08.04.1965
Efri deild: 64. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1192 í B-deild Alþingistíðinda. (1051)

147. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. 2. minni hl. (Afreð Gíslason):

Herra forseti. Þeir flokksbræður, hæstv. félmrh. og hv. 12. þm. Reykv., fluttu hér ræður við þessa umr. í fyrradag, þar sem þeir gagnrýndu till. okkar minnihlutamanna. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þessar ræður. Mér þótti heldur litið fara fyrir röksemdum í þeim, enda varla við því að búast, eins og þessi mál horfa við nú. Það er eitt lítið dæmi um rakafátækt þessara hv. ræðumanna, að hæstv. félmrh. fann sér það ekki sízt til að fetta fingur út í það, að í minni ræðu hafði ég sagt, að hæstv. ríkisstj. hefði ekki sem skyldi staðið við júní samkomulagið. Um þetta ræddi hæstv. ráðh. nokkuð og mér skildist á gagnrýni hans, að hann telji þetta orðalag miður heppilegt, ef ekki rangt frá siðrænu sjónarmiði og hann hefði talið, að hér hefði átt að segja það, sem í þessu fælist, beinum orðum, að ríkisstj. hafi svikið júní samkomulagið. Ég skal nú ekki fjölyrða um þetta í sjálfu sér, en um alger svik í júní samkomulaginu talaði ég ekki. Það verður þá að vera dómur hæstv. ráðh. og ég geri ekki þann dóm að mínum dómi alveg án fyrirvara. En þetta var aðeins dæmi, sem bendir til rakaskorts þeirra hv. ræðumanna, sem ég gat hér um.

Hæstv. ríkisstj. lofaði því að létta fátækum íbúðabyggjendum vaxtabyrðina og haga lánskjörum í samræmi við greiðslugetu þeirra. Þetta er vert að hafa í huga, þegar það er athugað, að fram til þessa tíma hafa menn, sem tekið hafa lán hjá húsnæðismálastofnuninni, orðið að endurgreiða lánsfjárhæðina rúmlega tvöfalda til baka, en framvegis samkv. frv. eiga lántakendur að endurgreiða sömu upphæð nærri sjöfalda. Þetta þykir mér ástæða til að leggja áherzlu á. Þannig eru þá efndirnar í þessu efni. Bæði hæstv. félmrh. og hv. 12. þm. Reykv., en hann er formaður húsnæðismálastjórnar, gerðu þetta atriði að umtalsefni. Og þeir vildu báðir gera lítið úr þessari sjöföldun endurgreiðslna og töldu, að sú aukning á byrðinni væri í rauninni ekki þung eða mundi ekki reynast þung. Og þeir færðu sömu rök fyrir máli sínu, að hækkuð vinnulaun mundu á komandi tímum fylgja hækkaðri vísitölu. Ég vil í þessu sambandi benda á, að þessi afsökun þeirra byggist á algerlega rangri forsendu. En forsendan er sú, að vinnulaun hafi ekki hækkað að undanförnu, þar eð þau hafi ekki verið í tengslum við vísitölu, en eigi eftirleiðis að hækka. Sannleikurinn er auðvitað sá, að vinnulaun hafa farið hækkandi með aukinni dýrtíð á undanförnum árum, eins og verða mun í framtíðinni. Í því efni er ekki um neinn mismun að ræða, en á þeim mismun hljóta hv. ræðumenn að hafa byggt afsökun sína. Eftir stendur þá óhaggað, að greiðslubyrðin í stað þess að tvöfaldast á nú eftirleiðis að sjöfaldast, svo framarlega sem gert er ráð fyrir sama verðbólguvexti framvegis og verið hefur að undanförnu.

Hv. 12. þm. Reykv. ræddi nokkuð þá till: minni hl. n. að hækka lánin úr 280 þús. Hann virtist telja þær till. fráleitar. Hann gerði sig meira að segja sérlega ábyrgan á svip og alllandsföðurlegan í rómi, þegar hann hneykslaðist á því ábyrgðarleysi, sem kæmi fram í slíkum till. Mig minnir, að hann hafi í þessu sambandi talað um óskhyggju, en það kann að vera misminni. Hann spurði: Hvar á að taka þetta fé, eða ætlast flm. brtt. til þess, að lánum verði fækkað að sama skapi sem þau hækka? Og það var helzta leiðin, sem mér virtist hann sjá. Ef að því ráði yrði horfið að hækka lánin, þá yrði að fækka þeim um leið, og það taldi hann ekki æskilegt, og það teljum við minnihlutamenn áreiðanlega ekki æskilegt heldur. En það er rétt að athuga það, hvaða fúlgu er hér um að ræða. Hér er um að ræða upphæð, sem mun nema nálægt 20 millj. kr. Stærri er nú upphæðin ekki til þess að geta hækkað lánin úr 280 þús. í 300 þús. eða 310 þús., eins og við leggjum til. Þetta er allt og sumt, svo að það er ekki furða, þótt hv. þm. sjái enga færa leið út úr slíkum vanda.

Ég skal ekki tefja tímann með því að telja upp þær leiðir, sem ég sé, en ég skal fúslega benda þessum þm. á 10–20 leiðir út úr þessum vanda, 10–20 leiðir til þess að afla þessara 20–25 millj. kr. í góðu tómi. Hitt ætti okkur öllum að vera ljóst, að með þeirri fjáröflun, sem nú hefur verið gerð, er ekki vandinn leystur á neinn hátt. Það verður áframhaldandi að leita að nýjum úrræðum til fjáröflunar alveg á næstunni, því að ef vel á að fara, verður að síauka það fjármagn, sem húsnæðismálastjórn hefur til ráðstöfunar. Þetta hygg ég, að öllum geti verið ljóst. Ég skal ekki fara frekar út í ræður þeirra, sem andmæltu okkar brtt. Hæstv. félmrh. skar þær allar niður með tölu í ræðu sinni og lagði það til án þess að blikna eða blána, að þær yrðu allar felldar hér í hv. deild.

En það var eitt að lokum í ræðu hæstv. félmrh., sem ég vil aðeins drepa á og það var hans athyglisverða yfirlýsing um, að ríkisstj. hefði nú í athugun að vísitölubinda öll lán, sem veitt eru til langs tíma og hann boðaði það enn fremur, að vænta mætti lagafrv. um það efni bráðlega, ef ekki á þessu þingi, þá í byrjun næsta þings.

Ef marka má þennan boðskap og um það leyfi ég mér ekki að efast, gefur hann beinlínis tilefni til þess, að verðtryggingu lána húsnæðismálastofnunarinnar verði frestað um sinn. Eða er nokkur ástæða til þess að binda klafann um háls þeirra efna minnstu nú þegar, en fresta þeirri aðgerð, þegar í hlut eiga hinir efna meiri? Það væri, eins og ég orðaði það í ræðu minni í fyrradag, að byrja á öfugum enda. Ýmsir hafa haldið því fram og e.t.v. með réttu, að verðtrygging allra innlána og útlána mundi góður hemill á verðbólgunni og þess vegna sé slík verðtrygging æskileg. Hvað sem um það er og það skal ég ekki ræða nú, er hitt víst, að vísitölubinding lána húsnæðismálastjórnar hefur engin minnstu áhrif til stöðvunar verðbólgunnar, ef hún ein er tekin út úr eða þau lán ein eru tekin út úr. Það er þess vegna gersamlega ástæðulaust frá því sjónarmiði að taka lán húsnæðismálastofnunarinnar út úr og verðtryggja þau nú, en láta önnur lán til langs tíma bíða. Mér fannst þessi yfirlýsing hæstv. félmrh. m.ö.o. styðja það, sem við höfum haldið fram hér, að ekki sé vert að svo stöddu að vísitölubinda að öllu leyti lán og vexti húsnæðismálastofnunarinnar. Hitt viðurkenni ég, að um leið og öll löng lán verði vísitölutryggð almennt og undantekningarlaust, mun ekki heldur óeðlilegt með öllu a.m.k., að lán húsnæðismálastjórnar fylgist þar með, en ég tel, að vísitölubinding þeirra lána eigi ekki að verða einum degi fyrr en annarra lána.