11.03.1965
Neðri deild: 53. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í C-deild Alþingistíðinda. (2304)

7. mál, vernd barna og ungmenna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, er stjfrv. og ég býst við, að það sé það bezta verk, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert um langan tíma, að leggja þetta stjfrv. fram. Við þetta stjfrv. hefur verið unnið af hálfu menntmn. í allan vetur með 2–3 fundum í hverri viku og allir nm. orðið sammála um þær brtt., sem samþ. voru við 2. umr. á þessu máli, vegna þess að öllum nm. var ljóst, að Ísland var að dragast þannig aftur úr öllum menningarlöndum heims, að stór vansi var að og að hins vegar voru komin upp hér slík þjóðfélagsleg vandamál í sambandi við uppeldi barna og unglinga, að það var óhjákvæmilegt að setja tiltölulega róttæka löggjöf í þessum efnum. Þess vegna urðu allir nm. sammála og allar brtt. voru samþ. við 2. umr. málsins.

Við vitum ósköp vel, að það hafa oft verið mikil vandkvæði hér á Íslandi í sambandi við meðferð barna og við vitum ekki sízt, að meðan okkar þjóðfélag var algert bændaþjóðfélag, voru hreppstjórarnir og sumir stórbændurnir með grimmustu fulltrúum alls afturhalds í því sambandi. Og það muna líklega flestir Íslendingar enn þá eftir þeim beztu sögum, sem ritaðar hafa verið, þegar þeir lýsa meðferðinni, sem slíkir stórbændur og hreppstjórar stundum beittu gagnvart umkomulausum unglingum og börnum. Menn muna „Vistaskipti“ enn þá og menn þekkja þennan vanda. Það var þess vegna ekki nema mjög eðlilegt, að þær litlu leifar, sem enn þá lifa á Íslandi af slíkum anda, birtust hér í ræðustólnum áðan. Til allrar hamingju var það fulltrúi fyrir útdauð sjónarmið, sem þar talaði, ekki einu sinni fyrir sinn flokk, því að hans flokkur stendur algerlega með þessu frv. og hans menn í n. Og það var raunverulega dálítið tímanna tákn, að nú skyldi þessi uppvakningur ekki lengur treysta sér til þess að koma fram í sinni gömlu mynd, sem maður þekkti úr „Vistaskiptum” og öðru slíku, heldur bregða nú yfir sig glensinu og reyna með sínu glensi að breiða yfir þau vandamál, sem við eigum við að fást á þessum tímum. Það átti svo sem að sjá um að gera ungana syndlausa með þessu. En þessi hv. þm. var ekki að tala um það, sem hann hefði getað farið í lögregluskýrsluna til að sjá, að þess eru allmörg dæmi, að það sé verið að kenna börnum 12–13 ára að stela. Hann mundi kannske taka að sér að hafa slíkan skóla. En hann gæti séð það, ef hann væri að leita hér í lögregluskýrslunum, hvernig ástandið er í þessum efnum og e.t.v. hefur hann séð kvikmynd, sem þm. hefur verið boðið að sjá, þar sem meira að segja foreldrarnir senda börnin út til þess að stela. Það er bezt fyrir hv. þm. að vera ekki að reyna að gera neitt grín að þeim vandamálum, sem hér eru í þessum efnum. Það er bezt fyrir hann að hafa sig algerlega hægan með það. Það á ekki að gera neitt grín að því, ef verið er að leiða börn út á slíka glapstigu, á meðan þau eru kornung. Það er hægt að finna upp allt mögulegt til þess að gera grin að, en það er engin ástæða til að gera slíkt að athlægisefni, þó að eyðilögð sé öll framtíð barna strax í æsku vegna þess, hvernig búið er að þeim og hvernig þau eru misnotuð.

Ástandið er þannig hér á Íslandi hvað vinnu snertir, að 13 ára gömul eru börn farin að bogna í baki af vinnu, vinnuþrældómi, þar sem þessi gamli hreppstjóraandi enn þá helzt við. Þess vegna er það ekki til þess að gera grín að, þegar verið er að reyna að bæta úr þessum hlutum. Og menn ættu að álíta það fyrir neðan virðingu sína að vera að reyna að gera slíkt. Það er sannarlega ekki vegna þess, að okkar þjóðfélag, eins og það er núna, sé eitthvað minna syndum hlaðið, en þjóðfélagið hefur verið hér áður hjá okkur, — það er þvert á móti vegna þess, að það er að verða miklu spilltara, að reynt er að reisa þar nokkrar skorður við.

Það var sérstaklega eitt, sem kom við þennan fulltrúa gamla hreppstjóraandans, það var vinna barnanna. Nei, það átti að reyna að sjá til þess, að það væri ekki verið að setja takmarkanir, sem vissulega eru þó ekki harðar hér, við því, að börnum væri ofþjakað með vinnu. Það er nú svo, að það er ekki langt síðan 13 ára gamall drengur beið bana af að vinna í uppskipunarvinnu og þessum hv. þm. finnst auðsjáanlega ekki nein ástæða til þess að reisa neinar skorður við slíku. Gamla miskunnarleysið lifir þarna enn þá. En nú á að bregða gríninu yfir það allt saman til þess að reyna að láta það tóra áfram.

Það kom eitthvað við hann, þegar farið var að tala um dráttarvélarnar. Hann ætti að telja upp, hve mörg börn hafa dáið undanfarið í sveitunum af því að verða undir dráttarvélum a.m.k. foreldrar þeirra barna sæju einhverja ástæðu til þess, að það væri reynt að setja einhver takmörk við því, hvað mikið væri að því gert, að börn væru látin keyra dráttarvélar.

Ég held þess vegna, að það sé illt verk að reyna að ráðast á þetta frv., reyna að draga úr því eða reyna að skemma það á nokkurn hátt. Þess mun áreiðanlega verða minnzt í sambandi við afgreiðslu þessa frv., ef það nær fram að ganga, eins og það er nú, að það væri eitthvert bezta verk, sem þetta þing hefur unni, og einmitt fyrir þá, sem sjálfir eru varnarlausir og eiga enga að.

Ég veit, að einmitt ákvæðin í 41. gr. um vinnu barnanna mundu í flestum löndum Evrópu, ekki sízt í Englandi, þykja hneyksli — hneyksli hvað það snertir, að það sé gengið út frá að leyfa eins mikla barnavinnu og þarna er gert ráð fyrir. Ég býst við, ef útlendur blaðamaður kæmi hingað til Íslands og gæfi lýsingar á því, hvernig barnavinnan er og hve linum tökum núv. Alþ. tekur þetta, einmitt barnavinnuna, mundi það þykja hneykslismál á Norðurlöndum og í Englandi, þar sem menn eru í heila öld búnir að vera að berjast við þennan draug,að þræla börnunum út. Þess vegna er það lífsnauðsyn, ég endurtek lífsnauðsyn, einmitt gagnvart þessum börnum, gagnvart þeim, sem varnarlausir eru í þessum efnum, að sú löggjöf sé sett, sem nú var samþ. við 2. umr. þessa máls.

Ég veit að vísu, að það er hægt að snúa út úr þessu á margan máta. Hún er ekki svo ákveðin, þessi löggjöf hjá okkur. Það er hægt að segja með þessu móti, að 8 ára gamalt barn megi vinna 4 tíma á dag og það mundi þykja nokkuð mikið hneyksli í flestum löndum. Það er aðeins í reglugerð, sem hæstv. menntmrh. getur sett ákvæðin um að hindra, að jafnvel 8–9 ára gömul börn séu látin vinna. Það er þess vegna langt frá því, að á almennan menningar- og Evrópumælikvarða sé þetta frv. róttækt. En það er stórt framfaraspor miðað við það, sem hér hefur verið á Íslandi — mjög stórt framfaraspor. Og það verður áreiðanlega uppi smán þess manns, sem reynir að draga fyrst og fremst dár að því, hvað þarna er verið að gera.

Verið er að reyna að halda verndarhendi yfir þeim, sem enga eiga að, því að því miður er það svo með fjöldann allan af þeim börnum, sem þarna er verið að vernda, að þau eiga enga að nema þjóðfélagið. Það var ekki gott í gamla daga að eiga engan að nema þjóðfélagið, meðan stórbænda afturhaldið hér á Íslandi leyfði sér að bjóða börnin upp til þess að þræla þeim út. Og það er kannske hægt að lesa nokkrar sögur yfir þessum hv. þm., sem hér talaði áðan, um hvernig þá var búið að börnum hér á Íslandi. Það er þess vegna einn mesti menningarvottur, sem sézt hefur hér í langan tíma, að þetta frv. skuli hafa verið lagt fram af hæstv. ríkisstj. og því skuli hafa verið eins vel tekið af Alþ. og gert hefur verið fram að þessu, með þessari einustu undantekningu, enda vona ég, að það verði eina undantekningin, sem verður á móti þessu frv. við afgreiðslu þess.