16.11.1964
Neðri deild: 15. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í C-deild Alþingistíðinda. (2425)

55. mál, áburðarverksmiðja

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð út af ummælum hv. 3. þm. Reykv. um frv. framsóknarmanna frá því í fyrra. Hann hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að við höfum lagt til, að hlutabréf einstaklinga í áburðarverksmiðjunni yrðu metin á 140 millj. kr., eftir því sem hann sagði hér áðan, þessi 4 millj. kr. hlutabréf yrðu metin á 140 millj. Ég vil algerlega mótmæla þessari firru, að nokkrum hafi dottið slíkt í hug. Það stendur í 14. gr. þess frv., sem þá var flutt, að sú nefnd, sem hæstiréttur skipaði til að meta bréfin, skuli miða mat sitt við sannvirði hlutabréfanna. Og þetta sannvirði telur hv. þm., að sé um 140 millj. Þessari firru vildi ég mótmæla, því að ég sé ekki, á hvaða rökum hún getur verið byggð og eru þess vegna hugleiðingar hv. þm. út af þessu hinar fáránlegustu.