20.04.1965
Neðri deild: 70. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1217 í B-deild Alþingistíðinda. (1070)

147. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég skal ekki fara út í að ræða þetta frv. almennt núna. Þó get ég ekki látið vera að víkja að einu atriði, sem hæstv. ráðherra nefndi hér áðan, en það var það, að hagur húsbyggjenda mundi aldrei hafa verið svo góðu,r sem hann verði nú samkv. þessu frv. Þar á hann við það, að lánin hækka úr 150 þús. upp í 280 þús. Þegar þess er gætt, að á s.l. ári hækkaði meðal íbúð um tæp 90 þús. kr. í verði og árið áður um 98 þús., þá er þessi 130 þús. kr. hækkun ekki nema hér um bil 17 mánaða verðhækkun á meðal íbúð. Það sjá því allir, að húsbyggjendur hafa staðið eins vel áður að vígi, þegar hækkun lánanna nemur ekki nema tæplega hálfs annars árs verðhækkun á meðal íbúð.

En annars var aðalerindi mitt hingað að gera eina fsp. til hæstv, ráðh., áður en málið fer til n. í 7. gr. stendur: „Lán skal þó því aðeins veita, að loforð um lánveitingu hafi verið gefið, áður en hlutaðeigandi byggingarframkvæmd hófst eða kaup á nýjum íbúðum eru gerð.“ Á að skilja þetta þannig, ef einhver hefur byrjað á að byggja botnplötu að íbúð á húsinu sínu og hefur ekki sótt um lán, en þarf síðar á því að halda að sækja um lán úr húsnæðismálasjóði, að hann fái aldrei lán út á þetta hús, af því að það lá ekki lánsheimild fyrir, þegar botnplata var byggð? Ég held, að það sé rétt að fá úr þessu skorið strax, hvort ætlunin er að fara þannig að? Auðvitað geta aðstæður manna breytzt og eru alltaf að breytast í fjárhagslegum efnum. Maður, sem byrjar á að byggja sér hús, getur verið þannig stæður eða talið sig þannig stæðan, að hann þurfi ekki að leita eftir láni hjá húsnæðismálastjórn, en svo breytist hagur hans. Hann er aðeins byrjaður á húsinu, mjög skammt á veg kominn og nú þarf hann að leita láns, en hann fær það ekki, af því að það lá ekkert lánsloforð fyrir, áður en byrjað var að byggja. Er ekki alveg nóg að fresta lánveitingu til slíkra aðila t.d. um eitt ár, svo að það komi sjóðnum ekki bagalega að hafa ekki vitað fyrir fram um þörf manns, en gefa honum kost á síðar að fá slíkt lán? Hitt tel ég alveg fyrir neðan allar hellur, ef það á að fara að dæma mann úr leik að fá lán nokkurn tíma út á þetta hús, af því að hann hafi ekki fengið lánsloforð, áður en hann byrjaði að steypa botnplötuna.