30.04.1964
Neðri deild: 88. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1289 í B-deild Alþingistíðinda. (958)

201. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Þingflokki Alþb. gafst tækifæri til að fylgjast nokkuð með þessu frv., meðan það var rætt í hv. iðnn., og ég vildi nú aðeins koma með, — þar sem mér gafst nokkur kostur á að vera það, — mínar persónulegu hugleiðingar í sambandi við þetta.

Það er tvennt, sem mælir algerlega með þessu frv. Annað er það, að það hráefni, sem þarna virðist eiga að vinna, sé gott. Baldur Líndal efnaverkfræðingur virðist hafa unnið mjög gott starf og beitt sinni þekkingu til þess að ráða fram úr nokkrum vanda, sem skapaðist á vissu tímabili um að geta framleitt eins gott hráefni úr þessu og nauðsyn var á. Og það virðist vera svo, að það hráefni, sem þarna virðist vera hægt að vinna, þoli samkeppni við það bezta, við það ameríska hráefni, sem ella er til á þessum markaði, þannig að hvað tæknilegu hliðina snertir þá virðist þetta vera í lagi. Í öðru lagi mælir það með þessu, að þessi kísilgúr er í Mývatni, þannig að sú verksmiðja, sem ráðizt yrði í, er á Norðurlandi, er úti í dreifbýlinu, eins og við mundum kalla það. Ég býst ekki við, að Alþingi mundi detta í hug að ráðast í þetta fyrirtæki, ef þessi sami kísilgúr væri hér í einhverju stóru vatni á Suðurlandi. Þetta tvennt er það, sem mælir með þessu frv. og með því að ráðast í þetta. Ég vil undirstrika það hvort tveggja mjög, og ég býst við, að þetta séu þær forsendur, sem gera það að verkum, að rætt er um og hæstv. ríkisstj. leggur til og n. er henni sammála um að samþ. þetta frv.

Nú vildi ég hins vegar segja það persónulega í sambandi við þessi mál, að ég álít, að það væri ákaflega æskilegt, að það væri hægt að ræða iðnaðarmálin, sem við Íslendingar erum að leggja í, án tillits til þess pólitíska ágreinings, sem kann að vera um þau, eða ýmislegs, sem við berum hver á annan í þessu sambandi, þannig að við reyndum nokkuð að læra af okkar reynslu, þegar við erum að feta fótsporin áfram á þessu svíði, sem við erum nýbyrjendur í. Okkar sérgrein er sjávarútvegur, fiskiðnaður og landbúnaður, og þar þykjumst við kunna fótum okkar forráð. Þegar við erum að byrja í iðnaðinum, jafnvel þó að það séu okkar eigin afurðir, sem við vinnum úr, gerum við mistök stundum. Og ég held, að við eigum að setja okkur það, þegar við erum nú að leggja í iðnað, að reyna að læra af þeim mistökum. Ég álít að vísu, að stundum höfum við kannske gefizt of fljótt upp í slíkum efnum, en stundum höfum við líka rasað um ráð fram. Við höfum reynt í sambandi við síldariðnaðinn hjá okkur erfiðleikana í sambandi við Faxa og Hæring. Við höfum lagt í iðnað, sem stendur hjá okkur, eins og sementsverksmiðjuna og áburðarverksmiðjuna, og ég býst við, að ef við ættum að ákveða það hvort tveggja í dag með þeirri reynslu, sem við höfum, hefðum við haft vélar áburðarverksmiðjunnar öðruvísi, keypt þær öðruvísi inn og haft kornastærðina öðruvísi, undirbúið þetta tæknilega betur. Og ég býst jafnvel við, að við hefðum staðsett sementsverksmiðjuna líka öðruvísi.

Við vitum, hvað við höfum ráðizt í af öðru. Við höfum reynt með glerverksmiðjur og annað slíkt. Við höfum reynt með niðursuðuverksmiðju, eins og núna á Siglufirði, hlut, sem við ráðum ágætlega við hvað gæði snertir, en við höfum ekki ráðið við hvað sölu snertir enn sem komið er. Ég held þess vegna, að þegar við ræðum um þessi iðnaðarfyrirtæki okkar, þurfum við að reyna að koma okkur niður á það, að það, sem okkur hefur mistekizt í því, sem við höfum gert fram að þessu, þurfum við að reyna að hafa í huga, þegar við ákveðum það næsta.

Það, sem þá verður fyrst fyrir mér af þeim vandamálum, sem standa í sambandi við þessa verksmiðju, sem við erum hér að ræða um, er spurningin um söluna. Eins og gefur að skilja, þurfum við að reyna að tryggja okkur sem bezt með markað fyrir þá vöru, sem við þarna ætlum að framleiða. Og ég held, að það sé ljóst, og ég vona, að allir þm. geri sér það ljóst, að þegar við erum að ræða um þessa vöru nú sem stendur, getum við ekki selt fyrir fram af henni eitt einasta tonn og erum ekki vissir um að geta selt eitt einasta tonn. Við vitum, að það er markaður fyrir þetta og varan er góð. Það höfum við vitað um ýmsa aðra ágæta vöru, sem við framleiðum. Við settum upp verksmiðju jafnvei í miðri London til þess að selja, og við vissum, að þar var nægur markaður, en við gátum ekkert selt og urðum að gefast upp, vegna þess að það voru svo öflugir keppinautar, svo sterkir einokunarhringar, sem við áttum í höggi við, að við treystum okkur ekki. Okkur tókst þetta sama hins vegar í Bandaríkjunum og hefur gengið ágætlega með það. Við vitum, að það hollenzka félag, sem við erum þarna í samningum við, er enginn sérfræðingur í þessum efnum og hefur engan sérstakan markað hvað kísilgúr snertir, en virðist annars vera bæði mjög fjársterkt félag og hafa góð sölusambönd almennt í Vestur-Evrópu. Hins vegar er það upplýst í iðnn., að stærsti framleiðandinn í Vestur-Þýzkalandi í kísilgúr, sem framleiðir um 10 þús. tonn á ári, skilst mér, af kísilgúr og enn fremur ýmislegt af öðruvísi gúr, hefði um tíma máske verið til viðtals um að kaupa eða gera einhvers konar samkomulag, en síðan dregið sig til baka, og sá hinn samt stórframleiðandi er sá aðili, sem hefur umboðin fyrir stærstu amerísku félögin, stærstu amerísku samsteypurnar af þeim, sem flytja jafngóðan kísilgúr og við búumst við að geta framleitt til Evrópu, þ.e. Great Lakes Carbon, sem mun vera stærsta fyrirtækið í Bandaríkjunum í þessu.

Við vitum það sem sé fyrir fram, þegar við leggjum í þetta, að einn stærsti framleiðandinn og einn stærsti umboðsmaðurinn og það einmitt í Vestur-Þýzkalandi, sem um leið hefur aðalsamböndin við bandarísku framleiðendurna, hefur að vísu nokkuð verið að hugsa um þetta, en dregið sig til baka, þannig að við höfum ekki núna sambönd við þá aðila, sem stóriðjunefndin reyndi að skapa um tíma, sem hafa fyrir fram öruggan aðgang að markaðinum. Við verðum að berjast við þessa aðila til þess að komast þarna inn. Það má deila um það oft, hvað það sé skynsamlegt að semja við þá stóru, sem þarna eru fyrir, en venjulega held ég, að það sé öruggara að geta samið við einhvern af aðilunum, sem eru inni í þessu. Það þýðir, að við þurfum að horfast í augu við þá áhættu, sem í sambandi við þetta er. Við verðum að horfast í augu við þá áhættu, að við verðum að berjast á markaði, þar sem mjög sterkir aðilar eru fyrir, og við verðum að öllum líkindum að slást utan frá við alla þessa aðila til þess að reyna að komast þar inn. Ég skal taka það fram, að þetta er náttúrlega ekki nýtt, þetta kemur fram í aths. við lagafrv. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Hér er um nýja framleiðslu að ræða hér á landi, sem leita þarf markaðar víða. um lönd í harðri samkeppni við öfluga framleiðendur, sem lengi hafa búið um sig á heimsmarkaðinum. Þótt árangur þeirra athugana, sem fram hafa farið til þessa, sé jákvæður, er hér ekki um svo arðvænlegt fyrirtæki að ræða í upphafi, að það geti tekið á sig veruleg áföll.“

Ég aðeins undirstrika þetta, því að það hefur hæstv. ríkisstj. líka auðsjáanlega gert sér ljóst, að það er við mjög öfluga aðila að etja og fyrirtækið ekki það arðvænlegt, að það geti tekið á sig verulega áhættu.

Það er þess vegna rétt að athuga, hvernig er um arðvænleika þessa fyrirtækis, sem við viljum að ríkið festi raunverulega einhvers staðar á milli 150 og 200 millj. kr. í. Ég skal strax taka það fram, að hér erum við ekki að deila á þann máta, sem við stundum undanfarið höfum verið að deila. Ýmsir af okkur þm. Alþb. óttast, að sterkir, erlendir fjárhringar vilji ná sterkum ítökum í okkar auðlindum, og við höfum óttazt það í sambandi við alúminíumhring eða slíkt. En hér er um það að ræða, skilst mér, að það kemur aðeins til mála, að íslenzka ríkið festi fé í þessu. Ég reikna ekki það litla, sem þetta hollenzka sölufélag mundi vera þarna með í. Mér skilst, að enginn einstaklingur utan lands né innan vilji festa fé í þessu, það hafi verið athugað og það hafi verið reynt, en enginn einstaklingur utan lands né innan vilji festa fé í þessu. (Gripið fram í: Það hefur ekki verið reynt innanlands.) Já, ætli maður hefði ekki heyrt um það, ef það hefðu einhverjir haft áhuga. (Forsrh.: Vill þm. flytja brtt. og gerast aðili í viðskiptafélaginu? ) Ég mundi láta aðra um að gera það. En ég er ákaflega hræddur um, að það yrðu því miður ekki margir, Ég hef ofur lítið verið að reyna að athuga um þetta mál, hvernið gengið er frá þess reikningum hér, og er ég þó enginn sérfræðingur í að reikna slíkt út. Ég sá t.d. á 13. síðunni, að reiknað er með, að fast starfslið við verksmiðjuna sé 50–60 manns. Ég reyndi að fá upplýsingar um, hvort það væri gengið út frá því, að það væru þrjár vaktir í verksmiðjunni. Ég gat ekki fengið upplýsingar um það, þannig að það er ekki vitað, hvort á að vinna þarna eina vakt, tvær vaktir eða þrjár vaktir, eins og t.d. er gert í áburðarverksmiðjunni. En sé reiknað með því, að þarna mundi unnið með samsvarandi kjörum og nú eru í áburðarverksmiðjunni, mundi kaupið, sem út er reiknað á 15. síðunni, b-liðurinn undir „Vinnulaun í verksmiðju“, þar er reiknað með launum í verksmiðju 4.3 millj., en þó að ekki væru nema 50 starfsmenn með þeim launum, sem eru í áburðarverksmiðjunni, mundi þetta vera um 6 millj., þannig að strax í þessum reikningi, sem þarna er lagður fyrir, stenzt hann ekki í einum lið, — og það er eini liðurinn, sem ég hef athugað, — þá er of lágt áætlað um 50% raunverulega, bara vinnulaunaþátturinn.

Þá kemur spursmálið um, hvort þetta muni borga sig. Það er reiknað með, að kostnaðurinn — og sjáum við strax nokkrar villur í því — sé 32 millj. kr. að framleiða þetta. Síðan er á 13. síðunni verið að reyna að gera sér grein fyrir, hvað mikið komi inn fyrir söluna, og reiknað með, að það geti verið á milli 46 millj. og upp í 37 millj. og þarna sé þá afgangs upp í vexti, afskriftir, ágóða og annað slíkt. Þegar þarna er reiknað með kostnaðinum og gengið út frá, að ríkið geri þetta, er reiknað með stofnkostnaði, sem er 130 millj. Þá er ekki reiknað með sem stofnkostnaði í sambandi við þetta vegalagningu, sem er í sambandi við það. Hún er þarna fyrir utan, og er þó gefið, að það er ekki annað en framlag ríkisins í því sambandi. Enn fremur er vitanlegt, að þarna þarf að byggja, fyrir utan þau íbúðarhús, sem þarna er sérstaklega reiknað með, þá þarf að byggja þarna yfir það fólk, sem ætti að búa og vinna þarna við, um 50 manns, og það er engin smávægis fjárfesting, raunverulega einvörðungu fyrir þessa kísilgúrverksmiðju, þannig að mér sýnist, að sá raunverulegi stofnkostnaður, sem ríkið leggur þarna fram, muni vera nær því að vera milli 150 og 200 millj. heldur en bara þær 130, sem þarna eru settar fram, og ég er þess vegna hræddur um, að þegar ætti svo að fara að reikna þá vexti, sem þarna væru af lánum, sem eru upp í 9%, reikna afborganirnar þarna inn í, sé þetta fyrirtæki ákaflega tvísýnt hvað arð snertir, ákaflega tvísýnt. Og ég held, að ef menn vildu fara að gera þetta að almenningshlutafélagi, yrðu menn fyrir þá væntanlegu hluthafa að leggja fram miklu nánari útreikninga, a.m.k. ef við ætlum að fá einhverja fjármálamenn í það, en ekki bara plata saklausan sveitamanninn, eins og Reykvíkingar mundu segja, þannig að ég held nú, að það ætti að athuga þessa hluti betur.

Mér skilst nú satt að segja að sumu leyti, að það sé meira meiningin að fá þessi lög í gegn sem eins konar heimild hjá hæstv, ríkisstj. heldur en hún sé ákveðin að liggja í þetta og að það muni raunverulega allt saman verða athugað miklu nánar, þegar þetta svokallaða undirbúningsfélag væri þarna stofnað. En ég tel þó rétt að benda á þessa hluti, að þetta þurfi að athuga betur. En það var upplýst í iðnn., að það væri að öllum líkindum aðeins eitt fyrirtæki í heiminum, sem raunverulega gæti byggt þessa verksmiðju, það væri Kaiserfyrirtækið í Bandaríkjunum, sem virkilega mundi hafa áhuga á að gera það. Það mundi að vísu vera nokkuð dýrt, en það mundi vera það eina örugga í slíku. Og mér er nú spurn: Eru það virkilega áætlanir frá einhverju slíku fyrirtæki, sem þarna liggja fyrir, eða eru þessar áætlanir ekki það lausar, að við gætum búizt við allt öðrum áætlunum, þegar að því væri komið, að slíkt fyrirtæki ætti að fara að byggja upp í Mývatnssveit og sjá um að útvega þær vélar, sem í þetta þyrfti? Þetta finnst mér rétt að láta koma fram, þegar við erum að ræða þetta. Mér skilst, að það hollenzka sölufélag, sem þarna er verið að ræða um að gefa einokun á sölunni, hafi allt sitt á þurru í sambandi við þetta og þess framlag í raun og veru í t.d. hlutafé nálgist mest að vera það, sem á verzlunarmáli mundi nú vera kallað fríakstur fyrir þann kostnað, sem þeir leggja á sig, í sambandi við þann undirbúning, sem þeir leggja á sig, og ráð, sem þeir gefa, og annað slíkt, þannig að þeir hafi raunverulega allt sitt á þurru í þessu, það sé íslenzka ríkið, sem hafi í þessu sambandi alla áhættuna.

Ég vildi minnast á þessa tvo hluti, annars vegar áhættuna viðvíkjandi sölunni, hins vegar efasemdirnar um, hvort þetta fyrirtæki bæri sig, vegna þess að það eru hlutir, sem þurfa náttúrlega að athugast og vegast, um leið og við sláum hinu föstu, að þarna sé um mjög gott hráefni að ræða, með þeim beztu í heiminum, og hins vegar um mjög mikla nauðsyn að ræða að koma upp fyrirtækjum norður í landi og hjálpa þannig til við að rétta við jafnvægið í byggðinni. Ég vil þó um leið leyfa mér að kasta því fram til athugunar fyrir hæstv. ríkisstj., þegar hún hefur fengið þetta frv. fram, sem ég efast ekki um að hún fái, að meðan á þessum undirbúningi stendur og þessu undirbúningsfélagi og haldið verður áfram samningum þarna, áður en lokaákvarðanirnar verði teknar, þá íhugi hún sitt mál. Ég held, að höfuðástæðan til þess, að hæstv. ríkisstj. leggur út í þetta, sé sú, að hún vilji gjarnan koma upp fyrirtæki þarna norður í dreifbýlinu. Ég held, að það sé höfuðástæðan. Ég held, að hún mundi ekki hafa lagt til að byggja kísilgúrverksmiðju hérna einhvers staðar í þéttbýlinu hjá okkur syðra.

Ég hef stundum orðið var við þann hugsunarhátt, að 150–200 millj. væru ekki stórfé, þegar það væri ríkið, sem legði það út, það væri ekki neitt að súta, þótt það færi þá í súginn eða misheppnaðist og verksmiðjan stæði uppi og væri ekki rekin. En ég verð nú að segja það frá mínu sjónarmiði, það er kannske íhaldssemi og gamaldags, að þá finnst mér 200 millj, vera þó nokkur peningur, og ég held, að hæstv. ríkisstj., áður en hún ákveður nú að verja þessum peningum, ætti að ræða t.d. við Norðlendinga, t.d. fulltrúa frá bæjarstjórnunum og sýslufélögunum á Norðurlandi, um, hvernig þeim litist á þetta. Ég þykist vita, að sumir séu mjög hrifnir af þessari kísilgúrverksmiðju og vilji mjög gjarnan fá hana, og það er ekki nema gott eitt um það að segja, en aðrir kynnu líka að koma með einhverjar aðrar tillögur. Ég hef orðið var við það hér á Alþingi, að það hafa ýmsir t.d. af þeim þm., sem eru fyrir Norðurlandskjördæmi vestra, verið að flytja hér ýmsar till. um ýmsar verksmiðjur, sem komið væri upp á ýmsum stöðum þar, Sauðárkróki, Skagaströnd og víðar, þar sem nokkurt atvinnuleysi hefur verið að undanförnu. Og það, sem helzt virðist bjáta á í því sambandi, er peningaleysi, eins og stundum ber nú við, þó að það sé mikið til kannske, ef við viljum leggja í kísilgúrverksmiðju. T.d. niðurlagningarverksmiðju á síld, ef við vildum byggja aðra í viðbót og setja þessa í gang, sem nú er, og ég efast ekki um, að það sé hægt að selja úr þeim báðum, ef að því er unnið, — ég held, að niðurlagningarverksmiðja eða jafnvel fleiri en ein, sem ynni úr 15 þús. tunnum af síld, mundi varla kosta meira en einar 12–15 millj. kr., og við slíka verksmiðju mundu vinna um 70–80 manns í tíu mánuði, og útflutningsverðmæti slíkrar vöru mundi vera upp undir I00 millj. kr., þannig að ef menn hafa 150 eða 200 millj. kr. til taks eða vilja taka það að láni og vilja verja því til þess að efla atvinnurekstur í dreifbýlinu, atvinnurekstur til útflutnings, þá er hægt aðeins með því að dreifa þeirri upphæð niður á 4, 5, 6 staði við Norðurland, og það þyrfti ekki að skilja Suður-Þingeyjarsýslu þar út undan, þá er áreiðanlega hægt fyrir þær 150 millj. kr., skulum við segja, að koma upp fyrirtækjum, sem veita fimm til tíu sinnum fleiri mönnum atvinnu en þeim, sem fengju hana við kísilgúrverksmiðjuna, og sköpuðu útflutningsverðmæti, sem væri a.m.k. fimmfalt og tífalt jafnvel á við það, sem kísilgúrverksmiðjan mundi flytja út, því að það er reiknað með, að það séu milli 46 og 57 millj. Þegar við erum að hugsa um fjárfestingu og hvernig við verjum fé bezt, þá kann ég bezt við, að menn hugsi það líka, þótt ríkið borgi, út frá því sjónarmiði, að því sé varið sem skynsamlegast, jafnvel eins og menn ættu það sjálfir, þannig að ég held, að það væri rétt, um leið og haldið sé nú áfram, eins og vafalaust verður, undirbúningi að þessu og allt athugað vel, að líta á hina hlutina. Það er líka hægt að koma upp ýmissi framleiðslu á Norðurlandi fyrir innanlandsmarkað, sem mundi bæta þarna, því að það vitum við náttúrlega allir, að kæmum við svona verksmiðju upp, stæðum í okkar hörðu baráttu við þá aðila, sem þetta selja, og lægjum í þeirri baráttu, þannig að við yrðum að stöðva þetta, þá verður það náttúrlega ekki heldur að gagni þeim, sem við viljum að það komi að gagni.

Við skulum ekki heldur vera of svartsýn, en við gætum líka sigrað í þeirri baráttu og slegið í gegn með þessa vöru, sem vafalaust er gæðavara. Við verðum bara að gera okkur ljóst, að við erum þarna að leggja í nokkra áhættu. Ég held þess vegna, að það væri ákaflega gott, að það væru athugaðir, á meðan hæstv. ríkisstj. væri að vinna frekar að undirbúningi þessa máls, aðrir möguleikar viðvíkjandi Norðurlandi líka, og það væri náttúrlega eins hægt á síðari stigum þessa máls, að jafnvel hæstv. ríkisstj. væri þar gefin heimild til þess, ef henni litist svo á, þegar hún væri komin út í frekari undirbúning að þessu, að það mætti verja því fé betur, þeim 130 millj. eða hvað sem við viljum nú nefna það fé, — mér skilst, að hér séu 150 millj., sem á að leggja úr ríkissjóði, og þar að auki taka þau lán, sem með þarf, — ef henni litist á að verja því betur á annan máta til þess að koma upp verksmiðjurekstri á Norðurlandi, bæði til framleiðslu á vöru, sem seld væri innanlands, og framleiðslu á vöru, sem flutt væri út úr landinu, gæti hún haft heimild til þess að breyta þessu á þann veg. Ég býst við, að við séum allir sammála um, að það sé höfuðatriðið í þessu að gefa hæstv. ríkisstj. allmiklar heimildir til þess að verja fé úr ríkissjóði og taka fé að láni til að koma upp allmiklum verksmiðjurekstri á Norðurlandi með þá vöru, sem þætti, þegar allt væri athugað vel, arðvænlegast og öruggast að leggja í.

Þessar hugleiðingar vildi ég setja fram á þessu stigi málsins, og það væri þá, ef menn vildu eitthvað með þær gera, máske hægt að íhuga betur, ef menn vildu hnýta aftan við þetta frv. einhverjum frekari heimildum til hæstv. ríkisstj. til þess að nota svipað fé og hér er til þess að greiða úr vandamálum dreifbýlisins.