29.10.1964
Efri deild: 8. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í C-deild Alþingistíðinda. (2603)

38. mál, samvinnubúskapur

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af ræðu hv. síðasta ræðumanns, sem ég var mjög sammála. Hann minntist á, að það yrði vafalaust svo lengi og mundi vera æskilegasta formið fyrir búskap hér, að það yrði fjölskyldubúskapur, sem viðhafður yrði. Ég tek undir það. En það er eitt atriði, sem er nauðsynlegt að breyta og það þarf í rauninni ekki lagabreytingar til og ég hygg satt að segja, að það sé að koma skilningur á, að sú breyting þurfi að fást fram og það er þetta, að það má ekki hafa þann hátt á, sem verið hefur, að neyða fjölskyldurnar í rauninni til þess að hætta sambúskap sínum. Það hefur verið þannig hingað til, að sonur, sem hefur viljað taka upp sjálfstæðan búskap á jörð, hefur orðið að stofna nýbýli og skipta út úr jörðinni. Þetta álít ég að sé ákaflega óhyggilegt og maður hefur jafnvel rekið sig á það í mörgum tilfellum, að menn hafa gert þetta, — ja, raunar með illu, — að þurfa að fara út á þessar brautir. Það þarf að taka upp þann hátt, auðvitað þarf að setja fyrir því reglur, hvort sem það er löggjöf um það eða ekki, það skal ég ekki um dæma. Það er vafalaust nauðsynlegt að hafa einhverjar grundvallarreglur, en það er eins og ræðumaður sagði, svona vandamál, ef árekstrar verða, verða aldrei leyst með lögum, nema að ákaflega takmörkuðu leyti. En þetta er mjög brýn nauðsyn og þarf strax að komast til framkvæmda og að því er ég hygg, er nýbýlastjórn þegar komin inn á þá braut að gera ekki þá kröfu til þess, að ungur bóndi fái notið þeirrar aðstoðar, sem nýbýlastjórn er heimilt að veita, að hann þurfi endilega að kljúfa í sundur hið gamla býli, heldur geti menn setið þar saman, 2 eða jafnvel 3 bændur og rekið þar sinn samvinnubúskap á frjálsan hátt, eins og þarna er um að ræða.

Þetta vildi ég aðeins láta koma fram að þessu gefna tilefni, að þetta er nauðsynlegt og þetta er hægt að gera án nokkurrar löggjafar. Að öðru leyti vil ég taka undir orð hans um það, til þess að það valdi engum misskilningi út frá því, sem hv. 1. flm. einnig sagði, að mín orð bar á engan hátt að skilja sem neinn fjandskap við þetta mál. Ég álít, að þetta sé þáttur í vandamáli, sem verði að íhuga mjög rækilega og eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, þetta sé ekki nema einn þáttur þess vandamáls og vonandi verði þetta mál tekið til heildarathugunar á enn breiðari grundvelli, annaðhvort af bændasamtökunum sjálfum, eins og ég hygg að þau þegar hafi vissan undirbúning að, eða af hálfu ríkisvaldsins eða — sem bezt væri væntanlega í því sambandi, af beggja aðila hálfu. Og ég sé ekki, að það skipti neinu meginmáli í því efni, hvort þetta frv. verður lögfest á þessu stigi eða ekki. Eins og ég áðan sagði, tel ég, að það sé ekki í því formi, að það sé hægt að lögfesta það, en það getur haft engu að síður sitt gildi til þess að koma fram sem innlegg í frekari umr. um þetta mál og gæti þá orðið til að þoka áfram þeim nauðsynlegu breytingum, sem hér þurfa að verða.