15.03.1965
Efri deild: 54. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1973 í B-deild Alþingistíðinda. (1823)

152. mál, brunatryggingar í Reykjavík

Flm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Þetta frv. er eins og fram kemur í grg., flutt að ósk borgarráðs Reykjavíkur. Með frv. er lagt til, að gerðar verði breytingar á 4. gr. núgildandi l. um brunatryggingar í Reykjavik frá 1954. Með þeim l. var Reykjavíkurbæ heimilað að taka húsatryggingarnar í eigin hendur og var samþ. að gera það, það sama ár.

Fyrri brtt. er við 2. mgr. 4, gr. l., en sú mgr. hljóðar svo: „Ný hús skal meta eigi síðar en 4 vikum eftir að þau eru tekin í notkun.“ Þarna er lagt til að skylda eigendur til þess að tilkynna vátryggjanda skriflega, þegar hús hafa verið tekin í notkun. Á þessu hefur orðið misbrestur og vegna þess að lagagr. er ekki ýtarlegar orðuð, en nú er, hafa orðið nokkrir erfiðleikar í sambandi við þetta. Þá má nefna það, þegar ræddar eru orsakir þess, að komið er fram frv. um breytingar í þessa átt á lögunum, að það þykir t.d. brenna við, að menn séu búnir að búa langan tíma í húsum, án þess að þau séu tryggð, jafnvel hvorki bráðabirgðatryggingu né heldur smíðatryggingu. Það er vitanlega ekki í samræmi við þann tilgang laganna að skylda alla húseigendur til þess að hafa hús sín tryggð og með þessari breytingu er vátryggjanda fortakslaust veittur réttur til þess að taka hús í tryggingu, ef húseigandi hefur vanrækt að tilkynna húsið til mats.

Þá er í 2. gr. frv. lagt til, að á eftir 4. gr. l. komi ný grein og er í grg. nokkuð rökstutt, hvaða ástæður séu fyrir því, að lagt er til, að slík breyting verði gerð eða viðauki við lögin. Efni hennar er það að heimila vátryggjanda að leysa til sín hús, ef það skemmist svo af eldsvoða, að brunatjónið sé meira, en helmingur brunabótamatsverðs og að sjálfsögðu á þá húseigandinn rétt á að fá greiddan þann mismun, sem verður á brunabótunum og heildarmatsverði hússins. Vilji borgarstjórn eða eigandi véfengja það, að brunabótamatsverð hafi verið rétt, getur hvor um sig krafizt endurmats og það fer þá fram samkv. ákvæðum 4. gr. l., sem fjallar um mötin og þá mundi að sjálfsögðu sú greiðsla, sem húseigandi fengi, miðast við endurmatsverðið.

Ég vænti þess, að hv. þm. geti á það fallizt, að þessar breytingar séu eðlilegar og til bóta, og að frv. verði vel tekið. Ég leyfi mér svo að leggja til, að frv. verði að lokinni umr. vísað til 2. umr, og til hv. allshn.