11.03.1965
Neðri deild: 53. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í C-deild Alþingistíðinda. (2498)

129. mál, áburðarverksmiðja

Flm. (Ágúst Þorvaldsson) :

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. hefur nú haldið alllanga ræðu hér um þetta mál, á ýmsan hátt fróðlega ræðu, þar sem hann hefur bæði nokkuð rakið sögu þessa máls og enn fremur lýst sínum skoðunum um það í ýmsum atriðum. Í þeirri tiltölulega stuttu ræðu, sem ég flutti hér í dag sem framsöguræðu fyrir málinu, reyndi ég að draga fram þau rök, sem mér þótti mest um vert, að fram kæmu, til þess að skýra það, í hvaða tilgangi við framsóknarmenn berum þetta frv. fram. Það er staðreynd, sem öllum er kunn, að þegar áburðarverksmiðjan var reist eða stofnuð, var það gert með hlutafjárframlögum, þar sem hlutaféð var 10 millj. 4 millj. voru frá einstaklingum og félögum, eins og áður hefur komið hér fram og ég nefndi í dag, en hitt frá ríkinu. Það, sem á vantaði, til þess að þetta nægði fyrir stofnkostnaði verksmiðjunnar, lagði svo ríkið sjálft fram.

Ég vil ekki koma mér undan því að svara hv. þm. um það, hvaða skoðun ég hef á þessu. Eins og hann sjálfur veit, eru í frv. ákvæði um það, að n., sem á að vera tilnefnd af hæstarétti, eigi að meta hlutabréfin í verksmiðjunni. Ég tel, að í þessu ákvæði felist alveg fullkomið öryggi um það, að hvorki verði gengið á hlut ríkisins né annarra hluthafa í þessu fyrirtæki. Mér finnst, að í þessu svari mínu felist það, að Framsfl. vill láta skera úr þessu atriði af hlutlausum aðila og telur þá aðferð eiga að tryggja það, að hvorki pólitísk né hagsmunaleg sjónarmið ráði úrslitum í þessu máli, sem talsvert hefur verið deilt um, eins og fram hefur komið hjá hv. 3. þm. Reykv., sem hér var áðan að ljúka máli sínu.

Ég held, að ég hafi nú ekki þessi orð fleiri. Eins og ég sagði, tók ég það fram í dag í sambandi við framsögu um þetta mál, sem mér þótti þá mestu varða að fram kæmi.