30.04.1965
Neðri deild: 77. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2009 í B-deild Alþingistíðinda. (1970)

194. mál, eftirlaun alþingismanna

Flm. (Einar Ingimundarson):

Herra forseti. Ég flyt á þskj. 194 ásamt hv. 3. þm. Vesturl. frv. til l. um eftirlaun alþm. Er frv. þetta annars samið af 4 þm., einum úr hverjum stjórnmálaflokki þingsins. Svo er einnig um frv. til l.. um eftirlaun ráðh., sem lagt hefur verið fram í hv. Ed.

Með lögum nr. 84 frá 1953, um þingfararkaup alþm. o.fl., var stofnaður sérstakur lífeyrissjóður alþm., sem alþm. skyldu greiða iðgjöld í, 4% af þingfararkaupi sínu. Skyldi mótframlag í sjóðinn vera 6% og greiðast af alþingiskostnaði. Sjóður þessi skyldi síðan annast lífeyrisgreiðslur til fyrrv. alþm. og maka þeirra að þeim látnum eftir því, hvað þeir höfðu setið lengi á Alþ. og eftir að þeir höfðu setið þar vissan lágmarkstíma. Með l. nr. 4 frá 1964, um þingfararkaup alþm., voru ákvæði áðurnefndra laga um launagreiðslur til alþm. úr gildi felld. Hins vegar héldu áfram gildi sínu ákvæði laga þessara um lífeyrisgreiðslur til alþm., en gert var ráð fyrir því, að þau ákvæði yrðu endurskoðuð.

Í 1. gr. þessa frv. er það nýmæli miðað við gildandi lög um lífeyrissjóð alþm., að þeir skuli greiða iðgjöld í lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins eða svokallaða alþingismannadeild þess sjóðs. Hefur á síðustu árum verið vaxandi tilhneiging til þess að líta á alþm. sem starfsmenn ríkisins eða hliðstæða þeim, meðan þeir eiga sæti á Alþ., t.d. í sambandi við launagreiðslur o.fl. Þykir því eðlilegt, að héðan í frá greiði alþm. hluta af launum sínum í sérstaka deild lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og njóti annars sömu réttinda og beri sömu skyldur og aðrir starfsmenn ríkisins, meðan þeir eiga sæti á Alþ., nema annað sé tekið fram, eins og segir í 1. gr. frv.

2. gr. þessa frv. kveður á um, við hvaða aldursmark fyrrv. alþm. eigi rétt á eftirlaunum. Er grein þessi að mestu hliðstæð 7. gr. l. nr. 84 1953, um þingfararkaup alþm. o.fl., en ákvæði um örorku, sem skapar eftirlaunarétt, þó gerð skýrari í þessari gr.

Í 3. gr. frv. felast reglur um greiðslu eftirlauna til fyrrv. þm., sem náð hafa 65 ára aldri eða eru öryrkjar, eftir því, hve langa þingsetu þeir eiga að baki sér. Er gr. þessi hliðstæð 8. gr. l. nr. 84 1953, um þingfararkaup alþm. o.fl., en þrepum í þeim stiga, sem fyrrv. alþm. taka eftirlaun eftir, er þó fjölgað í þessari gr., miðað við 8. gr. nefndra laga. Er hér gert ráð fyrir, að greiðsla eftirlauna hefjist eftir setu á Alþ. í tvö kjörtímabil eða 6 ára þingsetu samanlagt í stað þriggja kjörtímabila eða 10 ára þingsetu í gildandi lögum. Einnig er ákveðið í þessari gr. frv., að eftirlaun alþm. hækki árlega um 1% eftir samanlagt 25 ára þingsetu upp í 70% af þingfararkaupi og er þetta ákvæði nýmæli miðað við gildandi lög.

4. gr. frv. inniheldur ákvæði um endurgreiðslu iðgjalda til þeirra þm., sem hafa ekki átt sæti á Alþ. samanlagt í 6 ár eða tvö kjörtímabil. Er gr. annars hliðstæð 9. gr. l. nr. 84 1953, en ákvæðin um endurgreiðslu iðgjalda þó gerð fyllri í frvgr. en er í gildandi ákvæðum.

5. gr. frv. er efnislega samhljóða 11. gr. 1. nr. 84 1953. Fjallar gr. annars um lífeyrisgreiðslur til maka látins fyrrv. alþm.

Beina hliðstæðu 6. gr. frv. er ekki að finna í gildandi lögum um lífeyrisgreiðslu til fyrrv. alþm. Þykir annars rétt að taka það skýrt fram, svo sem gert er í þessari gr. frv., að maki alþm. eða fyrrv. alþm., sem öðlazt hefur eftirlaunarétt samkv. frv., en andast áður en hann nær 65 ára aldri, eigi rétt á að fá greiddan sama hundraðshluta af eftirlaunum hins látna maka sins og orðið hefði, ef hann hefði náð 65 ára aldri.

Með ákvæðum 7. gr. frv. á að taka af allan vafa um, að lífeyrisgreiðslur úr öðrum deildum lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og öðrum lögboðnum lífeyrissjóðum skerði ekki á neinn hátt lífeyrisgreiðslur samkv. þessu frv. né skerði lífeyrisgreiðslur úr alþm.-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins eftirlaun, sem alþm. kunna að hafa unnið sér rétt til úr öðrum sjóðum.

8. gr. þessa frv. er efnislega samhljóða 10. gr. l. nr. 84 1953. Í báðum greinunum er ákveðið, að halli, sem verða kunni og sjálfsagt mun verða á alþm.-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, sem áður var Lífeyrissjóður alþm., skuli greiðast af alþingiskostnaði.

Ég tel svo ekki ástæðu til að fara um frv. fleiri orðum að sinni, en leyfi mér að láta í ljós þá ósk og von, að hv. d. stuðli að því, að frv. geti orðið að lögum á þessu þingi, þótt mjög sé nú liðið á þingtímann.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr, og hv. fjhn.