01.04.1965
Neðri deild: 61. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1476 í B-deild Alþingistíðinda. (1200)

138. mál, læknaskipunarlög

Frsm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur haft frv. til læknaskipunarlaga til meðferðar á nokkrum fundum sínum. N. bárust nokkur erindi í sambandi við þetta mál frá Alþýðusambandi Norðurlands, hreppsnefnd Raufarhafnarhrepps og ýmsum félagasamtökum þar á staðnum, enn fremur frá hreppsnefnd Suðureyrarhrepps og frá hreppsnefnd Árneshrepps og sömuleiðis frá stjórn Læknafélags Norðvesturlands.

Eins og fram kom við 1. umr. málsins hér í hv. d., komu fram nokkrar aths. við þetta frv., sérstaklega í sambandi við það að leggja niður nokkur læknishéruð og tók n. það til mjög ýtarlegrar athugunar og varð sammála um að leggja til, að 3 af þessum læknishéruðum, Suðureyrarlæknishérað, Bakkagerðislæknishérað og Raufarhafnarlæknishérað, yrðu tekin inn í 1. gr. aftur og felld niður úr ákvæðum til bráðabirgða. Áður en n. afgreiddi málið, hafði dómsmrh. lagt fram brtt. við frv. þess efnis, að Suðureyrarlæknishérað yrði tekið aftur inn í og mælir n. með samþykkt þeirrar tillögu.

Í sambandi við þessi 3 læknishéruð þykir mér rétt að geta þess, að í Suðureyrarlæknishéraði hefur orðið nokkur fjölgun íbúa, frá því að þar var stofnað læknishérað, en þessi tvö læknishéruð, Suðureyrarhérað og Raufarhafnarhérað, voru gerð að sérstökum læknishéruðum með lögum frá 1955 og var Suðureyrarlæknishérað auglýst til umsóknar 15. ágúst 1957 til veitingar frá 1. jan. 1958 og var læknir settur í héraðið frá þeim tíma, og sat sá læknir til 4. okt. 1963. Síðan hafa tveir læknakandidatar gegnt héraðinu stuttan tíma, og nú frá 15. júní 1964 hefur héraðslæknirinn í Flateyrarlæknishéraði gegnt þessu héraði. Að vísu kom það fram við 1. umr. málsins, að þegar þetta læknishérað var gert að sjálfstæðu héraði, brugðu íbúar héraðsins mjög fljótt við og reistu mjög myndarlegan læknisbústað og sjúkraskýli og allt bendir því til þess, að með þeim breytingum, sem nú eru gerðar á frv. til læknaskipunarlaga, eru meiri möguleikar á því, að þetta hérað fái lækni aftur, heldur en verið hafa að undanförnu.

Líkt má segja um Raufarhafnarhérað. Þar voru íbúar á árinu 1960 472 og 1964 479. Læknir var fyrst skipaður í því héraði 1. jan. 1958, en þá voru íbúar 457, og var hann til 1. júlí 1961.

Bakkagerðishérað hefur mikla sérstöðu. Það er einangrað hérað og þar er mjög svipuð íbúatala og var, meðan Borgarfjarðarhreppur var einn í læknishéraðinu. 1955 var þar 351 íbúi og 1964 331.

Nefndin ræddi þessi mál við heilbrmrh. og sömuleiðis hefur n. eða fulltrúi frá n. rætt við landlækni og aðra þá, sem stóðu að samningu frv. til læknaskipunarlaga og er fullt samkomulag um þessar breytingar allar.

Eins og sjá má af brtt., eru tekin inn í ákvæði til bráðabirgða tvö læknishéruð, og eru það Djúpavíkurhérað og Flateyjarlæknishérað. Djúpavíkurhérað var 1943 með 535 íbúa, en 1964 eru íbúar þar 267. Frá 1. apríl 1943 hefur enginn læknir verið skipaður í það hérað, en það hét þá Reykjarfjarðarhérað,og fram til ársins 1950 voru af og til, einkum að sumarlagi, settir læknar og læknakandidatar eða læknastúdentar til að gegna héraðinu, en að öðru leyti var því gegnt af Hólmavíkurlækni. N. lítur svo á, að með því að taka inn í ákvæði til bráðabirgða þetta hérað ásamt Flateyjarlæknishéraði, en þar eru ekki eftir nema 119 íbúar, verða þessi héruð auglýst þrisvar sinnum með hinum nýju launakjörum, sem um ræðir í sambandi við 20 önnur læknishéruð. Það er skoðun flestra nm., að það séu fremur litlar eða engar líkur til þess, að fastur læknir fáist í svo fámenn héruð sem þessi. Hins vegar þykir sjálfsagt að verða við óskum íbúa Djúpavíkurlæknishéraðs að leggja það ekki niður, fyrr en reynt sé til hlítar, hvort læknir fáist til þess að gegna þessu héraði.

Brtt. n. fela í sér þetta helzt, að þessi þrjú héruð eru aftur tekin inn í 1. gr., héruðin, sem ég nefndi áðan: Suðureyrarhérað, Raufarhafnarhérað og Bakkagerðishérað og svo aftur þessi tvö inn í ákvæði til bráðabirgða og svo nokkrar leiðréttingar í samræmi við þetta. M.a. höfum við tekið inn þá breytingu, að Flateyjarlæknishérað sameinist Reykhólalæknishéraði, en íbúar Flateyjarhrepps hafi aftur rétt til þess að sækja til Stykkishólmslæknis, eftir því sem þeir óska hverju sinni.

Í sambandi við 1. mgr. 6. gr. var í frv. upprunalega gert ráð fyrir 17 læknishéruðum, sem nytu þessara hlunninda, en nú hefur þeim með brtt. n. verið fjölgað um 3 eða í 20 héruð, en eftir sem áður er óbreytt um 5 ótiltekin læknishéruð, sem kæmu til með að njóta þessara hlunninda, ef nauðsyn er talin bera til.

Þá hefur n. einnig flutt till. um það við 7. gr., að í stað þess, að heimilt er að ráða lækna til viðbótar, eins og segir í gr., komi: 8. með tilliti til þess, að þessum hlunnindalæknishéruðum er fjölgað um 3.

Að öðru leyti skýra brtt. n. sig sjálfar og þarf ég ekki að hafa um það fleiri orð.

Við 1. umr. þessa frv. hér í hv. þd. beindust umr. þm. að verulegu leyti um fækkun læknishéraða, en minna um þær miklu umbætur, sem frv. felur í sér. Þrátt fyrir að fjölgun hefur orðið í læknastétt landsins, hefur skortur á héraðslæknum orðið tilfinnanlegri með hverju árinu sem líður og hefur það fyrst og fremst gengið út yfir þau læknishéruð, sem fámennust eru og búa við lakastar samgöngur. Á s.l. hausti hafði enginn umsækjandi fengizt í 16 læknishéruð, og voru 7 þeirra læknislaus, en gegnt af nágrannalæknum, en 9 er gegnt af læknakandidötum til bráðabirgða. Fólk, sem býr í þessum héruðum, finnur átakanlega til þess öryggisleysis, sem því er samfara að hafa ekki lækni.

Með þessu frv. er farið inn á nýjar brautir með því að hækka verulega laun héraðslækna í fámennustu héruðunum á þann hátt, að í 20 tilteknum læknishéruðum og ef nauðsyn krefur í 5 öðrum ótilteknum héruðum skal greiða héraðslækni staðaruppbót á laun, er nemi hálfum launum í hlutaðeigandi læknishéraði. Þá er ákvæði um námsleyfi fyrir héraðslækna, sem gegnt hafa héraðslæknisembætti í einhverju áður greindra 20 læknishéraða í 5 ár samfleytt, eins árs frí með fullum launum til framhaldsnáms erlendis eða hérlendis án skuldbindingar um áframhaldandi héraðslæknisþjónustu og greiðslu fargjaldskostnaðar fyrir sig og fjölskyldu sína til þess lands, er hann hyggst stunda nám í, hvort sem það er í Evrópu eða Norður–Ameríku og sömuleiðis með greiðslu á fargjaldakostnaði til baka, ef hann skuldbindur sig til þess að gegna héraðslæknisþjónustu áfram. Með þessum miklu launahækkunum og fríðindum er þess að vænta, að læknar fáist frekar til þessara héraða, sem erfiðast hefur reynzt að fá lækna til. Hins vegar er því ekki að leyna, að margvíslegar aðrar ástæður liggja til grundvallar því hversu erfitt er að fá lækna til að sækja um héraðslæknisstörf í dreifbýlinu.

Þá eru í frv. nokkur önnur nýmæli frá gildandi l., sem fela í sér aukin hlunnindi til héraðslækna almennt, eins og stofnun bifreiðalánasjóðs héraðslækna og enn fremur að veita læknanemum, sem staðizt hafa fyrsta hluta embættisprófs, ríkislán gegn skuldbindingu um þjónustu í héraði að námi loknu.

Hæstv. heilbrmrh. og ríkisstj, í heild hafa með þessu frv. sýnt áhuga og góðan vilja til að bæta úr alvarlegu ástandi í læknamálum dreifbýlisins, sem allir hljóta að fagna. Hins vegar má segja, að fleira þurfi að koma til, og vil ég sérstaklega minna á, að efla þarf læknisvitjanasjóð og vænti ég þess, að hæstv. heilbrmrh. láti hraða endurskoðun þeirra laga.

Eins og ég hef nú skýrt frá þessum brtt., hefur það orðið að samkomulagi í n. að leggja þær hér fram og voru allir nm. mættir og skrifuðu undir nál. og hygg ég, að flestir megi mjög vel við una þessa afgreiðslu málsins, þegar við hugsum til þeirra umr., sem áttu sér stað við 1. umr. í þessari hv. deild.