12.03.1964
Neðri deild: 68. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1142 í B-deild Alþingistíðinda. (813)

20. mál, loftferðir

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég minntist hér á það við 1. umr. þessa máls, hvort ekki mundi vera rétt að láta setja inn í þetta frv. ákvæði um hvíldartíma flugmanna eða um vinnutíma þeirra yfirleitt. Ég sé, að hv. n. hefur orðið við því eða tekið til athugunar þetta atriði og setur þarna inn í ákvæði um, að ráðh. geti í reglugerð sett ákvæði um lágmarkshvíldartíma flugmanna. Ég vildi beina þeirri spurningu til hæstv. ráðh., ef hann hefði verið viðstaddur, annars til hv. form. n., hvort n. hafi rætt um það, hvaða hvíldartími eða hvaða vinnutími henni þætti hæfilegur í þessu efni. Það væri mjög æskilegt, að það lægi fyrir, þegar ráðherra á að setja svona reglugerð, hvaða hugmyndir hann gerir sér um þetta. Og raunar álít ég, að heppilegra hefði verið að setja beinlinís lagaákvæði þarna inn í, og ég held, að Alþingi hefði sýnt sína ábyrgð bezt með því að setja meira að segja mjög ýtarleg ákvæði ýmist um lágmarkshvíldartíma eða yfirleitt vinnutíma þeirra manna, þ.e. flugmanna. Ég sé og sá það strax, að það eru mjög ýtarleg ákvæði t.d. um áfengisnotkun og ekki nema sjálfsögð. En það stingur nokkuð mikið í stúf, slík ákvæði eru mjög ströng og mjög góð, en hins vegar eru aftur á móti engin ákvæði í sjálfum lögunum til þess að fyrirbyggja verulega þreytu viðkomandi flugmanna. Nú vitum við, að það er alveg sérstök ástæða fyrir okkur íslendinga til þess að vera allkröfuharðir í þessum efnum. Annars vegar eigum við innanlandsflug, sem er mjög erfitt. Ég held, að það sé alveg óhætt að segja, að innanlandsflugið hér á Íslandi hlýtur að vera með erfiðara flugi í Evrópu, og við vitum það, hvað flugmennirnir þurfa mikið á því að halda að vera óþreyttir við sinn starfa, og mér er ekki grunlaust um, að jafnvel slys, sem orðið hafa, hafi átt orsök sína að rekja til þess, — að vísu flugvél, sem hvarf, þannig að

það er enginn til frásagnar um það, — að flugmenn hafi verið of þreyttir. Við vitum það ósköp vel, að flugmenn okkar eru ákaflega duglegir og flugfélög okkar, sem yfirleitt hafa staðið sig vel, meira að segja mjög vel, hafa orðið að treysta alveg afskaplega mikið á dugnað og ósérplægni flugmanna okkar. Og ég er hræddur um stundum, að þessir góðu eiginleikar þeirra séu notaðir til þess ýtrasta, þannig að frá sjónarmiði ekki bara flugmannanna, heldur líka sérstaklega flugfarþeganna, er eiginlega nauðsynlegt, að væri beinlínis í lögum svona ákvæði. Viðvíkjandi utanlandsfluginu vitum við, að sökum staðsetningar okkar í veröldinni eiga flugmenn okkar alveg óvenjulega löngum flugferðum að sinna, með þeim lengstu í heiminum fyrir slíkar flugvélar, sem við höfum, og meira að segja ekki allar þannig gerðar, að það sé alltaf mögulegt að snúa við til þess staðar, sem þær fóru frá, ef of langt hefur verið haldið, þannig að það er alveg sérstaklega nauðsynlegt líka hvað utanlandsflugið snertir, sem að öðru leyti er að ýmsu leyti léttara en innanlandsflugið, að það séu sérstakar ráðstafanir gerðar til þess, að flugmennirnir séu óþreyttir. Ég hefði þess vegna miklu heldur kosið, að þarna væru bein ákvæði um lágmarksvinnutíma eða um hvíldartíma almennt hjá flugmönnunum. Og ég vildi mjög mælast til þess, af því að ég sé bæði af nál. og helzt af ræðum þeirra tveggja hv. nm., sem hér hafa talað, að það á að athuga þetta allmikið milli 2. og 3. umr., að það yrði athugað um leið, hvort ekki væri rétt að setja þarna ákvæði beinlínis í lögin um, hve langur annaðhvort lágmarkshvíldartími skyldi vera, eða um vinnutíma flugmanna. Ég veit ekki, hvort það er að öllu leyti heppilegt, að ráðh. hafi þetta gersamlega einn á sínu valdi. Það þýðir, að hann verður fyrir alls konar þrýstingi í þessum efnum. Við vitum t.d., að flugmenn okkar eiga við ýmsa erfiðleika að etja, harða samkeppni og annað slíkt, þó að þeim hafi vegnað vel til allrar hamingju fram að þessu. Það þýðir oft, að frá hálfu félaganna er kannske nokkur þrýstingur um það að mega nota vinnukraftana til hins ýtrasta, og ráðh., sem um leið þarf að taka tillit til þess, hvernig þessi flugfélög geta staðið sig í þessari hörðu samkeppni, yrði kannske fyrir fullmiklum þrýstingi í slíku efni. Við vitum það, hvað snertir vinnu sjómanna á togurum, þá eru sett af hálfu Alþingis sérstök lög um hvíldartíma þeirra, og það virðist satt að segja ekki minni ástæða til þess að setja þau um flugmennina, ekki vegna þess, að starfið út af fyrir sig sé svo erfitt. Maður veit það ósköp vel, að ýmsir af flugmönnunum eða sumir þeirra, flugstjórarnir, geta setið í sinni flugvél og bókstaflega hreyfa sig ekki nokkurn skapaðan hlut svo og svo lengi. En það er máske því meiri hætta, ef slíkur maður, sem þannig situr rólegur í vélinni, verður þreyttur og dottar og annað slíkt, ef hann ekki er eins vel fyrir kallaður og hann þarf raunverulega að vera allan tímann. Þetta er einmitt eitt af þeim störfum, þar sem menn þurfa alltaf helzt að vera óþreyttir. Ég vildi þess vegna mjög mælast til þess, að hv. samgmn. athugaði það nú ásamt öðru því, sem hún athugar milli 2. og 3. umr., hvort hún treysti sér ekki til að gera beina till. um lágmarkshvíldartíma flugmanna. Ég skal segja fyrir mitt leyti, að ég er því miður ekki kunnugur, hvernig löggjöf er háttað um þessi atriði hjá öðrum þjóðum, en það getur n. auðvitað undireins fengið upplýsingar um.

Ég vil að öðru leyti taka undir það, sem hv. 3. þm. Vestf. kom hér með í sambandi við 7. gr. Mér sýnist það orðatiltæki, sem hann benti þarna á, ekki aðeins vera mjög ónákvæmt og almennt, heldur líka beinlínis vanta í 7. gr. það, sem virðist vera gert ráð fyrir, þegar þetta orðatiltæki fyrst er notað. Það segir þarna í 7. gr., f-liðnum: .,Eða aðrir, sem verða samkv. gr. þessari settir á bekk með þeim.“ Það ætti að þýða, að í þessari gr. væri einhvers staðar fyrirmæli um, hverja menn mætti setja á bekk með þeim. Ég veit ekki, hvort meiningin er, að niðurlagssetningin, sem byrjar með: „Flugmálaráðherra er rétt að gera þarna undanþágur,“ hvort hún eigi að teljast vera skilgreining á þessu, en það get ég vart skilið, þannig að mér sýnist þessi gr. þurfa mjög mikillar athugunar við, en það skil ég sem sé, að n. er sjálf að fjalla um.