29.04.1965
Neðri deild: 76. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1316 í B-deild Alþingistíðinda. (1107)

187. mál, lausn kjaradeilu atvinnuflugmanna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það eru nokkrar hugleiðingar og nokkrar spurningar til hæstv. ráðherra, sem ég vildi leggja fram í sambandi við þetta.

Það er greinilegt, að þetta mál er tvíþætt. Það er annars vegar „prinsip“–mál og fordæmi, sem kemur til með að hafa afgerandi áhrif á þær vinnudeilur, sem fram undan eru, aðrar en Loftleiða og það er hins vegar praktískt mál, sem snertir Loftleiðir. Ég vil í fyrsta lagi út frá því, sem hæstv. ráðh. var að upplýsa hér í sambandi við vinnulaunin, sem flugmennirnir væru að heimta, gjarnan fá að kíkja ofurlítið inn í hina hliðina á þessu máli. Hvernig er með þá forsjálni hjá forráðamönnum Loftleiða að ráðast í að kaupa þessar vélar, hvernig sem þær nú hafa verið keyptar, án þess að vera búnir að tryggja sér að semja við sína verkamenn áður, semja við flugmennina um kaupgjaldið á þeim. Er það mikil forsjálni af hálfu eins stórs félags, sem leggur í milljónafyrirtæki eða hundraða milljóna fyrirtæki, að hafa ekki tryggt sér nokkurn veginn áður, að þeir fái samninga við sína flugmenn, sem eiga að starfa á þessum vélum? Gerðu þeir sér ekki ljóst, að þeir mundu þurfa flugmenn á þessar flugvélar sínar og að það mundu þurfa að vera íslenzkir flugmenn? Hugsa þeir ekki út í það? Það vill stundum vera svo, bæði hjá hæstv. ríkisstj. og yfirstéttinni hér í þessu landi, að þeir haldi, að það sé nóg að fá fjármagn, fá auð til þess að eignast framleiðslutækin. En það þarf meira. Það þarf menn. Og það er fyllilega tími til þess, að bæði hæstv. ríkisstj. og aðrir fari að gera sér ljóst, að það er maðurinn sjálfur, sem rekur tækin, sem er höfuðatriðið í þessu. Og þegar eitt félag leggur í það, eins og Loftleiðir núna og landslýður gleðst yfir því, að þeir skuli leggja í þessi kaup, þá viljum við gjarnan fá að vita, hvað þessir forstjórar Loftleiða hugsuðu, hvað þeir voru búnir að ræða um þessa hluti áður. Voru þeir búnir að þreifa eitthvað fyrir hjá sínum flugmönnum? Hvernig standa þessir hlutir og hvernig eru þeirra samningar víð þær flugverksmiðjur, sem framleiða þessar vélar? Ég man eftir, þegar verið var að lýsa því yfir, að þessir samningar hefðu verið gerðir, að þá var jafnvel innifalið í kaupunum á vélunum viðgerð á þeim svo og svo langan tíma. Það væri gott að mega kíkja dálítið í svona samninga. Það er sem sé ekki nema eðlilegt, að maður vilji vita það nokkurn veginn fyrir fram, að hve miklu leyti þeir aðilar, sem þarna var samið um, eru sjálfstæðir íslenzkir atvinnurekendur, sem raunverulega eiga þessar flugvélar. Ég væri nefnilega ekkert hrifinn af því t.d., að það ætti að fara að komast upp sú aðstaða, að stórir erlendir fjármagnseigendur gætu farið að leggja í stóra hluti hér eingöngu með það fyrir augum að pína niður kaupið hjá íslenzkum flugmönnum og pína það fram, að þeir hafi miklu, miklu lægra kaup, en aðrir flugmenn. Ég held þess vegna, að það þurfi gjarnan að athuga vel, hvernig þessir hlutir standa. Við verðum að gá að því, að það eru flugmennirnir, sem eru undirstaðan í þessu, og það eru flugmennirnir, sem hafa unnið upp Loftleiðir og það er hæfni okkar flugmanna, sem við treystum fyrst og fremst á og gerir Ísland að einhverju leyti að miðstöð í þessu sambandi.

Þá komum við að því næsta. Hæstv, ráðh. lýsir því yfir í grg: fyrir þessu frv., að það sé þjóðarnauðsyn að leysa þetta. Vissulega er oft þjóðarnauðsyn að leysa verkföll, en það er hægt að leysa verkföll á margan máta. Hvernig stendur á, að hæstv. ráðh. kemur þá ekki hér með frv. um að fyrirskipa Loftleiðum að greiða þessum flugmönnum það, sem þeir hafa farið fram á og setja síðan rannsóknarnefnd frá hálfu þingsins í það, — flugvélarnar ganga af fullum krafti á meðan, — hvernig þessu sé öllu saman háttað? Ætli það væri ekki eitthvað nær að fyrirskipa Loftleiðum undireins að greiða þetta á meðan og láta síðan rannsaka málin og láta flugmennina fá sitt og vélarnar þar með ganga, — ætli þeim væri ekki eitthvað skynsamlegra framferði í þessu? En hver er munurinn? Jú, hæstv. ríkisstj. finnst sjálfsagt að gera það hér öðru hverju, ef það eru starfsmenn, ef það eru verkamenn, ef það eru flugmenn, sem eiga í hlut, þá á að fyrirskipa þeim að vinna eins og þrælar ófrjálsir eftir gerðardómi. En auðmennirnir, eigendurnir, það má ekki skipa þeim að láta fyrirtækin ganga, láta rannsaka þeirra rekstur, en láta þau ganga, þá með þeim kröfum, sem settar hafa verið fram. Af hverju að leysa þetta svona einhliða? Þessi hæstv. ríkisstj., sem þykist vera jafnvel eins og Sjálfstfl., stjórn allra stétta, af hverju á alltaf að leysa þessi mál einhliða með því að svipta verkamenn þeim rétti, sem þeir eiga, en þora ekki að blaka við auðmönnunum í slíku tilfelli? Hví ekki að breyta þessu frv. þannig, að Loftleiðum skuli fyrirskipað að ganga að þeim kröfum, sem flugmenn nú síðast hafa gert og samtímis skuli sett rannsóknarnefnd til þess að athuga annars vegar sanngirni þessara krafna, hins vegar aðstöðu Loftleiða til þess að standa undir þeim? Ég vil minna á þetta vegna þess, að yfirstéttin okkar hér í Reykjavík á það til, án þess að þora nokkurn tíma að stinga hendinni í eigin barm, að vilja leysa allmörg mál með því að höggva svona á hnútinn. Það getur ekki gengið til lengdar og ég skal koma að því síðar. Það, sem gerir, að samkeppnisaðstaða Loftleiða kann að versna, eins og hæstv. ráðh. var að minnast á, er stöðvunin, en ekki kaupmismunurinn, sem farið er þarna fram á. Það er margfalt meira tjón og hætta af stöðvuninni sjálfri, heldur en þeim kröfum, sem flugmennirnir gera og það var hægt að afstýra stöðvuninni með því að fyrirskipa Loftleiðum að halda áfram og láta rannsaka málið á meðan.

Þá kem ég í þriðja lagi að því spursmáli: Er meiningin hjá hæstv. ríkisstj. með þessu frv. að reka ýmsa af beztu flugmönnunum úr íslenzkri þjónustu? Því hefur verið lýst yfir, að flugmennirnir muni ekki una því að vinna undir gerðardómi. Hæstv. ríkisstj. á kannske ákaflega erfitt með að skilja þess háttar. Það eru nefnilega til Íslendingar, sem vilja ekki láta gera sig að þrælum og vilja ekki vinna sem þrælar, jafnvel þótt þeir væru hátt launaðir. Þeir vilja ekki vinna sem ófrjálsir menn, þeir vilja vinna frjálsir með þeim samningum, sem þeir gera, hvort sem þeir eru um há eða lág laun. Og við þykjumst svo sem þekkja fordæmin um það, hvernig hér er farið að af hálfu okkar yfirstéttar og hennar ríkisstj., þegar er búið að flæma Íslendinga úr ýmsum stöðum þannig. Maður þekkir það í sambandi við svokölluðu lausnina á verkfræðingadeilunni. Hvernig hefur það verið gert? Það hefur verið gert með því að ráða útlenda verkfræðinga, sem borgað hefur verið margfalt kaup, hvað eftir annað, alls konar sérfræðinga ríkisstj. í verk, sem íslenzkir menn gátu fullkomlega unnið. Þá er ekki spurt að því, ef útlendingar eiga í hlut, þá er ekki verið að skammta kaupið. En ef einhver Íslendingur gerist svo djarfur að ætla að fara fram á sæmilegt kaup, ég tala nú ekki um sambærilegt við þá útlendu starfsbræður hans, er gerðardómsöxin á lofti.

Það er bezt, að hæstv. ráðh. gefi yfirlýsingu um það, hvað hann hyggst fyrir í þessum efnum. Það er kannske allt í lagi frá sjónarmiði hæstv. ríkisstj., ef íslenzkir flugmenn hætta að fljúga þessum vélum og þeir fari að vinna annars staðar og ef amerískir flugmenn eða einhverjir aðrir flugmenn fari að vinna með kaupi, sem flugmennirnir núna heimtuðu, er máske allt í lagi fyrir Loftleiðir. Það væri gott að fá upplýsingar um þetta og það hér, áður en þetta mál fer lengra. Það er þess vegna nauðsynlegt, að hæstv. ráðh. geri sér alveg ljóst, hvaða mál það er, sem hann er að leggja út í með þessu. Við erum búnir að missa nógu mikið af ýmsum lærðustu mönnum, sem við höfum haft hér á Íslandi, bæði vísindamönnum og lærðum mönnum í tæknilegum efnum, þannig að við eigum ekki að gera leik að því að halda slíku áfram að reka þá burtu og fara svo að ráða í staðinn fyrir þá margfalt dýrari erlenda menn. Ég held, að jafnvel okkar flugmenn, ekki aðeins við Loftleiðir, heldur líka hjá Flugfélaginu, hafi lagt mikið á sig öll þau ár, sem fluginu hefur verið að fleygja fram hérna heima og Ísland hefur verið að verða eins konar miðstöð stundum í því. Þeir hafa lagt mikið á sig og þeir hafa allan tímann unnið fyrir miklu, miklu lægra kaup, en erlendir stéttarbræður þeirra, svo að það er ekkert óeðlilegt, að þeir geri kröfur um, að það sé farið að hækka eitthvað þeirra kaup, þegar við sjáum fram á það, að slik flugfélög eins og t.d. Loftleiðir standa sig mjög vel.

Þá minntist hæstv. ráðh. á það í ræðu sinni hér áðan og talaði um, að það væri eiginlega alveg hjákátlegt, það hefði jafnvel komið fyrir í Ed., að menn færu að berja höfðinu við steininn og hæstv. ráðh. talaði um, að menn væru að reka sig á staðreyndir og talaði um, að það væri alveg nauðsynlegt að gera svona hluti, eins og að samþykkja þennan gerðardóm, til þess að forða frá vandræðum og það var alveg greinilegt, að annar eins maður og sáttasemjarinn væri uppgefinn á þessu og þetta væri óleysanlegt með frjálsum samningum. Það er komið með alls konar svona „frasa“, sem líka eru í grg. frv. og þessir „frasar“ gefa okkur ástæðu til þess að fara að koma með nokkrar spurningar í sambandi við þessa hluti. Um staðreyndirnar er hægt að þrátta endalaust. Við erum hvað eftir annað í sambandi við þær almennu launadeilur búnir að fara fram á að fá ýmsar staðreyndir hér á Alþ. um, hvernig það stendur viðvíkjandi afkomu atvinnuveganna í landinu og því er alltaf neitað og hagfræðingar ríkisstj. dylja allar slíkar staðreyndir og hafa aldrei öll þessi ár fengizt til að koma með staðreyndirnar eða fengizt til þess að gefa tækifæri til þess að rannsaka þær, — aldrei. En þegar að hverju verkfalli kemur, er því undireins skellt fram: Ja, atvinnuvegirnir bera þetta ekki. — M.ö.o.: atvinnuvegirnir stöðvast, þjóðarheill er í veði, það verður að koma með gerðardóm. Og þessir „frasar“, sem hæstv. ráðh. var með hér áðan, gefa okkur til kynna, að mál eins og þetta eigi að vera fordæmi fyrir lausn vinnudeilunnar í vor og það er bezt, að hæstv. ríkisstj. horfist í augu við það, að við skiljum alveg, fyrr en skellur í tönnunum. Það má vel vera, að hæstv. ríkisstj. þyki þægilegt að geta verið með áróður hér og segja, að það séu miklir hálaunamenn, tala um 40–50 þús. kr. á mánuði og annað slíkt, til þess að reyna að vinna á móti þeirra kröfum og hæstv. ríkisstj. þykir það þægilegt að nota þetta mál, þess vegna til þess að sýna, hvernig eigi að leysa málin. En ég vil vara hana við því.

Það voru flutt ýmis frv. af hálfu okkar þm. Alþb. nú í haust á þessu þingi, ýmis frv., sem gátu orðið til lausnar á vandamálum atvinnulífsins, m.a. kaupsamningum, ef þeim hefði verið sinnt. Nú er mánuður þangað til júní samkomulagið er runnið út og hæstv. ríkisstj. er búin að sitja aðgerðarlaus frá því í október í haust og það er eins og hún sé fyrst að byrja þingið núna þessa dagana, þegar hvert frv. kemur fram á fætur öðru. Það að hafa setið aðgerðarlaus í allan vetur, á hvað bendir það? Það bendir á, að það eigi að taka svona lausn til þess að forða frá vandræðum og til þess að leysa það, sem sé óleysanlegt með frjálsum samningum eftir einn mánuð, þegar til þeirra almennu launadeilna kemur. Þess vegna verður hæstv. ríkisstj. að gera sér það ljóst, að af hálfu okkar, sem teljum okkur fulltrúa verkalýðssamtakanna, verður litið á þetta sem einhvers konar prófstein um, hvernig hæstv. ríkisstj. ætlar að haga sér og það er bezt fyrir hana að vera við því búin að taka upp og gefa sínar yfirlýsingar um, hvernig hún ætlar að leysa enn þá stærri deilumál en Loftleiða, sem fram undan eru, þegar við erum að ræða þessi mál hér. Og það er satt að segja til skammar fyrir hæstv. ríkisstj., að þegar verið er að ræða svona mál, skuli hæstv. samgmrh. eða landbrh. vera látinn hanga hér einn af hálfu ríkisstj. til þess að vera til andsvara, þegar það er þó vitað, að um stórkostlegt „prinsip“-mál er að ræða af hálfu verkalýðshreyfingarinnar.

Annars langar mig til að kasta þeirri spurningu fram til hæstv. ráðh., hvort hans eigin slóðaskapur í sambandi við útgáfu á reglugerð um vinnutíma hjá flugmönnum sé e.t.v. ein orsök þessarar vinnudeilu og hvort hann þurfi ekki að stinga hendi í eigin barm í sambandi við þetta. Við stóðum í nokkurri baráttu fyrir ári um að afgreiða lög viðvíkjandi flugmönnunum og við fluttum hér viðvíkjandi flugvélum og þeirra öryggi ýmsir þm. þá allýtarlegar brtt. viðvíkjandi einmitt flugtímanum, til þess að reyna að tryggja ekki aðeins rétt flugmannanna, — það er raunverulega ekki eins mikið atriði, ekki nærri eins mikið atriði í þessu og öryggi farþeganna, – og ég man ekki betur ,en sumt af því, sem skynsamlegt var lagt þar til, hafi verið drepið hér í þessari d. þá, en hins vegar hafi hæstv. ráðh. verið gefin heimild til þess að setja reglugerð. Og ég heyrði það n, og ég býst við, að það sé rétt, mér heyrðist það áðan, að sú reglugerð væri ekki einu sinni komin út enn þá, þannig að ef svo væri, að það væri rétt, að slík reglugerð væri ekki komin út enn þá, liggur sannarlega ekki á að fara að koma með svona frv. og fara að fela einhverjum gerðardómi að ákveða þann vinnutíma, sem Alþ. hefði átt sjálft að ákveða hér.

En ég vil segja það í sambandi við þessi mál, þegar okkar yfirstétt hér í Reykjavík og hennar ríkisstj. finnur upp á því að fara að leysa mál með gerðardómum, þá er ekki nema eðlilegt, að við komum með nokkrar spurningar og aths. á móti og krefjumst að fá að vita hitt og þetta um hennar eigin afstöðu. Það er greinilegt í sambandi við þetta mál, að það á að reka áróður með því, að þessir flugmenn séu svo hátt launaðir. Það er talað um 400, 500, 600 þús., sem þeir hafi í laun og jafnvel reynt með undarlegum útreikningi, sem aldrei nokkurn tíma hefur þekkzt í sambandi við neinar vinnudeilur, að reyna að koma slíku upp í 800 þús. En við skulum nú láta hitt nægja, segjum 500–600 þús. kr. laun á ári.

Hér er um launþega að ræða í þessu sambandi, sem geta komizt upp í þetta. Hvað þýðir það í fyrsta lagi? Það þýðir, að þessir menn fá þetta allt gefið upp til skatts. Fyrir okkar reykvísku yfirstétt er bezt að muna eftir því, þegar hún er að láta sín blöð og sína ríkisstj. vera með áróður í þessum efnum, að þar er verið að tala um 500–600 þús. kr. laun, sem séu gefin upp til skatts og skattur sé borgaður af. Það er verið að gefa til kynna með þeirri andakt, sem hæstv. ráðh. talar um, þessi háu laun, að þetta sé líklega eitthvað einstakt í okkar þjóðfélagi, að menn hafi svona tekjur. Og ég vil leyfa mér að biðja hæstv. ráðh. um upplýsingar um það, hve mikið af mönnum hér í Reykjavík sé með tekjur upp á 500 þús. kr. og þar yfir, ekkí eftir skattframtölum, heldur raunverulegar tekjur. Og ég held, að hæstv. ráðh. ætti að búa sig undir að leggja það fyrir þá n., sem þetta fer til, hve mikið af mönnum er með 500 þús. kr. tekjur í Reykjavík eða meira og ég veit það og ég veit, að hæstv. ráðh. veit það og ég hygg, að flestir viti það, að það eru þúsundir manna hér í atvinnurekendastétt með þessar tekjur, sem þeir telja ekki fram til skatts, sem þeir þurfa ekki að borga 60% af, þegar það er komið upp yfir eitthvað ákveðið, heldur stinga svo að segja öllu undan með vitund hæstv. ríkisstj. (Forseti: Ég bið hv. 3. þm. Reykv. afsökunar á, að ég trufla ræðu hans. Ég vil spyrja hann, hvort hann treysti sér til þess að ljúka máli sínu á næstu 5 mín. eða svo.) – (Fundarhlé)

Herra forseti. Það eru nokkur atriði, sem ég vildi taka skýrar fram, ef eitthvað hefði misskilizt í þeim.

Það var í fyrsta lagi viðvíkjandi því, ef þeir íslenzku flugmenn, sem nú á að reyna að binda með gerðardómslögum, skyldu hætta, eins og yfir mundi vofa, að þeir mundu ekki láta bjóða sér að vinna undir svona gerðardómi, þá mundi það þýða, að það yrðu ráðnir í staðinn flugmenn, að öllum líkindum fyrir miklu hærri kjör, miklu hærri kjör. Hæstv. samgmrh, gaf hér áðan þær yfirlýsingar, að flugmennirnir amerísku mundu hafa jafnvel allt upp í þreföld kjör á við það, sem íslenzku flugmennirnir fara fram á, þannig að það er alveg gefið mál, að þarna væri ekki um sparnað eða eitthvað slíkt að ræða fyrir Loftleiðir. Þetta mundi þýða, að það yrðu miklu meiri útgjöld, alveg eins og ríkið hefur haft reynsluna af, þegar það hefur þótzt vera að skakka leikinn í þessum málum með því að hindra t.d. íslenzka verkfræðinga í því að vera í þjónustu ríkisins og tekið svo í staðinn menn sem hafa verið á margföldum launum, t.d. frá Bandaríkjunum.

Í öðru lagi vildi ég ítreka það, sem ég sagði áðan viðvíkjandi afstöðu hæstv. ríkisstj. og viðvíkjandi því, sem í flutningi þessa máls felst sem vísbending fyrir verkalýðshreyfinguna á næstunni. Hæstv. ríkisstj. er búin að láta þingið sitja aðgerðarlaust í allan vetur. Það hefur ekkert verið gert, ekki nokkur skapaður hlutur, af þessu þingi og þessari ríkisstj. til þess að reyna á einhvern hátt að undirbúa friðsamlega lausn á þeim deilum, sem verða í vor, – ekki nokkur skapaður hlutur. Hér er búið að flytja hvert frv. á fætur öðru frá því í okt. s. 1. haust og það hefur verið sýnt fram á það, þegar þau hafa verið flutt, að lausn á þessum málum gæti hjálpað til þess að leysa þessi mál í vor. Ekkert hefur fengizt. Sá aðili, sem hefur barið höfðinu við steininn, sá, sem hefur neitað að taka tillit til nokkurra staðreynda, er hæstv. ríkisstj. Hún hefur ekkert fengizt til að gera í þessum efnum. Og hvað gerir hún svo núna? Nú, þegar hún telur vera komin þinglok, setur hún fram þetta gerðardómsfrv. Og hvað á þetta gerðardómsfrv. að vera frá hennar sjónarmiði? Það á að vera vísbendingin um, hvernig hún ætli sér að leysa deilurnar í vor, sem hún hefur trassað að vinna nokkurn skapaðan hlut að því að leysa í allan vetur. Þetta á að vera litla tilraunin gagnvart þeim fáu, áður en stóraðgerðir eru gerðar gagnvart þeim mörgu.

Það hafa tveir hv. þm. minnzt á það hérna, hvort ríkisstj. hefði lært eitthvað af því, sem gerðist í nóv. 1963, þegar góðir menn komu viti fyrir hana og gerðardómsfrv. var stöðvað við síðustu umr. Jú, hún hefur lært, það er alveg greinilegt. Hún hefur lært það, að þegar að næstu vinnudeilu kemur, á ekkert þing að sitja. Það sat þing seinast, þegar gerðardómsfrv. átti að fara í gegn í nóvember. Og þá var hægt að koma viti fyrir hæstv. ríkisstj. Nú á að sjá um, að þing sé farið heim og áður en það þing fer heim, ætlar ríkisstj. að sýna: Sjáið þið nú, hvað ég lagði hálaunamennina laglega. Ég ætla að láta það sama ganga yfir höfðingjana og alþýðuna. — Svo á að koma með gerðardóminn gagnvart almenningi. Röksemdirnar liggja fyrir í aths. við þetta frv. Það er þegar farið fram á miklar kjarabætur af hálfu alþýðu manna, það er vitað. Það er vissulega þjóðarnauðsyn að koma í veg fyrir stöðvun alls atvinnulífs á Íslandi, og það veldur vafalaust truflun á atvinnulífinu í landinu, að verkamenn hætti að vinna. Það er þess vegna alveg greinilegt í sambandi við frv. eins og þetta, að þetta á að verða tilraun um, hvernig eigi að leysa vinnudeilur. Þess vegna viljum við ekki þola það. Ef hæstv. ríkisstj. hefði haft einhverjar aðrar hugmyndir í þessu sambandi, hefði hæstv. ráðh. sagt í framsöguræðu: Það má engum manni detta í hug, að þetta frv. elgi að vera einhver hugmynd um, hvernig leysa skuli. Ríkisstj. hefur aldrei komið það til hugar. — Það má vel vera, að þeir finni upp á því núna, á eftir, að fara að gefa einhverjar yfirlýsingar. En við skiljum fyrr, en skellur í tönnunum og höfum reynsluna af þessu. Ég býst við, að meiningin hjá hæstv. ríkisstj. sé að reyna nú að senda þing heim sem allra fyrst, reyna að kúska þetta frv. í gegn með sem mestum afbrigðum, senda síðan þing heim og varast, að Alþ. geri nokkurn skapaðan hlut, sem gæti orðið til þess að hjálpa til að leysa deilurnar í vor, ekkert nema gefa fyrirmynd um einn gerðardóm. Ég býst við, að þetta verði þess vegna eina tækifærið, sem þetta þing hefur til þess að krefja ríkisstj. um ýmsar upplýsingar í þessu sambandi.

Ég var kominn að því áðan, þegar frestun varð á fundi, að ég hafði borið fram fsp. um það, af því að ég skildi það greinilega á hæstv. ráðh., þegar hann var að tala um hinar háu tekjur flugmannanna, að það átti auðvitað að verða áróðursatriði, hvað þetta væru miklir hálaunamenn og ég var búinn að bera fram fsp. um það, hvort hann vildi gefa okkur upplýsingar um, hve margir menn í Reykjavík hefðu þessar tekjur og miklu hærri. Og þá er ég ekki að spyrja um þær tekjur, sem taldar eru fram til skatts, heldur þær raunverulegu tekjur. Ríkisstj. á að geta gefið sínu þingi upplýsingar um þær raunverulegu tekjur og ef hún er ekki fær um að haga þannig löggjöf í landinu, að hún geti lagt fyrir okkur raunverulegar tekjur atvinnurekendanna hér á Íslandi, þá hefur hún ekkert að gera með að vera ríkisstj. og hún er búin alveg nógu lengi að gefa alls konar loforð um slíkt, fá fram alls konar breytingar á skattalöggjöf og öðru slíku og alltaf situr við það sama. Skattfrelsi yfirstéttarinnar er það sama og það hefur verið fram að þessu. Og svo þegar einhverjir launþegar dirfast að fara fram á það sem heildartekjur, að þeir hafi 5–6 hundruð þús. kr. og nokkrir hafa vissulega meira, síldarskipstjórar hafa meira, þegar vel gengur og gefa það upp, en þegar launþegar fara fram á þetta, er það glæpur, þá á ríkið að grípa inn í með gerðardómi. En þegar atvinnurekendur í landinu hafa þessar tekjur, hvað er þá gert? Hvað gerir þá hæstv. ríkisstj.? Hún hjálpar þeim til að svíkja undan skatti. Ef þessi hæstv. ríkisstj. sér svona blóðugum augum eftir því, að flugmenn skuli fá 500–600 þús. kr. tekjur, veit hún þó a.m.k., ef hún tímir ekki að sjá af þessum tekjum, að þessar tekjur koma fram til skatts og þar fara a.m.k. vænar 200 þús. eða meira í skatta af því. En þegar einhverjir burgeisar, sem leggja vel í Sjálfstfl., hafa milljón króna tekjur og gefa upp 100 þús. kr. til skatts, er ekki verið að gera neinar ráðstafanir. Þá eru þvert á móti gerðar fyrst ráðstafanir viðvíkjandi hlutafélögunum, til þess að þau skuli fá fyrst að leggja svona og svona mikið af gróða í varasjóð, síðan skulu þau fá að reikna allar sínar veizlur og utanferðir og vitleysur til frádráttar sem kostnað, jafnvel allar auglýsingar í Morgunblaðinu líka. Og þegar þeir eru búnir að lífa þannig öllu sínu lúxuslífi og fá að draga þetta allt saman frá í skattframtali, er ósköp lítið eftir og lítill skattur af því. Og þetta skipuleggur ríkisstj. með skattalögunum og framkvæmdinni á þeim.

Ég ætla, að sú n., sem fær þetta til meðferðar, — ætli það verði ekki hv. fjhn., — á samgmn. að fá það, — jæja, það eru vafalaust einhverjir góðir menn í samgmn. líka, sem gætu komið fram með spurningar í því sambandi. Það hefði nú legið enn þá nær, að fjhn. hefði reynt að rannsaka slíkt. Ég held, að það væri nauðsynlegt, að þetta tækifæri yrði notað til þess og það lægi fyrir, áður en þetta mál kemst til 2, umr., sem það líklega því miður kemst til, að það væri ekki aðeins verið að athuga launakjör og gefa yfirlýsingar um þau af hálfu ráðh. og annarra, heldur að það væru gefin upp gróðakjörin, gróða aðstaðan og gróðinn, sem myndaður er á Íslandi, það sé ekki látin hvíla sú hula yfir því, sem venjulegt er og þá ekki bara talað um það, sem kemur fram til skattsins. Ég held, að hv. samgmn., ef hún fær þetta mál til meðferðar, ætti að gera ráðstafanir til þess að krefja viðkomandi embættismenn og aðra slíka sagna í þessu sambandi.

Það hefur verið deilt allharðlega á hæstv. ríkisstj. á undanförnum árum fyrir hennar skattapólitík, ekki sízt fyrir það, hvernig hún hlífir burgeisunum, atvinnurekendunum og gróðamönnunum í landinu. Og eitthvað kipptist hæstv. ráðh. við út af þessu og það var sett á nokkuð, sem hét skattalögregla. Ég held, að það væri ákaflega fróðlegt, að sú n., sem fær þetta til meðferðar, kalli yfirmann skattalögreglunnar fyrir. Ég vil leggja nokkra áherzlu á það, vegna þess að ég er hræddur um, að ef það er meiningin hjá hæstv. ríkisstj. að fara að senda þingið mjög fljótt heim, þegar þetta væri búið, væri þetta, eins og ég sagði áðan, eina tækifærið, sem þingið hefði til þess að kryfja dálítið til mergjar gróðaaðstöðuna hjá íslenzkum atvinnurekendum. Ég held, að það væri gott, að þessi n. kallaði framkvstj. skattalögreglunnar fyrir og yfirheyrði hann nokkuð, yfirheyrði hann um það, hjá hve mörgum fyrirtækjum í Reykjavík bókhaldið hafi verið rannsakað nú, við hve mörg þeirra hafi verið samið í því sambandi, hve margir þeirra hafi e.t.v. hringt til ráðh. og kært út af því, að bókhaldið væri tekið og hafi sloppið við þá á eftir. Ég vil óska, að það sé rannsakað almennilega, hvernig lög eru framkvæmd gagnvart yfirstéttinni í Reykjavík, þegar hún á í hlut. En það vantar ekki harðstjórnarlögin, ef það eru launþegar, sem eiga í hlut. Og ég held, að það væri rétt, að sú nefnd, sem fær þetta til meðferðar, láti athuga þetta alvarlega, gangi fram í þessu. Það er kannske búið að stöðva skattalögregluna og allar hennar aðgerðir. Það væri eftir öllu öðru. En ef hún er sem sé lífandi og starfandi, held ég, að ætti þá að kalla hennar yfirmann fyrir og yfirheyra hann nokkuð í þessu sambandi. Það gengur a.m.k. sú saga hér, að raunverulega hafi hæstv. fjmrh. orðið að hætta vegna skattalögreglunnar. Það þótti að vísu allslæmt, þegar söluskatturinn var settur á og þegar vandræðin voru út af skattinum í fyrra. En það voru launþegarnir, sem það bitnaði á, svo að þótt menn hafi orðið fyrir óvinsældum af slíku, er það náttúrlega ekkert voðalegt frá sjónarmiði yfirstéttarinnar í Reykjavík. En ef menn leyfa sér það að fara að láta skattalögreglu rannsaka burgeisana hérna í Reykjavík, þá náttúrlega eru menn orðnir þar með óhæfir, óalandi og óferjandi og geta ekki lengur átt sæti hér á landi. Ég skýt þessu svona inn í, af því að ég finn það á öllu saman, að þetta verða seinustu tækifærin í sambandi við vinnudeilumál, sem við höfum til þess að reyna að hrista eitthvað ofurlítið upp í skattsvikakerfi yfirstéttarinnar hér í Reykjavík og reyna að skyggnast eitthvað ofurlítið inn í hennar gróðamyndun, á sama tíma sem hún gerir þær kröfur eða þá hæstv. ráðh. hlaupa fram fyrir skjöldu hjá henni og gera harðstjórnarráðstafanir, svo framarlega sem launamenn eiga í hlut. Ég býst a.m.k. við, þegar borin er saman aðstaða, — við skulum bara taka Loftleiðir sem hlutafélag og starfsmannanna hjá Loftleiðum, — mér hefur oft dottið það í hug, ef hver einasta fjölskylda hér á Íslandi væri gerð að hlutafélagi og hún fengi að draga sinn kostnað frá, áður en hún á að borga skattana, þá færu skattarnir að léttast á launþegum á Íslandi. En hlutafélögin eru látin draga frá í varasjóði og kostnað og allt mögulegt slíkt og fyrst þegar er orðið afgangs, hvað gróði er, kemur skatturinn og fer jafnvel allmikið af gróðanum, án þess að það sé skattlagt. Það er rétt að minna á þetta, um leið og verið er að gera svona mikið úr því, ef það eru launþegar, sem hafa tekjur, sem geta orðið 500 eða 600 þús. kr. og verða náttúrlega að borga í skatta af því yfir 200 þús., eða ég veit ekki, hvað mikið það er, það er a.m.k. ekkert smáræði. Og samanborið við það, sem hlutafélögin borga og það, sem helztu gróðamenn Reykjavíkur gefa upp, er það ekkert smáræði. Þess vegna held ég, að það sé alveg nauðsynlegt í sambandi við þær umr., sem nú fara fram um þetta gerðardómsfrv., að það verði reynt að kryfja til mergjar, hvernig þessi mál standa, ekki bara hvað snertir Loftleiðir, heldur líka hvað snertir yfirleitt aðstöðu yfirstéttarinnar í Reykjavík og pólitík ríkisstj. Ég held, að það verði að taka þetta mál þannig að tryggja það, að umr. knýi fram þær upplýsingar, sem hæstv. ríkisstj. er reiðubúin til þess að gefa nú. Við höfum satt að segja þá reynslu, að það séu skrambi litlar upplýsingar, sem hún vill eða getur gefið, þegar vinnudeilur standa yfir.

Að síðustu: Menn hafa talað hér mikið um, hve Íslendingar væru stoltir af Loftleiðum, hvað það væri ákaflega hart, að Loftleiðir skuli stöðvast. Það er nú þegar búið að benda á ráð til þess að koma í veg fyrir það. Það er bara að skipa Loftleiðum að borga það kaup, sem nú er samið um, þá fer þetta af stað strax. Og ég vil taka undir það, að það eru vissir hlutir, sem menn eru mjög stoltir af í þessu sambandi og verkalýðssamtök Íslands hafa mjög sýnt það í verki líka. En það, sem við erum fyrst og fremst stoltir af er, að það skuli vera íslenzkir menn, sem stýra þessum flugvélum þá gömlu leið eða svo að segja yfir Atlantshafið, sem okkar forfeður fóru fyrstir Evrópumanna fyrir 1.000 árum, að það skuli hafa tekizt vegna starfshæfni íslenzkra flugmanna að byggja upp slíkt fyrirtæki eins og Loftleiðir eru og ég held, að það sé óhætt að segja, að það hafi verið flugmennirnir, sem hafi byggt það fyrirtæki upp. Það, sem við erum stoltir af, eru flugmennirnir og þeirra hæfni, en ekki t.d. lúxusvillur forstjóranna suður á Arnarnesi. Og það væri kannske ekkert fjarri, að hann upplýsti í því sambandi, hæstv. ráðh., sem vill svo gjarnan upplýsa um flugmennina, hann upplýsti okkur, hverjar eru tekjur forstjóranna hjá Loftleiðum og hvernig væru efni á, ef tekjurnar eru ekki mjög miklar og koma allar fram og verður að borga skatta af þeim, að leggja í slíka hluti eins og þar er verið að leggja í. Það er hægt að storka á margan máta. Þeir verkamenn, sem eiga fram undan að þurfa kannske að lenda í harðvítugri og langri vinnudeilu vegna skilningsleysis hæstv. ríkisstj., munu líta augunum til þeirrar lúxusvillu, sem verið er að reisa, 320 fermetra eða hvað það nú er, villu upp á milljónir, meðan verkamennirnir eru sjálfir í hættu að tapa þeim litlu íbúðum, sem þeir eiga. Það er þess vegna bezt, þegar farið er að ræða hér upplýsingar og gefa slíkt upp, að við fáum upplýsingar um alla þessa hluti líka hjá hæstv. ráðh. Og ég vona, að hann hafi tekið eftir, að ég sagði tekjur, ekki bara það, sem er gefið upp til skatts.

Ég held þess vegna, að í sambandi við þetta mál verði þetta tvennt að ræðast niður í grunn, sem ég gat um í upphafi míns máls. Annars vegar sérstaklega, hvað snertir Loftleiðir, þeirra rekstur, þeirra samninga og annað slíkt og þann skort á forsjálni, sem ég átaldi í upphafi míns máls, að hafa ekki samið um þetta, áður en þessar Rolls Royce vélar eru keyptar, sem virðist benda til þess, að menn gangi út frá því, að það sé aðeins fjármagn, sem þurfi til að reka fyrirtæki, en ekki vinnuafl og það er mikil yfirsjón, ef menn eru búnir að gleyma því. Menn skulu ekki gera allt úr peningum. Það er hæfni mannanna, sem fyrst og fremst þarf. Það er annars vegar þetta, sú praktíska hlið, sem snýr að Loftleiðum, þeirra rekstri og þessari sérstöku deilu, sem þarna er staðið í og hvernig hana skuli leysa og hins vegar það, sem snertir almennt málið að leysa vinnudeilu með gerðardómum og það mun að mínu álíti í þessum umr. ekki verða minna mál en hitt og er hitt þó nógu stórt.