10.11.1964
Neðri deild: 13. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í C-deild Alþingistíðinda. (2421)

46. mál, jarðræktarlög

Flm. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Hæstv. landbrh. hefur nú farið nokkrum orðum um þetta mál, sem ég hafði hér framsögu fyrir og það er að heyra á því, sem hann segir um það, að það sé von á frv. núna frá ríkisstj. næstu daga, sem fari raunverulega alveg í sömu átt og þetta og nái sama tilgangi. Ég verð að segja, að mér þykir vænt um að heyra þetta, að ríkisstj. skuli þannig vera að ganga inn á stefnu okkar framsóknarmanna á þessu sviði, sem við settum skýrt og greinilega fram í fyrra á hinu háa Alþingi, í sams konar frv., sem við fluttum þá, eins og þessu, sem við flytjum nú. Þetta þykir mér vera mikill sigur fyrir okkur og gleðst yfir því, að það skuli vera von á þessu frá ríkisstj., og mun vissulega ekki standa á okkur framsóknarmönnum að styðja það mál, þó að það sé flutt af ríkisstj., fyrst það gengur í sömu stefnu og þá, sem við höfum markað og viljum láta ná fram að ganga.

Mér var vel kunnugt um það, að ríkisstj. hafði gert samkomulag við Stéttarsamband bænda og fulltrúa í 6 manna nefnd einmitt um aukin framlög til jarðræktar. Það er vissulega full þörf á slíku, því að sannleikurinn er sá, að þessi ár, þessi a.m.k. 4 ár, sem liðin eru, síðan vísitalan var sett föst, eru bændur búnir að tapa á því, sennilega milljónatugum og það veitti sannarlega ekki af því, að nú yrði eitthvað bætt fyrir þær syndir, sem þessi hæstv. ríkisstj. hefur þannig drýgt gagnvart bændastéttinni.

Hæstv. ráðh. var að tala um, að hann skyldi fyrirgefa mér eitthvað. Ég verð nú að segja það, að ég veit ekki til, að ég hafi gert þessum hæstv. ráðh. nokkurn skapaðan hlut á móti, þannig að hann þurfi neitt að fyrirgefa mér. Ég tel mig ekkert ósáttan við hann og ég vissi ekki til þess, að hann væri ósáttur við mig, svo að ég óska ekki eftir neinni fyrirgefningu. Ég hef aðeins unnið hér á Alþingi út frá þeirri stefnu, sem ég hef í landbúnaðarmálum og í samræmi við þá stefnu, sem minn flokkur hefur í þeim málum, alveg án tillits til þess, hvaða skoðanir hæstv. ráðh. hefur á þessu máli. Og ég hef þess vegna ekki nokkra ástæðu til þess að vera honum reiður fyrir hans skoðanir og hef heldur aldrei verið.

Ég held, að í raun og veru sé ekki ástæða til þess fyrir mig að hafa þessi orð fleiri. Ég sem sagt fagna því, að það er von á þessum úrbótum frá hæstv. ríkisstj. og ég lýsi því yfir, að það muni ekki standa á okkur. Fyrst þetta fer, eins og hæstv. ráðh. sagði, í sömu stefnu og við erum hér með í frv., þá skal ekki standa á okkur að flýta fyrir því máli og styðja það.