05.05.1964
Efri deild: 82. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1303 í B-deild Alþingistíðinda. (970)

201. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að lýsa ánægju yfir því, að áform um kísilgúrvinnslu við Mývatn eru nú komin á það stig, að Alþingi er að setja lög um, að ríkisstj. skuli beita sér fyrir stofnun hlutafélags, er reisi og reki verksmiðju við Mývatn og Námaskarð í Suður-Þingeyjarsýslu til þess að vinna markaðshæfan kísilgúr úr botnleðju Mývatns, eins og segir í 1. gr. þessa frv. og hæstv. ráðh. vitnaði til áðan. Ég hef sérstakar ástæður til þess að lýsa ánægju yfir þessu frv., fyrst og fremst af því, að ég varð til þess fyrstur að hreyfa þessu máli á hv. Alþingi, enda snertir málið heimahérað mitt meira en það snertir önnur héruð. Ég flutti á þinginu 1958–1959 þáttill., svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta nú þegar á þessu ári ganga til hreins um það með fullnaðarrannsókn og áætlunum, hvort arðvænlegt sé að vinna til útflutnings kísilleir þann, sem er í botni Mývatns og meðfram Laxá í Aðaldal.

Komi í ljós að fullathuguðu máli, svo sem líkur virðast benda til, að vinnsla leirsins sé arðvænleg, leiti ríkisstj. úrræða til þess, að vinnslan verði hafin sem allra fyrst.“

Till. þessari var vel tekið. Fjvn., sem var falið að athuga till., mælti einróma með henni óbreyttri, og hún var samþykkt samhljóða í sameinuðu Alþingi. Eftir þetta var hvað eftir annað hugsað fyrir athugun á þessu máli með dálitlum fjárveitingum í sambandi við fjárlög Alþingis. En athuganirnar reyndust seinlegar, eins og grg., sem fylgir frv., sem hér liggur fyrir, skýrir glögglega frá, og er ekkert við því að segja. Mér er persónulega kunnugt um, að mikið verk var lagt í að athuga og undirbúa málið, því að ég reyndi að hafa fréttir af, hvernig gengi með það á hverjum tíma þau 5 ár, sem liðin eru síðan ég bar fram þáltill. Mér er vel kunnugt um það, að Baldur Líndal efnaverkfræðingur hefur sýnt mikla þekkingu og þrautseigju við rannsóknir og undirbúning málsins, eins og hæstv. iðnmrh. gat líka um við reifun málsins áðan. Ég efast ekki heldur um, að stóriðjunefnd og fleiri, er með málið hafa farið, hafa lagt sig fram til að gera því sem bezt skil. Þetta ber að þakka.

Hér er ekki um stórt fyrirtæki að ræða, en merkilegan vísi þó til útflutnings á framleiðslu úr skauti landsins og gæti sá útflutningur, ef vel tækist til, margfaldazt og fyrirtækið orðið stórt.

Íslendingar þurfa að leggja kapp á að auka gjaldeyrisöflun sína og fjölga atvinnugreinum. Hér á að stíga spor í þá átt, og því ber að fagna. Ég tek undir það, sem segir í grg. frv.: „Stofnsetning kísilgúrverksmiðju við Mývatn getur orðið upphaf mikilsverðs útflutningsiðnaðar. Ytri skilyrði virðast vera hin æskilegustu, þar sem annars vegar er nær óþrjótandi kísilgúrnáma í Mývatni, en hins vegar markaður, sem allt bendir til, að muni fara ört vaxandi með aukinni iðnþróun og batnandi Iífskjörum“ fólks. Hins vegar tek ég einnig undir það, sem þar stendur líka, að mikið er í húfi, að vel takist um alla framkvæmd og undirbúning, áður en af stað er farið með þennan nýja atvinnuveg. Hjá þeim hæstv. ráðh., sem reifað hefur málið hér á Alþingi, virðist mér þessara sjónarmiða gæta, og hef ég því ekkert út á reifun málsins að setja. Við frv. sjálft ætla ég ekki heldur að gera aths. við þessa umr. Í hv. Nd. hafa veríð gerðar á frv. tvær breytingar, sem við framsóknarmenn teljum til verulegra bóta: önnur sú, að sveitarfélögin í þeim landshluta, þar sem fyrirtækið verður staðsett, skuli hafa rétt til að gerast fullgildir hluthafar. Hin, að fulltrúar ríkissjóðs í stjórn fyrirtækisins skuli verða kosnir sí Alþingi. Enn fremur hefur það verið tekið fram að hæstv. iðnmrh., að sölusamningurinn við hið erlenda félag, ef til kemur, verði tímabundinn og uppsegjanlegur, en að hann yrði það, skorti á að ljóst kæmi fram í frásögn þeirri, er fylgdi frv., þegar það var lagt fram.

Frv. þarf að verða að lögum á þessu þingi, og stutt er eftir af þinginu vitanlega. Ég veit ekki betur en mér sé óhætt að lýsa því yfir, að framsóknarmenn í þessari hv. d. vilja ekki tefja fyrir, að svo megi verða, að málið fái afgreiðslu og frv, verði að l., heldur greiða fyrir því, að svo megi verða án mikilla tafa.