29.10.1964
Neðri deild: 8. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í B-deild Alþingistíðinda. (124)

16. mál, orlof

Sverrir Júlíusson:

Herra forseti. Á þskj. 16 er frv, til l. um breyt. á l. um orlof, þar sem segir, að orlof skuli hækka úr 6% í 7%. Það var hv. 5. þm. Norðurl. v., sem kom mér til þess að standa upp.

Þegar orlofslög voru fyrst sett hér á landi, mun núv. hæstv. utanrrh, hafa flutt frv. um 4% orlof, og í þeim lögum var gert ráð fyrir, að hlutarsjómönnum væri greitt 2% í orlof. Þetta var í gildi allt þar til, — ég held, að ég muni það rétt, — að vinstri stjórnin beitti sér fyrir breytingu í 6% og þá enginn munur gerður á hlutarsjómönnum og öðrum launþegum. Hvort á að telja hlutarsjómenn atvinnurekendur eða launþega, það er að mínu viti ekki nokkur vafi á því nú. Það hefur orðið sú breyting, að hlutarsjómenn taka ekki lengur þátt í útgerðarkostnaði, eins og var áður, heldur er hér aðeins um að ræða aðferð til þess að reikna út kaup.

Það dæmi, sem hv. 5. þm. Norðurl. v. kom með hér í þingsölunum nú fyrir skömmu, um mjög háan hlut til skipstjóra, er engan veginn rétt mynd í sambandi við kaupgreiðslur til sjómanna yfirleitt. Ég vildi segja, að þrátt fyrir það þótt kaupgreiðslur séu háar og prósentur og greiðslur, í þessu tilfelli orlof, séu vissulega mjög tilfinnanlegar fyrir marga, þá álít ég, að miðað við núverandi aðstæður í kaupgreiðslum til sjómanna sé ekki hægt að gera þarna upp á milli almennra verkamanna, launþega og sjómanna yfirleitt.

Það eina, sem mér finnst að gæti komið til mála að væri athugað, en ég er þó ekki að gera till. um það, er, að þegar kaupgreiðslur væru komnar upp í mjög háar upphæðir, þá næði orlofið ekki lengra, því að vissulega er hægt að benda á það, að þarfir manna til þess að lifa sínar orlofsvikur fara ekki eftir því, hvort maðurinn hefur 200, 400 þús. kr. eða jafnvel hærri upphæð í árslaun. En eins og málum er komið og með tilliti til þess samkomulags, sem gert var milli atvinnurekenda og launþega í júnímánuði s.l., þá tel ég, að það sé sjálfsagt, að þetta verði svo, að frv., sem hér liggur fyrir, verði samþ., sem m.a. mundi verða til þess að auka vinnufriðinn í landinu. Og vonandi leiðir það til áframhaldandi vinnufriðar, því að íslenzka þjóðin hefur engan veginn efni á að berast á banaspjótum, eins og hún hefur gert mörg undanfarin ár.