að það eitt dugi. Hv. þm. hefur eins og aðrir hv. alþm. vafalaust heyrt það margsinnis, að þetta er allt annað en það, sem ég hef sagt. Ég hef haldið því fram, að þrennt þurfi að fara saman til þess að reyna að ráða bót á röngum framtölum og skattsvikum, þrennt þurfi að fara saman, til þess að árangur megi nást í því að bæta skattasiðferðið í landinu. Og það er í fyrsta lagi, að skattstigarnir séu við hæfi, þeir séu ekki svo hátt spenntir, að það brjóti í bág við almenningsálitið og menn telji rétt og afsakanlegt að svíkja skatt þess vegna. í öðru lagi þurfi að vera sterkt og ákveðið eftirlit, og m.a. miðar þetta frv, að því. Og í þriðja lagi þurfi að vera jafnvægi í efnahagsmálum, vegna þess að reynslan er sú hér, eins og raunar alls staðar annars staðar, að verðbólgutímar leiða alltaf af sér aukin skattsvik og aukin tollsvik. Ég hef aldrei haldið þei fram og aldrei látið eitt orð falla í þá átt, að það væri nægilegt til að bæta skattasiðferðið í landinu bara að lækka skattstigana. Ég hef talið, að allt þetta þrennt þyrfti að fara saman.