01.04.1965
Neðri deild: 61. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1481 í B-deild Alþingistíðinda. (1203)

138. mál, læknaskipunarlög

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Brtt. þær, sem hv. heilbr.- og félmn. flytur, á þskj. 362, eru til mikilla bóta og þar er gengið að verulegu leyti til móts við þær óskir, sem komu fram hjá okkur hv. 5. þm. Vestf. í upphafi þessara umr. Er ég þakklátur hv. n. fyrir það, hve vel hún hefur tekið undir þessar óskir okkar. Í brtt. mínum eru tvær um Suðureyrar læknishérað, þ.e.a.s. 3. og 6. till. á því þskj., en þar sem hæstv. dómsmrh. hefur flutt um sama efni sams konar till. og hv. n. fallizt á þær, tek ég þær till. að sjálfsögðu aftur, þar sem það er þá orðið fullt samkomulag um það læknishérað.

Þær breytingar hafa nú orðið í þessu máli, hvað snertir þau fimm læknishéruð, sem ætlazt var til að lögð yrðu niður, að nú á þó ekki að leggja niður nema tvö þeirra og þau ekki fyrr, en auglýsingar hafa engan árangur borið. Þetta eru miklar breytingar til bóta, þó að ég sé ekki að fullu ánægður með þær samt. Ég óskaði eftir því, að hv. n. féllist á að leggja ekkert af þessum 5 héruðum niður og væri ekki verið að draga þau í dilka, þar sem mjög svipað mætti segja um þau flest. En hún hefur samt dregið þau að því leyti í dilka, að tvö skulu lögð niður, ef auglýsingar bera ekki árangur. Ég flyt því till. um það á þessu þskj., 347, að Flateyjarhérað og Djúpavíkurhérað skuli áfram vera sjálfstæð læknishéruð, eins og ég óskaði eftir við 1. umr. þessa máls. Ég sé ekki, að það sé nokkur ávinningur af því að leggja þau niður, þótt með þessum fyrirvara sé, því að auðvitað geta ástæður svo breytzt síðar, að læknar kunni að fást í þessi héruð, þó að ekki séu horfur á því, eins og sakir standa. Og þó að læknar fáist nú ekki, þótt bætt hafi verið svo mjög launakjör læknanna, geta þær aðstæður skapazt og kannske óðar en varir, að þangað fáist læknar. En verði frv. samþ. með þessum breytingum, sem n. gerir ráð fyrir, kemur ekki til, að þangað komi læknar síðar, því að þá eru héruðin ekki lengur til, það hefur ekki borið neinn árangur, að þau hafi verið auglýst þrisvar sinnum. Ég geri mér því enn vonir um, að hv. d. geti fallizt á að skilja ekki þessi tvö læknishéruð þannig frá, heldur láti þau njóta hins sama og hin þrjú, sem nú er búið að ákveða, að skuli vera sjálfstæð héruð áfram. Ef svo fer, að hv. n. fellst á þessar till, mínar, mun ég við 3. umr. flytja till. um staðaruppbót til þeirra, en ég hef látið það bíða til að sjá úrslítin um þetta nú.

Síðan þetta mál var til 1. umr., hefur Alþ. borizt bréf frá hreppsnefndinni í Árneshreppi, en sá hreppur er hið umtalaða Djúpavíkurlæknishérað. Þetta bréf er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

Hæstv. Alþingi. Á fundi hreppsnefndar Árneshrepps 21. marz 1965 var rætt frv. það til læknaskipunarlaga, sem nú liggur fyrir Alþ. Hreppsnefndin leyfir sér hér með að mótmæla því, að Djúpavíkurlæknishérað verði lagt niður.

Till. þessi kom fram á fundinum og var samþ. einróma. Með tilliti til þess, að ekki er enn komið á vegasamband við byggðarlagið og getur dregizt enn í nokkur ár, eftir því sem oss hafa borizt fréttir af um fjárframlag til vegarins og einnig vegna þess, að við sjáum ekki, að læknisþjónustan batni við sameiningu héraðsins við Hólmavikurhérað, leyfum vér oss í því sambandi að geta þess, að Hólmavíkurlæknir hefur á undanförnum árum komið hér í héraðið nokkrar ferðir á ári til heilsueftirlits og kostað þær ferðir sjálfur að öðru leyti en því, að sjúkrasamlagið hefur greitt honum eitthvert lítils háttar kaup fyrir tímann, sem fer í ferðina. Ef héraðið verður lagt niður, kemur læknirinn aðeins þegar kallað er, eins og venja er í læknishéruðum og verða þá viðkomandi sjúklingar að greiða allan kostnað við ferðirnar, sem oft eru mjög kostnaðarsamar. Einnig lítum við þannig á, að eftir að laun og kjör lækna hafa verið bætt, svo sem frv. gerir ráð fyrir, sé ekki vonlaust um, að ungum mönnum, langt komnum í læknisnámi, þyki gott að koma í tiltölulega létt hérað um tíma og fá sér góðar tekjur, geta jafnframt notað tímann til lestrar og hvíldar.

Að lokum þetta: Þegar síldin fer aftur að veiðast á vestursvæðinu, verður það ofvaxið Hólmavíkurlækni að gegna hingað norður, ef starfræktar verða tvær síldarverksmiðjur með þeirri fólksfjölgun, er því fylgir. Við leggjum þess vegna til, að héraðið verði fyrst um sinn látið standa áfram, en landlækni falið að sjá um að auglýsa það til umsóknar með þeim kjörum, sem frv. gerir ráð fyrir.

Virðingarfyllst,

Kjörvogi, 23. marz 1965,

f. h. hreppsnefndar Árneshrepps,

Guðjón Magnússon.“

Samkv. þessu bréfi hefur hreppsnefndin tekið þetta til rækilegrar íhugunar og sér engan kost við það að leggja héraðið niður, en vill, að Hólmavíkurlækni verði falið að gegna læknisstörfum, meðan það er læknislaust. Hún bendir líka á þennan möguleika, sem ég hef oft talað um í þessu sambandi, að aðstæðurnar geta breytzt. T.d. ef svo vel tækist til, að aftur yrðu starfhæfar síldarverksmiðjurnar á Ingólfsfirði og Djúpavík, mundi það vera algerlega útilokað fyrir Hólmavíkurlækni að sinna þessu héraði.

Þá er ég þakklátur fyrir það, að tekin hefur verið til greina sú bending frá mér um Flateyjarhérað, að það skuli tilheyra Reykhólahéraði, en ekki Stykkishólmshéraði, en þó jafnframt heimilað íbúunum að vitja læknis til Stykkishólms. Þetta er til verulegra bóta.

5. till. á þskj. 347, sem ég flyt, er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú verður læknishérað læknislaust um sinn, og hafa þá íbúar þess rétt til að vitja annars hvors þeirra tveggja héraðslækna, sem næstir eru og auðveldast er að ná til, eftir nánari fyrirmælum landlæknis.“

Þarna ætlast ég til, að sú regla sé tekin upp um hvaða læknishérað sem er, að íbúarnir geti sótt til næsta læknis, hver sem hann er, ef læknislaust er í héraði sjúklingsins. Þetta sýnist mér vera skynsamleg regla og eigi að gilda alls staðar, því að það getur víðar orðið læknislaust um sinn en í þeim héruðum, sem hér hafa verið gerð að umtalsefni. En sérstakka áherzlu legg ég þó á seinni hluta þessarar till., en þar segir svo: „Þegar svo stendur á,“ — þ.e. þegar hérað er læknislaust, — „greiðir ríkissjóður kostnað af læknisvitjun og sjúkraflutningi, að því leyti sem hann er ekki greiddur úr læknisvitjunarsjóði.“ Í vetur bar þetta mál á góma. Ég hreyfði því í sambandi við annað mál, að það væri sanngjarnt, að þar sem ríkissjóði spöruðust læknislaun, væru þau notuð til þess að greiða læknisvitjanakostnað hjá þeim, sem búa í læknislausum héruðum. Og ég man það, að hæstv. dómsmrh. tók þessu mjög vel. Hann taldi, að þetta gæti fyllilega komið til greina. Nú flyt ég þessa till. hér, að þetta verði gert, þegar læknislaust er hérað, fái sjúklingarnir þessa aðstoð, að ríkið greiði þennan kostnað, sem oft hefur orðið ótrúlega mikill og eiginlega alveg ofvaxið ýmsum sjúklingum að greiða hann, bæði að ná til læknis og eins að fá flutning til læknis í öðru héraði.

Ég minnist í þessu sambandi atburðar, sem gerðist fyrir fáeinum dögum, þegar kona veiktist skyndilega vestur á Auðkúlu í Arnarfirði. Enginn vegur var fær til að ná til læknis. Það var reynt að fljúga þangað til þess að ná sjúklingnum og koma honum fljótt til læknis, og það reyndist ómögulegt. Það var bæði reynt með flugvél og þyrlu, og hvort tveggja varð árangurslaust. Þá var loks gripið til þess ráðs að ná í varðskip og sækja sjúklinginn og flytja hann til næsta læknis og þaðan á flugvöll, til þess að geta síðan flutt sjúklinginn til Reykjavíkur. Hvað halda menn, að þetta hafi kostað þessa fátæku sveitakonu, ef hún hefur orðið að borga það, eins og það raunverulega hefur kostað?

Ég vil mælast til þess, að hv. heilbr.- og félmn. taki þessa till. til athugunar og í trausti þess, að hún geri það fyrir 3. umr., ætla ég að taka till. aftur til 3. umr. í þeirri von, að hv. n. athugi, hvort hún geti fallizt á hana.