24.11.1964
Neðri deild: 20. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1969 í B-deild Alþingistíðinda. (1792)

76. mál, sala eyðijarðarinnar Miðhúsa í Gufudalshreppi

Flm. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Samúel Zakaríasson bóndi í Djúpadal í Gufudalshreppi í Austur-Barðastrandarsýslu skrifaði mér bréf, sem dags. er 21. okt. s.l. Í bréfi þessu biður hann mig að flytja frv. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að selja honum eyðibýlið Miðhús í sömu sveit. Lönd þessara tveggja jarða, Djúpadals og Miðhúsa, liggja saman. Samúel hefur lengi haft eyðibýlið Miðhús til afnota, en hann býr aðeins á helmingi jarðarinnar Djúpadal og af þessum ástæðum þarf hann á því að halda að hafa nokkru meira land til heyskapar, en hann hefur haft að undanförnu. Miðhús eru reyndar ekki mjög mikils virði, eins og það kot er nú. En þar eru þó nokkrir möguleikar til ræktunar. Samúel bóndi vill ógjarnan taka á sig ræktunarkostnað, nema hann fái kotið keypt. Miðhús hafa verið í eyði frá því um aldamót og engar horfur eru á því, að þar verði rekinn sjálfstæður búskapur. Til þess eru engin skilyrði. Samúel hefur leitað umsagnar hreppsnefndar Gufudalshrepps um sölu Miðhúsa og þessi umsögn hreppsnefndarinnar fylgir til mín með bréfi hans. Hreppsnefndarmennirnir mæla einróma með því, að Samúel verði selt kotið.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta mál. Þetta liggur mjög ljóst fyrir. Ég vænti þess, að um þetta verði ekki ágreiningur hér í hv d. og málið fái greiða afgreiðslu.

Ég legg svo til, herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.