06.05.1964
Efri deild: 83. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1131 í B-deild Alþingistíðinda. (801)

110. mál, sjúkrahúsalög

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. e. (KK) hefur þegar rökstutt þá brtt., sem hér liggur fyrir, og sýnt fram á, að hún byggist á fullri sanngirni, og það þarf í sjálfu sér ekki við þau rök að bæta. En ég vil þó, af því að ég hef gerzt meðflm. að þeirri till. og þetta málefni snertir sérstaklega það kjördæmi, sem ég er þm. fyrir, þar sem þar eru í byggingu tvö sjúkrahús, þó að þau séu að vísu langt komin, bæta hér örfáum orðum við og til þess þá að taka undir málflutning hv. 1. þm. Norðurl, e.

Það má vel vera, að hér sé ekki um ýkjamikið fjárhagslegt spursmál að ræða fyrir þessi sjúkrahús, sem hér eiga hlut að máli, a.m.k. fyrir þau sjúkrahús, sem eru á Norðurlandi vestra. Og það má vera, að sú skerðing, sem þau verða fyrir vegna þessara ákvæða, verði þeim að einhverju leyti upp bætt með öðru móti. Samt sem áður liggur það fyrir, að ef frv. þetta verður samþ., verður styrkur til þeirra, byggingarstyrkur, lækkaður úr 67 í 60%. Ég lít í raun og veru á þetta mál sem hreint „prinsip“-mál. Ég lít á það sem „prinsip“-mál, hvort það eigi að vera hægt og hvort það sé sæmilegt að lækka framlög til opinberra framkvæmda eins og sjúkrahúsa og skóla og annarra þvílíkra, sem ákveðin eru í lögum, lækka þau frá því, sem þau voru ákveðin í lögum, þegar þær framkvæmdir hófust, sem um er að ræða. Það liggur auðvitað ljóst fyrir, eins og hv. 1, þm. Norðurl. e. hefur sýnt fram á, að þeir, sem leggja í þvílíkar framkvæmdir, gera það á þeirri forsendu, að framlagið af ríkis hálfu sé þetta og þetta. Það er alveg augljóst mál. Og ég hygg, að það sé mjög fágætt, ef ekki jafnvel alveg einsdæmi, að þannig sé farið að, að það sé lækkað til þeirra, sem ráðizt hafa í framkvæmdir, lækkað frá því, sem það var, þegar þeir réðust í framkvæmdirnar. Ég held, að það gefi óheppilegt fordæmi, hvað sem öllum fjármálum liður og hvort sem þeim kann að verða bætt þetta upp með einhverju öðru móti eða ekki. Þeir, sem í slíkar framkvæmdir ráðast, skólabyggingar, sjúkrahús o.s.frv., hljóta, þegar þeir ráðast í framkvæmdirnar, að skoða þau lög, sem þá eru í gildi, og gera sér grein fyrir, hvers styrks, hvers framlags má vænta úr opinberum sjóði til þeirra, og þeir hljóta að hefja framkvæmdirnar í því trausti, að þau framlög verði ekki lækkuð, á meðan á byggingartíma framkvæmdarna stendur. Það er auðséð, að ef sú regla væri upp tekin, að menn ættu ekki almennt að geta treyst þessu, þá væri skapað alveg óviðunandi óvissuástand.

Ég vildi aðeins undirstrika þetta og vildi einmitt mega leyfa mér að vænta, að hv. dm. gerðu sér grein fyrir því, hvað hér er um að ræða, og sæju sér að þeirri athugun lokinni fært að greiða atkv. með þessari brtt.

Það er gott og sjálfsagt að stuðla að aukinni jafnræðisreglu í þessum málum, og það er í sjálfu sér lofsvert, að sá er tilgangurinn með þessu frv., og það er auðvitað lofsvert, að reynt sé að greiða fyrir möguleikum þessara sjúkrahúsa. En það á ekki að gera með þeim hætti að ganga á rétt þeirra aðila, sem þegar hafa hafið framkvæmdir. Það er sanngirni að láta þá sitja við sama borð áfram, sem þeir sátu við, þegar framkvæmdirnar voru byrjaðar, og samkvæmt því, sem hæstv. heilbrmrh. hefur upplýst, skilst mér, að það sé í sjálfu sér ekki svo mikið fjárhagsatriði, það sé ekki stórt fjárhagsatriði fyrir hið opinbera í þessu sambandi, og þá verð ég að segja, að mér finnst öll sanngirni mæla með því, að þessi brtt. sé samþykkt.