03.11.1964
Neðri deild: 10. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1621 í B-deild Alþingistíðinda. (1441)

30. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Jón Skaftason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af þeirri ræðu, sem hv. 3. þm. Reykv. hélt hér áðan.

Í fyrsta lagi, ég sagði aldrei, að þeir fulltrúar, sem voru á raunvísindaráðstefnunni, hefðu allir verið sammála meiri hl. atvinnumálanefndar. Ég sagði, að mikill meiri hl. þeirra hefði verið sammála því, sem meiri hl. atvinnumálanefndar lagði til og það hygg ég, að sú skýrsla, sem gefin var út um ráðstefnuna sjálfa, sanni gleggst.

Annað atriði, sem hv. 3. þm. Reykv. vék hér að áðan var, að ég með þeim ábendingum um þær breytingar, sem frv. gerir ráð fyrir frá till. meiri hl. atvinnumálanefndarinnar, væri að leggja allar hinar sérstöku fimm rannsóknastofnanir undir atvinnurekendavaldið í landinu, eins og hefði verið tilætlun meiri hl. atvinnumálanefndarinnar. Nú skal ég ekki segja um, hvað þeim hefur farið á milli í atvinnumálanefndinni, en af sjálfri grg. með frv. því, sem fylgdi frá atvinnumálanefndinni árið 1962, er alveg auðséð, að hér fer hv. 3. þm. Reykv. villur vegar eða hann er þá búinn að gleyma því, sem þá fór fram, því að ég get með einföldum upplestri úr grg., þar sem rakið er, hvernig eigi að skipa stjórnir hinna einstöku rannsóknastofnana, á mjög auðveldan hátt afsannað það, að till. atvinnumálanefndarinnar um skipun stjórna rannsóknastofnananna hafi verið gerð í þeim tilgangi einum að koma þeim undir áhrif og stjórn atvinnurekendavaldsins. Ég vil leyfa mér — með leyfi hæstv. forseta — að lesa þannig t.d. grg. með 12. gr., sem fjallar um Rannsóknastofnun byggingaiðnaðarins. Þar segir:

„Ráðh. skipar formann stjórnarinnar án tilnefningar, en þrír stjórnarmeðlimir eru tilnefndir af ráðgjafarnefnd stofnunarinnar, sem í eiga sæti fulltrúar flestra stærstu aðila á sviði byggingarmála. Mjög er talið æskilegt, að meðlimir stjórnar stofnunarinnar hafi tæknilega menntun og einkum þekkingu á byggingarfræðilegum störfum. Sjálfsagt virðist, að formaður stjórnarinnar sé verkfræðingur.“

En eins og hv. ræðumaður, 3. þm. Reykv. gat um hér áðan, var meiningin með þessum ráðgjafarnefndum að hafa þær mjög fjölmennar og í þeim áttu ekki einungis að sitja fulltrúar frá atvinnuvegunum, heldur einnig fulltrúar frá samtökum launþega í landinu.

Í 20. gr. frv., eins og atvinnumálanefndin gekk frá því, segir þannig um stjórn Rannsóknastofnunar iðnaðarins:

„Stjórn stofnunarinnar er skipuð þremur mönnum. Ráðh. skipar einn án tilnefningar og er hann formaður stjórnarinnar, en 2 eru frá atvinnuvegunum. Talið er eðlilegt, að iðnaðurinn hafi meiri hl. í stjórninni, enda gert ráð fyrir því, að meginhlutinn af fjármagni stofnunarinnar komi þaðan og í Félagi ísl. iðnrekenda og Sambandi ísl. samvinnufélaga eru flestallir þeir aðilar, sem mundu leggja stofnuninni til fjármagn. Iðnaðarrannsóknir eru í eðli sínu fyrst og fremst á sviði verksmiðjuiðnaðar.“

Ég hygg, að þegar einn af þessum mönnum er skipaður af ráðh. og á að gæta þar hagsmuna ríkisvaldsins og hinn er skipaður af samtökum samvinnumanna í landinu, þar sem félagsmenn eru á milli 30 og 40 þús., þá sjáist það glöggt með upplestri þessarar grg., hversu það er út í bláinn að tala um, að ég hafi verið að mæla sérstaklega fyrir því, að stjórnir rannsóknastofnananna væru settar undir atvinnuvegina eingöngu og eins og hv. ræðumaður lét að liggja hér áðan, að sú hugsun kynni að búa á bak við, að einhvers konar auðhringir, eins og I. G. Farbenindustri, þýzka fyrirtækið, kynnu að fá ráðið mestu um skipun stjórna þessara rannsóknastofnana. Ég held, að það hafi alls ekki verið meining meiri hl. atvinnumálanefndarinnar og ég held, að grg. sú, sem fylgir frv. því, sem lagt var fram 1962, afsanni það gersamlega, að svo hafi verið.