08.04.1965
Efri deild: 64. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1202 í B-deild Alþingistíðinda. (1055)

147. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég sagði ekki alveg það um lögfræðingana, sem hæstv. félmrh. vildi vera láta, að ég hefði sagt, að allir lögfræðingar væru um þetta sammála. Ég sagði, að þetta virtist vera svo augljóst mál, að lögfræðingar ættu ekki að geta deilt um þetta í alvöru. En lögfræðingar geta deilt um margt og mér finnst hæstv. félmrh. mikil vorkunn, að hann telji sig nokkru traustari í sessi, þegar hann styður sig við þá sterku og stóru fimm stafi, sem hann taldi upp. En það er svo með lögfræðingana, að niðurstaðan hjá þeim fer alltaf mjög mikið eftir því, hvernig málin eru fyrir þá lögð og skýrð, áður en þeir taka ákvörðun sína. Og vera mætti það eða a.m.k. gæti ég hugsað mér það, að ef málin hefðu verið flutt fyrir þessa 5 menn á svipaða lund og ég gerði áðan og þeim bent á það, hvað hér væri um að ræða, hefði niðurstaðan hjá einhverjum þeirra e.t.v. orðið á aðra lund, en raun ber vitni. En það er nú aukaatriði og ekki skal ég fara fleiri orðum um það.

Það má segja kannske, að þetta sé ekki mikið atriði, það sé smekksatriði um lagasetningu, hvort það á að bæta þessu æxli þarna á þessa löggjöf, sem hér liggur fyrir, eins og hv. 1. þm. Norðurl. e. orðaði það, eða hvort á að setja það á réttan stað og um það læt ég nú meiri hl.

Ekki skal ég heldur fara að lengja umr. um það, hvort sá aukni eignarskattur, sem hér er ráðgerður, sé sambærilegur við fasteignaskatt eða ekki. Það má vel segja, eins og hæstv. ráðh. sagði, að það sé munur á, en þó með þeim fyrirvara sagt, að fasteignaskattur getur náttúrulega verið í mismunandi myndum, og það liggur ekkert fyrir um það, hvernig sá fasteignaskattur hafi átt að vera, sem til mála gat komið að leggja á, þannig að það þyrfti nú alls ekki að vera sá munur á þessu eins og hann vildi vera láta, því að orðin fasteignaskattur og eignarskattur skera náttúrlega ekkert hér út af fyrir sig úr.

En höfuðatriðið er, að það kom fram hjá hæstv. ráðh. mót von minni, að hér væri ekki eiginlega um misskilning að ræða. Það hefði átt að gera brtt. úr garði með því efni, sem í henni er eftir orðanna hljóðan, að það ætti að gera skattskyldu manna að þessu leyti, að því er varðar eignarskatt, mismunandi eftir því, hvar þeir eiga lögheimili. Ég hafði satt að segja vonazt til þess, að þetta hefði verið misskilningur og þarna hefði verið meiningin að skattleggja eignirnar mismunandi eftir því, hvar þær eru staðsettar og þó að ég sé ekki að mæla með því, er þó þar talsverður munur á. En rökin, sem hæstv. ráðh. færði fram fyrir þessu sjónarmiði, eru að mínu viti ekki alls kostar rétt heldur. Hann sagði, að þessi regla byggðist á því, að það ætti ekki í þessu sambandi að skattleggja aðra en þá, sem gætu komið til greina með að fá lán hjá húsnæðismálastjórn. Þetta stenzt alls ekki, því að fasteignir eru náttúrlega eignir alls konar félaga, geta verið sjálfseignarstofnanir, geta sem sagt verið eign aðila, sem ekki hafa nokkra möguleika til þess að fá nokkru sinni lán hjá húsnæðismálastofnuninni, þannig að þau rök, sem hann færði hér, hefðu aldrei átt við nema bara um einstaklinga, og vafalaust koma þeir til með að borga mikið. En ég gæti trúað því, að talsvert af þeim fasteignum, sem til eignarskatts kemur, væri á höndum annarra en einstaklinga, þannig að þessi röksemd stenzt ekki, a.m.k. ekki algerlega.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta. Það er að sjálfsögðu alltaf álítamál, hvernig á að afla fjár til að standa undir útgjöldum.

Í þessu sambandi hefur ríkið tekið á sig kvaðir í sambandi við húsnæðismálastofnunina og einhvers staðar verður það fé vitaskuld að fást. En ég vil benda á það, að það er, eins og þetta er upp sett, engan veginn samræmi á milli útgjalda ríkissjóðs og þessarar fjárheimtu, sem þarna er ráðgerð, vegna þess að það er ekkert, sem segir til um það, að þetta muni standast á. Ég held ekki, að það hafi komið fram hér í umr. upplýsingar um það, hverju þessi skattauki muni nema. Ég veit ekki, hvort menn geta áætlað það svona nákvæmlega. Ég dreg það a.m.k. í efa, a.m.k. ef till. verður svo úr garði gerð sem hér er, því að þá gæti nú orðið minna úr en menn hafa ætlað í upphafi. En alla vega stenzt þetta ekki á. En hvað um það, ég er út af fyrir sig — og ég vil undirstrika það — ekki beint að taka afstöðu með þessum aths., sem ég hef gert hér við þessa till., eins og hún er úr garði gerð, til fasteignaskatts eða aukinna afgjalda af fasteignum. Ég hef viðurkennt og viðurkenndi áðan, að fasteignamatið væri vitanlega allt of lágt og fasteignaeigendur slyppu að því leyti til betur við eignarskatt, heldur en réttmætt er, svo að þess vegna tel ég það út af fyrir sig ekki eftir, þó að þeir verði að greiða eitthvað meira. En á hinn bóginn má máttúrlega benda á það, að þegar svona gjöld er um að ræða, eins og fasteignaskatt, þó að það skuli játað, að það eigi kannske siður við um skattinn í þessari mynd, eins og frá er gengið, þá kemur þetta niður á mönnum, sem þurfa að byggja fasteignir og er kannske hætt við því, að það verði þá til þess að hækka fasteignirnar í verði, en það er náttúrlega ekki meiningin. En ég verð að segja það, að það er sjálfsagt nauðsynlegt að útvega húsnæðismálastofnuninni eitthvert eigið fé, en ég hef alltaf litið svo á, að það væri út af fyrir sig ekki aðalatriði í þessum málum og það gæti aldrei orðið neitt aðalatriði. Það getur aldrei orðið lag á í þessum efnum þannig, að það verði safnað upp eigin fé hjá einhverri stofnun til að standa undir öllum lánum eða standa undir verulegum hluta húsnæðismálalána. Það er ekki lag fyrr á þessum málum heldur en það, að eðlilegum hluta af sparifé landsmanna er ráðstafað til þessara hluta. Og þessi þörf, sem þarna er, á að sitja fyrir hæfilegum hluta af sparifé landsmanna, og ef það er gert og þau kjör á því, sem eðlilegt er, get ég ekki séð, að það sé svo mikil þörf á stórkostlegri sjóðmyndun hjá þessari stofnun.