11.05.1965
Neðri deild: 88. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1674 í B-deild Alþingistíðinda. (1543)

199. mál, lántaka til vegaframkvæmda

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Brtt. mín við þetta frv. á þskj. 699 um 2 millj. kr. lánsheimild til að rjúfa einangrun Árneshrepps hefur nú fengið athugun í hv. fjhn. Stjórnarsinnar í n. eru andvígir till., en minni hl. n., þrír hv. þm., vill samþykkja hana. Þessi till. er, eins og ég gat um áður, flutt í samræmi við bréf sýslunefndar Strandasýslu, sem prentað hefur verið sem fskj. með nál. minni hl. n. Þar skorar sýslun. á hv. Alþ. að heimila lánsfé til þessa vegarkafla, sem um getur í þessari brtt. minni, vegarkafla til að rjúfa þá einangrun, sem vegaleysið skapar Árneshreppi. Sýslun. er ekki að biðja um neinar gjafir. Hún krefst þess eins, að þessi vegarkafli verði lagður nú í sumar, sem á að leggja hvort sem er á næstu árum, ekki er farið fram á annað. Hún krefst þessarar fyrirgreiðslu til þess að afstýra ógnun, sem af hafís hefur nú í vetur, stafað fyrir Árneshrepp og getur ógnað á komandi vetrum. Þessari liðveizlu ætla stjórnarsinnarnir að neita, um leið og allir alþm. samþykkja 115 millj. lánsheimild til byggðarlags, sem aldrei hefur af hafís haft að segja. Þetta er frammistaða stjórnarflokkanna í þessu máli.

Hæstv. samgmrh. fór að afsaka sig hér áðan, hvers vegna hann væri á móti till., en það er hann, sem fyrirskipar, að till. skuli felld. Hann segir, að það sé ekki eðlilegt að samþykkja svona till. Af hverju er það ekki eðlilegt? Er þá eðlilegt að samþykkja 115 millj. kr. til Reykjanesbrautar? Já, það er eðlilegt, segir hann. Hann segir, að þessi andstaða sé ekki af neinu skilningsleysi. Nei, skilningurinn er svo glöggur, að það er með öllu óeðlilegt, óverjandi, að Árneshreppur fái vegasamband! Svo góður er skilningurinn hjá honum og hans mönnum í garð þessa héraðs. Hann spyr, hvers vegna vanti þarna veg. Ætli það mætti ekki spyrja um marga vegi og vegarkafla í landinu, ef því væri að skipta? Mætti þá ekki alveg eins spyrja, hvers vegna hefur vantað rafmagn nú að undanförnu? Það vantar þennan vegarkafla m.a. fyrir það, að felldar hafa verið till. okkar stjórnarandstæðinga þing eftir þing um fjárveitingar í vegi. Hæstv. ráðh. segist hafa mikla samúð með þessu fólki. Ja, hún er ekki lítil. Hún er svo mikil, samúðin hans með þessum 260 íbúum Árneshrepps, að þeir skulu ekki fá þennan vegarkafla í sumar. Það er niðurstaðan af þeirri afstöðu, sem hann og hans menn hafa tekið til þessarar brtt. Ég tel það alveg furðulegt, að þannig skuli vera hægt að segja mönnum fyrir verkum hér á Alþ., sem fram kemur í þessu máli.