30.04.1965
Neðri deild: 77. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í C-deild Alþingistíðinda. (2364)

190. mál, Lánasjóður sveitarfélaga

Frsm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur haft þetta frv. til athugunar og leggur meiri hl. hennar til, að það verði samþ. með þeirri breytingu, sem fram kemur á þskj. 559 við 16. gr. þess, að gr. orðist svo: „Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1966.“

Efni þess frv., sem hér liggur fyrir, hefur um langan tíma, alllangt árabil, verið til umr. hjá samtökum sveitarstjórnarmanna og ber vissulega að fagna því, að það skuli nú vera komið á þann rekspöl, að það sé komið hér fram í þessari hv. d. sem stjórnarfrv.

Að vísu hafa sveitarfélögin að því stefnt og um það rætt, að stofnað yrði til sveitarfélagabanka. En ég tel, að það skipti ekki máli, hvort um beina bankastarfsemi er að ræða eða lánasjóð fyrir sveitarfélögin, því að þar verður það fjármagnið, sem endanlega ræður úrslitum um það, að hvaða gagni lánasjóðurinn verður sveitarfélögunum.

Uppbygging sjóðsins er skv. 5. gr. þannig, að framlag úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga verði 15 millj. kr. og framlag úr ríkissjóði að fjárhæð 15 millj. kr. á móti. Enn fremur gerir 6. gr. frv. ráð fyrir að afla sjóðnum aukins fjár til útlána með heimild til að gefa út skuldabréf fh. sjóðsins, sem seld verða á innlendum lánamarkaði.

Það er sennilega öllum ljóst, að sveitarfélögin hafa um langan aldur átt við nokkra erfiðleika að stríða í sambandi við fjármál sín. Tekjustofnar þeirra hafa af lánastofnunum ekki verið taldir nægilega öruggir til þess, að hægt væri að veita þeim rekstrar- eða fjárfestingarlán út á þá. Aðaltekjustofn sveitarfélaganna hefur allt fram á síðustu ár og er enn hin beinu útsvör, sem lögð eru á gjaldendur og lánastofnanir vita að sjálfsögðu, að brugðið getur til beggja vona um innheimtu þeirra og fer það eftir því, hvernig tekjur manna verða og möguleikar til að leggja það af mörkum til sveitarfélagsins, sem ákveðið hefur verið með niðurjöfnun útsvaranna.

Nokkur breyting varð á þessari aðstöðu sveitarfélaganna, þegar jöfnunarsjóður sveitarfélaga var stofnaður með lögum frá Alþingi árið 1960, og hefur það vissulega átt sinn þátt í því að tryggja rekstur sveitarfélaganna, þar sem mörg þeirra, hin smærri sveitarfélög, nú í dag fá allt að 50–60% miðað við álögð útsvör úr jöfnunarsjóði og tel ég, að afkoma þeirra sveitarfélaga, sem þá aðstöðu hafa, sé stórum bætt og verulega tryggð.

Kaupstaðirnir munu hins vegar fá um 15–20% miðað við niðurjöfnun útsvara og er það vissulega einnig nokkur trygging fyrir greiðslugetu sveitarfélaganna, þar sem jöfnunarsjóðsframlagið kemur í reglulegum gjalddögum úr ríkissjóði og sveitarfélögin geta treyst á það og hagað greiðslum sínum nokkuð í samræmi við það.

Ég tel, að sveitarfélögin hljóti að fagna því frv., sem hér er komið fram og er rétt í því sambandi að benda á, að vissulega hafa af löggjafarvaldinu verið lagðar nokkrar þungar skyldur á herðar sveitarfélögum með fjárframlagi til ýmissa mála, sem þau lögum samkv. eru skyldug að annast og standa undir fjárhagslega. Mennta og menningarmál eru orðin í öllum hinum stærri sveitarfélögum verulegur þáttur í útgjöldum þeirra og eru þar að sjálfsögðu skólamálin, barnaskólar og unglingaskólar og gagnfræðaskólar, nokkuð þung á metunum og fara útgjöld þessara stofnana vaxandi ár frá ári og koma því nokkuð við útgjöld sveitarfélaganna. Þeir kaupstaðir, sem sjúkrahús reka, hafa á undanförnum árum orðið að leggja verulegt fé til rekstrar sjúkrahúsanna og einnig annarra heilbrigðismála, sem þau lögum samkv. eru skyldug að annast. Lögreglumál eru í hinum stærri kaupstöðum orðin veruleg útgjöld, en þar hefur ríkisvaldið með löggjöf frá því árið 1961 verulega mætt sveitarfélögunum og þeirra tilmælum, þar sem ríkið hefur komið til með að taka á sig helming útgjalda við lögreglumál. Þá hefur hlutur sveitarfélaganna og þátttaka þeirra í hinu almenna tryggingakerfi mjög farið vaxandi nú hin síðustu ár og er orðinn verulegur útgjaldaliður hjá þeim, auk þess sem framlag til sjúkrasamlaga og atvinnuleysistryggingasjóðs hefur einnig farið hækkandi og er einnig orðinn þar verulegur útgjaldaliður. Mörg mál eru það fleiri, sem sveitarfélögin verða samkv. lögum að standa straum af fjárhagslega og önnur mál, sem hvert einasta sveitarfélag verður að annast, bæði vegamál og annað í sambandi við uppbyggingu staðanna og sveitarfélaganna, eru einnig orðin mjög fjárfrek og kostnaðarsöm. Allt þetta leiðir til þess, að sveitarfélögin hljóta að fagna því, þegar ríkisvaldið mætir óskum þeirra og gerir ráðstöfun til þess að tryggja fjárhagslega afkomu þeirra, eins og ég tel, að gert hafi verið í verulegum mæli með stofnun jöfnunarsjóðs og nú einnig með því frv., sem hér hefur verið lagt fram.

Eins og ég sagði, leggur meiri hl. heilbr.- og félmn. til, að frv. verði samþ. með þeirri breytingu, sem fram kemur á þskj. 559.