09.12.1964
Sameinað þing: 17. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2331 í B-deild Alþingistíðinda. (2080)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal ekki fara að þreyta hér orðræður. Ég gaf ekki heldur tilefni til þess eða var hér uppi með neinar ádeilur, heldur vakti athygli á lagagrein, sem hæstv. ráðh. hafði samþ. eins og ég og aðrir hv. alþm. Hins vegar er það eðlilegt, að þm. þurfi að sjá vegáætlunina, áður en fjárlög verði afgreidd og svo skammur tími er nú til fjárlagaafgreiðslu, ef hún á að eiga sér stað fyrir áramót, að ekki er að undra, þótt spurt sé um jafnveigamikið atriði í fjárlagaafgreiðslunni og vegáætlunin er. Ég lýsi ánægju minni, að það skuli þó vera von á áætlun, en endurtek, að það þarf engan að undra, þó að um sé spurt. Miklu frekar væri ástæða til þess að lýsa yfir, hve þolinmæði þm. væri mikil að hafa beðið til þessa.