06.04.1965
Neðri deild: 64. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1505 í B-deild Alþingistíðinda. (1217)

138. mál, læknaskipunarlög

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls voru 2 till., sem fyrir þd. lágu varðandi málið, teknar aftur til 3. umr. og hófst þessi umr. í dag á því, að tillögumennirnir ræddu till. Þá hafði ekki verið gerð grein fyrir því af hendi heilbr.- og félmn., að nefndin hafði tekið till. þeirra til meðferðar. Það hefur hins vegar siðar, eftir að ég kvaddi mér hljóðs, verið upplýst af hv. 11. landsk. þm. Ég taldi hins vegar þinglega réttara, að einhver af hendi n. gerði grein fyrir því, að n. hefði athugað þessar till. og tekið afstöðu til þeirra, áður en umr. hæfust um þær. Þetta hefði að sjáifsögðu verið gert, ef svo stæði ekki sérstaklega á, að formaður n. er vikinn af þingi og varamaður hans kominn hér í hans stað.

Báðar þessar till. hafa nú verið ræddar og það upplýst, að meiri hl. n. fékkst ekki til að veita þessum till. stuðning. Ég hef hins vegar áður tekið það fram, að ég vil styðja till, frá hv. 3. þm. Reykv. (EOl) um námslaun. Það var nokkuð að því fundið í hv. n., að till. væri nokkuð rúm og gæti því framkvæmdin orðið laus í reipum. En mér sýnist, að því séu nokkuð rammar skorður settar, hversu víðtæk þessi námslaun yrðu, þar sem þau yrðu aðeins veitt samkv. till. landlæknis og að fenginni umsögn læknadeildar Háskóla Íslands. Þær reglur, sem yrðu svo settar, því að enn fremur er gert ráð fyrir reglugerð, mundu marka þessu alveg básinn, þannig að fulltryggilega væri hægt að búa um framkvæmd þessarar till. eða ekki fæ ég annað séð. Og þeirrar skoðunar er ég, að það væri mikilsverð efnahagsleg fyrirgreiðsla fyrir sérstaklega fátækt fólk, sem legði út á læknanámsbrautina, hina erfiðu og torsóttu og löngu námsbraut, að ríkið veitti þeim alveg sérstaklega námslaun. Lánin eru góð, en það er þó allþung byrði, sem leggst á herðar hins unga embættismanns, þegar hann er kominn frá námi, að greiða þau upp aftur. Námslaun eru því betri. En n. fékkst ekki til þess að meiri hluta til að veita þessari till. stuðning og vil ég þó mælast til þess, að hún nái samþykki.

Þá hafði einnig verið tekin aftur till., sem hér lá fyrir við 2. umr. frá hv. 3. þm. Vestf. (SE), og hafði hann nú lagt hana fram í nokkuð breyttu formi og er hún um það, að í læknislausu héraði hlaupi ríkissjóður undir bagga um að greiða helming læknisvitjunar– og sjúkraflutningskostnaðar fólks, sem veikist og þarf að leita læknis og býr í hinu læknislausa héraði. Ég mundi telja, að það væri full þörf á, að þessi till. væri samþ. Að vísu skal ég játa, að ég tel hana heldur þrönga. Þannig stendur á í sumum læknishéruðum, þó að læknir sé þar búsettur, að þar er mjög erfitt að ná til héraðslæknisins í héraðinu og kostnaðarsamt í mörgum tilfellum og sama má segja, þegar um sjúkraflutninga er að ræða. Ég hef t.d. hér í huga Súðavíkurlæknishérað, sem nær yfir allar byggðir Ísafjarðardjúps nema rétt næsta nágrenni Ísafjarðar. Þar er um þá eina leið að ræða við innanvert Ísafjarðardjúp og norðanvert að ná til læknisins með því að fá Djúpbátinn til þess að fara með lækninn. Það getur aldrei kostað minna en 8–9 þús. kr. og var það viðurkennt af hv. 11. landsk. þm. (MB), sem er einmitt framkvæmdastjóri Djúpbátsins. Læknisvitjun eða sjúkraflutningur í megin hluta Súðavíkurlæknishéraðs kostar því einstaklinginn 8–10 þús. kr. í beinum útlögðum kostnaði og þess eru dæmi, eins og liggur í augum uppi, að það getur komið fyrir oftar en einu sinni á ári að þurfa að láta sækja lækni með þessum ærna kostnaði. Til þessa tilviks næði till. hv. 3. þm. Vestf. ekki í því formi, sem hún er og er því of þröng. Ég hef því talið fulla þörf á, að við hana bættist t.d. þetta: „Sama gildir, þó að læknir sé í héraði, ef vitjunarkostnaður eða kostnaður af sjúkraflutningi nemur 1.000 kr. eða meira“ — að þá sem sé kæmi ríkið til um greiðslu helmings kostnaðar.

Það hefur verið tekið hér fram af hv. 11. landsk, þm., að lögin um læknisvitjanasjóði eru orðin úrelt, gersamlega úrelt. Þau eru frá 1942 og þau eru þannig upp byggð, að ég efast um, að það komi að gagni að endurskoða þau í því formi, sem þau eru. Svo breyttar eru aðstæður, síðan þau voru sett. Ég hefði haldið, að það þyrfti því að ráða bót á þessum vandamálum fólksins í dreifbýlinu, ekki aðeins í hinum læknislausu héruðum, heldur einnig í héruðum, eins og ég hef hér gert grein fyrir, þar sem aðstaða er mjög erfið til að ná til læknis og sjúkraflutningar og læknisvitjanir mjög kostnaðarsamar. Og þá sé ég ekki annað en það væri mjög sanngjarnt, að ríkið tæki þennan kostnað að sér að minnsta kosti að hálfu leyti, þegar um meiri háttar upphæðir er að ræða.

Það er nú þegar auðséð, að læknisvitjanasjóðslögin verða ekki endurskoðuð á þessu þingi. Hæstv. heilbrmrh. hefur að vísu í ræðu gefið vilyrði um það, að hann muni stuðla að því, að hraðað verði endurskoðun læknisvitjanasjóðslaganna og er það gott út af fyrir sig. En það getur þó a.m.k. aldrei orðið raunhæft, fyrr en á næsta þingi.

Ég tel því alls ekki óþarft, að ákvæði væri nú sett inn í læknaskipunarlögin um aðstoð við fólkið í strjálbýlinu að því er þetta snertir, þar sem aðstoðar er mest þörf, en það er, eins og ég þegar hef gert grein fyrir, ekki aðeins í hinum læknislausu héruðum, heldur einnig undir ýmsum kringumstæðum í héraði, þar sem læknir situr.

Ég veit um dæmi þess, að læknisvitjunarferð, ein einstök læknisvitjunarferð, hefur kostað milli 15 og 20 þús. kr. Þá varð að kalla til flugvél. Og einstaklingurinn átti í ekkert hús að venda um það að fá aðstoð til greiðslu á þessum mikla kostnaði nema leita til hins litla læknisvitjanasjóðs héraðsins, sem var félaus að kalla.

Ég teldi sem sé þörf á að rýmka till. hv. 3. þm. Vestf., mun þó ekki gera það, því að mér þætti að því nokkur bót, að hans till. fengist samþ. og vil ekki spilla því með því að prjóna neinu við hana.

Læknaskipunarlögin eru búin að vera til rækilegrar meðferðar hér á hv. Alþingi og við höfum heyrt raddir utan af landsbyggðinni varðandi þessa lagasetningu og þá sérstaklega úr þeim héruðum, sem í upphafi stóð til að lögð yrðu niður samkvæmt þessari löggjöf. En svo eru nú tregar póstsamgöngurnar í okkar landi, að fyrst í dag er t.d. að berast bréf um þessi mál úr Flateyjarhreppi á Breiðafirði, en þar eru þessi mál, að mér finnst, skynsamlega rædd út frá sjónarmiði manns búsetts í eyjahéraði og löggjöfin fjallar nú einmitt um það að leggja Flateyjarlæknishérað niður eða sem sé gera ráð fyrir því, að það verði sameinað nágrannahéraði, Reykhólahéraði, ef ekki tekst að fá þangað lækni á næstunni með hinum breyttu og bættu kjörum, sem löggjöfin nú gerir ráð fyrir. En honum er ekki kunnugt, þegar hann skrifar þetta bréf, um endalok þessa máls og ræðir því málið án þess að vita, hvaða meðferð það hefur fengið á síðara stigi. Ég vil — með leyfi hæstv. forseta — lesa kafla úr þessu bréfi, því að þótt ráðin sé nú stefna læknaskipunarlaganna eða hvernig þau verða afgreidd hér á þingi í megindráttum, þá kemur að því síðar, að líta þurfi á læknaskipunarmálin og þá væri ekki úr vegi að hafa sumt í huga, sem þessi maður lætur hér í ljós um vandamál Breiðfirðinga í læknamálunum. Hann segir m.a.:

„Ef við þurfum að tala við lækni, er það Stykkishólmslæknir, sem fær það ónæði, því að útilokað er að tala að Reykhólum vegna lélegra símatækja, sem okkur er gert að búa við þrátt fyrir marg ítrekaðar tilraunir til þess að fá úr því bætt, því að auðvitað eru Reykhólar ekki eini staðurinn, sem við þurfum að tala við, en getum það ekki.“

Nú vil ég í tilefni af þessum ummælum beina því sérstaklega til hæstv. símamálaráðherra að athuga, hvort ekki er hægt úr þessu að bæta fyrir fólkið í Flateyjarhreppi á Breiðafirði. Það getur varla verið óyfirstíganlegt að bæta úr þessu. En það getur verið þarna mikið í húfi. Það geta verið mannslíf í húfi að láta þetta viðgangast, að símaþjónustan til læknissetursins sé í því ástandi, sem þarna er tilfellið. Þetta var innskot. Áfram vil ég, með leyfi hæstv. forseta, fá að lesa úr bréfinu:

„Ef við þyrftum að vitja læknis, þá er auðveldara að leita til Reykhóla, vegna þess að sjóleiðin er þangað styttri og lengur fær litlum bátum, því að víða er skjól af eyjum. En þó getur sú leið lokazt af ísum að vetri. Ef kaupa þarf bát til að sækja lækni til Stykkishólms og flytja til baka, kostar það um 2000 kr. auk þóknunar til læknis að Reykhólum, sem kostar þó allmiklu minna. Þennan kostnað greiðir sjúkrasamlag að hálfu. Ég tek fram, að þetta á við um eyjarnar í Flateyjarhéraði. Mér finnst því, að hlutur okkar versni frá því, sem nú er, verði frv. að lögum. Ekki sé ég heldur, að breytingin spari neitt frá því, sem er, þar sem frv. gerir ráð fyrir, að greidd verði staðaruppbót í tveim héruðum við Breiðafjörð, sem nemur einum launum, einum læknislaunum Flateyjarhéraðs, hins vegar verður klipin sú þóknun af héraðslækni Stykkishólms, sem hann hefur fengið fyrir þá þjónustu, sem hann hefur innt af hendi í Flateyjarhreppi og á að gera framvegis. Þó að um sinn horfi illa með byggð í Flatey, þá mun það vera eini staðurinn í Austur-Barðastrandarsýslu, sem hefur skilyrði til þorpsmyndunar, svo að nokkru nemi, þó að það muni líklega ekki endast til fulls starfs handa lækni. Er það ekki til bóta að leggja héraðið niður, nema sýnt sé fram á, að einhverjum sé það til hagsbóta.

Ég vakti máls á því fyrir nokkrum árum á fjórðungsþingi Vestfjarða, að nokkuð róttækar breytingar yrðu gerðar í þessum málum. Ég hef hugsað mikið um þetta síðan og alltaf orðið vissari í þeirri skoðun, að án þess að leysa samgönguvandamálið verði þessum málum aldrei komið í gott horf. Þess vegna er það skoðun mín, að í stað þeirra breytinga, sem frv. gerir ráð fyrir við Breiðafjörð, eigi að hafa eitt læknishérað, sem nái fyrst um sinn frá Búlandshöfða umhverfis Breiðafjörðinn allan að Siglunesi, með læknissetri í Stykkishólmi handa tveimur héraðslæknum auk sjúkrahúslæknis þar, eins og nú er, enda væri séð um, að sjúkrahúsið væri vel búið að tækjum og öðru, sem þyrfti, til þess að þar mætti framkvæma minni háttar aðgerðir. Í Stykkishólmi væri svo þyrilvængja, sem gæti flutt sjúklingana til læknis, enda ætti það að vera hennar verkefni fyrst og fremst að flytja læknana um héraðið, bæði til að vera til viðtals á hinum fjölmennari stöðum og einnig í sjúkdómstilfellum, enda væri þá létt af læknunum tímafrekum og oft erfiðum ferðalögum, starfskraftar þeirra mundu notast betur, þeir yrðu frjálsari að skreppa frá til skiptis, hefðu betri aðstöðu til heilsugæzlu, væru fljótari í förum, þegar mikið lægi við og enginn yrði afskekktastur af þeim, sem þá þyrftu að ná til læknis. Það er líklegt, að flugvélin kæmist ekki alla daga ársins um héraðið. En það er þá líka staðreynd, að samgöngur lokast árlega með þeim farartækjum, sem nú eru notuð, um styttri eða lengri tíma. Það er mjög hentugt að gera þessar breytingar hér á Breiðafirði, því að á Breiðafirði þyrfti flugvélin aldrei að fljúga yfir fjall þvert, hvert sem hún færi í héraðinu og þokur eru sjaldgæfar hér. Dimmviðri mundi sjaldnast loka leiðinni.

Um kostnaðarhliðina af þessu veit ég of lítið. En hvað kosta t.d. tvö læknissetur með nauðsynlegum útbúnaði og farartækjum fram yfir íbúðir handa lækni og flugmanni í Stykkishólmi? Ætli mismunurinn entist ekki nokkuð til flugvélarkaupanna? Og ekki reikna ég með, að þyrfti staðaruppbót handa læknunum, svo að þá kæmu tvenn læknislaun til, til þess að mæta flugmannslaununum og kostnaði við rekstur flugvélarinnar, sem fram yfir yrði tekjur þær, sem fengjust fyrir störf vélarinnar, en þær hlytu þó að verða nokkrar, ef miðað er við það, sem við þurfum að borga fyrir læknabíla.“

Áfram segir í bréfinu, sem nú líður að lokum: „Það er kominn tími til að reyna nýjar leiðir í þessum málum, þó að þær kosti eitthvað. Það er mikilsverðari þáttur í lífi strjálbýlisfólksins en borgarbúinn nokkurn tíma gerir sér grein fyrir. Það er hver og einn sjálfráður um búsetu sína og starf. En það er þó ábyrgðarhluti að vera með stóran barnahóp, þar sem leiðin getur lokazt fyrirvaralaust til hjálpar, ef veikindi eða slys ber að höndum og er jafnvel margra klukkustunda ferð við beztu skilyrði. Ég hef orðið margorður um þetta efni, en ég vona, að yður verði ljóst, hvað fyrir mér vakir. Það eru miklu fleiri, sem búa utan þeirra læknissetra, sem ég meina að yrðu lögð niður við svona skipan, en á þeim. Þeir mörgu mundu fá mjög mikið bætta aðstöðu til hjálpar og hinir gætu eftir sem áður haft góða læknisþjónustu. Ég hef ekkert heyrt í umræðunum um þessi mál, sem bendi til þess, að okkar hlutur batni við breytinguna, nema síður sé.“

Mér finnst það ánægjuefni að verða þess var, að fólkið, sem við læknaskortinn býr úti í dreifbýlinu, lætur til sín heyra og vekur athygli á, hversu mikla úrslitaþýðingu þessi mál hafa og góð lausn þeirra fyrir búsetumöguleika fólks úti um landið.

Ég segi: Það er nú þegar ráðið, hvernig læknaskipunarlögum verður breytt að þessu sinni. Ég hygg, að svo sé í aðalatriðum. En það er vissulega þess vert að athuga, hvort hægt er með gerbreyttum samgönguaðstæðum að bæta læknisþjónustuna, eins og frv. raunar gerir á ýmsum stöðum ráð fyrir, með því að setja fleiri lækna saman og ætla þeim stærra svæði til þjónustu og búa þeim betri embættisaðstöðu, t.d. með sjúkrahúsaðstöðu og á annan hátt.

Ég taldi rétt, þó að þetta bréf kæmi rétt á síðasta degi umræðna um þetta stóra mál hér í þinginu, að það færi inn í þingtíðindin og bæri þau boð úr Flateyjarhreppi, sem okkur hér bárust á síðustu stundu um skoðun málsmetandi manns þar í héraði um þetta þýðingarmikla og viðkvæma mál.