07.12.1964
Efri deild: 27. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2268 í B-deild Alþingistíðinda. (2052)

Olíugeymar í Hvalfirði

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það er ekki ýkjamargt, sem ég þarf að svara.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. gerði grein fyrir stefnu Framsfl. í þessu máli og að hún væri sú sama og hún hefði verið og hef ég vitaskuld ekkert við það að athuga, þó að hins vegar hafi komið fram og verið bent á atriði í því sambandi, sem ekki samrýmast þeirri afstöðu flokksins, sem hv. þm. vill vera láta, en þar á ég við, án þess að fara út í það frekar, þær upplýsingar, sem gefnar voru um afstöðu utanrrh. Framsfl. 1955–56, þegar hann var formaður Atlantshafsbandalagsins. En ég skal ekki ræða um það frekar, um það var deilt, en ég skal ekki taka það upp á ný hér.

Hv. þm. vildi líka, að málið yrði borið undir utanrmn. og taldi skylt, að það væri gert. En honum er það jafnkunnugt og mér, af hverju mál yfirleitt eru að litlu eða að engu leyti borin undir utanrmn. Það er vegna þess, að hún hefur sýnt sig að meira eða minna leyti ófæra í starfi, og m.a. utanrrh. hefur ekki viljað leggja mál fyrir hana, eins og hann mundi hafa gert, ef allt hefði þar verið með eðlilegum hætti.

Hv. 9. þm. Reykv. sagði, að ég hefði sagt, að rökin í þessu máli væru þau, að þetta hefði margsinnis verið gert og þessi framkvæmd nú helgaðist af því. Þetta er alveg rangt. Þetta sagði ég ekkí. Ég sagði hins vegar, að framkvæmd þessa viðbótarsamnings, sem nú hefur verið gerður, byggðist á því, að það væri fullkomlega heimilað í samningnum, sem gerður var 1951 og margsinnis hefur verið vitnað til, eins og sýndi sig um framkvæmd ýmissa annarra mála áður, þ.e.a.s. það, sem ég taldi afleiðingu af samningnum 1951, það vildi hann telja, að ég hefði borið fram sem rök fyrir þessari afgreiðslu nú. En þetta er bara ekki svo, heldur alveg öfugt. Ég benti á það, að ýmsar framkvæmdir, sem gerður hefur verið samningur um, hliðstæðar, hefðu sýnt það, að þar hefði eins og nú verið byggt á ákvæðum samningsins frá 1951. Þá taldi ég, að aukinn styrkur Atlantshafsbandalagsins yrði til þess að auka friðarhorfur í heiminum. Þetta taldi hv. þm., að væri rangt, vegna þess að Danir og Norðmenn væru á móti NATO-kjarnorkuher. Þessi afstaða Dana og Norðmanna sé ég ekki, að þurfi að sanna eða auka líkurnar fyrir hans máli, því að þótt Danmörk og Noregur séu á móti að hafa uppi kjarnorkuher, þá hafa þessar þjóðir báðar vígbúizt mjög greinilega innan takmarka NATO og eru svo langt, langt á undan þeim viðbúnaði, sem hér hefur verið hafður uppi, að það er ekkert sambærilegt. En munurinn er bara sá, að bæði Danir og Norðmenn geta og hafa haft möguleika til þess að gera þetta sjálfir, en það höfum við ekki. Þá sagði hv. þm. einnig, að Danir og Norðmenn hefðu neitað um bækistöðvar. Það er rétt. En það byggist bara á því, að þeir hafa komið þessum bækistöðvum upp sjálfir og reka þær sjálfir.

Þá sagði hv. 5. þm. Reykn., að rök mín í málinu hefðu verið aðallega þrenn og ræddi þau: í fyrsta lagi, að geymarnir væru taldir ónýtir, það er rétt, að óþarft væri að bera þetta undir Alþingi vegna samningsins frá 1951., það er líka rétt og að ekki væri hér um eðlismun að ræða frá því, sem verið hefði. Hann sagði, að þetta væri fjarstætt og tilraun til að blekkja. Þessu vil ég mótmæla. Hvað hafði skeð? Það hafði skeð það, að einkafyrirtæki hér í landinu hafði tekið að sér að leigja Bandaríkjamönnum aðstöðu til þess að geyma olíu og flytja hana þar til og frá. Þessi aðstaða, sem félagið veitti, var notuð, á meðan olíugeymarnir voru nothæfir að dómi þeirra, sem á því töldu sig hafa bezt vit. Það, sem kemur nú, er það, að þeir byggja sér sína geyma sjálfir og nota þá nákvæmlega á sama hátt og hinir fyrri geymar voru notaðir, til þess að geyma varabirgðir af olíu á þessum stað.

Það var þarna stofnað til varðgæzlu af hálfu varnarliðsins, lítil stöð byggð í Hvalfirði til þess að annast þarna umsjón að vissu leyti með þessum birgðum. Þessi stöð verður væntanlega rekin áfram alveg eins og hingað til og að ég ætla óbreytt. Það, sem skeður, er þess vegna aðeins, að hér er um að ræða formlegan mismun, en ekki raunverulegan. Þeir fá að nota hér geyma, alveg eins og þeir hafa áður gert. Þeir fá að skipta um olíu í tönkunum, alveg eins og þeir hafa áður gert. En munurinn er bara sá, að nú komast geymarnir í eigu þeirra sjálfra og eru notaðir alveg eins og hinir fyrri.

Þá sagði hv. þm., að þetta væru ekki samningar við sama aðila og áður. Það er ekki rétt nema að nokkru leyti. Þessar framkvæmdir, sem nú á að gera í Hvalfirði, eru kostaðar af framkvæmdasjóði Atlantshafsbandalagsins. Fé til þessa framkvæmdasjóðs er safnað hjá öllum þátttökulöndunum nema Íslandi. En í reglum um sjóðinn er gert ráð fyrir því, að hann kosti ekki þessi mannvirki nema að nokkru leyti, heldur kosti það land, sem aðstaðan er byggð í, það, sem á vantar. Í þessu tilfelli gerist það, að Bandaríkjamenn taka að sér að greiða þann hlut, sem vantar á kostnaðinn frá Atlantshafsbandalagsframkvæmdasjóðnum, og þess vegna var þessi samningur gerður við Bandaríkin, sama aðila og við gerðum samninginn við 1951.

Þá spurði þm., hvað stjórnin teldi leyfilegt á grundvelli samningsins frá 1951. Við erum samkv. honum skuldbundnir til þess að veita þá aðstöðu, sem ríkisstjórn Íslands og Atlantshafsbandalagið koma sér saman um, að sé nauðsynleg. Það, sem rúmast innan þess skilnings, er heimilt fyrir ríkisstj. að veita að hennar dómi og meir en heimilt, henni er það skylt, á meðan hún er þátttakandi í Atlantshafsbandalaginu. Ef það ætti að fylgja þeirri reglu og þeim hugsanagangi, sem hér hefur komið fram, aðallega hjá hv. Alþb.-mönnum og enda að nokkru leyti hjá fulltrúa Framsfl., þá væri að mínu viti hreinlega réttara að segja sig úr Atlantshafsbandalaginu, ef við teljum okkur ekki færa um að uppfylla þær skyldur, sem okkur ber, á meðan við erum þátttakendur í samtökunum. Nú hefur það ekki verið gert, og ég hygg, að yfirgnæfandi meiri hluti íslenzku þjóðarinnar sé ekki á því, að svo verði gert.

Þá spurði hv. þm. í lokin: Hvaða tímatakmörk gilda um þennan samning? Og hvað er að segja um uppsögn á samningnum? Þetta hefði hann getað sparað sér, ef hann hefði athugað fréttatilkynninguna vel, því að í niðurlagi hennar stendur, að um mannvirkin og framkvæmdirnar í Hvalfirði gildi uppsagnarákvæði varnarsamningsins frá 8. maí 1951, þannig að það fer ekki á milli mála.

Ég ætla, að það hafi svo ekki verið meira, sem þarf að taka fram í þetta skipti.