10.10.1964
Sameinað þing: 0. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í B-deild Alþingistíðinda. (1)

Forseti Íslands setur þingið

Forseti Íslands (Ásgeir Ásgeirsson):

Hinn 25. september 1964 var gefið út svo hljóðandi forsetabréf:

„Forseti Íslands gerir kunnugt:

Ég hef ákveðið samkv. till. forsrh., að Alþingi skuli koma saman til fundar laugardaginn 10. október 1964.

Um leið og ég birti þetta, er öllum, sem setu eiga á Alþingi, boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur, og verður þá Alþingi sett að lokinni guðsþjónustu í dómkirkjunni, sem hefst kl. 13.30.

Gert í Reykjavík, 25. september 1964.

Ásgeir Ásgeirsson.

Bjarni Benediktsson.

Forsetabréf um, að Alþingi skuli koma saman til fundar laugardaginn 10. október 1964.“

Samkv. bréfi því, sem ég nú hef lesið, lýsi ég yfir því, að Alþingi Íslendinga er sett.

Ég árna Alþingi allra heilla í störfum, að þau megi verða landi og þjóð til trausts og halds, til gæfu og gengis.

Ég veit, að það misvirðir enginn, að ég nota þetta tækifæri til þess að þakka innilega alla þá samúð og margvíslegu hjálp, sem okkur hefur verið sýnd og veitt á þessum örðugu tímamótum í lífi mínu. Ég þakka ríkisstj., ég þakka Alþingi, og ég þakka alþjóð. Ég þakka kveðjur og minningargjafir, bréf og blóm, ræður og minningargreinar, allt þetta sýnir, að konan mín, Dóra Þórhallsdóttir, var metin að verðleikum. Þetta verður okkur því meiri styrkur sem lengra líður frá.

Að svo mæltu bið ég þm. um að rísa úr sætum og minnast á þann veg ættjarðarinnar.

[Þingmenn risu úr sætum, og forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson mælti: „Heill forseta vorum og fósturjörð. Ísland lifi.“ Tóku þm. undir þau orð með ferföldu húrrahrópi.]

Samkv. 1. gr. þingskapa ber nú aldursforseta að stjórna þingfundi, þar til kosning forseta sameinaðs þings hefur farið fram. Aldursforseti er nú Ólafur Thors, 1. þm. Reykn., og bið ég hann um að ganga til forsetastóls.