11.05.1965
Neðri deild: 88. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1920 í B-deild Alþingistíðinda. (1709)

182. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Þó að freistandi hefði verið að ræða allýtarlega um skattamálin hér, eins og hv. frsm. n. hafa tekið fram, vil ég ekki heldur á þessu stigi lengja þessar umr., þar sem tími til að afgreiða málið er mjög naumur og nauðsyn ber til, að það fái endanlega afgreiðslu hér á hinu háa Alþ. Það er auðvitað alltaf töluvert matsatriði, hvað er hægt að ganga langt í skattalækkunum og kann mönnum að sýnast sitthvað um það og till. um skattalækkanir eru alltaf ákaflega vinsælar, eins og menn vita. Það borga fáir skatta sína af gleði og þess vegna mjög handhægt að flytja till. um slíkt. En það verður þó að sjálfsögðu að byggjast á því raunsæi, að séð sé fyrir þeim þörfum, sem ríkissjóði er ætlað að leysa og samþ. hafa verið á Alþ. sjálfu á hans herðar, því að ella mun illa fara, sem ég veit, að allir hv. þdm. eru mér sammála um. Út í þá sálma skal ég ekki fara hér, en aðeins segja það eitt, að ég er ákaflega hræddur um það, að æðimargir muni verða fyrir vonbrigðum, þegar þeir sjá uppgjör ársins 1964 hjá ríkissjóði. Það er búið æðioft á þingi nú í vetur að vitna til þess, að það sé hægt að leggja margar kvaðir á ríkissjóðinn, hann muni ekki um að taka á sig einn pinkilinn til, því að þar flæði allt út úr kassanum og raunar gustukaverk að grynna í honum og hafa hinar frumlegustu till. verið fluttar í þessu sambandi. Ég fyrir mitt leyti vildi óska, að þetta hefði við rök að styðjast, en því miður er ég hræddur um, að menn sjái nokkuð aðra mynd, þegar útkoma ársins 1964 liggur fyrir, en endanlegu uppgjöri þess mun verða gengið frá nú næstu daga.

En hvað sem því líður, er það mat þeirra, sem undirbúið hafa þetta frv. og miðað við allar aðstæður, að ekki sé hægt að ganga lengra í skattalækkunum, en hér er gert og tjóir ekki að eyða frekari orðum að því að sinni. Reynslan mun skera úr því, þegar þar að kemur og þessar upplýsingar liggja fyrir, hvernig þau mál horfa og getum við þá síðar fengið aðstöðu til þess að mynda okkur skoðanir um það og eftir atvikum hafa mismunandi skoðanir um það, hvernig eigi að leysa þann vanda, sem þarna verður við að glíma. Ég tel því ekki auðið að gera breytingar á þeim skattstigum, sem gert er ráð fyrir í frv. Þeir hafa verið athugaðir vendilega og það er mat þeirra, sem bezt þekkja til, að lengra verði ekki gengið í því efni og ég hygg, að það sé hægt að taka undir með fullum rökum það, sem hv. frsm. meiri hl. fjhn. sagði, að með þessum skattabreytingum hér eru gerðar mjög verulegar umbætur, fyrst og fremst í þágu þeirra, sem lægstar tekjur hafa og það er fyrst og fremst það, sem vakir fyrir okkur öllum.

Ég vil ekki ræða einstök atriði sérstaklega í þessum till., sem liggja fyrir frá hv. minni hl., en minnast þó aðeins á tvær þeirra. Annars vegar er fundið að því, að það sé miðað við skattvísitölu og talið vera mjög óljóst hugtak, sem notað sé í frv. Þetta stafar beinlínis af því, að það eru svo margar vísitölur, sem kemur til greina að miða við og ég efast um það, að menn við nánari athugun málsins séu reiðubúnir í dag að segja um það, hvorki stjórnarliðar né stjórnarandstæðingar, ef það lægi formlega fyrir að taka um það ákvörðun, hvaða vísitölu ætti við að miða og þetta orðalag var valið með það í huga, að það væri möguleiki til þess, að það væri ekki fest við ákveðna vísitölu, ef annað þætti eðlilegra. En tilgangurinn með þessu ákvæði er að sjálfsögðu sá, að með þessu sé það nokkurn veginn tryggt, svo sem verða má, það má auðvitað alltaf deila um vísitölur, að þessir stigar breytist þannig, að ekki þurfi af þeim sökum að breyta skattalögunum á hverju ári. Þetta er auðvitað mjög bagalegt, að það þurfi á hverju einasta ári að vera að gera breytingar á skattalögum og það oft seint, þannig að þetta seinkar störfum skattstjóra og framtalsnefnda og vissulega væri það mikils virði, ef hægt væri að finna einhverjar þær grundvallarreglur í þessu efni, sem leyst gætu þann vanda.

Hitt atriðið, sem ég vildi minnast á, er sú till., sem út af fyrir sig virðist ákaflega meinlaus og er um það að ákveða, að dregin skuli út tiltekin prósenta skattframtala. Þessi till. var flutt hér, ef ég man rétt, eða eitthvað svipuð till, á síðasta þingi og ástæðan til, að það hefur ekki verið talið rétt að taka þetta upp, er meir af teknískum ástæðum, að rannsóknarmenn eða skattrannsóknarstjóri, sem væntanlega ber það nafn og ríkisskattstjóri hafa talið, að það væru svo mörg verkefni, sem að þeim hlæðust, að á þessu stigi væri í rauninni óheppilegt fyrir þeirra starfshætti og starfsaðstöðu alla að fyrirskipa þeim að fylgja slíkri reglu. Ég tel hins vegar alveg ljóst, að í framtíðinni hljóti að verða mörkuð einhver slík regla sem þessi, því að það er hárrétt, að auðvitað má þetta ekki verða tilviljun háð, — það á kannske að vera tilviljun háð, öllu réttara, hvað tekið er og hvað ekki. En það má ekki vera eingöngu á valdi starfsmanna að finna út einhvern ákveðinn mann til þess að skoða skattana hjá. Ég er alveg sammála hv. frsm. minni hl. beggja að því leyti til, en ég held, að á þessu stigi, miðað við það, að æðimargt hefur borizt þessari rannsóknardeild í hendur og meðan hún er að átta sig á þessum starfsháttum sínum öllum og hvað bezt henti í því, sé ekki æskilegt, að Alþ. bindi henni þann ramma, sem hér er um að ræða. Ég vil mega taka undir orð beggja frsm. minni hl. um það, að ég fyrir mitt leyti ber mikið traust til rannsóknardeildarinnar og það verður áreiðanlega ekki af hálfu rn. gerð nein tilraun til þess að hafa afskipti af því, hvað hún tekur sér fyrir hendur og ég efast ekkert um, að þeir menn, sem þar vinna, munu vinna sín verk samvizkusamlega og reyna að finna þær leiðir, sem skili mestri sanngirni í sambandi við athugun þeirra á málum. Það má auðvitað endalaust um það deila, — það getum við yfirleitt um alla hluti, — hvort fullkomin hlutlægni er höfð eða ekki. En ég er ekki í neinum vafa um það að, að því verður stefnt, að það verði gert. Og þó að ég taki fram, að ég sé á engan hátt andvígur þeirri hugsun, sem í þessu felst, held ég, að væri ekki heppilegt á þessu stigi, miðað við skoðanir þessara embættismanna, að mæla nú þegar fyrir um ákveðna starfshætti að þessu leyti.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að minnast hér örfáum orðum á brtt., sem ég hef flutt. Svo sem hefur verið vikið hér að áður, hafa verið nú síðustu tvö árin og nú í sambandi við meðferð þessa frv. hér í þingi settar reglur um allnákvæmt eftirlit með framtölum, sem á að miða að því að uppræta þá alvarlegu þjóðfélagsmeinsemd, sem hér hefur, eins og við allir vitum, grafið mjög um sig, að menn hafi ekki talið rétt fram tekjur sínar til skatts. Þetta er meinsemd, sem ég veit, að okkur greinir ekki á um, að eigi að uppræta og beri að vinna að með öllum ráðum, að gera verði. Hinu er ekki að leyna, að þessi meinsemd hefur verið mjög almenn og æðimargir þar við sögu komið og því hefur jafnvel stundum verið varpað fram, að það þætti hálfgerður barnaskapur að telja rétt fram, ef menn hefðu aðstöðu til þess að svíkja undan skatti, þannig að hinn þjóðfélagslegi skilningur á þessu máli hefur því miður ekki verið sem skyldi. Og að því miða þau ákvæði, sem sett voru í síðustu skattalög og nú hafa verið gerð nokkru ljósari og ákveðnari og einnig nú við meðferð tekjustofnalaga sveitarfélaga tekin upp í það frv. í Ed., — öll þessi ákvæði miða að því að reyna að uppræta þann ósóma, sem hér er um að ræða og það veltur að sjálfsögðu á mjög miklu, hvernig á þessum málum er tekið og hvernig er að þeim unnið.

Í lögum eru nú heimildir um allveruleg viðurlög í þessu sambandi, mjög veruleg viðurlög og að sjálfsögðu er rétt að stefna að því, að á þessum málum verði tekið með fullkominni festu og ekki sköpuð sú almenna venja um meðferð mála sem þessara, að þau verði litin allt of mildum augum í framtíðinni. Miðað við það ástand, sem hefur verið og miðað við þá almennu meinsemd, sem hér er um að ræða; hygg ég, að geti naumast verið ágreiningur um það, að það sé nauðsynlegt með öllum ráðum, án þess að um beinar ofsóknaraðgerðir sé að ræða, að gefa borgurunum kost á að koma sínum hlutum í lag, ekki á þann hátt, að þeir sleppi við að borga eðlilega skatta og skyldur af því, sem undan hefur verið dregið, heldur með því að hvetja þá til þess að gera þetta. Og ég held, að það muni verða til mikilla bóta fyrir framtíðina til þess að fá almennan skilning og ég vil segja vinsamlega afstöðu hins almenna borgara til skatteftirlitsins og gera mönnum það ljóst, að það þjónar hagsmunum borgaranna, en er ekki sett þeim til höfuðs sem ofsóknaraðili, að gefa mönnum með skaplegum hætti kost á áð koma sínum hlutum í lag, taka eðlilega á sig skatta, en án þess að sæta óhæfilegum refsingum og með hliðsjón af þessu hef ég leyft mér að flytja þessa till., sem er á þskj. 748, þess efnis, að skattborgurunum gefist þar til nú á þessu ári og með framtölum sínum árið 1966 kostur á því að koma sjálfir með réttar upplýsingar um, ef þeir hafa undan dregið tekjur sínar eða eignir og ef þetta sé gert, án þess að það sé beint skattalögreglan, sem komi þar til skjalanna, heldur af sjálfsdáðum, borgi menn eðlilegan skatt af þessum fjárhæðum, en að öðru leyti njóti þeir þess, að þeir gefi sig fram með þessar sakir sínar og játi þær, þannig að þeir verði ekki beittir skattsektum. Það má hugsa sér auðvitað hina leiðina, en ég býst við, að allir hv. þdm. séu sammála um, að það megi ekki í byrjun reka þessa stofnun sem refsirétt í þjóðfélaginu, heldur sé hún mjög nauðsynlegt tæki til þess að koma vandamálum í lag. Það má auðvitað hugsa sér, að á þessu máli væri tekið á þann veg að beita mildilega refsiaðgerðum þeim, sem eru nú í lögum. Ég álít, að sú stefna væri ekki rétt og það ætti að lagfæra málin á þennan hátt og ekki koma á þeirri venju að taka strax í byrjun mildilega á þessum málum eftir þeirri leið, heldur verði beinlínis heimiluð þessi undantekning og þá að sjálfsögðu yrði gagnályktað á þann veg, að með önnur mál skyldi farið eftir harðari refsiákvæðum, — heldur en að koma þeirri venju á strax í byrjun að beita mjög mildilegum ákvæðum í sambandi við refsingar fyrir skattsvik. Þetta er efni þessa máls.

Síðari till. er varðandi söluskatt. Það má segja, að það sé nokkuð annars eðlis, því að eins og menn munu réttilega geta sagt, þá er hér raunverulega um þjófnað að ræða að draga undan söluskatt og kann því að vera, að mönnum þyki það nokkuð á annan veg. En miðað við það, að hér er eingöngu um það að ræða, að þar komi til uppgjör á söluskatti, sem alger óvissa er um, að skattyfirvöld og skattrannsóknarstjóri hefði ella komizt að þ.e.a.s. .sem menn telja fram af sjálfsdáðum og hefði ella getað farið forgörðum, sé ég ekki annað, en það þjóni sama tilgangi að gefa mönnum kost á því að koma sínum hlutum í lag á þennan hátt, borga það, sem undan er dregið, en sæta ekki sektum að hinu leytinu. En miðað við það, að hér er um greiðslur að ræða, sem falla árfjórðungslega, er gert ráð fyrir, að þessi heimild gildi ekki nema til 1. júlí 1965.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um þetta mál, nema tilefni gefist til þess og vil ekki lengja umr. frekar með því að ræða skattamálin almennt á þessu stigi.