08.03.1965
Neðri deild: 51. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1425 í B-deild Alþingistíðinda. (1177)

138. mál, læknaskipunarlög

Menntmrh (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Mig langar til þess að segja örfá orð aðeins í tilefni af ummælum, sem féllu við fyrri hluta þessarar umr, um læknadeild háskólans af hálfu hv. 3. þm. Reykv. (EOl), en þar hafði hann uppi allmikla gagnrýni á læknadeild háskólans, taldi hana vera of þunga, þ.e.a.s. taldi, að óeðlilega margir læknanemendur féllu við próf í læknadeildinni og ætti þetta verulegan þátt í þeim læknaskorti, sem hér er aðal umræðuefni og aðal áhyggjuefni manna. Þessi ummæli byggjast að mínu viti á nokkrum misskilningi á aðstæðum í læknadeildinni, og vildi ég láta það, sem ég tel vera sannast og réttast um þetta efni, koma hér fram í örfáum orðum.

Ég vildi fyrst leyfa mér að vekja athygli á því, að engar takmarkanir eru á innritun stúdenta til læknanáms við Háskóla Íslands og er það þó algengt annars staðar, að aðgangur að læknanámi sé takmarkaður. Undanfarin ár hafa um 30–40 innritazt til læknanáms á hverju hausti, en því er ekki að leyna og ekkert sérstakt um læknadeildina hér, heldur sameiginlegt læknanámi og læknakennslu hvarvetna, að það nám er erfitt, með því erfiðasta, sem yfirleitt er stundað við háskóla. Þetta veldur því, að talsverður hluti stúdentanna heltist úr lestinni tiltölulega fljótlega á námsferlinum og má segja, að um það bil þriðjungur þeirra, sem hefja nám í læknadeildinni, heltist tiltölulega mjög fljótlega úr lestinni eða hverfi frá námi til annars náms eða hverfi algerlega frá námi. En þetta hlutfall er síður, en svo óeðlilegt eða í neinu ósamræmi við það, sem á sér stað annars staðar, þar sem frjáls aðgangur er að læknanámi. Þetta er jafnvel ekki óeðlilegt borið saman við ýmsar aðrar deildir í háskólanum hér, því að það er kunnara, en frá þurfi að segja, að miklu fleiri hefja hér nám við háskólann, en ljúka kandídatsprófi í hinum ýmsu deildum hans, og er ástæðan m.a. auðvitað sú, að við háskólann eru engin skólagjöld, mjög lágt inntökugjald og öllum, sem hafa lokið stúdentsprófi, er þannig heimilt ,sér svo að segja að kostnaðarlausu að hefja nám í háskólanum. En á undanförnum árum hafa um það bil 15–20 læknakandidatar útskrifazt frá læknadeild Háskóla Íslands árlega og verður ekki annað sagt, en það sé mjög sómasamleg viðkoma í læknastéttinni og í öllu falli svo mikil, að af þeim sökum einum ætti ekki að þurfa að vera hér læknaskortur.

Ef við berum saman við ástandið í þessum efnum í Noregi, sem oft er eðlilegt og skynsamlegt að taka samanburð við fyrir okkur Íslendinga, er þess að geta, að í Noregi er aðgangur stranglega takmarkaður að læknanámi. Á undanförnum árum hafa ekki fleiri, en hundrað stúdentar í Noregi komizt til læknanáms, en það svarar til þess, að hér væru bara teknir 2–3 stúdentar í læknadeildina á hverju hausti, og takmörkun í Noregi er framkvæmd þannig, að miðað er við einkunnir. Það eru teknir þeir, sem hæstar hafa einkunnir við stúdentspróf

og takmörkun hefur í reynd verið svo alvarleg í Noregi, að í raun og veru hafa þeir einir komizt til læknanáms í Noregi, sem hafa haft ágætiseinkunn eða því sem næst á stúdentsprófi.

Önnur nágrannaþjóð okkar velur nú mjög stranglega til læknanámsins, þ. e. Bretar og fer ekki aðeins eftir námseinkunnum, heldur einnig eftir athugun á því, hvort hlutaðeigandi nemendur séu vel til þess fallnir að gegna læknastörfum. Í Danmörku og Svíþjóð og Finnlandi er hins vegar ekki takmarkaður aðgangur að læknadeildunum, en læknanámið er mjög svipað því, sem það er hérna og það er alveg sömu sögu að segja og hér, að talsverður hluti þeirra nemenda, sem hefja læknanámið, heltist úr lestinni á 1., 2. eða 3. ári. Ég vildi láta þetta koma fram til þess að undirstrika, að skipulag eða kennsluhættir læknadeildarinnar verða ekki taldir eiga neina sök á læknaskortinum, sem hér er og er mönnum eðlilega nokkurt áhyggjuefni, þ.e.a.s. sérstaklega héraðslæknaskortinum. Raunar er þar alls ekki um að kenna fyrst og fremst skorti á læknismenntuðum mönnum, vegna þess að ég veit ekki betur, en um það bil 80 íslenzkir læknar séu við framhaldsnám eða læknisstörf erlendis og þar af langflestir í Svíþjóð. Og auk þessara 80 lækna, manna með fullgilt læknapróf, eru upp undir 70 læknakandídatar við einhvers konar nám eða bráðabirgðastörf, sumpart hér eða erlendis. Það er m. ö. o. um að ræða 150 íslenzka lækna og læknakandidata, sem eru við nám eða störf, ýmist erlendis eða hérlendis, sem við ættum að geta notið læknistarfa hjá í þágu okkar sjálfra. Bæði hinn tiltölulega mikli fjöldi læknakandidata, sem útskrifast árlega úr læknadeildinni, miðað við íbúatölu landsmanna og hinn mikli fjöldi lækna, sem er við framhaldsnám eða störf erlendis, virðist eindregið benda til þess, að héraðslæknaskorturinn stafi ekki af skorti á læknum í sjálfu sér, heldur sé hér um að ræða annars konar vandamál, sem hv. þm. einmitt í ræðum sinum hafa vikið rækilega að og raunar hæstv. heilbrmrh. undirstrikaði mjög rækilega og mjög réttilega í framsöguræðu sinni fyrir þessu frv. Þessum upplýsingum vildi ég þó gjarnan koma á framfæri við hv. alþm., til þess að læknadeildinni og skipulagi hennar væri ekki ranglega kenndur sá skortur á héraðslæknum, sem nú á sér stað og vissulega er vandamál, sem brýna nauðsyn ber til að bæta úr.