03.05.1965
Neðri deild: 79. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1357 í B-deild Alþingistíðinda. (1119)

187. mál, lausn kjaradeilu atvinnuflugmanna

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Mál þetta hefur þegar verið rætt all mikið hér í d., þó að hæstv. flugmrh. hafi ekki séð ástæðu til þess að svara hér fsp., sem gerðar hafa verið til hans eða taka á annan hátt þátt í efnislegum umr, hér um málið. Ég vil, áður en umr. lýkur hér, láta það koma fram, að ég tel, að þessi framkoma hjá hæstv. ráðh. sé með öllu óverjandi, því að óhugsandi er, að hann vilji ekki játa, að hér sé um stórmál að ræða. Það er með öllu útilokað að kasta fyrir þm. stórmáli sem þessu, sem getur vissulega haft örlagaríkar afleiðingar, ekki aðeins fyrir þá tvo deiluaðila, sem hér eiga nú hlut að máli, heldur fyrir miklu fleiri aðila í landinu, kasta því hér fyrir þm. og standa þannig að málinu að veita ekki eðlilegar upplýsingar, svara ekki fsp. varðandi málið. Sannleikurinn er sá, að þegar ráðherrar gera sig seka um þetta, þá verður það alla jafna til þess að lengja umr. á Alþingi og til þess, að umr. verða hér með öðrum hætti.

Það hefur auðvitað ekki farið fram hjá hæstv. ráðh. eða hæstv. ríkisstj. yfirleitt, að í þessum umr. hafa komið fram ýmsar upplýsingar, sem eru þess eðlis, að ríkisstj., sem flytur þetta frv., hlýtur í rauninni að taka tillit til þeirra upplýsinga og verða að gefa sínar skýringar í sambandi við þær.

Nú er t.d. um það spurt, hvenær þess sé að vænta, að gerðardómur sá, sem gert er ráð fyrir í frv., skuli í síðasta lagi hafa lokið verkefni sínu, hafa fellt sinn úrskurð um launakjörin og vinnutímann, en það er vitanlega alveg útilokað, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki gert sér einhverja grein fyrir þessum þætti málsins. Nógu er það nú harkalegt að taka af löglegu stéttarfélagi samningsrétt, sem það á og hefur skv. landslögum um kaup sín og kjör, svipta félagið þeim rétti, sem önnur hliðstæð félög í landinu hafa og leysa mál þess á þann hátt, að þar skuli gilda vinnureglur og launakjör skv. úrskurði sérstaks dóms. Þá hlýtur það þó vitanlega að verða að fylgja, að það séu sett einhver tímamörk um það, hvenær þessi dómur á að hafa lokíð sínum störfum, því að vitanlega verður maður að gera ráð fyrir því, að það gæti farið svo, að flugmennirnir í þessu tilfelli vildu illa una þeim dómi, sem felldur yrði og vildu þar af leiðandi segja upp starfi sínu hjá félaginu. Ef dómurinn dregst því úr hófi fram, þá er einnig verið að svipta þessa starfsmenn þessum eðlilega rétti, að þeir geti tekið afstöðu í sambandi við launakjör sín og starf hjá því félagi, sem þeir hafa verið hjá. Ég tel, að hæstv. flugmrh, beri skylda til þess að gefa hér svör við spurningum sem þessum.

Hér voru lagðar fyrir hæstv. ráðh. margar fsp., sem fyllilega gáfu tilefni til þess, að hann svaraði þeim. Ég býst við því, að þessar umr. þurfi ekki að lengjast úr hófi fram, úr því sem komið er, þó að ráðh. virði hv. þm. hér viðtals í slíku máli sem þessu.

Þá hefur einnig farið svo í þessu máli, að lítils háttar hlé var nú tekið yfir þessa helgi, málið var ekki knúið í gegn hér fyrir helgina, eins og ætlunin var og 3. umr. málsins var þó frestað um þessa stund. Það er því fyllilega eðlilegt, að þm. sé gerð grein fyrir því, hvort einhverjar alvarlegar tilraunir hafi nú farið fram til þess að reyna að leysa deiluna með þeim hætti, sem lög og reglur gera ráð fyrir. Ég veit, að það er að vísu ekki mikil von til þess, að slíkur frestur sem þessi verði til þess, að samningar takist, ekki á meðan fresturinn er veittur á þann hátt, sem nú hefur verið gert, þegar sá aðilinn, sem greinilega vill fá þessi lög í gegn og vill fá gerðardómslausnina, hefur það alveg öruggt í bakhöndinni, að hans hlutur kemur alltaf upp, ef hann bara biður einum eða tveimur dögum lengur. En það er nú einmitt það, sem hefði átt að gera, það hefði átt að fresta málinu a.m.k. um óákveðinn tíma til þess að gera báðum aðilum það ljóst, að til þess var ætlazt af þeim, að þeir reyndu að standa að þessu máli eins og slíkum aðilum ber í rauninni skylda til skv. lögum og að á þeim hvíldi nokkur ábyrgð í þeim efnum og nokkur vandi, ef ekki gætu orðið samningar upp úr samningaviðræðum.

Ég tel alveg víst, að ríkisstj. hafi eftir þessar umr. gert sér grein fyrir því, að það er allmikið vandamál, sem getur siglt í kjölfar þessarar lagasetningar. Það liggur fyrir, að samtök flugmanna hafa lýst því yfir, að flugmennirnir muni ekki sætta sig við það að starfa skv. launakjörum, sem eru kveðin upp á þennan hátt. Það má því fyllilega búast við því, að flugmennirnir gangi úr þjónustu þess fyrirtækis, sem þeir hafa verið hjá, ef þessi leið verður farin og það getur orðið ekki aðeins alvarlegt fyrir þessa starfsmenn, það getur vitanlega orðið mjög alvarlegt fyrir það fyrirtæki, sem hér á hlut að máli, því að ég efast satt að segja um, að það eigi margra kosta völ, eins og málin standa, ef flugmennirnir standa fast á sínu. Það er því ekki víst, að það sé verið að gera þessum aðila neinn greiða með því að standa þannig að framkvæmd þessa máls sem nú er gert.

Það er ekki aðeins það, að það geti verið miklar hættur í sambandi við aðstöðu beggja þessara aðila, flugmanna og flugfélagsins, í þessu tilfelli, heldur er auðvitað enginn vafi á því og það hefur komið skýrt fram í þessum umr., að setning þessara laga, lausn þessarar deilu, ef lausn skyldi kalla, með þessum hætti kemur til með að hafa mjög ill og hættuleg áhrif í sambandi við aðrar vinnudeilur, sem vissulega geta skollið á, eða aðra kjarasamninga, sem fram undan eru nú. Ég skil því ekki í því, hvernig getur staðið á því, eins og þessi mál eru nú og jafnviðkvæm sem þau eru, að ríkisstj. skuli sækja það af slíku kappi sem hér hefur verið gert að reyna að knýja þetta mál í gegn, í staðinn fyrir að taka upp hinn háttinn að þrýsta með fullri alvöru á báða þá aðila, sem standa í þessari deilu, vinnuveitandann og launþegana í þessu tilfelli, þrýsta á þá, gefa þeim vissan frest til þess að ganga til samninga í málinu.

Það leikur auðvitað ekki á tveim tungum, að afskipti ríkisstj. af þessari deilu hafa verið með eindæmum svo að segja. Verkfallið hefur ekki staðið í lengri tíma, en um tvær vikur, þegar ríkisstj. tekur ákvörðun um það, óbeðin af báðum aðilum, að skerast í leikinn á þennan hátt. Og þetta er gert einnig áður, en sáttasemjari hefur séð ástæðu til þess að leggja fram sáttatillögur í deilunni, en það er þó vitanlega alltaf gert, áður en gefizt er upp á að leysa eina deilu og þessi afskipti ríkisstj. koma einnig fram, áður en reynd er sú leið, sem hvað eftir annað hefur verið farin í slíkum tilfellum, að skipa sérstaka aukasáttanefnd sáttasemjara til aðstoðar.

Það verður því ekki hægt að neita því með nokkrum hætti, að afskipti ríkisstj. af deilunni eru vissulega á nokkuð sérstæðan hátt. Það er ekkert óeðlilegt, að ríkisstj. láti sig það nokkru skipta, að slík deila sem þessi sé leyst, og að hún reyni að þrýsta á báða aðila til þess að leysa deiluna með eðlilegum hætti. Það er þekkt fyrirbrigði bæði hér á landi og annars staðar, að ríkisstj. geri það. En það er orðin svo að segja alls staðar viðtekin regla, þar sem starfað er eftir svipuðum reglum og hér er gert eða á að gera hér á landi, að ríkisstjórnir grípi ekki til slíkra aðferða sem þessara, sem hér er verið að grípa til, nema þegar allar aðrar leiðir eru orðnar útilokaðar. En hér virðist sem sagt skjóta upp gamla kollinum, að það eru til aðilar, sennilega innan ríkisstj. og ábyggilega í röðum atvinnurekenda, sem vilja enn fara þá leið yfirleitt í vinnudeilum, í hvert skipti sem eitthvað reynir á, að geta skorið deiluna niður á slíkan hátt sem lagt er til í þessu frv. Þá vilja vinnuveitendur fara bakdyramegin til sinnar ríkisstj. og óska eftir því, að hún stígi yfir þær lagareglur og þær almennu reglur, sem eiga að gilda, víki þeim til hliðar þeim í hag og setji lög með einum eða öðrum hætti. Og ég hygg líka, að það hafi komið allgreinilega fram í þessum umr., sem hér hafa farið fram um þetta mál, að Vinnuveitendasamband Íslands hefur gengið til þessara samninga og mætt hér m.a. á nefndarfundum eða aðilar frá því, nefndafundum hér í Alþingi, og svarað alltaf eins og þeir væru aðilar í þessu máli, en ekki Loftleiðir h/f. Það hefur fyrst og fremst verið framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins, sem hefur mætt í málinu og svarað. Það hefur því vægast sagt komið nokkuð sterklega fram í þessum umr., að miklar líkur eru til þess, að hér sé einmitt Vinnuveitendasambandið á ferðinni, það hafi ráðið mestu um það, að þessi leið er valin, það hafi ráðið mestu um það, að samningar hafa ekki tekizt og það hafi ráðið mestu um, að það eigi nú að knýja fram líka lausn í deilunni sem hér er lagt til, að farin verði. Og því mun vissulega verða veitt athygli, einnig af verkalýðssamtökunum almennt í landinu, sem nú fara að setjast að samningaborði með fulltrúum Vinnuveitendasambandsins um launakjör vinnustéttanna í landinu yfirleitt.

Ég er því á sömu skoðun og ég hef sett hér fram áður í umr. um þetta mál, að ég tel, að æskilegt væri fyrir alla aðila í þessu máli, að þetta frv. verði stöðvað a.m.k. um stundarsakir og að ríkisstj. beiti sér eftir öðrum leiðum fyrir því að reyna að gera báða aðila, eins og ég orðaði það, ábyrga í þessu máli, að stilla þeim báðum frammi fyrir því, að þeim beri raunveruleg skylda til þess að taka með fullri alvöru á því að reyna að leysa málið eftir samningsleið og það er líka bezt fyrir báða aðila. En ég efast mjög um það, að ríkisstj. geti hrósað nokkrum sigri, þó að hún knýi fram samþykkt á þessu frv. eins og hér er ráðgert. Ég teldi það miklu mannlegra og betur gert af ríkisstj. t.d. að stöðva málið hér og setja niður sérstaka sáttanefnd í deiluna, sáttasemjara til aðstoðar og taka nú dálítið rösklega á því að leysa deiluna svona eins og um vikutíma. Þá vil ég ekki trúa því, að það verði ekki hægt að finna miðlunarleið í þessu máli á milli hámarks- og lágmarkskrafna, sem nú liggja fyrir.

Það hefur glöggt komið fram í þessum umr., að búið er að þyrla upp miklum blekkingum í sambandi við efnisatriði deilunnar. Ég hef sagt, að það hefur ekki verið mín meining og er ekki enn mín meining að taka neina beina afstöðu til þeirra krafna, sem þarna hafa verið lagðar fram, ég er ekki nægilega kunnugur málinu til þess. Og ég tel, að fyrir Alþingi liggi málið ekki á þann hátt, að það þurfi að taka afstöðu til þess, hvort allra hæstu laun flugmanna geti orðið 50 þús. á mánuði eða 40. Eins og málið liggur fyrir Alþingi, þá er aðeins um það að ræða: Á þetta stéttarfélag flugmanna að lúta sömu lögum og reglum og önnur stéttarfélög eiga að lúta í landinu? Á það að hafa samningsrétt? Á það að hafa verkfallsrétt? Á að þreyta samninga á milli þess og vinnuveitenda þess, eins og á að gera á milli annarra aðila? Eða er það virkilega þannig, að þetta stéttarfélag sé þannig saman sett, að það sé ekki hægt að trúa því fyrir þessum ákveðnu réttindum, sem felast í þessum samningsrétti? Ég fyrir mitt leyti álít, að málið beri þannig að Alþingi, að það sé ekki hægt að viðurkenna það á neinn hátt, að það eigi að svipta þetta félag samningsrétti. Ég álít, að hér eigi að reyna miklu betur og vinna á annan hátt að málinu. Um þetta atriði snýst málið, eins og það liggur nú fyrir Alþingi.

Hitt er svo, eins og ég hef áður bent á, aðeins gömul venja, að báðir aðilar reyni að fegra sinn málstað, á meðan á deilunni stendur. Þeir, sem í þessu tilfelli eru andstæðir hagsmunum flugmanna, segja hinar mestu sögur um allra hæstu launakröfur, sem þeir hafa sett fram í deilunni á einhverju stigi málsins, jafnvel þó að þær séu löngu liðnar eða þá að beinlínis er, eins og hefur komið fram í umr., skýrt rangt frá um efnisatriði málsins.

Þó að einstaka flugstjórar, sem búnir eru að vera samfleytt í starfi í 15 ár við allra vandasömustu störf, geti komizt í tiltekinn launaskala, þá vitanlega sjá allir, að það er mjög blekkjandi að veifa í sífellu slíkri tölu og ætla að láta hana vera einhverja mynd af því, um hvað sé raunverulega barizt fyrir þá starfsmenn, sem hér eiga hlut að máli.

Hér í umr. hefur m.a. verið upplýst, að í þennan algera toppskala mundu, eins og nú standa sakir, aðeins geta komizt skv. fullum réttindum einir þrír menn, og tveir af þeim munu vera, eftir því sem upplýsingar eru gefnar um, stjórnendur í þessu fyrirtæki, Loftleiðum.

Nei, það gerir vitanlega litið gagn, þegar á að reyna að vinna að því að leysa deilu eins og þessa, að afflytja málin á þennan hátt. Miklu er eðlilegra vitanlega að reyna að knýja á þá aðila, sem eiga að semja um málið að réttu lagi, til þess að taka í fullri alvöru á málinu. En það gefur auðvitað ekki góða raun, ef vinnuveitendur byrja á því strax á fyrstu fundum og láta síðan í það skína allan tímann, að deilan verði bara leyst á þennan hátt, ef þeir eiga það svo í bakhendinni, að þetta muni verða gert fyrir þá. Þá er ekki von á miklum árangri skv. þeirri leið.

Og að síðustu þetta: Ég hef sagt hér áður, að það er mín skoðun, að það muni gilda eins í þessu tilfelli og öðrum, að takist ekki vinnuveitanda og starfsmönnum að semja um starfskjör og launakjör, séu þeir ekki menn eða aðilar til þess að geta átt samninga saman, þá hef ég enga trú á því, að þeir geti starfað saman til nokkurrar lengdar. Það er vitanlega hægt að gera það um stuttan tíma, en slíkir aðilar eiga ekki mikla samleið. Ég hef ekki trú á þeirri leið, eins og komið er slíkum málum sem þessum, að það takist fyrir einhverja ríkisstj. eða einhverja aðra utanaðkomandi aðila að berja þá saman með slíkri lagasetningu sem þessari. Það blessast ekki.

Ég skal ekki lengja þessar umr, miklu meira, en vænti að hæstv. ráðh. sjái sér fært að svara þeim spurningum, sem beint hefur verið hér til hans og vænti þess svo, að hæstv. ríkisstj. öll breyti um afstöðu í þessu máli og fallist á að láta það mál liggja og reyna að knýja á það, að samningar verði raunverulega teknir upp af fullri alvöru í málinu.