01.03.1965
Neðri deild: 48. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í C-deild Alþingistíðinda. (2295)

7. mál, vernd barna og ungmenna

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það er aðeins eitt atriði hérna, sem ég vildi víkja að. Við 1. umr. um þetta mál urðu nokkrar umr. um 39. gr. a, eins og henni er stillt upp hér, en þar er ákvæði um heimild til ráðh. að mæla svo fyrir, að hverju barni eða ungmenni á aldursskeiði 12–18 ára sé skylt að bera vegabréf. En það hafði komið til álíta á s.l. þingi í sambandi við áfengismálin, að sett yrðu sérákvæði um vegabréfaskyldu unglinga, sérstaklega í sambandi við eftirlit með þeim á skemmtistöðum. Nú hefur nánari athugun þessa máls orðið sú, að ríkisstj. mun leggja fyrir þingíð almenna löggjöf um vegabréfaskyldu, og formaður og frsm. menntmn. hefur einmitt spurzt fyrir um þetta og er kunnugt um það. En það kynni að þurfa að fylgjast með því, ef slíkt frv. næði fram að ganga á þinginu og þá, áður en þetta mál yrði endanlega afgreitt, ástæða til að fella niður þessa 39. gr. a, sem líka er þannig stillt upp af þeim, sem sömdu frv., að hún mundi ekki eiga að vera í þessu frv., ef almennari löggjöf kæmi um þetta. Þetta mál vildi ég að n. hefði til athugunar, enda mun það fljótlega koma fram, þetta almenna frv.