04.05.1965
Efri deild: 79. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1887 í B-deild Alþingistíðinda. (1691)

182. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 1. minni hl. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í ræðu hv. frsm. meiri hl., hefur ekki verið fullt samkomulag í fjhn. um afgreiðslu þessa máls. Við fulltrúar Framsfl. í n., hv. 1. þm. Norðurl. e. og ég, leggjum til, að frv. verði breytt töluvert, áður en það verður samþykkt. Ég verð að minna á það, að árið 1960 var skipt um stefnu í skattamálum, þannig að óbeinir skattar voru auknir verulega, en um leið lofað lækkun á beinu sköttunum. Ég þarf ekki að rifja það upp, að ýmis rök voru þá að þessu færð, að þetta væri eðlilegt, m.a. þau, að það væri svo mikið svikið undan tekjuskatti, en hins vegar munu menn þá líklega hafa haldið, að óbeinum sköttum eins og söluskatti yrði nú ekki aldeilis stungið undan. Nú hefur þróun þessara mála orðið sú, að óbeinu skattarnir hafa farið síhækkandi, söluskatturinn, sem árið 1960 var ákveðinn 3% og m.a. rökstuddur með því, að hann væri nauðsynlegur til þess að afla tekna á móti lækkun beinu skattanna, er nú kominn upp í 71/2%, En á sama tíma hefur tekjuöflun ríkissjóðs með beinum sköttum, með tekju- og eignarskatti, fjórfaldazt, ef borinn er saman tekju- og eignarskattur innheimtur á árinu 1960 og sá tekju- og eignarskattur, sem lagt er til með fjárl. og þessu frv., sem hér liggur fyrir í samræmi við þau, að verði innheimtur á árinu 1965, sem er 375 millj.

Ég vil aðeins minna á það, að ein af þeim breytingum, sem gerðar voru á skattalöggjöfinni árið 1960, var sú, að umreikningur samkv. vísitölu á frádráttarupphæðum og upphæðum skattstigans var afnuminn. Um leið var dýrtíðin gerð að skattstjóra í landinu með fjölgandi krónur, en minnkandi. Þá var fljótt þannig komið, að lágtekjumenn voru komnir í tiltölulega háa skattstiga, nema leiðrétting færi fram. Hæstv. ríkisstj. beitti sér fyrir leiðréttingum á þessu, þannig að öðru hverju voru frádráttarupphæðirnar leiðréttar í samræmi við þetta og þetta voru kallaðar skattalækkanir.

Þegar tekjuskattslögin voru hér síðast til meðferðar fyrir ári, bentum við framsóknarmenn á þetta og bentum jafnframt á það, að um leið og hæstv. ríkisstj. hafði látið leiðrétta frádráttarupphæðirnar, hafði skattstiginn sjálfur verið síhækkaður til þess að jafna þessar leiðréttingar út og væri orðinn allt of brattur, þ.e.a.s. tekjuskattsþrepin allt of fá og allt of mjó.

Afleiðingin af löggjöf um þetta efni á s.l. ári varð sú, eins og við framsóknarmenn höfðum bent á, að þegar skattlagningin lá fyrir á s.l. sumri, reis mikil alda reiði og vonbrigða. Hún stafaði ekki eingöngu af því, hversu háir skattarnir voru, heldur líka af einstaklega ábyrgðarlausum málflutningi af hálfu stjórnarliða. Þeir höfðu útmálað það í málgögnum sinum, hvað skattalækkunin væri í raun og veru geysimikil. Málgagn hæstv. fjmrh. hafði sagt fólki, að fjölskyldan gæti farið í siglingar fyrir þá upphæð, sem hún sparaði sér í skatti og reiðin, sem varð á s.l. sumri, átti þess vegna ekki eingöngu rót sína að rekja til þess, hve menn urðu fyrir háum sköttum, heldur einnig til þessa ábyrgðarlausa málflutnings, því að það lætur að líkum, að það urðu ýmsir, sem urðu að hætta við ráðgerða utanferð með fjölskyldu sína fyrir skattasparnaðinn.

Framsfl. reið á vaðið á s.l. sumri og mótmælti þessum skattaálögum og krafðist þess, að leiðrétting færi fram á sköttum ársins. Skömmu síðar sneru Alþýðusamband Íslands og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja sér til ríkisstj. með svipuð tilmæli. Svo virðist sem þeim hafi verið gefinn nokkur ádráttur um jákvæðar viðtökur þeirra tilmæla, a.m.k. er svo mikið víst, að allmiklar viðræður fóru fram og nefndarskipun til þess að kanna, með hverjum hætti þetta mætti gerast. Fljótlega varð það þó ljóst, að ríkisstj. ætlaði sér ekki að verða við þessum tilmælum Alþýðusambandsins og Bandalagsins. Það var þess vegna snemma á þessu þingi, að nokkrir hv. þm. Framsfl. í Nd. lögðu fram á hv. Alþ, frv. um leiðréttingu skattanna á árinu 1964 og um leið var í því frv. fólgin ályktun um að endurskoða nú þegar skattalöggjöfina í öllum atriðum. Þetta frv. hefur engan framgang fengið hér á hv. Alþ. og er þess að sjálfsögðu ekki að vænta, að það fái það héðan af, enda of seint orðið. En sú till., sem í því er fólgin um það, að endurskoða beri skattalöggjöfina í öllum atriðum, er vissulega enn þá tímabær og skal ég aðeins koma að því síðar.

Í þeim umr., sem áttu sér stað á s.l. sumri, þegar skattlagning ársins 1964 var kunn, virtist mér, — og þá hef ég m.a. í huga þær umr., sem fóru fram í útvarpinu 17. ágúst og hæstv. fjmrh. tók þátt í, — að flestir hafi verið sammála um nauðsyn á breytingum á skattalöggjöfinni, sem nefna mætti í fjórum atriðum: 1) Lækkun skattstigans. 2) Fjölgun og breikkun þrepa hans. 3) Hækkun persónufrádráttar. 4) Betra eftirlit með skattframtölum.

Mér virðist, að þetta frv. sé ekki í neinu samræmi við þau fyrirheit, sem þá voru gefin, eins og ég tel að allur fjöldi manna hafi skilið þau. Í fyrsta lagi að því er lýtur að lækkun skattstigans, þá er sú lækkun skattstigans, sem lögð er til í þessu frv., allsendis óveruleg og ekki í samræmi við þær vonir, sem menn höfðu ástæðu til þess að gera sér eftir þær umr., sem fram fóru í fyrra og ég var að rifja upp. Í öðru lagi er breyt, á tekjutölum stigans, þ.e.a.s. þrepunum, engin nema í beinu hlutfalli við verðlag og tekjur. Og í þriðja lagi er persónufrádrátturinn, ekki heldur hækkaður nema sem þessu svarar. Og í fjórða lagi er eftirlitið, sem ég skal ekki gera hér sérstaklega að umræðuefni, við höfum orðið sammála um það í hv. fjhn. að athuga það atriði lítið eitt betur milli 2. og 3. umr. og ég skal láta bíða 3. umr. að ræða það atriði.

Það var raunar eitt atriði, sem bar mikið á í umr. um skattamálin í fyrrahaust, sem ég vil aðeins drepa á í þessu sambandi og það var hugmyndin um að innheimta skatt jafnóðum af launum. Mér skilst, að það sé nú ekki von til þess, að sú breyting geti orðið fyrr en eitthvað síðar og till. liggja ekki fyrir um það að þessu sinni. Ég skal í sjálfu sér ekki kvarta neitt yfir því, þótt slíkt mál hafi nokkurn aðdraganda. Ég tel, að það væri æskilegt að koma þessu í kring, en hins vegar vil ég vara mjög við því, ef menn halda, að slík fyrirkomulagsbreyting geti komið í stað raunverulegra breytinga á skattlagningunni. Fyrir allan þorra launafólks, sem hefur svipaðar tekjur frá ári til árs, hefur það ekki ýkjamikla þýðingu, hvort skatturinn er innheimtur jafnóðum eða á árinu á eftir og það er þess vegna ekki fyrir allan fjölda manna um neitt stórfellt mál að ræða, þó að ég mundi telja það til bóta, að sá háttur yrði tekinn upp. En raunverulegar, raunhæfar breytingar á skattlagningunni eru hins vegar nauðsynjamál, sem verður að taka föstum tökum sem fyrst.

1. minni hl. fjhn., hv. 1. þm. Norðurl. e. (KK) og ég, við leggjum sem sagt til, að þessu frv. verði breytt töluvert. Við viljum þó ekki ganga lengra að þessu sinni, en að segja sem svo, að meðan óbeinu skattarnir fara sífellt hækkandi frá því, sem var yfirlýst stefna hæstv. ríkisstj. á árinu 1960, þá teljum við, að beinu skattarnir eigi þó a.m.k. að standa í stað hlutfallslega, en ekki hækka. Á þessu sjónarmiði eru þær brtt., sem við flytjum á þskj. 584, byggðar. Við leggjum þar til, að skattstiganum sé breytt þannig, að hann verði eins og sá skattstigi, sem lögleiddur var á árinu 1960, að öðru leyti en því, að allar tekjutölur hans verði 60; hærri, en 60% er hækkunin á verðlagsvísitölunni frá meðaltali ársins 1959 til meðaltals ársins 1964 og við teljum eðlilegt í þessu sambandi að miða við verðlag tekjuöflunarársins.

Hins vegar höfum við ekki lagt til, að persónufrádrættinum yrði breytt, vegna þess að eins og lagt er til í frv. ríkisstj. að hann sé, er hann 60% hærri, en hann var 1960 og í samræmi við það meginsjónarmið, sem við byggjum þennan tillöguflutning á. Getum við eftir atvikum fallizt á það.

Það er mjög ánægjulegt að sjá, að hæstv. ríkisstj. hefur nú komið auga á, að það var skammsýni á sínum tíma að afnema umreikningsreglurnar, því að nú er lagt til í frv. hæstv. ríkisstj., að umreikningur verði tekinn upp að nýju, en gert er ráð fyrir, að sá umreikningur verði miðaður við vísitölu, sem hæstv. fjmrh. verði gefin heimild til þess að ákveða. Þetta getum við í 1. minni hl. n. ekki fallizt á. Við teljum ástæðulaust að miða við vísitölu, sem hæstv. fjmrh. ákveði, heldur sé eðlilegt að miða beinlínis við verðlagsvísitölu tekjuöflunarársins og við höfum, flutt brtt. í þá stefnu.

Ég hef drepið á það, að ég telji á því fulla nauðsyn að endurskoða allt skattakerfið. Það hefur verið á það bent af ábyrgri hálfu, m.a. í ritstjórnargrein í Fjármálatíðindum á s.l. hausti, að skattlagningin í landinu sé nú orðin óhæfilega mikil og gjaldþoli og gjaldvilja þegnanna sé nú talið ofboðið. Ég ætla ekki að fara að rekja þau ummæli, sem fram koma í þessari ritstjórnargrein, ég hef gert það í öðru sambandi hér í þessari hv. d. En hæstv. ríkisstj. hefur látið sig þær aðvaranir, sem fram koma í þessari grein, engu skipta og hefur haldið áfram að hækka söluskattinn, sem varað er við í þessari grein og fer ekki heldur út í það að lækka neitt verulega tekjuskattana, sem þó er þar talið nauðsynlegt.

Ég held, að við ættum að geta orðið sammála um, að það er nauðsyn á því að endurskoða allt skattakerfið og þá þarf ekki sízt að hafa í huga fjárþörf sveitarfélaganna og eins hitt, hvaða útgjöldum þeim er lagt á herðar að standa undir, þ.e.a.s. verkefnaskiptinguna í þjóðfélaginu milli ríkissjóðs og sveitarfélaganna, þetta þyrfti auðvitað að athuga í leiðinni. Endurskoðun laga um tekju- -og eignarskatt sérstaklega, t.d. án tillits til söluskatts, án tillits til útsvars o. s. frv., er ekki líkleg til þess til lengdar að gefa skynsamlega niðurstöðu. Öðru hverju verður að taka allan strúktúrinn til skoðunar og athugunar og ég held, að það sé tímabært að gera það nú.

Við munum í 1. minni hl. fjhn. taka þetta mál til athugunar í sambandi við frv. um tekjustofna sveitarfélaga, sem von er á til þessarar hv. d. innan skamms frá Nd.

Hv. .frsm. meiri hl. fjhn. gagnrýndi hér áðan brtt. okkar á þeim grundvelli, að þær rýrðu tekjur ríkissjóðs. Nú liggur það auðvitað í augum uppi, að það er ekki hægt að gera leiðréttingu á tekjuskattsmálunum öðruvísi en að það gangi út yfir ríkissjóð. En það vaknar að sjálfsögðu spurningin, hvort ríkissjóð vanti fé. Stefna hæstv. ríkisstj. hefur, síðan hún komst til valda, verið sú að safna sífellt afgöngum og hafa stóra greiðsluafganga á hverju ári. Þetta hefur verið henni tiltölulega auðvelt sökum þess, að við höfum nú undanfarin ár lifað mesta góðæri, sem komið hefur yfir þessa þjóð í langa tíð og það hafa verið mikil veltiár. Á þeim fjórum árum, sem ríkisreikningar liggja fyrir um af stjórnartíma þessarar hæstv. ríkisstj., árunum 1960–1963 að báðum meðtöldum; eru tekjur ríkisins umfram það, sem gert er ráð fyrir í fjárl., samtals 690 millj, kr. Rekstrarhagnaður ríkisins umfram það, sem fjárl. gera ráð fyrir á þessum fjórum árum til samans, er 466 millj. kr. Greiðsluafgangur þessara fjögurra ára samtals er 365 millj. kr. Við meðferð söluskattsmálsins hér í haust fengum við í hv. fjhn. yfirlit frá hæstv. fjmrh., sem benti til þess, að afkoma ríkissjóðs á árinu 1964 hefði verið allmiklu lakari en undanfarið, jafnvel svo miklu lakari, að um einhvern greiðsluhalla gæti verið að ræða. En þó virtist mér af þeim tölum, sem þar lágu fyrir, að það væri síður en svo, að um yrði að ræða nokkurn rekstrarhalla á rekstrarreikningi ríkissjóðs.

Það kemur einnig í ljós af reikningum Seðlabankans, sem komið hafa fram nú fyrir nokkru, að hagur ríkissjóðs gagnvart Seðlabankanum hafi eitthvað rýrnað. En þetta segir í sjálfu sér ekki mikla sögu. Við höfum beðið um það nú í hv. fjhn. að fá eitthvert yfirlit yfir afkomu ríkissjóðs, en á það var ekki fallizt. Þegar ríkisstj. hæstv. hélt því fram, að skorti fé, en vill ekki sýna reikninga eða yfirlit því til stuðnings, þá sýnist mér, að af því megi draga þá ályktun, að afkoman sé þá væntanlega betri en hæstv. ríkisstj. vill vera láta. Ég verð líka að segja það, að það vantaði nú bara, að það væri ekki góð afkoma hjá ríkissjóði í árum eins og þeim, sem við höfum lifað hér á Íslandi að undanförnu. Ef svo væri ekki, þá virðist mér það ekki heldur vera rök fyrir því, að við ættum að fela þeirri hæstv. ríkisstj. að hafa mikið fé milli handa, svo að hvernig sem á málið er litið, þá virðist mér, að það beri að þeim brunni, að ekki sé ástæða til þess að hafa af því stórfelldar áhyggjur, þó að tekjur ríkissjóðs rýrni eitthvað af því að gera nauðsynlega breytingu á tekjuskattslögunum.

Ég skal nú ekki lengja mál mitt, herra forseti. Frsm. meiri hl. óskaði eftir því, að við drægjum brtt. okkar til baka við 3. umr., og er sjálfsagt að verða við þeirri ósk og ég vil láta í ljós ánægju mína yfir því, að hv. frsm. meiri hl. skuli vilja hafa þær til athugunar þangað til.