15.12.1964
Efri deild: 30. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í B-deild Alþingistíðinda. (167)

6. mál, þingsköp Alþingis

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þetta mál mikið, enda er það rétt hjá hæstv. forsrh., að þetta er ekkert stórmál. Hins vegar tel ég það talsvert stórmál fyrir mig, ef því er haldið fram, að ég fari með rangt mál, og ég tek því ekki vel, af hverjum sem í hlut á. Ég verð að álíta, að það hafi nú nokkuð skýrzt við þessar umr., hvernig í þessu máli öllu liggur.

Hæstv. forsrh. segir að vísu, að það hafi ekki orðið neitt samkomulag um þetta m;ál utan þings, en hann segir, að vel megi vera, að hann hafi verið opnari fyrir sanngirni í þessu máli, eftir að Alþýðubandalagsmenn voru svo sanngjarnir, eftir því sem hann sagði, í samningum við hæstv. ríkisstj. á sinni tíð.

Hæstv. forsrh. segir, að hann hafi ákveðið alveg án nokkurra tilmæla frá Alþb. að flytja þetta frv., að hann hafi borið það upp við ríkisstj., og ekki er að efa það, og það verið samþykkt þar, og hann hafi að vísu ekki farið neitt dult með þetta og það kunni að hafa borizt eitthvað út. Það er kannske ekki ómögulegt, að þetta hafi borizt í tal á milli einhvers Alþb: manns og hæstv. forsrh., það skildist mér a.m.k. að ekki væri útilokað. Og eitt er víst, að hæstv. forsrh. sagði hér áðan í sinni ræðu, að að sínu áliti væri það mikið matsatriði, hvort það væri heppilegt, að það væru 7 menn í nefndum hér í Ed.

En það var ákveðið í upphafi þessa þings að kjósa 7 menn í nefndir hér í Ed. Og hæstv. forsrh. lét þau orð falla hér áðan, að það hefði verið skv. ósk Alþýðubandalagsmanna, að sú skipan var á höfð, þannig að svo virðist að eitthvað hafi þeir hér komið við sögu. Ég fæ ekki betur séð en það séu líkurnar, sem leiða nokkuð til þess. Það er þó náttúrlega ekki rétt hjá hv. 12. þm. Reykv. (EggÞ), að það hafi verið komin einhver hefð á það á síðasta þingi, að Alþb. tæki þátt í nefndarstörfum. Það voru nokkur þýðingarmikil mál, eins og t.d. vegafrv. o. fl., þar sem þessi háttur var á hafður, en að það hafi verið komin nokkur hefð á það, er auðvitað algjör misskilningur.

En eins og ég hef margtekið fram, má ekki skilja mitt mál þannig, og ég vona, að ég hafi tekið það fram bæði nú og áður, að ég hafi verið að amast við því sérstaklega, að þeir fengju fulltrúa í nefndum. Það er alls ekki. Og ég get tekið undir það, sem hæstv. forsrh. sagði, og get vel skilið það, að hv. 12. þm. Reykv. taki undir það líka, að það sé nokkur sanngirni í því, að Alþb.-menn fái fulltrúa í þingnefnd, því að í þingnefndum 5 manna höfðu þeir möguleika til þess að koma að manni, a.m.k. ef ekki hefði verið um að ræða kosningabandalag á milli stjórnarflokkanna, og siðferðislega á auðvitað Alþb. frekar sæti í þingnefndum heldur en Alþfl., svo að það er síður en svo, að það sé ástæða til þess að fara að amast við því, að þeir fái sitt sæti.

Hæstv. forsrh. undraði sig á því, að ég skyldi vera svo viðkvæmur fyrir þessu, þegar hann nú kæmi og vildi upplýsa, að það hefði ekkert verið samið um þetta utan þings. Ég hef nú skýrt, hvers vegna ég má kallast nokkuð viðkvæmur fyrir því, en ég verð að segja það, að mér finnst hæstv. forsrh. nokkuð viðkvæmur fyrir því að bera það af sér mjög skelegglega, að það hafi verið samið um þetta mál utan þings. Ég er alveg hissa á, hve honum er það mikið í mun að koma því af sér, því að það var auðvitað alveg rétt, sem kom fram hjá honum, að þetta er ekki stórmál, og það hefur verið samið utan þings um miklu stærri mál. Sannleikurinn er sá, að þegar ég fer að hugsa betur um þetta, þá skil ég það að nokkru leyti, að hæstv. forsrh. muni véra þetta dálitið viðkvæmt mál, af því að hann hafði nefnilega á sínum tíma talsvert stór orð um þau vinnubrögð, sem hann taldi þá forkastanleg, að það væri gengið fram hjá Alþ. og þm. og samið eða ætti að semja eða hafa samráð við ýmsa aðila utan Alþ., og einhver, ég veit ekki, hvort það var hann, gaf það nafn, að það væri verið að semja við Alþ. götunnar, og um það var á sínum tíma talað með allmikilli óvirðingu. Ég minnist þess núna, að hv. 9. þm. Reykv. (AG), svo sem hér hefur borið á góma í þessum umr., minnti hæstv. forsrh. nokkuð á þessa fyrri afstöðu í umr. um eitt tiltekið mál hér í þessari hv. deild.

Það verður svo hver að draga sínar ályktanir af því, sem við höfum hér sagt og kemur til með að standa, hver hafi hér haft réttara fyrir sér, og ég vil alveg una þeim dómi.